Svarið er já; það er hægt að gefa þessum orðum merkingu á skynsamlegan hátt á grundvelli stjörnufræðinnar, og kannski má bæði hafa af því nokkurt gagn og gaman!
Jörðin er kúla eins og kunnugt er og sólin er á hverjum tíma beint yfir einhverjum tilteknum stað á jörðinni. Gegnum þennan stað má draga "línu" í norður og suður en línan verður raunar að stórhring sem kallað er, það er að segja hring á yfirborði jarðar sem liggur um þennan stað og um bæði heimskautin (pólana). Þessi hringur skiptir yfirborði jarðar í tvær jafnar hálfkúlur. Eðlilegt er að segja að þeir sem eru á hálfkúlunni sem er fyrir austan bogann gegnum staðinn séu "fyrir austan sól" en hinir fyrir vestan hana.
Hálfkúlurnar markast á daghlið jarðar af þeim stöðum þar sem sólin er í hádegisstað en á næturhliðinni af stöðum þar sem miðnætti er samkvæmt sólartíma. Hver staður á jörðinni er fyrir austan sól í 12 klukkustundir í senn, frá hádegi til miðnættis, en fyrir vestan hana hina 12 tímana. Þetta tengist hins vegar ekki árstíðarskiptum utan hvað málið flækist svolítið á heimskautasvæðunum sumar og vetur.
Orðin "fyrir sunnan mána" má skilgreina á hliðstæðan hátt. Við finnum staðinn sem er beint undir mánanum á tilteknum tíma. Þeir sem eru fyrir sunnan breiddarbaug staðarins eru þá fyrir sunnan mána. Breidd tunglsins getur mest orðið um 28,5 gráður í hvora átt, þannig að þeir sem halda sig fyrir sunnan 28,5 gráður suðlægrar breiddar eru þannig alltaf fyrir sunnan mána. Þeir sem eru fyrir norðan 28,5 gráður eru aldrei fyrir sunnan mána enda er hann alltaf fyrir sunnan okkur og fyrir sunnan hvirfilpunkt himins frá okkur séð.
Hinir sem búa í hitabeltinu og næsta nágrenni þess eru ýmist fyrir sunnan eða norðan mánann. Þeir sem búa á miðbaug eru til dæmis alltaf sem næst hálfan tunglmánuð sunnan mánans en hinn helminginn norðan hans.
Með því að tengja saman þessi tvö atriði hér á undan má sjá hverjir eru á hverjum tíma "fyrir austan sól og sunnan mána".
Mynd: HB