Sólin Sólin Rís 03:29 • sest 23:24 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 03:35 • Sest 09:46 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 10:38 • Síðdegis: 23:07 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 04:33 • Síðdegis: 16:38 í Reykjavík

Í Hávamálum er sagt að margur verði af aurum api. Hefur höfundurinn vitað hvað api var?

Helgi Skúli Kjartansson

Það er ekki útilokað að höfundur þessara orða hafi vitað eitt og annað um apa. Sennilegra er samt að þarna sé bara verið að nota niðrunarorðið api (í merkingunni „auli, fífl, þurs“) á líkan hátt og Íslendingar lærðu seinna að kalla hver annan asna án þess að hafa nein persónuleg kynni af því ágæta hófdýri. Þeir höfðu bara lært það af fyrirmynd nágrannaþjóðanna — „apað eftir“ þeim, eins og við getum líka tekið til orða án þess að hugsa neitt út í hvernig „eftiröpun“ tengist frændum okkar í dýraríkinu.

Um dýrið „apa“ eru notuð samsvarandi orð á öllum germönskum málum. Allt er óljóst um uppruna þeirra og frummerkingu. Kannski var orðið fyrst haft um klifurdýrin og svo yfirfært á kjánalegt fólk (líkt og talað er um mann sem þorsk, naut, sauð og svo framvegis). En það má líka hugsa sér að niðrunarmerkingin sé upphafleg og svo hafi aparnir fengið sama heiti fyrir sitt kátlega athæfi.Meðan norrænir menn trúðu á jötna var api eitt þeirra niðrunarheita sem þeim voru valin (mjög ómaklega, því að jötnar voru taldir „hundvísir“, það er að segja stórvitrir). Þess vegna bregður því líka fyrir í fornu skáldamáli að orðið api merki beinlínis „jötunn“. En í því heiti felst engin líking við klifurdýrin, enda hafa Germanir að fornu ekki haft neina hugmynd um apatröll eins og górillur, heldur aðeins litla og fjöruga „apaketti“.

Fyrstu kynslóðir Íslendinga hafa varla vitað neitt af öpum, og fram eftir öldum hefur þekking á þeim verið á fárra manna færi. Tamdir apar voru þó til í Evrópu á miðöldum og notaðir meðal annars í trúðasýningum. Þar hafa norrænir ferðalangar kynnst þeim, til dæmis á pílagrímsferðum. Apar koma líka fyrir í kristilegum ritum sem lærðir menn lásu á latínu og þýddu sum hver á íslensku eða norrænu. Þar nota þeir apa-heitið, sjálfsagt eftir fyrirmynd samsvarandi orða í þýsku eða ensku.

Hvað þá um höfund Hávamála? Hann er reyndar persóna sem vissast er að tala varlega um. Þau Hávamál, sem við þekkjum undir því nafni, hefur vissulega einhver búið til, en ekki með því að yrkja þau heldur með því að safna saman kveðskap sem lifað hafði á vörum fólks lengur eða skemur — og varla lifað lengi alveg óbreyttur.

Gestaþáttur Hávamála, sá hlutinn sem apinn er nefndur í, var löngum talinn ævaforn. En þá hlytu samt einstakar vísur að hafa breyst og bæst við í munnlegri geymd. Og þó að þátturinn sé kannski ekki eldri en frá 12. öld, eins og Hermann Pálsson hefur fært rök fyrir, þá geta samt einstök erindi eða ljóðlínur átt sér miklu eldri rætur, íslenskar eða norskar.

Ljóðlínan „margur verður af aurum api“ sver sig fremur í ætt þess sem telja má ungt í Hávamálum. En hver sem mótaði hana í fyrstu hefur varla verið að líkja ríkum manni við dýrið apa heldur nota um hann viðtekið niðrunarorð.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

Helgi Skúli Kjartansson

prófessor í sagnfræði, Menntavísindasviði HÍ

Útgáfudagur

3.9.2001

Spyrjandi

Arnar Hinriksson, f. 1989

Tilvísun

Helgi Skúli Kjartansson. „Í Hávamálum er sagt að margur verði af aurum api. Hefur höfundurinn vitað hvað api var?“ Vísindavefurinn, 3. september 2001. Sótt 29. maí 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1857.

Helgi Skúli Kjartansson. (2001, 3. september). Í Hávamálum er sagt að margur verði af aurum api. Hefur höfundurinn vitað hvað api var? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1857

Helgi Skúli Kjartansson. „Í Hávamálum er sagt að margur verði af aurum api. Hefur höfundurinn vitað hvað api var?“ Vísindavefurinn. 3. sep. 2001. Vefsíða. 29. maí. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1857>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Í Hávamálum er sagt að margur verði af aurum api. Hefur höfundurinn vitað hvað api var?
Það er ekki útilokað að höfundur þessara orða hafi vitað eitt og annað um apa. Sennilegra er samt að þarna sé bara verið að nota niðrunarorðið api (í merkingunni „auli, fífl, þurs“) á líkan hátt og Íslendingar lærðu seinna að kalla hver annan asna án þess að hafa nein persónuleg kynni af því ágæta hófdýri. Þeir höfðu bara lært það af fyrirmynd nágrannaþjóðanna — „apað eftir“ þeim, eins og við getum líka tekið til orða án þess að hugsa neitt út í hvernig „eftiröpun“ tengist frændum okkar í dýraríkinu.

Um dýrið „apa“ eru notuð samsvarandi orð á öllum germönskum málum. Allt er óljóst um uppruna þeirra og frummerkingu. Kannski var orðið fyrst haft um klifurdýrin og svo yfirfært á kjánalegt fólk (líkt og talað er um mann sem þorsk, naut, sauð og svo framvegis). En það má líka hugsa sér að niðrunarmerkingin sé upphafleg og svo hafi aparnir fengið sama heiti fyrir sitt kátlega athæfi.Meðan norrænir menn trúðu á jötna var api eitt þeirra niðrunarheita sem þeim voru valin (mjög ómaklega, því að jötnar voru taldir „hundvísir“, það er að segja stórvitrir). Þess vegna bregður því líka fyrir í fornu skáldamáli að orðið api merki beinlínis „jötunn“. En í því heiti felst engin líking við klifurdýrin, enda hafa Germanir að fornu ekki haft neina hugmynd um apatröll eins og górillur, heldur aðeins litla og fjöruga „apaketti“.

Fyrstu kynslóðir Íslendinga hafa varla vitað neitt af öpum, og fram eftir öldum hefur þekking á þeim verið á fárra manna færi. Tamdir apar voru þó til í Evrópu á miðöldum og notaðir meðal annars í trúðasýningum. Þar hafa norrænir ferðalangar kynnst þeim, til dæmis á pílagrímsferðum. Apar koma líka fyrir í kristilegum ritum sem lærðir menn lásu á latínu og þýddu sum hver á íslensku eða norrænu. Þar nota þeir apa-heitið, sjálfsagt eftir fyrirmynd samsvarandi orða í þýsku eða ensku.

Hvað þá um höfund Hávamála? Hann er reyndar persóna sem vissast er að tala varlega um. Þau Hávamál, sem við þekkjum undir því nafni, hefur vissulega einhver búið til, en ekki með því að yrkja þau heldur með því að safna saman kveðskap sem lifað hafði á vörum fólks lengur eða skemur — og varla lifað lengi alveg óbreyttur.

Gestaþáttur Hávamála, sá hlutinn sem apinn er nefndur í, var löngum talinn ævaforn. En þá hlytu samt einstakar vísur að hafa breyst og bæst við í munnlegri geymd. Og þó að þátturinn sé kannski ekki eldri en frá 12. öld, eins og Hermann Pálsson hefur fært rök fyrir, þá geta samt einstök erindi eða ljóðlínur átt sér miklu eldri rætur, íslenskar eða norskar.

Ljóðlínan „margur verður af aurum api“ sver sig fremur í ætt þess sem telja má ungt í Hávamálum. En hver sem mótaði hana í fyrstu hefur varla verið að líkja ríkum manni við dýrið apa heldur nota um hann viðtekið niðrunarorð.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...