Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Flestir skrifanlegir geisladiskar eru þannig að aðeins er hægt að skrifa þá einu sinni, svokallaðir CD-R diskar (e. CD-recordable discs). Það sem hér kemur á eftir á eingöngu við um þá diska.
Tómir skrifanlegir geisladiskar hafa engin gögn. Spíralbrautin á disknum hefur því engar holur fyrir leysigeislann til að lesa. Hins vegar hafa skrifanlegir geisladiskar örþunnt lag með hálfgegnsæjum lit. Þegar slíkur geisladiskur er "brenndur", þá lýsir skrif-leysigeislinn á litalagið og hitar það upp. Við þetta dökknar liturinn og endurskinseiginleikar hans breytast; liturinn er orðinn ógegnsær. Þannig eru búnar til "holur" á spíralbrautina. Þetta eru hins vegar ekki raunverulegar holur eins og á venjulegum geisladiskum, heldur svæði sem gefa mismunandi mikið endurskin; óbrenndu svæðin hleypa lestrar-leysigeislanum í gegnum sig og hann endurkastast á mállaginu inn í nemann, brenndu svæðin hleypa hins vegar lestrar-leysigeislanum ekki í gegnum sig og því berst leysigeislinn sem lýsir á brenndu svæðin ekki til nemans. Lestrar-leysigeislinn skynjar því brenndu svæðin sem holur þegar diskurinn er lesinn.
Þar sem að litalagið er í raun brennt með skrif-geislanum þá er ekki hægt að endurskrifa þau svæði disksins sem búið er að brenna, ekki frekar en hægt er að afsjóða egg!.
Venjulegur geisladiskur (CD-ROM) samanstendur af fjórum lögum: gegnsæju plastlagi (1), málmlagi (2), lakklagi sem verndar málmlagið fyrir oxun (3) og merkimiða (4). Lestrar-leysigeislinn (5) endurkastast af málmlaginu inn í nema.
Helsta vandamál við skrifanlega geisladiska er að útfjólublátt ljós, til dæmis sólarljós, hefur áhrif á litalagið og getur þar með skemmt gögnin á diskunum. Ef skrifanlegur geisladiskur er látinn liggja með neðri hliðina upp á móti sólinni þá fara gögnin á disknum fljótlega að skemmast. Það er misjafnt eftir gerðum diska hversu langan tíma það tekur fyrir útfjólubláa ljósið að hafa áhrif; það getur verið frá nokkrum dögum upp í nokkrar vikur. Það er því mjög mikilvægt að skrifanlegir geisladiskar séu ekki geymdir þar sem sólarljós kemst að þeim. Þetta á ekki við um venjulega geisladiska, því þeir eru með raunverulegum holum á spíralbrautinni og sólarljós hefur engin áhrif á þær.
Skrifanlegur geisladiskur (CD-R) samanstendur af fimm lögum: gegnsæju plastlagi (1), litarlagi (2), málmlagi (3), lakklagi sem verndar málmlagið fyrir oxun (4) og merkimiða (5). Lestrar-leysigeislinn (6) fer í gegnum óbrennda litarlagið og endurkastast af málmlaginu inn í nema.
Hins vegar hefur sólarljós almennt ekki góð áhrif á plast, þannig að það ætti að forðast að geyma alla geisladiska í beinu sólarljósi. Framleiðendur skrifanlegra geisladiska gefa yfirleitt upp að þeir ættu að endast í 75-100 ár. Það er þó mjög erfitt að staðfesta þessar staðhæfingar, en vitað er að skrifanlegir geisladiskar eru mun viðkvæmari en venjulegir diskar fyrir miklum hita, rispum og fyrir beinu sólarljósi. Það er því vissara að geyma afritsdiska á þurrum, svölum og dimmum stað til að tryggja að þeir endist. Það er svo annað mál hvort til verði spilarar til að lesa þessa diska eftir 75 ár!
Frekara lesefni af Vísindavefnum:
Hjálmtýr Hafsteinsson. „Er einhver munur á tómum geisladiski og geisladiski sem er búið að brenna efni á?“ Vísindavefurinn, 10. september 2010, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=18783.
Hjálmtýr Hafsteinsson. (2010, 10. september). Er einhver munur á tómum geisladiski og geisladiski sem er búið að brenna efni á? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=18783
Hjálmtýr Hafsteinsson. „Er einhver munur á tómum geisladiski og geisladiski sem er búið að brenna efni á?“ Vísindavefurinn. 10. sep. 2010. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=18783>.