Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um skötur?

Jón Már Halldórsson

Hér við land finnast nokkrar tegundir af ættbálki skatna (Hypotremata). Má þar helst nefna tindaskötuna (Raja radiata) sem kunnari er undir heitinu tindabikkja. Aðrar tegundir eru til dæmis skjótta skata (Raja Hyperborea), skata (Raja batis), hvítaskata (Raja lintea) og maríuskata (Bathyraja spinicauda).

Skötur eru flatvaxnir brjóskfiskar, sem eru vel aðlagaðir að botnlífi. Eyruggarnir eru samvaxnir haus og bol og mynda þannig flata skífu. Augun eru ofan á hausnum og kjafturinn er þverstæður neðan á hausnum. Stirtlan hefur þróast þannig að hún lítur út eins og hali og bakuggarnir eru smáir og aftast á stirtlunni. Allar skötutegundirnar hér við land gjóta eggjum sem kallast pétursskip. Þær skötur sem finnast hér eru allar af sömu ættinni, Rajidae. Alls þekkjast um 330 tegundir skata í heiminum.

Tindaskatan er eins og flestar skötur botnlæg (djöflaskatan er hins vegar dæmi um skötu sem ekki er botnlæg; hún lifir í uppsjó). Helsta fæða tindaskötunnar er ormar, krabbadýr, skeldýr og smáfiskar. Hún er oftast um 40-70 cm á lengd en getur orðið rúmur metri á lengd. Tindaskatan gýtur hér við land á sumrin og eru egghylkin (pétursskipin) 4–6,5 cm löng og 2,5–5 cm breið. Þau geta verið mjög algeng í Faxaflóa og annars staðar vestanlands. Tindaskatan lifir á 20–1000 m dýpi, en er algengust á 30–200 m dýpi. Hún heldur út á djúpið á veturna en gengur á grunnmið á vorin og sumrin.

Tindaskatan hefur fjölda smárra og stórra tinda eða gadda á ofanverðri hliðinni. Þessir tindar hafa geislagáróttan fót og afturbeygðan hvassan odd. Tindar þessir finnast einnig á öðrum tegundum skatna hér við land en fjöldi þeirra er mismunandi eftir tegundum. Tindaskatan hefur 12–19 í röð eftir miðlægu bakinu og á halanum en hjá skjóttu skötu eru þeir 21-32 og 12-18 hjá skötunni. Dreifingarmynstur gadda er mismunandi milli tegunda. Sumar tegundir hafa tinda á hausnum og hefur tindaskatan slíka tinda framan og aftan við augun og einnig utan til á bakinu.

Á Íslandsmiðum eru skötutegundir sem eru miklu stærri en tindaskatan. Skatan (Raja batis) getur náð allt að 250 cm lengd. Hún er algeng allt í kringum landið en er þó algengust á miðunum fyrir sunnan land.

Heimild: Gunnar Jónsson 1983. Íslenskir fiskar. Reykjavík: Fjölvi.

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

2.5.2001

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um skötur?“ Vísindavefurinn, 2. maí 2001. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1558.

Jón Már Halldórsson. (2001, 2. maí). Hvað getið þið sagt mér um skötur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1558

Jón Már Halldórsson. „Hvað getið þið sagt mér um skötur?“ Vísindavefurinn. 2. maí. 2001. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1558>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um skötur?
Hér við land finnast nokkrar tegundir af ættbálki skatna (Hypotremata). Má þar helst nefna tindaskötuna (Raja radiata) sem kunnari er undir heitinu tindabikkja. Aðrar tegundir eru til dæmis skjótta skata (Raja Hyperborea), skata (Raja batis), hvítaskata (Raja lintea) og maríuskata (Bathyraja spinicauda).

Skötur eru flatvaxnir brjóskfiskar, sem eru vel aðlagaðir að botnlífi. Eyruggarnir eru samvaxnir haus og bol og mynda þannig flata skífu. Augun eru ofan á hausnum og kjafturinn er þverstæður neðan á hausnum. Stirtlan hefur þróast þannig að hún lítur út eins og hali og bakuggarnir eru smáir og aftast á stirtlunni. Allar skötutegundirnar hér við land gjóta eggjum sem kallast pétursskip. Þær skötur sem finnast hér eru allar af sömu ættinni, Rajidae. Alls þekkjast um 330 tegundir skata í heiminum.

Tindaskatan er eins og flestar skötur botnlæg (djöflaskatan er hins vegar dæmi um skötu sem ekki er botnlæg; hún lifir í uppsjó). Helsta fæða tindaskötunnar er ormar, krabbadýr, skeldýr og smáfiskar. Hún er oftast um 40-70 cm á lengd en getur orðið rúmur metri á lengd. Tindaskatan gýtur hér við land á sumrin og eru egghylkin (pétursskipin) 4–6,5 cm löng og 2,5–5 cm breið. Þau geta verið mjög algeng í Faxaflóa og annars staðar vestanlands. Tindaskatan lifir á 20–1000 m dýpi, en er algengust á 30–200 m dýpi. Hún heldur út á djúpið á veturna en gengur á grunnmið á vorin og sumrin.

Tindaskatan hefur fjölda smárra og stórra tinda eða gadda á ofanverðri hliðinni. Þessir tindar hafa geislagáróttan fót og afturbeygðan hvassan odd. Tindar þessir finnast einnig á öðrum tegundum skatna hér við land en fjöldi þeirra er mismunandi eftir tegundum. Tindaskatan hefur 12–19 í röð eftir miðlægu bakinu og á halanum en hjá skjóttu skötu eru þeir 21-32 og 12-18 hjá skötunni. Dreifingarmynstur gadda er mismunandi milli tegunda. Sumar tegundir hafa tinda á hausnum og hefur tindaskatan slíka tinda framan og aftan við augun og einnig utan til á bakinu.

Á Íslandsmiðum eru skötutegundir sem eru miklu stærri en tindaskatan. Skatan (Raja batis) getur náð allt að 250 cm lengd. Hún er algeng allt í kringum landið en er þó algengust á miðunum fyrir sunnan land.

Heimild: Gunnar Jónsson 1983. Íslenskir fiskar. Reykjavík: Fjölvi.

...