Sólin Sólin Rís 07:46 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 10:16 • Sest 18:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:01 • Síðdegis: 13:16 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:46 • sest 18:45 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 10:16 • Sest 18:20 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:16 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:01 • Síðdegis: 13:16 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er veröldin bara hugsanir okkar og erum við bara hugsanir hvers annars?

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

Seinni spurningunni, hvort við séum bara hugsanir eða hugarfóstur hvert annars, er auðsvarað þar sem hún felur í sér mótsögn ef hún er tekin bókstaflega. Ef ég er hugarfóstur þitt getur þú ekki samtímis verið hugarfóstur mitt. Hugarfóstur getur ekki haft hugsanir sjálft. Að minnsta kosti annað okkar hlýtur því að vera til. Hitt er svo annað mál að hvort okkar fyrir sig getur efast um tilvist hins. Við getum verið sannfærð um eigin tilvist en talið ómögulegt að meta hvort annað fólk sem við hittum er til í raun og veru eða hvort það er okkar eigin hugarfóstur.

Út frá þessu getum við þá sagt um fyrri spurninguna: „Ef heimurinn er aðeins hugsanir, hugsanir hvers ætti hann þá að vera?” Þessa spurningu verðum við því að skoða út frá einstaklingssjónarmiði. Ég get velt fyrir mér möguleikanum á því að heimurinn, ásamt öllu fólkinu sem ég sé og tala við, sé hugarsmíð mín. Þú getur líka velt fyrir þér þeim möguleika að þetta sé hugarsmíð þín.

Sú skoðun að heimurinn sé að öllu leyti huglægur er kölluð hughyggja (e. idealism). Hún hefur verið útfærð á ýmsa vegu en frægust er kannski útgáfa George Berkeley (1685-1753): „Esse est percipi” eða „að vera til er að vera skynjaður”. Berkeley hafnaði efnishugtakinu og sagði það fjarstæðu að ætla að eitthvað gæti falist í hlutum umfram það sem við skynjum við þá. Það eina sem er til, samkvæmt Berkeley, eru hugir og það sem þeir skynja. Hlutirnir kringum okkur eru því til, en aðeins að svo miklu leyti sem þeir eru skynjaðir. Við þurfum þó ekki að hafa áhyggjur af því að hlutirnir hverfi meðan við erum ekki að fylgjast með þeim því að þeir eru sífellt hugsanir í huga Guðs og halda þarafleiðandi áfram að vera til.

Þessi skoðun, fullyrti Berkeley, er sú sem samrýmist best heilbrigðri skynsemi. Þeirri staðhæfingu hafa margir hafnað og sagt að heilbrigð skynsemi segi okkur að aðhyllast hluthyggju. Samkvæmt hluthyggju eru hinir ýmsu hlutir, heimurinn utan okkar, til óháð skynjunum okkar eða hugsunum um þá.

Hluthyggjunni til stuðnings má nefna að í daglegu lífi virðumst við yfirleitt hegða okkur eins og tilvist hlutanna standi hvorki né falli með hugsunum okkar. Við gerum ráð fyrir að húsgögnin í stofunni séu þar áfram þótt enginn sé heima og að jörðin hafi verið til áður en nokkur var til að upplifa það sem þar fór fram. Við lítum svo á að hlutirnir lúti ýmsum lögmálum sem við fáum ekki stjórnað, til dæmis að steinn falli til jarðar þrátt fyrir að við hugsum okkur af öllum mætti að hann svífi um í lausu lofti.

Sá sem teldi sig geta stjórnað umhverfi sínu með hugsunum sínum einum saman og hegðaði sér samkvæmt því lenti víst fljótt í vandræðum. Því má segja að það hafi hagnýtt gildi að aðhyllast hluthyggju. Eins má benda á að okkur finnst fjarstæða að það sé einber hugarburður þegar við meiðum okkur og finnum til. Fórnarlambi ofbeldisverks fyndist við sjálfsagt hvorki hughreystandi né sannfærandi ef við segðum: „Þú verður bara að hætta að hugsa þér svona vonda hluti.” Þannig má segja að hreinræktuð hughyggja mundi skapa fylgismanni sínum sífelld vandræði og yrði væntanlega ekki mjög frjó.

Þetta dugar þó ekki til að hrekja hughyggjuna endanlega. Vitaskuld hafa þeir sem hafa aðhyllst hughyggju vitað að þeir gætu ekki látið steina fljúga með viljastyrknum einum saman! Og þetta með húsgögnin í stofunni þar sem enginn er heima leysti Berkeley með Guði sínum. Kannski eru hugsanir okkar svo máttugar að við ímyndum okkur heim þar sem allt lýtur náttúrulögmálum sem við getum ekki stjórnað og hegðum okkur svo samkvæmt því.

Einnig má benda á að jafnt hluthyggja sem hughyggja eiga við þann vanda að etja að illa gengur að færa fram fullnægjandi sannanir fyrir þeim. Hvað ætti svo sem að vera hægt að benda á því til sönnunar að heimurinn allur sé ekkert annað en hugsanir okkar og hughyggja því sönn, -- eða því til sönnunar að heimurinn sé ekki bara hugsanir okkar og hluthyggja því sönn?

Þetta kemur til af því að hughyggja og hluthyggja eru frumspekikenningar en frumspeki fjallar um það sem er handan reynslu okkar. Það er því óhugsandi að reynsla okkar geti sagt til um réttmæti frumspekikenningar. Þegar gildi frumspekikenningar er metið er því helst hægt að meta hana frá rökfræðilegu sjónarhorni; kanna hvort hún felur í sér mótsagnir og því um líkt.

Stundum hefur það verið nefnt hughyggjunni til stuðnings að ótal margt er til í heiminum sem hefði aldrei orðið til ef hugsunar okkar hefði ekki notið við. Upptalningin á því öllu yrði ákaflega löng en í henni þyrfti til dæmis að minnast á borð og stóla, barnaskóla, teygjulök, húsþök, efnistök og ógöngurök, bandprjóna, dóna, barþjóna og fiðlutóna, karp og þref, vitleysur og Vísindavef.

Þessir hlutir geta samt verið annað og meira en hugsanir okkar þótt þær hafi átt þátt í uppruna þeirra. Þetta sýnir auðvitað að mannshugurinn hefur gegnt mjög stóru hlutverki í mótun þeirrar myndar sem við gerum okkur af umheiminum en þar með hefur ekki verið sýnt fram á að þessir hlutir sem við höfum mótað geti ekki átt sér tilvist utan okkar.

Einnig hefur hughyggjan stundum verið studd með því að hugsanir okkar og þau hugtök sem við beitum hafa mikil áhrif á skynjun okkar á heiminum. Við höfum til dæmis ríka tilhneigingu til að flokka hluti niður. Sumir hlutir eru steinar og aðrir eru klettar, sumir eru ljótir og aðrir fallegir, og fólki skiptum við niður eftir kynjum, kynþáttum, þjóðerni og svo framvegis.

Við erum oft rígbundin í þau flokkunarkerfi sem við höfum komið á en oft leikur hins vegar vafi á því hvort þau flokka það sem við ætlum þeim að flokka, fremur en bara hugsanir okkar. Margt af því sem við tölum um er kannski aðallega til í hugum okkar þrátt fyrir að við tölum um það sem eitthvað sem til er í heiminum utan okkar.

Þegar við tölum um heiminn kann því að vera að við séum í rauninni að segja miklu meira um okkar eigin hugmyndir og það kerfi sem þær falla undir en um heiminn sjálfan. Af þessu er þó ekki hægt að draga þá ályktun að heimurinn sem slíkur sé ekkert nema hugsanir okkar; það eru lýsingar okkar á heiminum sem hljóta alltaf að vera bundnar hugsuninni en ekki endilega sá heimur sem þær eiga að lýsa. Þótt lýsingar okkar á heiminum séu ef til vill dæmdar til að vera „mengaðar” af hugarheimi okkar er samt sem áður vel mögulegt að til sé heimur óháður þessum lýsingum okkar, jafnvel gjörólíkur þeim. Hughyggja verður því ekki sönnuð með þessum hætti.

Þótt vísast verði aldrei fullsannað að til sé efnisheimur utan hugsana okkar mun flestum þykja sá kostur mun sennilegri en sá sem er að mörgu leyti fjarstæðukenndur að veröldin öll sé hugarfóstur okkar. Daglegt líf okkar snýst mikið til um að fást við veruleikann utan hugsana okkar. Kannski má segja að reynsla okkar sé oftast á þann veg að okkur finnist réttara að hallast að hluthyggju. En eins og nefnt var hér að ofan dugar reynslan aldrei til að sanna frumspekikenningu.

Því verður spurningunni um það hvort heimurinn sé allur hugsanir okkar kannski best svarað með því að það sé alls ekki útilokað en af ýmsum ástæðum sé það kannski ekki mjög sennilegt.

Sjá einnig eftirfarandi svör:

Mynd: University of Dublin, Trinity College: School of Mathematics

Höfundur

Eyja Margrét Brynjarsdóttir

prófessor í heimspeki og hagnýtri siðfræði

Útgáfudagur

21.6.2001

Spyrjandi

Gunnar Einar Steingrímsson

Tilvísun

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er veröldin bara hugsanir okkar og erum við bara hugsanir hvers annars?“ Vísindavefurinn, 21. júní 2001, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1725.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. (2001, 21. júní). Er veröldin bara hugsanir okkar og erum við bara hugsanir hvers annars? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1725

Eyja Margrét Brynjarsdóttir. „Er veröldin bara hugsanir okkar og erum við bara hugsanir hvers annars?“ Vísindavefurinn. 21. jún. 2001. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1725>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er veröldin bara hugsanir okkar og erum við bara hugsanir hvers annars?
Seinni spurningunni, hvort við séum bara hugsanir eða hugarfóstur hvert annars, er auðsvarað þar sem hún felur í sér mótsögn ef hún er tekin bókstaflega. Ef ég er hugarfóstur þitt getur þú ekki samtímis verið hugarfóstur mitt. Hugarfóstur getur ekki haft hugsanir sjálft. Að minnsta kosti annað okkar hlýtur því að vera til. Hitt er svo annað mál að hvort okkar fyrir sig getur efast um tilvist hins. Við getum verið sannfærð um eigin tilvist en talið ómögulegt að meta hvort annað fólk sem við hittum er til í raun og veru eða hvort það er okkar eigin hugarfóstur.

Út frá þessu getum við þá sagt um fyrri spurninguna: „Ef heimurinn er aðeins hugsanir, hugsanir hvers ætti hann þá að vera?” Þessa spurningu verðum við því að skoða út frá einstaklingssjónarmiði. Ég get velt fyrir mér möguleikanum á því að heimurinn, ásamt öllu fólkinu sem ég sé og tala við, sé hugarsmíð mín. Þú getur líka velt fyrir þér þeim möguleika að þetta sé hugarsmíð þín.

Sú skoðun að heimurinn sé að öllu leyti huglægur er kölluð hughyggja (e. idealism). Hún hefur verið útfærð á ýmsa vegu en frægust er kannski útgáfa George Berkeley (1685-1753): „Esse est percipi” eða „að vera til er að vera skynjaður”. Berkeley hafnaði efnishugtakinu og sagði það fjarstæðu að ætla að eitthvað gæti falist í hlutum umfram það sem við skynjum við þá. Það eina sem er til, samkvæmt Berkeley, eru hugir og það sem þeir skynja. Hlutirnir kringum okkur eru því til, en aðeins að svo miklu leyti sem þeir eru skynjaðir. Við þurfum þó ekki að hafa áhyggjur af því að hlutirnir hverfi meðan við erum ekki að fylgjast með þeim því að þeir eru sífellt hugsanir í huga Guðs og halda þarafleiðandi áfram að vera til.

Þessi skoðun, fullyrti Berkeley, er sú sem samrýmist best heilbrigðri skynsemi. Þeirri staðhæfingu hafa margir hafnað og sagt að heilbrigð skynsemi segi okkur að aðhyllast hluthyggju. Samkvæmt hluthyggju eru hinir ýmsu hlutir, heimurinn utan okkar, til óháð skynjunum okkar eða hugsunum um þá.

Hluthyggjunni til stuðnings má nefna að í daglegu lífi virðumst við yfirleitt hegða okkur eins og tilvist hlutanna standi hvorki né falli með hugsunum okkar. Við gerum ráð fyrir að húsgögnin í stofunni séu þar áfram þótt enginn sé heima og að jörðin hafi verið til áður en nokkur var til að upplifa það sem þar fór fram. Við lítum svo á að hlutirnir lúti ýmsum lögmálum sem við fáum ekki stjórnað, til dæmis að steinn falli til jarðar þrátt fyrir að við hugsum okkur af öllum mætti að hann svífi um í lausu lofti.

Sá sem teldi sig geta stjórnað umhverfi sínu með hugsunum sínum einum saman og hegðaði sér samkvæmt því lenti víst fljótt í vandræðum. Því má segja að það hafi hagnýtt gildi að aðhyllast hluthyggju. Eins má benda á að okkur finnst fjarstæða að það sé einber hugarburður þegar við meiðum okkur og finnum til. Fórnarlambi ofbeldisverks fyndist við sjálfsagt hvorki hughreystandi né sannfærandi ef við segðum: „Þú verður bara að hætta að hugsa þér svona vonda hluti.” Þannig má segja að hreinræktuð hughyggja mundi skapa fylgismanni sínum sífelld vandræði og yrði væntanlega ekki mjög frjó.

Þetta dugar þó ekki til að hrekja hughyggjuna endanlega. Vitaskuld hafa þeir sem hafa aðhyllst hughyggju vitað að þeir gætu ekki látið steina fljúga með viljastyrknum einum saman! Og þetta með húsgögnin í stofunni þar sem enginn er heima leysti Berkeley með Guði sínum. Kannski eru hugsanir okkar svo máttugar að við ímyndum okkur heim þar sem allt lýtur náttúrulögmálum sem við getum ekki stjórnað og hegðum okkur svo samkvæmt því.

Einnig má benda á að jafnt hluthyggja sem hughyggja eiga við þann vanda að etja að illa gengur að færa fram fullnægjandi sannanir fyrir þeim. Hvað ætti svo sem að vera hægt að benda á því til sönnunar að heimurinn allur sé ekkert annað en hugsanir okkar og hughyggja því sönn, -- eða því til sönnunar að heimurinn sé ekki bara hugsanir okkar og hluthyggja því sönn?

Þetta kemur til af því að hughyggja og hluthyggja eru frumspekikenningar en frumspeki fjallar um það sem er handan reynslu okkar. Það er því óhugsandi að reynsla okkar geti sagt til um réttmæti frumspekikenningar. Þegar gildi frumspekikenningar er metið er því helst hægt að meta hana frá rökfræðilegu sjónarhorni; kanna hvort hún felur í sér mótsagnir og því um líkt.

Stundum hefur það verið nefnt hughyggjunni til stuðnings að ótal margt er til í heiminum sem hefði aldrei orðið til ef hugsunar okkar hefði ekki notið við. Upptalningin á því öllu yrði ákaflega löng en í henni þyrfti til dæmis að minnast á borð og stóla, barnaskóla, teygjulök, húsþök, efnistök og ógöngurök, bandprjóna, dóna, barþjóna og fiðlutóna, karp og þref, vitleysur og Vísindavef.

Þessir hlutir geta samt verið annað og meira en hugsanir okkar þótt þær hafi átt þátt í uppruna þeirra. Þetta sýnir auðvitað að mannshugurinn hefur gegnt mjög stóru hlutverki í mótun þeirrar myndar sem við gerum okkur af umheiminum en þar með hefur ekki verið sýnt fram á að þessir hlutir sem við höfum mótað geti ekki átt sér tilvist utan okkar.

Einnig hefur hughyggjan stundum verið studd með því að hugsanir okkar og þau hugtök sem við beitum hafa mikil áhrif á skynjun okkar á heiminum. Við höfum til dæmis ríka tilhneigingu til að flokka hluti niður. Sumir hlutir eru steinar og aðrir eru klettar, sumir eru ljótir og aðrir fallegir, og fólki skiptum við niður eftir kynjum, kynþáttum, þjóðerni og svo framvegis.

Við erum oft rígbundin í þau flokkunarkerfi sem við höfum komið á en oft leikur hins vegar vafi á því hvort þau flokka það sem við ætlum þeim að flokka, fremur en bara hugsanir okkar. Margt af því sem við tölum um er kannski aðallega til í hugum okkar þrátt fyrir að við tölum um það sem eitthvað sem til er í heiminum utan okkar.

Þegar við tölum um heiminn kann því að vera að við séum í rauninni að segja miklu meira um okkar eigin hugmyndir og það kerfi sem þær falla undir en um heiminn sjálfan. Af þessu er þó ekki hægt að draga þá ályktun að heimurinn sem slíkur sé ekkert nema hugsanir okkar; það eru lýsingar okkar á heiminum sem hljóta alltaf að vera bundnar hugsuninni en ekki endilega sá heimur sem þær eiga að lýsa. Þótt lýsingar okkar á heiminum séu ef til vill dæmdar til að vera „mengaðar” af hugarheimi okkar er samt sem áður vel mögulegt að til sé heimur óháður þessum lýsingum okkar, jafnvel gjörólíkur þeim. Hughyggja verður því ekki sönnuð með þessum hætti.

Þótt vísast verði aldrei fullsannað að til sé efnisheimur utan hugsana okkar mun flestum þykja sá kostur mun sennilegri en sá sem er að mörgu leyti fjarstæðukenndur að veröldin öll sé hugarfóstur okkar. Daglegt líf okkar snýst mikið til um að fást við veruleikann utan hugsana okkar. Kannski má segja að reynsla okkar sé oftast á þann veg að okkur finnist réttara að hallast að hluthyggju. En eins og nefnt var hér að ofan dugar reynslan aldrei til að sanna frumspekikenningu.

Því verður spurningunni um það hvort heimurinn sé allur hugsanir okkar kannski best svarað með því að það sé alls ekki útilokað en af ýmsum ástæðum sé það kannski ekki mjög sennilegt.

Sjá einnig eftirfarandi svör:

Mynd: University of Dublin, Trinity College: School of Mathematics

...