Upphafleg spurning var: „Hvaðan kemur íslenska sauðféð, er það frá Írum eða Norðmönnum o.s.frv. og hvernig er það blandað?"Það voru landnámsmennirnir sem komu með fyrsta sauðféð til landsins frá Noregi fyrir meira en 1100 árum. Fræðimenn telja að það hafi ekki verið margt í upphafi en fjölgað sér mjög hratt fyrstu áratugi byggðar. Íslenska sauðféð er grein af svokölluðu stuttrófufé, sem áður fyrr var mjög algengt um alla norðanverða Evrópu, en finnst í dag einungis í litlum mæli austur í Rússlandi, Finnlandi, Svíþjóð, Noregi, Orkneyjum, Hjaltlandi og Færeyjum. Helstu eiginleikar ullarinnar af íslensku sauðkindinni eru svolítið sérstæðir miðað við það sem þekkist hjá sauðfé víðast annars staðar í heiminum. Hjá þeirri íslensku eru tvær tegundir hára mest áberandi í ullinni. Það eru annars vegar toghár sem eru löng með litlum bylgjum og fremur gróf. Hins vegar eru þelhár sem eru fremur stutt og mjög fín og létt. Hjá öðrum sauðfjárkynjum í heiminum er yfirleitt mjög lítill munur á lengd og grófleika á togi og þeli. Slík ull hentar oftast betur til spuna í band en ull íslensku kindarinnar. Ef menn skoða ullina á skandinavísku sauðfé er ljóst að hún líkist mjög ullinni á sauðkindinni okkar, ólíkt því sem er ef við berum ullina við sauðfé frá Bretlandseyjum. Á 19. öld vaknaði mikill áhugi á ræktun og kynbótum meðal búfjárbænda á meginlandi Evrópu og í Bretlandi. Þessi mikli áhugi náði ekki til Íslands og því telja menn að íslenska sauðkindin hafi haldið sérkennum sínum í aldanna rás. Það leikur því lítill vafi á því að íslenska sauðkindin sé ættuð frá Skandinavíu, og okkur er ekki kunnugt um að íslenskir búfjárbændur hafi sótt sauðfé frá Írlandi til að kynbæta íslenska stofninn.
Hvaðan kemur íslenska sauðféð?
Útgáfudagur
8.10.2001
Spyrjandi
Páll Sigurðsson, f. 1984
Tilvísun
Jón Már Halldórsson. „Hvaðan kemur íslenska sauðféð?“ Vísindavefurinn, 8. október 2001, sótt 5. nóvember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1898.
Jón Már Halldórsson. (2001, 8. október). Hvaðan kemur íslenska sauðféð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1898
Jón Már Halldórsson. „Hvaðan kemur íslenska sauðféð?“ Vísindavefurinn. 8. okt. 2001. Vefsíða. 5. nóv. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1898>.