Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna hafa Gyðingar verið ofsóttir í gegnum aldirnar?

Óhjákvæmilegt er að skipta ofsóknasögu Gyðinga í þrjá hluta: Sá fyrsti er saga gyðingdómsins fyrir daga Rómaveldis (til um það bil 50 fyrir Krist), annar hlutinn er sagan í Rómaveldi þangað til kristni varð þar ríkistrú (til 4. aldar eftir Krist) og sá þriðji er saga gyðingdómsins í kristninni og síðar í íslam, með öðrum orðum saga hans eftir um það bil 400 eftir Krist.

Þjóðir fornaldar komu og fóru eins og rakið hefur verið í öðrum svörum hér á Vísindavefnum. Gyðingar bjuggu á svæði sem var átakasvæði Egypta og ýmissa Vestur-Asíu –„stórvelda”. Þeir náðu undir sig „fyrirheitna landinu” á árunum um 1500 fyrir Krist með miklu blóðbaði að því er þeir segja sjálfir í Gamla testamentinu. Þjóðinni sem fyrir var í landinu (Kanverjum) var einfaldlega slátrað að boði Jahve eftir því sem segir þar. Raunar benda fornleifar til að eitthvað hafi landnám Gyðinga í meginhluta Palestínu gengið friðsamlegar fyrir sig; þannig sjást í aldir byggðir Gyðinga og Kanverja hlið við hlið í Palestínu og ekki er annað að sjá en milli þessara náskyldu þjóða hafi ríkt friður og spekt.

En meginmálið er samt það að margir Gyðingar vilja trúa á sögur Gamla testamentisins um blóðbaðið mikla og útrýmingu Kanverja; fyrir þeim er það fyrirmynd þess sem koma skal í viðureigninni við Palestínumenn. Guðs útvalda þjóð eigi heilagan rétt til Palestínu og allt skal víkja fyrir þessum rétti.

Sú staðreynd að Gyðingum var ekki útrýmt líka í öllum átökunum í Palestínu næstu 1500 árin eftir komu þeirra þangað eins og gerðist með flestar aðrar þjóðir í fornöld er skýrt merki um að hér hafi verið þjóð með óvenjusterka vitund um eigin sérstöðu enda trúarbrögð og saga rækilega samtvinnuð í gyðingdómi. Enn fremur er það meginatriði að Gyðingar hafa ekki aðeins margsinnis verið ofsóttir; þeir hafa sjálfir ofsótt aðra í miklum mæli.


Kristnir riddarar drepa gyðinga.

Gyðingar voru í fornöld fluttir í útlegð bæði til Babýlon og Persíu en að sögn fékk sá hlutinn sem fluttur var til Persíu að snúa aftur til Palestínu. Rétt er að hafa í huga að Gyðingar höfðu á þessum tíma ekkert á móti blóðblöndun við fólk af öðru þjóðerni, svo framarlega sem fólk þetta gekk til liðs við gyðingdóminn.

Enn fremur voru margir Gyðingar löngu fyrir Krists burð búsettir utan Palestínu, einkum í Egyptalandi (Alexandríu), Sýrlandi, Litlu-Asíu og Mesópótamíu. Víða í borgum fornaldar voru Gyðingar í meirihluta og sennilega bjuggu talsvert fleiri Gyðingar utan Palestínu en í henni þegar fyrir Krists burð. Þessir Gyðingar voru gjarnan í náinni samvinnu við Grikki og þær grískættuðu konungsættir sem réðu á þessum slóðum síðustu þrjár aldirnar fyrir Krists burð. Þessi dreifða búseta sést meðal annars af frásögnum Nýja testamentisins af miklum ferðum Páls postula milli Gyðingabyggðanna þar sem hluti Gyðinganna snerist til kristni.

Rómverjar lögðu Palestínu undir sig við upphaf tímatals okkar og gerðu að skattlandi. Versnaði þá stórum hagur íbúa þess lands, jafnt Gyðinga sem annarra. Gyðingar gerðu margsinnis uppreisn gegn Rómverjum sem endaði með því að meginhluti Gyðinga þar var ýmist drepinn eða seldur í þrældóm. Slíkt var nánast venja Rómverja gagnvart uppreisnargjörnum nýlendubúum og þannig héldu þeir stórveldi sínu saman. Margar aðrar þjóðir í Rómaveldi hlutu sömu örlög og Gyðingar í Palestínu.

Hæpið er að Gyðingar nútímans séu í verulegum mæli afkomendur þeirra herleiddu þræla sem Rómverjar fluttu frá Palestínu á 1. og 2. öld tímatals okkar. Þeir eru að öllum líkindum að miklum meirihluta afkomendur þeirra Gyðinga sem höfðu búið utan Palestínu í margar aldir fyrir Krists burð, borgarbúa sem höfðu unnið náið með Grikkjum en reyndu nú, andstætt trúbræðrum sínum í Palestínu, að taka upp samvinnu við Rómverja. Það reyndist erfitt af ýmsum ástæðum.

Í fyrsta lagi var sú krafa gerð að íbúar Rómaveldis, einkum þó rómverskir borgarar eins og margir Gyðingar urðu, færu að sýna keisara Rómaveldis slíka virðingu að það nálgaðist trúarbrögð. Þetta var mörgum Gyðingum sem og fleiri trúarhópum í Rómaveldi erfið raun.

Í öðru lagi, og sem skipti meira máli, klofnuðu kristnir söfnuðir frá gyðingdómi og kristnin þróaðist þannig að hún varð að flestu leyti allt önnur trúarbrögð en gyðingdómur. Eigi að síður gerðu bæði Gyðingar og kristnir menn sér fyllilega grein fyrir gyðinglegum uppruna kristninnar. Gyðingar töldu kristnina vera villutrú af verstu gerð og svik við gyðingdóm. Kristnir menn fóru snemma að þrástagast á því að Gyðingar „hefðu drepið Krist” og fyrir það gætu þeir aðeins bætt með einu móti; að gerast kristnir. Nánast frá upphafi ríkti því mikið og gagnkvæmt hatur milli kristinna og Gyðinga.

Báðir trúarhóparnir leituðu til rómverskra yfirvalda og kærðu hvor annan. Þess var krafist að hinum hópnum yrði útrýmt, annað hvort með drápum eða umsnúningi til „réttrar trúar”. Upphaflega höfðu Gyðingar hér betur enda að jafnaði í sterkari samfélagstöðu sem stétt í rómverska heimsveldinu en kristnir menn voru. Þótt ofsóknir Rómverja gegn kristnum mönnum á 2. og 3. öld eftir Krist væru yfirleitt ekki runnar undan rifjum Gyðinga voru nokkrar þeirra það. Því var haldið vel til haga í kristinni minningu.

Kristnum mönnum var gefið trúfrelsi í Rómaveldi snemma á 4. öld og í kjölfarið fór keisarinn að veita þeim ýmis forréttindi og velja þá öðrum fremur til embætta. Fyrir lok aldarinnar var kristnin gerð að ríkistrú í Rómaveldi og öll önnur trúarbrögð lýst ólögmæt. Þetta voru auðvitað afleit tíðindi fyrir Gyðinga þegar heimsveldið gerði helsta andstæðinginn að einu leyfilegu trúnni í landinu enda hófu nú kristnir menn Gyðingaofsóknir. Þær héldu áfram eftir fall vestur-rómverska ríkisins 474 með talsverðum hléum þó.

Hagur Gyðinga batnaði þegar íslam kom fram á sjónarsviðið á 7. öld. Múhameð sótti kenningar sínar mest til Gyðinga og sumir telja raunar að spámaðurinn hafi um tíma aðhyllst gyðingdóm en hafi móðgast þegar Gyðingar vildu ekki viðurkenna spámannshlutverk hans. Samkvæmt Kóraninum ber múslímum að sýna kristnum mönnum og Gyðingum sérstakt umburðarlyndi. Í Vestur-Asíu og Norður-Afríku þar sem kristnin ríkti áður tók íslam við. Þar batnaði auðvitað hagur Gyðinga. En þetta aukna umburðarlyndi múslíma í garð Gyðinga hafði einnig jákvæð áhrif í Evrópu og dró mjög úr ofsóknum gegn Gyðingum þar.

Það segir nokkuð um afstöðu kristinna manna bæði til Gyðinga og múslíma að fyrir fyrstu krossferð Vestur-Evrópubúa gegn múslímum í Vestur-Asíu 1096 var byrjað á Gyðingadrápum heima fyrir. Jafnframt voru bænahús Gyðinga eyðilögð og einnig grafreitir þeirra. Þessar Gyðingaofsóknir, sem kaþólska kirkjan og páfinn blessuðu, eru að mörgu leyti sambærilegar við Gyðingaofsóknir nasista 1933-1945 eins og Hitler þrástagaðist á í viðræðum sínum við fulltrúa kaþólsku kirkjunnar.

Í kjölfarið gerðu ríki Vestur- og Norður-Evrópu hvert af öðru Gyðinga útlæga. Flýðu þeir ýmist til landa múslíma, einkum á Spáni, eða til Austur-Evrópu þar sem fyrir voru öflugar Gyðingabyggðir, hugsanlega byggðar fólki af tyrkneskum uppruna (frá Mið-Asíu og Kákasuslöndum) sem tekið hafði Gyðingatrú. Austræna rétttrúnaðarkirkjan lét ekki ofsækja Gyðinga þá en bannaði þeim hins vegar ýmislegt samneyti við kristna menn. Úr þeim jarðvegi spratt sú sérstæða Gyðingamenning sem Gyðingdómur er meðal annars þekktur fyrir í dag.

Í krossferðunum frá 11. til 13. aldar lögðu krossfarar Gyðinga og múslíma að jöfnu og drápu báða jafnt.

Þegar kristnir menn höfðu endurheimt allan Spán úr höndum múslíma undir lok 15. aldar fengu þeir í hendur menningarsvæði sem var byggt jafnt múslímum sem Gyðingum. Hinir kristnu þjóðhöfðingjar settu þessum trúarhópum skilyrði: Annaðhvort hverfið þið af landi brott eða takið kristna trú. Fjöldi manns valdi þann kost að fara. Margir Gyðinganna settust að í Norður-Grikklandi sem þá laut hinum múslímska Tyrkjasoldáni. Múslímarnir settust einkum að í Norður-Afríku þar sem þeir aðstoðuðu við að stofna öflugan flota til sjórána, fyrst í stað einkum gegn Spánverjum en síðar fleirum.

En aðrir múslímar og Gyðingar völdu þann kost að vera kyrrir í landinu og taka kristna trú. Spænska krúnan efldi Rannsóknarréttinn til að hægt væri að fylgjast með því hvort þessir nýkristnu Spánverjar væru í raun og veru trúskiptingar. Það dugði til að fara á bálköstinn í helstu þjóðarskemmtun Spánar á þessum tíma, brennuhátíðum rannsóknarréttarins, ef nágranninn hélt því fram að „trúskiptingurinn” neitaði að borða svínakjötsbita sem honum var boðinn, en hvorki sanntrúaðir Gyðingar né múslímar neyta svínakjöts. Að lokum var búið að útrýma öllum sem grunaðir voru um gyðinglega eða múslímska siði og þá fór að duga að vera fjarlægur afkomandi Gyðings eða múslíma til að fara á bálköstinn; skemmtunin varð að halda áfram.

En það var ekki bara kaþólska kirkjan sem lét ofsækja Gyðinga; siðbótarfrömuðurinn Lúter hafði ýmislegt ljótt að segja um Gyðinga og þeir voru ofsóttir víða í löndum mótmælenda. Það var helst að einstaka borgir sýndu Gyðingum umburðarlyndi til að efla hjá sér verslun og iðnað. Þannig varð borgríkið Holland fyrst til að gefa öllum Gyðingum trúfrelsi þegar á 16. öld. Verulegur skriður komst þó fyrst á réttarfarsstöðu Gyðinga á upplýsingaröld, þeirri átjándu. En Gyðingahatur var alltaf til staðar og afturhaldsöflin sem voru á móti upplýsingu og framförum blésu óspart á glæður þess.

Það var því úr gömlum arfi kristinnar hefðar sem Hitler og nasistar smíðuðu Gyðingahatur sitt og þar var af nógu að taka.

En Gyðingar sjálfir sýndu einnig umburðarleysi. Þar voru prestarnir, rabbínarnir, allsráðandi og þeir reyndu fyrir sitt leyti að hindra að nýjar hugmyndir bærust Gyðingum og reyndu því sjálfir að einangra þá sem mest. Sannfæringin um að Gyðingar væru Guðs útvalda þjóð var ávallt til staðar. Því var haldið fram að ofsóknirnar gegn Gyðingum stöfuðu af syndum Gyðinga gegn Jahve og væru því „eðlilegar”.

Þessi forlagahyggja gerði nasistum auðveldara að framkvæma fjöldadráp sín á Gyðingum en andstaða við hana er ein af forsendum zíonismans sem er í senn helsta hugmyndafræði tveggja stærstu flokkanna í Ísrael, Likud og Verkamannaflokksins. Það er sameiginleg sannfæring margra Gyðinga í Ísrael og víðar að þeir séu Guðs útvalda þjóð en hins vegar er tekist á um það hvort hið forna vald rabbínanna skuli endurreist að fullu.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Hér var jafnframt svarað spurningu Júlíusar Fjeldsted Hvar liggja rætur Gyðingahaturs og af hverju? og spurningu Hreins Þórs Haukssonar Hver er saga Gyðingaofsókna?

Útgáfudagur

28.5.2001

Spyrjandi

Ragnheiður Halldórsdóttir

Höfundur

Gísli Gunnarsson

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Tilvísun

Gísli Gunnarsson. „Hvers vegna hafa Gyðingar verið ofsóttir í gegnum aldirnar?“ Vísindavefurinn, 28. maí 2001. Sótt 19. október 2018. http://visindavefur.is/svar.php?id=1646.

Gísli Gunnarsson. (2001, 28. maí). Hvers vegna hafa Gyðingar verið ofsóttir í gegnum aldirnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1646

Gísli Gunnarsson. „Hvers vegna hafa Gyðingar verið ofsóttir í gegnum aldirnar?“ Vísindavefurinn. 28. maí. 2001. Vefsíða. 19. okt. 2018. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1646>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Gunnhildur Óskarsdóttir

1959

Gunnhildur Óskarsdóttir er dósent í kennslufræði við Deild kennslu- og menntunarfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir hennar hafa einkum beinst að námi og kennslu ungra barna í grunnskóla, náttúrufræðikennslu og kennaramenntun.