Öllum þeim sem búsettir eru hér á landi er skylt að skila inn skattframtali, samanber 1. tölulið 1. málsgrein 1. greinar laga númer 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum. Engu breytir hve miklar eignir menn eiga eða hvort þeir eiga eignir á annað borð. Sambúðarfólki er skylt að skila sameiginlegu skattframtali óski það eftir samsköttun samanber 3. málsgrein 63. greinar sömu laga. Samskattað sambúðarfólk er skattlagt eins og hjón. Sambúðarfólk sem á sameiginlegt lögheimili á rétt á að vera samskattað ef það á barn saman eða konan er þunguð eða ef sambúð hefur varað samfellt í að minnsta kosti eitt ár.
Einstaklingar sem búa saman en eiga ekki rétt á samsköttun eða fullnægja skilyrðum fyrir samsköttun en óska ekki eftir henni skila hvor sínu skattframtali. Er þá hvort um sig skattlagt sem einhleypingur. Eigandi eignanna færir þær þá á sitt eigið skattframtal. Sé um sameign beggja að ræða á hlutur hvors um sig að færast á viðkomandi framtal. Barnabætur og vaxtabætur reiknast eins og hjá hjónum og skiptast jafnt á milli þeirra við álagningu jafnvel þótt ekki sé um samsköttun að ræða. Börn á heimili sambúðarfólks eru skráð á forsíðu skattframtals beggja foreldra. Einstaklingar í staðfestri samvist skulu ávallt telja fram og vera skattlagðir eins og hjón, samanber 4. málsgrein 63. greinar sömu laga.
Heimild
Leiðbeiningar RSK vegna álagningar 2001
Mynd: HB