Sólin Sólin Rís 11:04 • sest 15:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 06:03 • Sest 14:18 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:54 • Síðdegis: 16:02 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:06 • Síðdegis: 22:16 í Reykjavík

Getur vatn soðið skyndilega í bolla þegar hann er tekinn út úr örbylgjuofni eftir hitun?

Ari Ólafsson og Þorsteinn Vilhjálmsson

Spurningunni fylgdi saga um ungan mann vestur í Ameríku sem varð fyrir því að vatnið í bollanum var ekki sjóðandi þegar hann tók það út úr örbylgjuofninum en gaus þá skyndilega framan í hann svo að hann brenndist illilega.

Við teljum sem betur fer ekki að atvik sem þetta séu mjög líkleg, en fyrirbærið er kallað höggsuða eða hvellsuða (bumping). Hún gerist þegar vatn er hitað ört og kemst yfir suðumark en nær ekki strax að sjóða. Þetta nefnist yfirhitun (superheating) og getur stafað af því að óhreinindi skorti í vatnið til þess að gufubólur geti myndast og innra borð ílátsins sé svo slétt að þar séu heldur engar örður sem greiða fyrir bólumyndun. Þetta getur gerst í venjulegu íláti eins og potti á eldavélarhellu, til dæmis ef mikill straumur er á henni þannig að hitun vatnsins verði tiltölulega snögg. Líkurnar eru meiri ef potturinn er nýr og botninn í honum alveg órispaður.

Nokkur atriði valda því að höggsuða er líklegri en ella þegar vatn í litlu magni er hitað í bolla í örbylgjuofni:
 • Vatnið í bollanum er tiltölulega lítið miðað við afköst ofnsins, þannig að hitun vatnsins gerist mjög snöggt, til dæmis mínúta að suðu.
 • Vatn í potti hitnar neðan frá og miklir iðustraumar greiða fyrir bólumyndun. Vatn í örbylgjuofni hitnar hins vegar jafnar og iðustraumar verða því minni.
 • Örður á botni pottsins greiða mjög fyrir suðunni sem fyrr segir, en það gerist ekki í sama mæli í örbylgjuofninum. Þar er hitunin jafnvel mest í miðjum bollanum. Líkurnar á yfirhitun og höggsuðu eru þó vafalaust mestar ef bollinn er mjög sléttur að innan.
Við teljum þó að hristingur frá snúningsdiski í nýrri ofnum ætti að geta komið í veg fyrir yfirhitun og þar með höggsuðu. En auk þess má beita eftirfarandi öryggisráðstöfunum:

 • Gæta sérstakrar varúðar ef hreint og óblandað vatn er hitað í litlu magni í örbylgjuofni. Hins vegar ætti að vera hættulaust að hita tevatn með tepokanum í eða kaffi sem búið er að laga.
 • Stilla ofninn ekki á svo langan tíma að vatnið nái suðumarki; það er hvort sem er óþarfi við kaffigerð og eingöngu til óþurftar ef verið er að hita kaffi sem búið er að laga.
 • Stilla ofninn ekki á mestu afköst eða straum þegar verið er að hita lítið efnismagn. Hitunin tekur þá lengri tíma og líkur á höggsuðu verða minni. Auk þess er þá auðveldara að stilla tímann þannig að hitinn verði hæfilegur.
 • Hafa málmskeið í bollanum til að leiða varmann til yfirborðs, auka iðustrauma og greiða fyrir bólumyndun. Um málmhluti í örbylgjuofni má lesa nánar í svari eftir Ara Ólafsson á Vísindavefnum. Taka bollann úr ofninum með gætni og án asa. Til dæmis er ágætt að láta bollann standa í ofninum í hálfa mínútu eftir að slokknar á ofninum. Þetta á raunar við um allt sem hitað er í þessum ofnum af því að þeir dreifa hitanum ekki jafnt og hann þarf því að fá að jafnast á eftir.
 • Ef líkur eru á höggsuðu má banka í bollann með skeið til að koma henni af stað þar sem ekki stafar hætta af henni.
Nokkur svör sem birt hafa verið á Vísindavefnum fjalla nánar um ýmis atriði sem varða örbylgjuofna. Þessi svör má finna með því að setja orðið 'örbylgjuofn' inn í leitarvélina efst í vinstra horni vefsíðunnar.


Mynd: HB

Höfundar

Ari Ólafsson

dósent í eðlisfræði við HÍ

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

27.6.2001

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Ari Ólafsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Getur vatn soðið skyndilega í bolla þegar hann er tekinn út úr örbylgjuofni eftir hitun?“ Vísindavefurinn, 27. júní 2001. Sótt 9. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=1748.

Ari Ólafsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001, 27. júní). Getur vatn soðið skyndilega í bolla þegar hann er tekinn út úr örbylgjuofni eftir hitun? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1748

Ari Ólafsson og Þorsteinn Vilhjálmsson. „Getur vatn soðið skyndilega í bolla þegar hann er tekinn út úr örbylgjuofni eftir hitun?“ Vísindavefurinn. 27. jún. 2001. Vefsíða. 9. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1748>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getur vatn soðið skyndilega í bolla þegar hann er tekinn út úr örbylgjuofni eftir hitun?
Spurningunni fylgdi saga um ungan mann vestur í Ameríku sem varð fyrir því að vatnið í bollanum var ekki sjóðandi þegar hann tók það út úr örbylgjuofninum en gaus þá skyndilega framan í hann svo að hann brenndist illilega.

Við teljum sem betur fer ekki að atvik sem þetta séu mjög líkleg, en fyrirbærið er kallað höggsuða eða hvellsuða (bumping). Hún gerist þegar vatn er hitað ört og kemst yfir suðumark en nær ekki strax að sjóða. Þetta nefnist yfirhitun (superheating) og getur stafað af því að óhreinindi skorti í vatnið til þess að gufubólur geti myndast og innra borð ílátsins sé svo slétt að þar séu heldur engar örður sem greiða fyrir bólumyndun. Þetta getur gerst í venjulegu íláti eins og potti á eldavélarhellu, til dæmis ef mikill straumur er á henni þannig að hitun vatnsins verði tiltölulega snögg. Líkurnar eru meiri ef potturinn er nýr og botninn í honum alveg órispaður.

Nokkur atriði valda því að höggsuða er líklegri en ella þegar vatn í litlu magni er hitað í bolla í örbylgjuofni:
 • Vatnið í bollanum er tiltölulega lítið miðað við afköst ofnsins, þannig að hitun vatnsins gerist mjög snöggt, til dæmis mínúta að suðu.
 • Vatn í potti hitnar neðan frá og miklir iðustraumar greiða fyrir bólumyndun. Vatn í örbylgjuofni hitnar hins vegar jafnar og iðustraumar verða því minni.
 • Örður á botni pottsins greiða mjög fyrir suðunni sem fyrr segir, en það gerist ekki í sama mæli í örbylgjuofninum. Þar er hitunin jafnvel mest í miðjum bollanum. Líkurnar á yfirhitun og höggsuðu eru þó vafalaust mestar ef bollinn er mjög sléttur að innan.
Við teljum þó að hristingur frá snúningsdiski í nýrri ofnum ætti að geta komið í veg fyrir yfirhitun og þar með höggsuðu. En auk þess má beita eftirfarandi öryggisráðstöfunum:

 • Gæta sérstakrar varúðar ef hreint og óblandað vatn er hitað í litlu magni í örbylgjuofni. Hins vegar ætti að vera hættulaust að hita tevatn með tepokanum í eða kaffi sem búið er að laga.
 • Stilla ofninn ekki á svo langan tíma að vatnið nái suðumarki; það er hvort sem er óþarfi við kaffigerð og eingöngu til óþurftar ef verið er að hita kaffi sem búið er að laga.
 • Stilla ofninn ekki á mestu afköst eða straum þegar verið er að hita lítið efnismagn. Hitunin tekur þá lengri tíma og líkur á höggsuðu verða minni. Auk þess er þá auðveldara að stilla tímann þannig að hitinn verði hæfilegur.
 • Hafa málmskeið í bollanum til að leiða varmann til yfirborðs, auka iðustrauma og greiða fyrir bólumyndun. Um málmhluti í örbylgjuofni má lesa nánar í svari eftir Ara Ólafsson á Vísindavefnum. Taka bollann úr ofninum með gætni og án asa. Til dæmis er ágætt að láta bollann standa í ofninum í hálfa mínútu eftir að slokknar á ofninum. Þetta á raunar við um allt sem hitað er í þessum ofnum af því að þeir dreifa hitanum ekki jafnt og hann þarf því að fá að jafnast á eftir.
 • Ef líkur eru á höggsuðu má banka í bollann með skeið til að koma henni af stað þar sem ekki stafar hætta af henni.
Nokkur svör sem birt hafa verið á Vísindavefnum fjalla nánar um ýmis atriði sem varða örbylgjuofna. Þessi svör má finna með því að setja orðið 'örbylgjuofn' inn í leitarvélina efst í vinstra horni vefsíðunnar.


Mynd: HB

...