Ræktunarafbrigðið Golden Retriever er upprunnið í Skotlandi um miðja 19. öld. Upphaflega var þetta afbrigði ræktað úr tveimur gamalkunnugum hundakynjum, Yellow Wavy-coated Retriever og Tweed Water Spaniel. Það var sir Dudley Marjoriebanks sem ætlaði sér að rækta hið fullkomna afbrigði veiðihunda og um 1835 byrjaði hann að keppa að því markmiði. Útkoman varð ræktunarafbrigði sem kallað er Golden Retriever.
Þeir eiginleikar sem Marjoriebanks sóttist eftir voru meðal annars góð líkamsbygging, hlýr feldur, vingjarnlegt viðmót, vatnssækni og veiðieðli. Allir þessir eiginleikar koma vel fram hjá hundum af afbrigðinu Golden Retriever.
Upphaflega voru þessir hundar notaðir til að sækja bráð skotveiðimanna, aðallega vatnafugla því að hlýr og þykkur feldur þeirra hentar vel til að vaða eftir fugli í köldum vötnum skoska hálendisins.
Vinsældir Golden-Retriever-hunda jukust jafnt og þétt þegar leið á 20. öldina, bæði sem gæludýrs og vinnuhunds. Sérstaklega hafa þeir verið mikið notaðir sem blindrahundar og fíkniefnahundar.
Eins og áður segir voru hundar af kyninu Yellow Wavy-coated Retriever notaðir til að ná fram vissum einkennum við ræktun Golden Retriever. Yellow-Wavy-coated-Retriever hundar þessir eru forfeður hinna vinsælu Labrador-Retriever-hunda og því er skyldleikinn á milli Golden Retriever og Labrador Retriever mikill enda er líkamsbygging þeirra mjög áþekk.
Hitt afbrigðið sem Marjoriebanks notaði, Tweed Water Spaniel, er talið útdautt og uppruni þess lítt þekktur. Talið er að Marjoriebanks hafi sótt eiginleika eins og sækni í bráð og gott lundarfar frá afbrigðinu Tweed Water Spaniel.
Mynd af Golden Retriever: Of Lyndiewood Golden Retriever Mynd af Labrador Retriever: Labrador Retriever Rescue, Inc.