Á Þorláksdag í matinn minnUm þetta leyti árs veiddist skata einkum á Vestfjarðamiðum. Hún þótti enginn herramannsmatur ótilhöfð og var því algengur Þorláksmessumatur á þeim slóðum. Í aldanna rás tókst Vestfirðingum á hinn bóginn að tilreiða úr skötunni mikið ljúfmeti eins og skötustöppuna, og mörgum þótti það óbrigðult merki þess að jólin væru í nánd þegar lykt tók að berast af skötustöppu. Eftir því sem leið á 20. öld flykktist fólk úr öllum byggðarlögum á suðvesturhorn landsins, Vestfirðingar ekki síður en aðrir. Þeir söknuðu Þorláksmessuskötunnar og margir reyndu að útvega sér hana úr heimahögum. Smám saman smitaði þessi venja þeirra út frá sér og eftir miðja öldina fóru margar fiskbúðir á höfuðborgarsvæðinu að hafa skötu á boðstólum í desember. Fyrir um aldarfjórðungi fóru svo nokkur veitingahús að bjóða til skötuveislu á Þorláksmessu og þar með varð þetta tíska. Þorláksmessuskata er með öðrum orðum ævagömul á Vestfjörðum en ekki nema nokkurra áratuga gömul á Reykjavíkursvæðinu. Alþekkt er í heiminum að matréttir sem upphaflega urðu til vegna fátæktar eða skorts á framboði þykja seinna lostæti. Ástæðan er oft það nostur sem hafa þurfti við matreiðsluna til að gera hráefnið gómsætt. Þetta á til dæmis við um ýmsa franska skelfisks- og sniglarétti. Fyrir utan skötuna má á Íslandi nefna laufabrauðið sem þurfti að vera örþunnt vegna mjölskorts á 17. og 18. öld, og rjúpuna sem upphaflega var jólamatur þeirra sem ekki höfðu efni á að slátra kind. Mynd:
morkinn fékk ég hákarlinn
harðan fiskinn hálfbarinn
og hákarlsgrútarbræðinginn.
Hvers vegna er skata borðuð á Þorláksmessu?
Útgáfudagur
20.12.2007
Spyrjandi
Kristjana Hrund Bárðardóttir, Guðmundur Daðason
Tilvísun
Árni Björnsson. „Hvers vegna er skata borðuð á Þorláksmessu?“ Vísindavefurinn, 20. desember 2007, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6973.
Árni Björnsson. (2007, 20. desember). Hvers vegna er skata borðuð á Þorláksmessu? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6973
Árni Björnsson. „Hvers vegna er skata borðuð á Þorláksmessu?“ Vísindavefurinn. 20. des. 2007. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6973>.