Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 06:49 • sest 19:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 20:38 • Sest 24:58 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:07 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:22 • Síðdegis: 22:14 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hverjir eru Gyðingar og hver er sérstaða þeirra?

Gísli Gunnarsson (1938-2020)

Þegar við tölum um Gyðinga er sennilega bæði átt við trúarbrögð þeirra og tungumál. Gyðingar hafa nefnilega ekki verið sérstakur „kynþáttur” síðan einhvern tíma langt aftur í fornöld. Þeir Gyðingar sem mestu hafa ráðið í Ísrael eru almennt upprunnir frá Austur-Evrópu og eru líffræðilega skyldastir íbúunum þar. Margir Gyðingar eru að auki frá Arabalöndum og sumir upphaflega frá Spáni; þeir eru skyldastir þessum þjóðum líffræðilega. Svo eru til jemenskir Gyðingar (frá suðvesturhluta Arabíuskagans). Þeir eru náskyldir Jemenum. Einnig eru til eþíópískir Gyðingar, svartir vel á brún og brá.

Líffræðilega eru Gyðingar þannig af margvíslegum uppruna. Tungumálið hefur einnig verið margvíslegt. Hebreska, sem er náskyld arabísku en bæði eru af semitíska málaflokknum, mun hafa verið upphaflegt tungumál Gyðinga enda er Gamla testamentið skrifað á því máli. Hins vegar munu Gyðingar almennt hafa talað annað semítískt tungumál við Krists burð, arameísku, en héldu hebresku sem helgimáli, líklega svipað og latína hefur löngum verið notuð í katólsku kirkjunni.

Gyðingar dreifðust víða um lönd á tímum Rómaveldis (50-450 eftir Krist) og flúðu síðar í stórum stíl á hámiðöldum frá Vestur-Evrópu til Austur-Evrópu (að því er talið er) þar sem þeir námu ný lönd en einnig til landa þar sem múslímar réðu yfir. Þá urðu til margar nýjar þjóðtungur Gyðinga sem að stofni til voru tungumál þeirra þjóða þar sem þeir bjuggu en yfirleitt með sterku ívafi frá helgimálinu, hebresku. Frægast þessara tungumála er jiddíska sem hvílir á þýskum grunni. Nútíma hebreska er nýtilbúningur sem byggist að sjálfsögðu á forna helgimálinu.


Ýmsir munir tengdir gyðingdómnum.

Það eru trúarbrögðin sem skera öðru fremur úr um það hvort viðkomandi er Gyðingur eða ekki. Hér er ekki aðeins um trú að ræða heldur einnig ævagamla helgisiði sem stöðugt minna á sögu Gyðinga og sérstöðu þeirra meðal þjóða. Hér skipta ofsóknir gegn Gyðingum miklu máli. Til dæmis minnast Gyðingar stöðugt „útlegðarinnar” í Egyptalandi frá því fyrir um það bil 3500-4000 árum.

Ofsóknir nasista styrktu mjög trúarbrögð Gyðinga sem eru tvímælalaust sögulegustu trúarbrögð í heimi og ásamt hindúismanum þau elstu. Að vísu snerust margir Gyðingasöfnuðir til kristinnar trúar á fyrstu öldum kristninnar eins og eðlilegt var, enda var Kristur Gyðingur og trúboð Páls og annarra postula beindist mjög að Gyðingum við austurhluta Miðjarðarhafs. Einnig snerust margir söfnuðir Gyðinga í Vestur-Asíu, einkum í Palestínu, til íslam á undangengnum öldum enda eru gyðingdómur og íslam miklu skyldari trúarbrögð en gyðingdómur og kristni.

Margar þjóðir og fylgismenn margra trúarbragða hafa verið ofsóttar í aldanna rás. Flestar þjóðir fornaldar hafa nú horfið. Stundum hefur þeim beinlínis verið útrýmt eða, sem algengara er, þær hafa misst fyrri einkenni sín og horfið í haf annarra þjóða. Einu sinni voru Hettítar ein mesta þjóð Miðausturlanda, hvar eru þeir núna? Hvað um elstu menningarþjóðina, Súmera, hvað um Babýloníumenn og Assýringa, tvö gömul stórveldi, hvað um Aramea en tungumál þeirra var ríkjandi um alla Vestur-Asíu á sínum tíma um Krists burð og mun hafa verið móðurmál Krists? Skömmu síðar varð gríska aðalmál margra þjóða á sömu slóðum og var allsráðandi hjá yfirstéttinni og í borgum; þetta hélst óbreytt fram til sjöundu aldar og gríska var áfram víða helsta tungumálið allt fram á 20. öld. Nú er þessi tunga nær eingöngu töluð í Grikklandi.

Það sem er sérstætt við gyðingdóminn er að hann skuli hafa lifað í þúsundir ára bæði sem trúarbrögð og sem söguleg þjóðarvitund meðan önnur gömul trúarbrögð og önnur þjóðarvitund hvarf að öllu eða að mestu leyti, þó að hindúisma undanskildum. Einnig er það sérstætt að bæði kristni og íslam skuli eiga hugmyndalegt upphaf sitt í gyðingdómi. Aftur er samanburðurinn við hindúismann réttlætanlegur; hann gat af sér búddisma (sem á meira skylt með kristindómi en margir gera sér grein fyrir) og fleiri trúarbrögð.

Að lokum má geta þess að Gyðingar eru nú um 14-18 milljónir. Þar af búa um 5 1/2 milljón í Bandaríkjunum og 4 1/2 milljón í Ísrael.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Gísli Gunnarsson (1938-2020)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

28.5.2001

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Gísli Gunnarsson (1938-2020). „Hverjir eru Gyðingar og hver er sérstaða þeirra?“ Vísindavefurinn, 28. maí 2001, sótt 14. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1645.

Gísli Gunnarsson (1938-2020). (2001, 28. maí). Hverjir eru Gyðingar og hver er sérstaða þeirra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1645

Gísli Gunnarsson (1938-2020). „Hverjir eru Gyðingar og hver er sérstaða þeirra?“ Vísindavefurinn. 28. maí. 2001. Vefsíða. 14. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1645>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hverjir eru Gyðingar og hver er sérstaða þeirra?
Þegar við tölum um Gyðinga er sennilega bæði átt við trúarbrögð þeirra og tungumál. Gyðingar hafa nefnilega ekki verið sérstakur „kynþáttur” síðan einhvern tíma langt aftur í fornöld. Þeir Gyðingar sem mestu hafa ráðið í Ísrael eru almennt upprunnir frá Austur-Evrópu og eru líffræðilega skyldastir íbúunum þar. Margir Gyðingar eru að auki frá Arabalöndum og sumir upphaflega frá Spáni; þeir eru skyldastir þessum þjóðum líffræðilega. Svo eru til jemenskir Gyðingar (frá suðvesturhluta Arabíuskagans). Þeir eru náskyldir Jemenum. Einnig eru til eþíópískir Gyðingar, svartir vel á brún og brá.

Líffræðilega eru Gyðingar þannig af margvíslegum uppruna. Tungumálið hefur einnig verið margvíslegt. Hebreska, sem er náskyld arabísku en bæði eru af semitíska málaflokknum, mun hafa verið upphaflegt tungumál Gyðinga enda er Gamla testamentið skrifað á því máli. Hins vegar munu Gyðingar almennt hafa talað annað semítískt tungumál við Krists burð, arameísku, en héldu hebresku sem helgimáli, líklega svipað og latína hefur löngum verið notuð í katólsku kirkjunni.

Gyðingar dreifðust víða um lönd á tímum Rómaveldis (50-450 eftir Krist) og flúðu síðar í stórum stíl á hámiðöldum frá Vestur-Evrópu til Austur-Evrópu (að því er talið er) þar sem þeir námu ný lönd en einnig til landa þar sem múslímar réðu yfir. Þá urðu til margar nýjar þjóðtungur Gyðinga sem að stofni til voru tungumál þeirra þjóða þar sem þeir bjuggu en yfirleitt með sterku ívafi frá helgimálinu, hebresku. Frægast þessara tungumála er jiddíska sem hvílir á þýskum grunni. Nútíma hebreska er nýtilbúningur sem byggist að sjálfsögðu á forna helgimálinu.


Ýmsir munir tengdir gyðingdómnum.

Það eru trúarbrögðin sem skera öðru fremur úr um það hvort viðkomandi er Gyðingur eða ekki. Hér er ekki aðeins um trú að ræða heldur einnig ævagamla helgisiði sem stöðugt minna á sögu Gyðinga og sérstöðu þeirra meðal þjóða. Hér skipta ofsóknir gegn Gyðingum miklu máli. Til dæmis minnast Gyðingar stöðugt „útlegðarinnar” í Egyptalandi frá því fyrir um það bil 3500-4000 árum.

Ofsóknir nasista styrktu mjög trúarbrögð Gyðinga sem eru tvímælalaust sögulegustu trúarbrögð í heimi og ásamt hindúismanum þau elstu. Að vísu snerust margir Gyðingasöfnuðir til kristinnar trúar á fyrstu öldum kristninnar eins og eðlilegt var, enda var Kristur Gyðingur og trúboð Páls og annarra postula beindist mjög að Gyðingum við austurhluta Miðjarðarhafs. Einnig snerust margir söfnuðir Gyðinga í Vestur-Asíu, einkum í Palestínu, til íslam á undangengnum öldum enda eru gyðingdómur og íslam miklu skyldari trúarbrögð en gyðingdómur og kristni.

Margar þjóðir og fylgismenn margra trúarbragða hafa verið ofsóttar í aldanna rás. Flestar þjóðir fornaldar hafa nú horfið. Stundum hefur þeim beinlínis verið útrýmt eða, sem algengara er, þær hafa misst fyrri einkenni sín og horfið í haf annarra þjóða. Einu sinni voru Hettítar ein mesta þjóð Miðausturlanda, hvar eru þeir núna? Hvað um elstu menningarþjóðina, Súmera, hvað um Babýloníumenn og Assýringa, tvö gömul stórveldi, hvað um Aramea en tungumál þeirra var ríkjandi um alla Vestur-Asíu á sínum tíma um Krists burð og mun hafa verið móðurmál Krists? Skömmu síðar varð gríska aðalmál margra þjóða á sömu slóðum og var allsráðandi hjá yfirstéttinni og í borgum; þetta hélst óbreytt fram til sjöundu aldar og gríska var áfram víða helsta tungumálið allt fram á 20. öld. Nú er þessi tunga nær eingöngu töluð í Grikklandi.

Það sem er sérstætt við gyðingdóminn er að hann skuli hafa lifað í þúsundir ára bæði sem trúarbrögð og sem söguleg þjóðarvitund meðan önnur gömul trúarbrögð og önnur þjóðarvitund hvarf að öllu eða að mestu leyti, þó að hindúisma undanskildum. Einnig er það sérstætt að bæði kristni og íslam skuli eiga hugmyndalegt upphaf sitt í gyðingdómi. Aftur er samanburðurinn við hindúismann réttlætanlegur; hann gat af sér búddisma (sem á meira skylt með kristindómi en margir gera sér grein fyrir) og fleiri trúarbrögð.

Að lokum má geta þess að Gyðingar eru nú um 14-18 milljónir. Þar af búa um 5 1/2 milljón í Bandaríkjunum og 4 1/2 milljón í Ísrael.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...