Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvaða tímatal notuðu menn fyrir Krists burð?

Geir Þ. Þórarinsson

Ýmis tímatöl voru notuð áður en það tímatal sem nú er notað á Vesturlöndum og víðar var tekið upp. Raunar var ekki farið að miða við meint fæðingarár Jesú fyrr en á fyrri hluta 6. aldar. Það var Dionysius Exiguus sem gerði það árið 525 en hann vann þá að því að framlengja töflur yfir tímasetningu páskanna fyrir Jóhannes I. páfa.

Dionysius byggði á eldri töflum frá Alexandríu þar sem miðað var við valdatíma Diocletianusar keisara. Dionysius vildi síður minnast valdatíðar hans af því að Diocletianus hafði ofsótt kristna menn. Þess í stað miðaði hann við holdtekningu Jesú (ab incarnatio). Ekki er vitað með vissu hvaða aðferð Dionysius beitti en hann komst að þeirri niðurstöðu að Jesús hefði fæðst í desember á 753ja ári frá stofnun Rómaborgar og miðaði upphaf tímatals síns við næsta ár á eftir, það er árið sem hófst viku eftir meintan fæðingardag Jesú, og nefndi það 1.

Þannig jafngildir ártalið í raun raðtölu, því fyrsta árið í tímatali hans hófst viku eftir fæðingu Jesú, annað árið hófst þegar hann var rétt rúmlega eins árs og þannig koll af kolli. Þegar þetta svar er skrifað er því 2007da árið í tímatali okkar en full 2007 ár verða ekki liðin frá upphafspunkti tímatalsins fyrr en árið er á enda. Af þessum sökum voru ekki liðin 2000 ár frá upphafspunkti tímatalsins fyrr en árið 2000 var á enda. Þess vegna voru aldamótin 1. janúar 2001 eins og hægt er að lesa um í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvenær eru aldamót, og af hverju hélt fólk að þau væru um áramótin 1999/2000?. Þess má geta að fræðimenn telja nú að Dionysius hafi ekki fundið rétt fæðingarár Jesú en hann mun hafa fæðst 2-6 árum fyrr en Dionysius ætlaði eða með öðrum orðum um 2-6 f.Kr. Um það má til dæmis lesa í svari Hauks Más Helgasonar við spurningunni Hvenær fæddist Jesús Kristur?

Tímatal Dionysiusar náði ekki útbreiðslu í Vestur-Evrópu fyrr en á 8. öld. Fyrir þann tíma voru ýmsar leiðir færar til þess að tímasetja atburð. Einfaldasta leiðin er afstæð tímasetning, það er að segja með því að miða atburðinn við aðra þekkta atburði. Gríski sagnaritarinn Pólýbíos (203 – 120 f.Kr.) segir til að mynda að Gallar hafi ráðist inn í Rómaborg á nítjánda ári eftir sjóorrustuna við Ægospotami og á sextánda ári fyrir orrustuna við Levktra en það mun vera árið 387 f.Kr.

Rómverskir sagnaritarar miðuðu tímatal sitt við stofnun borgarinnar. Samkvæmt því var Julius Caesar ráðinn af dögum á 710da ári frá stofnun borgarinnar en það er árið 44 f.Kr. Stofnun borgarinnar er samkvæmt venju talin hafa átt sér stað 21. apríl 753 f.Kr. Ártalið má rekja til Atticusar, vinar Ciceros, og rómverska fræðimannsins Marcusar Terentiusar Varros (116 – 27 f.Kr.) sem Cicero sagði vera lærðastan allra Rómverja. Að öllum líkindum höfðu Atticus og Varro aðgang að listum yfir rómverska ræðismenn frá upphafi. Róm varð lýðveldi 509 f.Kr. en rómverskir fræðimenn reiknuðu út að konungar hefðu ríkt í Róm í 244 ár fyrir þann tíma. Fyrsti konungurinn var einmitt Rómúlus sem stofnaði borgina.

Þeir Atticus og Varro töldu að borgin hefði verið stofnuð á 245ta ári fyrir stofnun lýðveldisins og svo gátu þeir talið árin frá stofnun lýðveldisins fram til síns eigin tíma með hjálp ræðismannalistans. Með því að telja árin á ræðismannalistanum og bæta við áætluðum árafjölda konungatímans var hægt að áætla hversu langt var liðið frá stofnun borgarinnar. Aðrir rómverskir fræðimenn komust að öðrum niðurstöðum en yfirleitt munaði ekki meira en tíu árum á niðurstöðum þeirra og niðurstöðum Atticusar og Varros. Áður en útreikningar Atticusar og Varros urðu viðteknir var stofnun borgarinnar venjulega talin hafa átt sér stað tveimur árum síðar og studdist Pólýbíos við það ártal.

Þetta kerfi var þó ekki notað af almenningi. Venjulega nefndu Rómverjar árið eftir ræðismönnunum sem gegndu embætti viðkomandi ár. Ræðismenn voru æðstu embættismenn Rómverja. Þeir voru tveir og kosnir til eins árs í senn. Þannig nefndu Rómverjar árið 63 f.Kr. einfaldlega „árið þegar Marcus Tullius Cicero og Gaius Antonius Hibrida voru ræðismenn“ og árið 59 f.Kr. var nefnt „árið þegar Gaius Julius Caesar og Marcus Calpurnius Bibulus voru ræðismenn”. Síðarnefnda árið var reyndar stundum nefnt í gamni „árið þegar Julius og Caesar voru ræðismenn” af því að Bibulus komst varla að fyrir Caesari. Árið 44 f.Kr. var nefnt „árið þegar Gaius Julius Caesar var ræðismaður í fimmta sinn og Marcus Antonius var ræðismaður [í fyrsta sinn]”. Þessi venja hélst til ársins 537 en þá lét Justinianus miða við valdatíma keisaranna í staðinn.

Á svipaðan hátt nefndu Grikkir árið eftir þeim sem gegndi æðsta embætti hverju sinni. Aþeningar nefndu árið eftir þeim sem gegndi embætti arkons og Spartverjar nefndu árið eftir efórum sínum. Eins var farið að í öðrum grískum borgum. Síðar varð alsiða að nefna árið eftir ólympíutíð og var þá miðað við Ólympíuleikana. Ólympíuleikarnir voru haldnir á fjögurra ára fresti og voru þeir fyrst haldnir árið 776 f.Kr. Á hellenískum tíma, það er eftir dauða Alexanders mikla árið 323 f.Kr., varð alsiða að vísa til ólympíutíðar og árs innan hennar. Ævisagnaritarinn Díogenes Laertíos segir til dæmis að Aristóteles hafi fæðst á fyrsta ári 99du ólympíutíðar og dáið á þriðja ári 114du ólympíutíðar, það er að segja 384 f.Kr. og 322 f.Kr. Hippías frá Elis tók saman lista yfir sigurvegara á Ólympíuleikunum seint á 5. öld f.Kr. og voru þeir aðgengilegir sagnariturum síðari tíma. Síðar meir var stundum einnig vísað til pýþíutíðar með hliðstæðum hætti og var þá miðað við Pýþíuleikana sem voru einnig haldnir á fjögurra ára fresti. Sá siður náði þó aldrei jafn mikilli útbreiðslu.

Ýmis önnur viðmið voru notuð í fornöld. Gyðingar miðuðu ártal sitt við sköpun heimsins sem þeir töldu að hefði átt sér stað árið 3761 f.Kr. Slíkt ártal er stundum nefnt annus mundi á latínu. Sextus Julius Africanus (uppi á fyrri hluta 3. aldar) taldi að sköpun heimsins hefði átt sér stað 5500 árum fyrir fæðingu Jesú en býzanskir fræðimenn komust síðar að þeirri niðurstöðu að heimurinn hefði verið skapaður 25. mars 5493 árum fyrir fæðingu Jesú. Stundum var einnig miðað við Abraham eða Móses en Austurkirkjan forðaðist lengi að miða við fæðingu Jesú af því að tímasetning hennar var umdeild.

Frekari fróðleikur:
  • Bickerman, E.J., Chronology of the Ancient World 2. útg. (Ithaca: Cornell University Press, 1980).
  • Samuel, A.E., Greek and Roman Chronology (München: Beck, 1972).

Frekari fróðleikur um tímatöl á Vísindavefnum:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

19.11.2007

Spyrjandi

Kjartan Heiðberg

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvaða tímatal notuðu menn fyrir Krists burð?“ Vísindavefurinn, 19. nóvember 2007, sótt 24. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6912.

Geir Þ. Þórarinsson. (2007, 19. nóvember). Hvaða tímatal notuðu menn fyrir Krists burð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6912

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvaða tímatal notuðu menn fyrir Krists burð?“ Vísindavefurinn. 19. nóv. 2007. Vefsíða. 24. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6912>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvaða tímatal notuðu menn fyrir Krists burð?
Ýmis tímatöl voru notuð áður en það tímatal sem nú er notað á Vesturlöndum og víðar var tekið upp. Raunar var ekki farið að miða við meint fæðingarár Jesú fyrr en á fyrri hluta 6. aldar. Það var Dionysius Exiguus sem gerði það árið 525 en hann vann þá að því að framlengja töflur yfir tímasetningu páskanna fyrir Jóhannes I. páfa.

Dionysius byggði á eldri töflum frá Alexandríu þar sem miðað var við valdatíma Diocletianusar keisara. Dionysius vildi síður minnast valdatíðar hans af því að Diocletianus hafði ofsótt kristna menn. Þess í stað miðaði hann við holdtekningu Jesú (ab incarnatio). Ekki er vitað með vissu hvaða aðferð Dionysius beitti en hann komst að þeirri niðurstöðu að Jesús hefði fæðst í desember á 753ja ári frá stofnun Rómaborgar og miðaði upphaf tímatals síns við næsta ár á eftir, það er árið sem hófst viku eftir meintan fæðingardag Jesú, og nefndi það 1.

Þannig jafngildir ártalið í raun raðtölu, því fyrsta árið í tímatali hans hófst viku eftir fæðingu Jesú, annað árið hófst þegar hann var rétt rúmlega eins árs og þannig koll af kolli. Þegar þetta svar er skrifað er því 2007da árið í tímatali okkar en full 2007 ár verða ekki liðin frá upphafspunkti tímatalsins fyrr en árið er á enda. Af þessum sökum voru ekki liðin 2000 ár frá upphafspunkti tímatalsins fyrr en árið 2000 var á enda. Þess vegna voru aldamótin 1. janúar 2001 eins og hægt er að lesa um í svari Þorsteins Vilhjálmssonar við spurningunni Hvenær eru aldamót, og af hverju hélt fólk að þau væru um áramótin 1999/2000?. Þess má geta að fræðimenn telja nú að Dionysius hafi ekki fundið rétt fæðingarár Jesú en hann mun hafa fæðst 2-6 árum fyrr en Dionysius ætlaði eða með öðrum orðum um 2-6 f.Kr. Um það má til dæmis lesa í svari Hauks Más Helgasonar við spurningunni Hvenær fæddist Jesús Kristur?

Tímatal Dionysiusar náði ekki útbreiðslu í Vestur-Evrópu fyrr en á 8. öld. Fyrir þann tíma voru ýmsar leiðir færar til þess að tímasetja atburð. Einfaldasta leiðin er afstæð tímasetning, það er að segja með því að miða atburðinn við aðra þekkta atburði. Gríski sagnaritarinn Pólýbíos (203 – 120 f.Kr.) segir til að mynda að Gallar hafi ráðist inn í Rómaborg á nítjánda ári eftir sjóorrustuna við Ægospotami og á sextánda ári fyrir orrustuna við Levktra en það mun vera árið 387 f.Kr.

Rómverskir sagnaritarar miðuðu tímatal sitt við stofnun borgarinnar. Samkvæmt því var Julius Caesar ráðinn af dögum á 710da ári frá stofnun borgarinnar en það er árið 44 f.Kr. Stofnun borgarinnar er samkvæmt venju talin hafa átt sér stað 21. apríl 753 f.Kr. Ártalið má rekja til Atticusar, vinar Ciceros, og rómverska fræðimannsins Marcusar Terentiusar Varros (116 – 27 f.Kr.) sem Cicero sagði vera lærðastan allra Rómverja. Að öllum líkindum höfðu Atticus og Varro aðgang að listum yfir rómverska ræðismenn frá upphafi. Róm varð lýðveldi 509 f.Kr. en rómverskir fræðimenn reiknuðu út að konungar hefðu ríkt í Róm í 244 ár fyrir þann tíma. Fyrsti konungurinn var einmitt Rómúlus sem stofnaði borgina.

Þeir Atticus og Varro töldu að borgin hefði verið stofnuð á 245ta ári fyrir stofnun lýðveldisins og svo gátu þeir talið árin frá stofnun lýðveldisins fram til síns eigin tíma með hjálp ræðismannalistans. Með því að telja árin á ræðismannalistanum og bæta við áætluðum árafjölda konungatímans var hægt að áætla hversu langt var liðið frá stofnun borgarinnar. Aðrir rómverskir fræðimenn komust að öðrum niðurstöðum en yfirleitt munaði ekki meira en tíu árum á niðurstöðum þeirra og niðurstöðum Atticusar og Varros. Áður en útreikningar Atticusar og Varros urðu viðteknir var stofnun borgarinnar venjulega talin hafa átt sér stað tveimur árum síðar og studdist Pólýbíos við það ártal.

Þetta kerfi var þó ekki notað af almenningi. Venjulega nefndu Rómverjar árið eftir ræðismönnunum sem gegndu embætti viðkomandi ár. Ræðismenn voru æðstu embættismenn Rómverja. Þeir voru tveir og kosnir til eins árs í senn. Þannig nefndu Rómverjar árið 63 f.Kr. einfaldlega „árið þegar Marcus Tullius Cicero og Gaius Antonius Hibrida voru ræðismenn“ og árið 59 f.Kr. var nefnt „árið þegar Gaius Julius Caesar og Marcus Calpurnius Bibulus voru ræðismenn”. Síðarnefnda árið var reyndar stundum nefnt í gamni „árið þegar Julius og Caesar voru ræðismenn” af því að Bibulus komst varla að fyrir Caesari. Árið 44 f.Kr. var nefnt „árið þegar Gaius Julius Caesar var ræðismaður í fimmta sinn og Marcus Antonius var ræðismaður [í fyrsta sinn]”. Þessi venja hélst til ársins 537 en þá lét Justinianus miða við valdatíma keisaranna í staðinn.

Á svipaðan hátt nefndu Grikkir árið eftir þeim sem gegndi æðsta embætti hverju sinni. Aþeningar nefndu árið eftir þeim sem gegndi embætti arkons og Spartverjar nefndu árið eftir efórum sínum. Eins var farið að í öðrum grískum borgum. Síðar varð alsiða að nefna árið eftir ólympíutíð og var þá miðað við Ólympíuleikana. Ólympíuleikarnir voru haldnir á fjögurra ára fresti og voru þeir fyrst haldnir árið 776 f.Kr. Á hellenískum tíma, það er eftir dauða Alexanders mikla árið 323 f.Kr., varð alsiða að vísa til ólympíutíðar og árs innan hennar. Ævisagnaritarinn Díogenes Laertíos segir til dæmis að Aristóteles hafi fæðst á fyrsta ári 99du ólympíutíðar og dáið á þriðja ári 114du ólympíutíðar, það er að segja 384 f.Kr. og 322 f.Kr. Hippías frá Elis tók saman lista yfir sigurvegara á Ólympíuleikunum seint á 5. öld f.Kr. og voru þeir aðgengilegir sagnariturum síðari tíma. Síðar meir var stundum einnig vísað til pýþíutíðar með hliðstæðum hætti og var þá miðað við Pýþíuleikana sem voru einnig haldnir á fjögurra ára fresti. Sá siður náði þó aldrei jafn mikilli útbreiðslu.

Ýmis önnur viðmið voru notuð í fornöld. Gyðingar miðuðu ártal sitt við sköpun heimsins sem þeir töldu að hefði átt sér stað árið 3761 f.Kr. Slíkt ártal er stundum nefnt annus mundi á latínu. Sextus Julius Africanus (uppi á fyrri hluta 3. aldar) taldi að sköpun heimsins hefði átt sér stað 5500 árum fyrir fæðingu Jesú en býzanskir fræðimenn komust síðar að þeirri niðurstöðu að heimurinn hefði verið skapaður 25. mars 5493 árum fyrir fæðingu Jesú. Stundum var einnig miðað við Abraham eða Móses en Austurkirkjan forðaðist lengi að miða við fæðingu Jesú af því að tímasetning hennar var umdeild.

Frekari fróðleikur:
  • Bickerman, E.J., Chronology of the Ancient World 2. útg. (Ithaca: Cornell University Press, 1980).
  • Samuel, A.E., Greek and Roman Chronology (München: Beck, 1972).

Frekari fróðleikur um tímatöl á Vísindavefnum: