Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Ísaldir skilja eftir sig margvíslegar menjar sem jarðfræðingar geta greint og túlkað. Þar má fyrst telja jökulsorfnar klappir, eins og í Öskjuhlíðinni í Reykjavík, og jökulruðning sem jöklar ísaldar hafa skilið eftir sig. Ennfremur U-laga dali og firði, sem skriðjöklar ísaldar hafa sorfið. Hér á landi bera móbergsfjöllin, sem mynduðust við eldgos undir jökli, einnig vitni um þykkan jökulskjöld yfir landinu.
Af þessum atriðum er ljóst að jökullinn náði alla leið út á landgrunnsbrún Íslands þegar hann var sem mestur — lengra gat hann ekki náð því þar fyrir utan hlaut hann að fljóta upp og reka burt jafnóðum sem borgarísjakar. Vísbendingar um að í eina tíð hafi jökull legið yfir öllu landinu eru semsagt fjölmargar og órækar, og þetta hafa menn vitað síðan um 1850.
Jafnframt sýndi Helgi Pjeturss fram á það skömmu eftir aldamótin 1900 að ísöldin hafði skiptst í kuldaskeið með hlýskeiðum á milli — það sést til dæmis þannig að ofan á ísnúinni klöpp liggur jökulframburður, ofan á honum set með hlýsjávarskeljum og þar ofan á annað jökulbergslag. Nú eru þekkt á Tjörnesi merki um ein 14 slík skeið.
Þá er það spurningin um aldur þessara menja. Þar koma aldursgreiningar af ýmsu tagi til skjalanna, en menjar síðustu ísaldar finnast víða — í seti milli hraunlaga, á hafsbotninum og í jökulís, svo að þrjú dæmi séu nefnd.
Tökum hið síðastnefnda fyrst: Rannsóknahópar með þáttöku Dana, Íslendinga og fleiri þjóða hafa á undanförnum áratugum rannsakað Ískjarna úr Grænlandsjökli sem spanna um 130 þúsund ár. Hlutföll súrefnissamsætna í ísnum gefa vísbendingu um ríkjandi hitastig, og samkvæmt því var hlýskeið (Eem heitir það) frá því fyrir um 120 - 110 þúsund árum, kólnandi veðurfar þar til fyrir 100 þúsund árum og síðan ísöld þar til fyrir um 11 þúsund árum. Síðan þá hefur loftslag verið sæmilega hlýtt — og verulega hlýtt miðað við ísöldina — þótt ýmsar minni háttar sveiflur hafi orðið.
Þess ber að geta að í efsta hluta jökulkjarnans, svarandi til síðustu þúsalda, er hægt að telja árlög, það er mæla hitasveiflu milli sumars og vetrar hvers árs, en þegar neðar dregur í kjarnanum er stuðst við líkanreikninga.
Á hafsbotninum er sífelld setmyndun: Straumvötn bera set til sjávar, vindur feykir ryki á haf út, geimryk fellur til jarðar, skeljar svifdýra og annarra lífvera sökkva til botns, ísjaka rekur um höfin uns þeir bráðna og ryk og grjót sem þeir bera með sér fellur til botns. Setkjarnar sem teknir eru af hafsbotninum segja sögu loftslags og annarra aðstæðna — bæði út frá gerð setsins og grófleika, dýrategundum í því og samsætuhlutföllunum í þeim. Í Norður-Atlantshafi eru einnig í setinu gosöskulög sem ættuð eru frá Íslandi og nota má til að tengja saman kjarna víðs vegar af á svæðinu.
Á Íslandi eru aðstæður að ýmsu leyti sérlega heppilegar til að rannsaka ísöldina, meðal annars vegna þess að á hlýskeiðunum runnu hraunstraumar iðulega yfir menjar kuldaskeiðsins á undan og komu þannig í veg fyrir að jöklar síðari kuldaskeiða spilltu þeim eða ýttu í burt. (Í Ölpunum hafa aðeins fundist menjar um fjögur kuldaskeið, að öllum líkindum vegna þess að jöklar hafa eytt ummerkjum um mörg fleiri).
Slíkt set, sem lokast hefur milli hraunlaga, kemur fram í jarðlagastaflanum sem millilög, og eðli þeirra fer meðal annars eftir því loftslagi sem ríkti þegar þau mynduðust. Sé millilagið forn jökulruðningur, með jökulrispuðum hnullungum og jökulleir, er það vísbending um kuldaskeið. Séu í millilögunum merki um suðræna skóga var loftslagið greinilega hlýtt, og svo framvegis.
Hraunlögin í jarðlagastaflanum eru aldursgreind með ýmsum aðferðum, ekki síst með segultímatalinu svonefnda, sem aftur styðst við K-Ar- (kalín-argon) eða Ar-Ar-aldursgreiningar. Hér á landi eru vísbendingar um að ísöld hafi hafist fyrir um 3 milljónum ára — jarðsöguskeiðið pleistósen hófst hins vegar samkvæmt samþykktum ísaldarjarðfræðinga fyrir um 2,68 milljónum ára, en á Íslandi hlaut ísöld að hefjast tiltölulega snemma vegna legu landsins.
Loks má geta þess að pleistósen-ísöldin er alls ekki hin fyrsta í sögu jarðar, og víða má finna í fornum jarðlögum ísaldarmenjar eins og þær sem lýst var í upphafi þessa pistils. Þar kemur hins vegar margt við sögu, svo sem lega meginlandanna sem sífellt rekur um yfirborð jarðarkringlunnar, og hæð yfir sjávarmál — jafnvel á miðbaug eru jöklar á hæstu fjöllum.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Sigurður Steinþórsson. „Hvaða heimildir hafa vísindamenn fyrir því hvenær ísöldin hafi verið?“ Vísindavefurinn, 2. júlí 2001, sótt 13. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1760.
Sigurður Steinþórsson. (2001, 2. júlí). Hvaða heimildir hafa vísindamenn fyrir því hvenær ísöldin hafi verið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1760
Sigurður Steinþórsson. „Hvaða heimildir hafa vísindamenn fyrir því hvenær ísöldin hafi verið?“ Vísindavefurinn. 2. júl. 2001. Vefsíða. 13. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1760>.