Misjafnt er eftir háskólum hvernig nám í stjarneðlisfræði er skipulagt. Ef Háskóli Íslands er tekinn sem dæmi þá er núna hægt að ljúka þar meistaraprófi á 5 árum. Hyggilegt er fyrir framhaldsskólanema sem hefur hug á slíku háskólanámi að leggja áherslu á stærðfræði og eðlisfræði í menntaskólanum. Í háskóla mundi hann eða hún fyrst taka BS-próf í eðlisfræði, með nokkrum námskeiðum í stjarnvísindum, og jafnvel velja sér líka námskeið í öðrum greinum sem nýtast sérstaklega í stjarneðlisfræði. MS-námið sjálft fer fram undir handleiðslu tiltekins kennara og um helmingur þess felst í rannsóknarverkefni. Nemandinn fer venjulega til útlanda í eitt misseri eða svo og tekur þar námskeið um stjarnvísindi. Um þetta má lesa nánar í Kennsluskrá Háskóla Íslands sem kemur út í bók á hverju ári og er auk þess birt á vefsetri skólans.
Við erlenda háskóla eru til fleiri leiðir, til dæmis þannig að sérhæfing byrji fyrr. Ef menn ætla sér til útlanda strax eftir stúdentspróf er eðlilegt að velja skóla þar sem öflugar rannsóknir fara fram á þessu sviði. Stjarneðlisfræði heitir á ensku 'astrophysics' og má fá frekari upplýsingar með því að nota það orð í leitarvélum á Veraldarvefnum. Einnig er hægt að snúa sér til stjarnvísindamanna við Háskóla Íslands.
Mynd: spaceweather.com