Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Innöndun reyks er helsta orsök dauða í kjölfar elds. Skaði af völdum reyks getur bæði verið vegna hita og vegna ertingar eða efnisskaða í öndunarvegi vegna sóts, köfnunar og eitrunar af völdum koleinildis, sem einnig er nefnt kolmonoxíð, og annarra lofttegunda eins og blásýru. Hitaskaði kemur til dæmis fram sem brunasár í andliti og blöðrumyndun og bjúgur í nefkoki, hæsi og sog, sár í slímhimnu efri hluta öndunarvegar, más, hrygla og brenndur hráki.
Um reyk er fjallað í svari við spurningunni Hvers vegna kemur reykurinn af eldinum? Reykur er samsettur úr ögnum og efnum sem myndast við bruna. Í öllum reyk má finna koleinildi, koltvíildi og sótagnir. Mörg önnur efni geta verið í reyk, til dæmis aldehýð, sýrulofttegundir, niturildi, brennisteinstvíildi, fjölhringa arómatísk kolvatnsefni, bensen, tolúen, stýren, málmar og díoxín. Hvaða efni og agnir og hversu mikið af þeim finnst í reyk, fer eftir því hvert eldsneytið er, hversu mikið súrefni er fyrir hendi og hversu hátt hitastigið er.
Að anda að sér reyk í skamman tíma getur haft bráð áhrif. Reykur ertir augu, nef og háls og lyktin getur valdið ógleði. Rannsóknir sýna að sumir einstaklingar sem anda að sér þéttum reyk verði fyrir varanlegu tjóni á starfsemi lungna sem hefur í för með sér öndunarörðugleika. Þeir þættir í reyk sem hafa einna mest áhrif á heilsuna eru annars vegar lofttegundin koleinildi og hins vegar mjög litlar sótagnir sem eru aðeins 2,5 µm að stærð og sjást ekki með berum augum.
Fréttum af eldsvoða fylgir gjarnan að einhver hafi verið fluttur á sjúkrahús vegna reykeitrunar.
Þegar talað er um reykeitrun er oftast átt við eitrun af völdum koleinildis. Þegar koleinildi er andað inn minnka súrefnisbirgðir líkamans. Það er vegna þess að koleinildi binst margfalt hraðar og fastar við blóðrauðann í blóðinu en súrefni gerir. Þannig tekur það í raun þau sæti sem súrefninu er ætlað til þess að berast með blóðinu til vefja líkamans. Einkenni sem fylgja koleinildiseitrun eru höfuðverkur, minnkuð árvekni og jafnvel brjóstverkur sem kemur frá hjartanu vegna súrefnisskorts í hjartavöðvanum. Ef eitrun vegna koleinildis varir lengi missir fólk meðvitund og getur dáið ef það fær ekki súrefni.
Fíngerðar agnir í reyknum geta einnig verið skaðvaldur þar sem þær geta borist í öndunarveginn og jafnvel alla leið ofan í lungun. Innöndun þeirra getur valdið ýmiss konar heilsufarslegum einkennum, eins og ertingu, hósta og mæði og getur gert astma og hjartasjúkdóma sem fyrir eru verri.
Ef fólk lendir í eldsvoða er mikilvægt að komast sem fyrst burt og að halda sig niðri við gólf á leiðinni út þar sem koleinildi er nokkuð léttari en loftið og leitar því upp. Verði fólk fyrir reykeitrun er oft gefið hreint súrefni til að áhrifin dvíni sem fyrst. Einnig eru önnur efni gefin til að súrefnismettun líkamans náist upp í eðlilegt horf sem fyrst.
Talið er að 50-80% af dauðsföllum vegna elds séu vegna reyks. Samkvæmt erlendum tölum er um þriðjungur þeirra sem leita til bráðamóttöku vegna brunasára með lungnaskaða af völdum reyks.
Heimildir og mynd:
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er reykeitrun og er hún hættuleg?“ Vísindavefurinn, 16. september 2014, sótt 6. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=17239.
Þuríður Þorbjarnardóttir. (2014, 16. september). Hvað er reykeitrun og er hún hættuleg? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=17239
Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað er reykeitrun og er hún hættuleg?“ Vísindavefurinn. 16. sep. 2014. Vefsíða. 6. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=17239>.