Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 11:06 • sest 15:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:16 • Sest 01:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:14 • Síðdegis: 12:43 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:21 • Síðdegis: 19:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Eru til áþreifanlegar sannanir fyrir veru Papa á Íslandi fyrir landnám norrænna manna?

Axel Kristinsson

Ritheimildir segja frá veru Papa hér á landi áður en norrænir menn komu en að þeir hafi síðan horfið á braut. Þó að vissulega sé hægt að þreifa á gömlum handritum er líklega átt við annars konar áþreifanlegar sannanir.

Gallinn við ritheimildir er sá að þær geta logið eða farið með fleipur, einkum og sér í lagi þegar þær eru færðar í letur löngu eftir að atburðirnir gerðust sem þær segja frá. „Áþreifanlegar heimildir” - og hér á ég við fornleifar - ljúga aftur á móti ekki nema þær séu hreinlega falsaðar, en nokkur brögð eru að því. Á hinn bóginn eru upplýsingarnar sem þær veita okkur oftast miklu takmarkaðri en þær sem við lesum úr ritheimildum og mikill vandi er að túlka þær. Fornleifar geta þó tekið af allan vafa um einstök atriði þar sem ritheimildir eru litlar eða ótraustar. Þetta gæti einmitt gerst með spurninguna um veru Papa á Íslandi.

Elsta heimildin um veru Papa á Íslandi er Íslendingabók Ara fróða frá um 1122-1133. Þá eru liðin um það bil 250 ár frá því að landnám norrænna manna hófst (samkvæmt hefðbundnu en ekki alveg öruggu tímatali) og því er ekki hægt að treysta heimildinni fyllilega. Innlendar ritheimildir taka því ekki af allan vafa um veru Papa á Íslandi.


Ekki þarf að vera að Papar hafi haft aðsetur á Papey.

Rit keltneska klerksins Dicuils frá byrjun 9. aldar fjallar meðal annars um flakk guðsmanna um lönd í norðri og setu þeirra þar. Frásögn hans hefur oft verið túlkuð sem heimild um veru Papa á Íslandi en engar sannanir eru fyrir því að Ísland sé meðal þeirra landa sem þar er minnst á. Keltneskir einsetumenn voru hins vegar áreiðanlega á Orkneyjum og Hjaltlandi enda hafa þar fundist fornleifar sem tengja má við þá.

Nokkur örnefni á Íslandi minna á Papa og þeirra vegna hafa menn oft talið víst að til dæmis Papey hafi verið bústaður þeirra. Engar ritheimildir eru þó um veru Papa í Papey og vel má vera að örnefnið sé aðflutt frá Bretlandseyjum en í byggðum norrænna manna þar voru Papaörnefni nokkuð algeng. Örnefni sanna því ekkert um veru Papa á Íslandi.

Talsvert hefur verið leitað að minjum um dvöl Papa í landinu. Kristján Eldjárn rannsakaði til dæmis búsetuleifar í Papey en þar fannst þó ekkert sem benti til veru Papa þar. Ýmsar fornleifar eru þess eðlis að þær gætu verið frá Pöpum komnar. Það gildir til dæmis um nokkrar krossristur í manngerðum hellum á Suðurlandi og eins um rústir nokkurra einfaldra mannvirkja frá landnámstímanum, en allt á þetta sér þó aðrar og sennilegri skýringar.

Fornleifarannsóknir geta aldrei afsannað veru Papa á Íslandi en það mætti hugsa sér að það fyndust leifar sem bæru svo sterk einkenni að þær sönnuðu dvöl Papa hér. Engar slíkar leifar hafa enn fundist. Þrátt fyrir það hafa menn yfirleitt ekki séð ástæðu til að efa að Papar hafi verið hér, og treyst menn þá Íslendingabók um þetta atriði.

Nýlega hefur þó Helgi Guðmundssonson (í bókinni Um haf innan, Reykjavík 1997) sett fram þá skoðun að Íslendingabók byggi frásögn sína af Pöpum á áðurnefndu riti Dicuils og hafi túlkað það svo að þar hafi verið rætt um Ísland þótt það sé í raun alveg óvíst. Ef Helgi hefur rétt fyrir sér eru frásagnir Diculis og Ara ekki óháðar hvor annarri og fullyrðingar þess síðarnefnda um Papa einskis virði. Þá höfum við engar heimildir lengur sem tengja Papa við Ísland.

Niðurstaðan er því þessi: Engar áþreifanlegar sannanir eru fyrir veru Papa á Íslandi og full ástæða til að efast um að þeir hafi verið hér. Á hinn bóginn er heldur engin ástæða til að útiloka það.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Mynd:

Höfundur

sagnfræðingur, forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar

Útgáfudagur

22.6.2001

Spyrjandi

Gunnar Gunnarsson

Tilvísun

Axel Kristinsson. „Eru til áþreifanlegar sannanir fyrir veru Papa á Íslandi fyrir landnám norrænna manna?“ Vísindavefurinn, 22. júní 2001, sótt 9. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1732.

Axel Kristinsson. (2001, 22. júní). Eru til áþreifanlegar sannanir fyrir veru Papa á Íslandi fyrir landnám norrænna manna? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1732

Axel Kristinsson. „Eru til áþreifanlegar sannanir fyrir veru Papa á Íslandi fyrir landnám norrænna manna?“ Vísindavefurinn. 22. jún. 2001. Vefsíða. 9. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1732>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Eru til áþreifanlegar sannanir fyrir veru Papa á Íslandi fyrir landnám norrænna manna?
Ritheimildir segja frá veru Papa hér á landi áður en norrænir menn komu en að þeir hafi síðan horfið á braut. Þó að vissulega sé hægt að þreifa á gömlum handritum er líklega átt við annars konar áþreifanlegar sannanir.

Gallinn við ritheimildir er sá að þær geta logið eða farið með fleipur, einkum og sér í lagi þegar þær eru færðar í letur löngu eftir að atburðirnir gerðust sem þær segja frá. „Áþreifanlegar heimildir” - og hér á ég við fornleifar - ljúga aftur á móti ekki nema þær séu hreinlega falsaðar, en nokkur brögð eru að því. Á hinn bóginn eru upplýsingarnar sem þær veita okkur oftast miklu takmarkaðri en þær sem við lesum úr ritheimildum og mikill vandi er að túlka þær. Fornleifar geta þó tekið af allan vafa um einstök atriði þar sem ritheimildir eru litlar eða ótraustar. Þetta gæti einmitt gerst með spurninguna um veru Papa á Íslandi.

Elsta heimildin um veru Papa á Íslandi er Íslendingabók Ara fróða frá um 1122-1133. Þá eru liðin um það bil 250 ár frá því að landnám norrænna manna hófst (samkvæmt hefðbundnu en ekki alveg öruggu tímatali) og því er ekki hægt að treysta heimildinni fyllilega. Innlendar ritheimildir taka því ekki af allan vafa um veru Papa á Íslandi.


Ekki þarf að vera að Papar hafi haft aðsetur á Papey.

Rit keltneska klerksins Dicuils frá byrjun 9. aldar fjallar meðal annars um flakk guðsmanna um lönd í norðri og setu þeirra þar. Frásögn hans hefur oft verið túlkuð sem heimild um veru Papa á Íslandi en engar sannanir eru fyrir því að Ísland sé meðal þeirra landa sem þar er minnst á. Keltneskir einsetumenn voru hins vegar áreiðanlega á Orkneyjum og Hjaltlandi enda hafa þar fundist fornleifar sem tengja má við þá.

Nokkur örnefni á Íslandi minna á Papa og þeirra vegna hafa menn oft talið víst að til dæmis Papey hafi verið bústaður þeirra. Engar ritheimildir eru þó um veru Papa í Papey og vel má vera að örnefnið sé aðflutt frá Bretlandseyjum en í byggðum norrænna manna þar voru Papaörnefni nokkuð algeng. Örnefni sanna því ekkert um veru Papa á Íslandi.

Talsvert hefur verið leitað að minjum um dvöl Papa í landinu. Kristján Eldjárn rannsakaði til dæmis búsetuleifar í Papey en þar fannst þó ekkert sem benti til veru Papa þar. Ýmsar fornleifar eru þess eðlis að þær gætu verið frá Pöpum komnar. Það gildir til dæmis um nokkrar krossristur í manngerðum hellum á Suðurlandi og eins um rústir nokkurra einfaldra mannvirkja frá landnámstímanum, en allt á þetta sér þó aðrar og sennilegri skýringar.

Fornleifarannsóknir geta aldrei afsannað veru Papa á Íslandi en það mætti hugsa sér að það fyndust leifar sem bæru svo sterk einkenni að þær sönnuðu dvöl Papa hér. Engar slíkar leifar hafa enn fundist. Þrátt fyrir það hafa menn yfirleitt ekki séð ástæðu til að efa að Papar hafi verið hér, og treyst menn þá Íslendingabók um þetta atriði.

Nýlega hefur þó Helgi Guðmundssonson (í bókinni Um haf innan, Reykjavík 1997) sett fram þá skoðun að Íslendingabók byggi frásögn sína af Pöpum á áðurnefndu riti Dicuils og hafi túlkað það svo að þar hafi verið rætt um Ísland þótt það sé í raun alveg óvíst. Ef Helgi hefur rétt fyrir sér eru frásagnir Diculis og Ara ekki óháðar hvor annarri og fullyrðingar þess síðarnefnda um Papa einskis virði. Þá höfum við engar heimildir lengur sem tengja Papa við Ísland.

Niðurstaðan er því þessi: Engar áþreifanlegar sannanir eru fyrir veru Papa á Íslandi og full ástæða til að efast um að þeir hafi verið hér. Á hinn bóginn er heldur engin ástæða til að útiloka það.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Mynd:...