Heiti gríska bókstafsins µ er borið fram 'my'. Þegar stafurinn er notaður í heitum eininga táknar hann forskeytið 'míkró-'. Þannig er 'µm' lesið sem 'míkrómetri' (stundum raunar sem 'míkron') og 'µA' er 'míkróamper'. Forskeytið táknar einn milljónasta hluta á sama hátt og 'millí-' táknar einn þúsundasta og 'kíló-' táknar þúsund.
Lengdin 1 µm er þess vegna einn milljónasti hluti úr metra eða einn þúsundasti úr millímetra. Straumurinn 1 µA er á sama hátt einn milljónasti úr amper.
Frekara lesefni af Vísindavefnum:- Hver eru heiti allra eininga metrakerfisins? Hvað ræður nafngiftinni? eftir HMS
- Get ég fengið að sjá gríska stafrófið? eftir Jón Gunnar Þorsteinsson
Mynd: HB