
- Vatnið í bollanum er tiltölulega lítið miðað við afköst ofnsins, þannig að hitun vatnsins gerist mjög snöggt, til dæmis mínúta að suðu.
- Vatn í potti hitnar neðan frá og miklir iðustraumar greiða fyrir bólumyndun. Vatn í örbylgjuofni hitnar hins vegar jafnar og iðustraumar verða því minni.
- Örður á botni pottsins greiða mjög fyrir suðunni sem fyrr segir, en það gerist ekki í sama mæli í örbylgjuofninum. Þar er hitunin jafnvel mest í miðjum bollanum. Líkurnar á yfirhitun og höggsuðu eru þó vafalaust mestar ef bollinn er mjög sléttur að innan.
- Gæta sérstakrar varúðar ef hreint og óblandað vatn er hitað í litlu magni í örbylgjuofni. Hins vegar ætti að vera hættulaust að hita tevatn með tepokanum í eða kaffi sem búið er að laga.
- Stilla ofninn ekki á svo langan tíma að vatnið nái suðumarki; það er hvort sem er óþarfi við kaffigerð og eingöngu til óþurftar ef verið er að hita kaffi sem búið er að laga.
- Stilla ofninn ekki á mestu afköst eða straum þegar verið er að hita lítið efnismagn. Hitunin tekur þá lengri tíma og líkur á höggsuðu verða minni. Auk þess er þá auðveldara að stilla tímann þannig að hitinn verði hæfilegur.
- Hafa málmskeið í bollanum til að leiða varmann til yfirborðs, auka iðustrauma og greiða fyrir bólumyndun. Um málmhluti í örbylgjuofni má lesa nánar í svari eftir Ara Ólafsson á Vísindavefnum. Taka bollann úr ofninum með gætni og án asa. Til dæmis er ágætt að láta bollann standa í ofninum í hálfa mínútu eftir að slokknar á ofninum. Þetta á raunar við um allt sem hitað er í þessum ofnum af því að þeir dreifa hitanum ekki jafnt og hann þarf því að fá að jafnast á eftir.
- Ef líkur eru á höggsuðu má banka í bollann með skeið til að koma henni af stað þar sem ekki stafar hætta af henni.
Mynd: HB