Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 08:16 • sest 18:10 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:07 • Sest 02:31 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:46 • Síðdegis: 16:06 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:58 • Síðdegis: 22:28 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvernig nýttu forfeður okkar jarðhitaorku sér til búsældar?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Landnámsmenn Íslands hafa flestir verið ókunnugir jarðhita, svo að hverir og laugar Íslands hljóta að hafa komið þeim á óvart. Örnefni sýna að þeim hefur hætt til að finnast hveragufan vera reykur; margir jarðhitastaðir eru kenndir við reyk, en gufuörnefni eru fá og líklega ekkert sérstaklega á jarðhitastöðum, enda eru þau skýrð þannig í Landnámabók að þar hafi landnámsmenn sem hétu Gufa að skírnarnafni eða viðurnefni komið við.

Þó kemur þessi nýstárlega reynsla landnámskynslóðarinnar furðu lítið fram í sögum, eins og raunar reynsla þeirra af eldgosum og öskufalli. Það er eins og venjur hafi ráðið miklu um það af hverju voru sagðar sögur. En þegar ritaðar sögur koma til, um þremur öldum eftir upphaf landnáms, var sagt frá tvenns konar jarðhitanotkun sem sjálfsögðum hlut.

Annars vegar baðaði fólk sig í laugum. Frá því segir í Íslendingasögum, til dæmis í Laxdæla sögu í tengslum við atburði sem eru tímasettir nálægt aldamótunum 1000. Auðvitað verður ekki fullyrt að þar sé sögulega rétt sagt frá, þótt ekkert sérstakt mæli á móti því, og víst er að á 12. öld fóru menn í bað í laugum. Þannig andaðist Ketill Þorsteinsson Hólabiskup í laugarferð í Laugarási í Biskupstungum þegar hann var í heimsókn í Skálholti árið 1145. Frá því segir í sögunni Hungurvöku, sem er varla skrifuð meira en um hálfri öld eftir atburðinn. Líka segir frá laugarsetu Snorra Sturlusonar í Reykholti á fyrri hluta aldarinnar á eftir, og fleira mætti tína til. Snorralaug í Reykholti er að því leyti merkileg að hún er manngerð og vatni hefur verið veitt í hana úr hver um leiðslu gerða úr grjóti.


Snorralaug í Reykholti.

Hins vegar var jarðhitavatn notað til þvotta. Í Reykholti báru konur heim vatn úr hver í svo stórum katli að þær héldu á honum á stöng á milli sín. Í Skagafirði fóru konur til laugar með þvotta sína, hittust þar frá fleiri bæjum og skýldu sér í húsum við laugina. Þetta voru hversdagsatburðir og koma aðeins við sögu af því að þeir skópu tilefni til að sanna heilagleika dýrlinga okkar. Kona datt í hverinn í Reykholti og reyndist furðu lítið brunnin eftir að heitið hafði verið á hinn sæla Þorlák biskup. Hrafn stal skóm einnar konunnar í Skagafirði en skilaði þeim aftur þegar hún hafði ákallað Jón biskup Ögmundarson. Í Þorgils sögu skarða í Sturlungu kemur fram að kona þvoði þvott við Lýsuhvolslaug á Snæfellsnesi; hún er nefnd af því að Þorgils glensaði meira við hana, þegar hann kom til laugar, en bónda hennar líkaði. Kannski ber minna á jarðhitanotkun í heimildum en efni standa til af því að hún kom mest við hversdagsiðju kvenna. Engu að síður er greinilegt að jarðhitinn hefur verið vannýtt auðlind.

Notkun jarðhita hefur væntanlega haldist í svipuðu formi langt fram eftir öldum. Í Íslandslýsingu Þórðar biskups Þorlákssonar sem kom út 1666 segir til dæmis að Íslendingar telji heilsusamlegt að baða sig í volgum laugum. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar og fleiri ritum 18. aldar er víða minnst á laugar og böð í þeim. En yfirleitt er samt ekki talað um jarðhita sem hlunnindi eða kosti á jörðum á þessum tíma, til dæmis ekki í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem var skráð á fyrstu áratugum 18. aldar. Í mikilli jarðhitasveit eins og Biskupstungum í Árnessýslu er varla minnst á jarðhita. Þó segir um Laugarás: „Eldivið spara hér hverarnir, en þar á mót drepst þar í peningur þess á milli.” Hér kann að vera átt við að sparist að hita þvottavatn, til dæmis til að þvo ull, en kannski hefur heitt hveravatn líka verið notað til eldunar.

Á árunum 1773-93 var salt unnið á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp með því að sjóða sjó í hveravatni. Þetta var opinber framkvæmd í eigu konungssjóðs og einstæð á Íslandi á þessum tíma.

Á 19. öld var tekið að skipuleggja notkun Þvottalauganna í Laugarnesi í nágrenni Reykjavíkur; árið 1832 var fyrst reist þar hús fyrir þvottakonur. Um miðja öldina var tekið að rækta kartöflur í volgri jörð víða um land. En það beið 20. aldar að menn leiddu heitt vatn í hús sín til upphitunar. Fyrstur mun hafa gert það Stefán B. Jónsson á Suður-Reykjum í Mosfellssveit, líklega árið 1908, en Erlendur Gunnarsson á Sturlureykjum í Borgarfirði leiddi hveragufu í hús sitt um það bil þremur árum síðar. Á þriðja áratug aldarinnar var síðan tekið að nota hveravatn til ylræktar, við Þvottalaugarnar í Laugardal og á Reykjum í Mosfellssveit. Upp úr þessu hófst jarðhitanotkun Íslendinga að marki, og er skýrt rækilega frá henni í afar vandaðri bók Sveins Þórðarsonar, Auður úr iðrum jarðar, sem kom út árið 1998 í Safni til iðnsögu Íslendinga.

Mynd:

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

8.6.2001

Spyrjandi

Ólafur Sigfús Björnsson, f. 1982

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvernig nýttu forfeður okkar jarðhitaorku sér til búsældar?“ Vísindavefurinn, 8. júní 2001, sótt 14. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1685.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2001, 8. júní). Hvernig nýttu forfeður okkar jarðhitaorku sér til búsældar? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1685

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvernig nýttu forfeður okkar jarðhitaorku sér til búsældar?“ Vísindavefurinn. 8. jún. 2001. Vefsíða. 14. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1685>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvernig nýttu forfeður okkar jarðhitaorku sér til búsældar?
Landnámsmenn Íslands hafa flestir verið ókunnugir jarðhita, svo að hverir og laugar Íslands hljóta að hafa komið þeim á óvart. Örnefni sýna að þeim hefur hætt til að finnast hveragufan vera reykur; margir jarðhitastaðir eru kenndir við reyk, en gufuörnefni eru fá og líklega ekkert sérstaklega á jarðhitastöðum, enda eru þau skýrð þannig í Landnámabók að þar hafi landnámsmenn sem hétu Gufa að skírnarnafni eða viðurnefni komið við.

Þó kemur þessi nýstárlega reynsla landnámskynslóðarinnar furðu lítið fram í sögum, eins og raunar reynsla þeirra af eldgosum og öskufalli. Það er eins og venjur hafi ráðið miklu um það af hverju voru sagðar sögur. En þegar ritaðar sögur koma til, um þremur öldum eftir upphaf landnáms, var sagt frá tvenns konar jarðhitanotkun sem sjálfsögðum hlut.

Annars vegar baðaði fólk sig í laugum. Frá því segir í Íslendingasögum, til dæmis í Laxdæla sögu í tengslum við atburði sem eru tímasettir nálægt aldamótunum 1000. Auðvitað verður ekki fullyrt að þar sé sögulega rétt sagt frá, þótt ekkert sérstakt mæli á móti því, og víst er að á 12. öld fóru menn í bað í laugum. Þannig andaðist Ketill Þorsteinsson Hólabiskup í laugarferð í Laugarási í Biskupstungum þegar hann var í heimsókn í Skálholti árið 1145. Frá því segir í sögunni Hungurvöku, sem er varla skrifuð meira en um hálfri öld eftir atburðinn. Líka segir frá laugarsetu Snorra Sturlusonar í Reykholti á fyrri hluta aldarinnar á eftir, og fleira mætti tína til. Snorralaug í Reykholti er að því leyti merkileg að hún er manngerð og vatni hefur verið veitt í hana úr hver um leiðslu gerða úr grjóti.


Snorralaug í Reykholti.

Hins vegar var jarðhitavatn notað til þvotta. Í Reykholti báru konur heim vatn úr hver í svo stórum katli að þær héldu á honum á stöng á milli sín. Í Skagafirði fóru konur til laugar með þvotta sína, hittust þar frá fleiri bæjum og skýldu sér í húsum við laugina. Þetta voru hversdagsatburðir og koma aðeins við sögu af því að þeir skópu tilefni til að sanna heilagleika dýrlinga okkar. Kona datt í hverinn í Reykholti og reyndist furðu lítið brunnin eftir að heitið hafði verið á hinn sæla Þorlák biskup. Hrafn stal skóm einnar konunnar í Skagafirði en skilaði þeim aftur þegar hún hafði ákallað Jón biskup Ögmundarson. Í Þorgils sögu skarða í Sturlungu kemur fram að kona þvoði þvott við Lýsuhvolslaug á Snæfellsnesi; hún er nefnd af því að Þorgils glensaði meira við hana, þegar hann kom til laugar, en bónda hennar líkaði. Kannski ber minna á jarðhitanotkun í heimildum en efni standa til af því að hún kom mest við hversdagsiðju kvenna. Engu að síður er greinilegt að jarðhitinn hefur verið vannýtt auðlind.

Notkun jarðhita hefur væntanlega haldist í svipuðu formi langt fram eftir öldum. Í Íslandslýsingu Þórðar biskups Þorlákssonar sem kom út 1666 segir til dæmis að Íslendingar telji heilsusamlegt að baða sig í volgum laugum. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar og fleiri ritum 18. aldar er víða minnst á laugar og böð í þeim. En yfirleitt er samt ekki talað um jarðhita sem hlunnindi eða kosti á jörðum á þessum tíma, til dæmis ekki í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín sem var skráð á fyrstu áratugum 18. aldar. Í mikilli jarðhitasveit eins og Biskupstungum í Árnessýslu er varla minnst á jarðhita. Þó segir um Laugarás: „Eldivið spara hér hverarnir, en þar á mót drepst þar í peningur þess á milli.” Hér kann að vera átt við að sparist að hita þvottavatn, til dæmis til að þvo ull, en kannski hefur heitt hveravatn líka verið notað til eldunar.

Á árunum 1773-93 var salt unnið á Reykjanesi við Ísafjarðardjúp með því að sjóða sjó í hveravatni. Þetta var opinber framkvæmd í eigu konungssjóðs og einstæð á Íslandi á þessum tíma.

Á 19. öld var tekið að skipuleggja notkun Þvottalauganna í Laugarnesi í nágrenni Reykjavíkur; árið 1832 var fyrst reist þar hús fyrir þvottakonur. Um miðja öldina var tekið að rækta kartöflur í volgri jörð víða um land. En það beið 20. aldar að menn leiddu heitt vatn í hús sín til upphitunar. Fyrstur mun hafa gert það Stefán B. Jónsson á Suður-Reykjum í Mosfellssveit, líklega árið 1908, en Erlendur Gunnarsson á Sturlureykjum í Borgarfirði leiddi hveragufu í hús sitt um það bil þremur árum síðar. Á þriðja áratug aldarinnar var síðan tekið að nota hveravatn til ylræktar, við Þvottalaugarnar í Laugardal og á Reykjum í Mosfellssveit. Upp úr þessu hófst jarðhitanotkun Íslendinga að marki, og er skýrt rækilega frá henni í afar vandaðri bók Sveins Þórðarsonar, Auður úr iðrum jarðar, sem kom út árið 1998 í Safni til iðnsögu Íslendinga.

Mynd:...