Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Það hlýtur að vera einhver misskilningur að ábyrg bandarísk yfirvöld gefi þessi ráð. Það skortir einfaldlega alltof margt til að líf eins og við þekkjum, þar á meðal lúpínur, geti þrifist við þau náttúruskilyrði sem ríkja á tunglinu.
Mestu skiptir að á tunglinu er alls enginn lofthjúpur. Þar er því ekkert súrefni sem lífverur nota til öndunar, þar á meðal bæði lúpínurnar og gerlarnir sem lifa í nánu sambýli við þær. Þessir gerlar nýta nitur eða köfnunarefni úr loftinu til að búa til nitursambönd sem gera jarðveginn hagstæðari öðrum plöntum. Þar sem lofthjúpurinn er enginn er nitur ekki heldur fyrir hendi til þess að gerlarnir geti sinnt þessu sérstaka hlutverki sínu.
Nú mætti ef til vill hugsa sér að úr þessu yrði bætt með einhverjum hætti þannig að tunglið fengi lofthjúp. Annað eins hefur gerst í sögu ýmissa hnatta í sólkerfi okkar. En tunglið er svo létt að því mundi ekki haldast á neinu gasi; hitahreyfing gassameindanna veldur því að þær mundu yfirgefa tunglið.
Nýtilegt vatn er ekki heldur talið vera á tunglinu og þaðan af síður jarðvegur fyrir landnema úr jurtaríki jarðar. Sólarhringurinn er miklu lengri á þessum fylgihnetti okkar eða um 14 dagar á okkar mælikvarða. Árstíðaskipti eru hins vegar ekki mikil þar sem möndulhalli er lítill. Þyngdarsvið er líka miklu minna en hér og bæði plöntur og dýr eru viðkvæm fyrir slíku. Allt þetta stuðlar að því að náttúrulegar lífverur sem eru lagaðar að skilyrðum hér á jörðinni mundu eiga erfitt uppdráttar á tunglinu, jafnvel þó að þær væru undir gleri í lofti sem hefði verið flutt héðan til tunglsins.
Lofthjúpur jarðar hefur vissulega tekið miklum breytingum í sögu hennar, meðal annars fyrir áhrif frá jurtum sem hafa skapað súrefnið í loftinu með ljóstillífun. Þessar breytingar hafa hins vegar tekið óratíma og því vandséð að eitthvað svipað gæti gerst á tunglinu á svo stuttum tíma að það gæti fyrirsjáanlega komið mönnum að gagni.
Þeir sem bjartsýnastir eru á ferðalög manna til Mars og ef til vill fleiri reikistjarna sjá fyrir sér að menn gætu komið á breytingum á lofthjúpi rauðu reikistjörnunnar þannig að menn gætu gengið þar um "undir beru lofti" alveg eins og hér. Slíkt þarf ekki að vera alveg útilokað þó að hitt sé óljóst enn sem komið er, hversu langan tíma breytingar af þessu tagi mundu taka.
Svör um svipað efni má finna með því að nota leitarorðið 'lofthjúpur'.
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Eru bandarísk yfirvöld ekki að ráðleggja að sá lúpínu á tunglinu? Hvenær verður þá líft þarna?“ Vísindavefurinn, 30. maí 2001, sótt 15. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1661.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001, 30. maí). Eru bandarísk yfirvöld ekki að ráðleggja að sá lúpínu á tunglinu? Hvenær verður þá líft þarna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1661
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Eru bandarísk yfirvöld ekki að ráðleggja að sá lúpínu á tunglinu? Hvenær verður þá líft þarna?“ Vísindavefurinn. 30. maí. 2001. Vefsíða. 15. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1661>.