Sólin Sólin Rís 09:01 • sest 18:23 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:51 • Sest 10:05 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:38 • Síðdegis: 18:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:59 • Síðdegis: 24:01 í Reykjavík

Hvað samdi Anton Bruckner margar sinfóníur?

Árni Heimir Ingólfsson

Anton Bruckner (1824-96) var eitt af helstu sinfóníutónskáldum Vínarborgar á síðustu áratugum 19. aldar. Hann samdi 11 sinfóníur, en tvær hinar elstu voru ekki gefnar út fyrr en að honum látnum. Þar sem ekki þótti við hæfi að gefa þeim númerin 10 og 11 eru þær almennt kallaðar sinfóníur nr. 0 og nr. 00.

Bruckner var fæddur í smáþorpi nærri Linz í Austurríki og hóf feril sinn sem organisti við Florianklaustrið þar í grennd. Hann var eitt af hinum seinþroska tónskáldum sögunnar. Hann var fær organisti en var kominn yfir þrítugt þegar hann hóf eiginlegt tónsmíðanám. Til Vínarborgar fluttist hann 44 ára og tók við prófessorstöðu í hljómfræði við tónlistarskólann, en viðurkenningin lét á sér standa. Sumir töldu hann lítið annað en sveitadurg og aldrei fékk hann stöðu sem tónsmíðaprófessor.

Anton Bruckner (1824-96).

Vínarfílharmónían hafnaði fyrstu tveimur sinfóníum hans og frumflutningi þeirrar þriðju (1877, með tónskáldið sjálft á stjórnandapallinum) var afspyrnu illa tekið. Sumir gengu út, aðrir bauluðu og hrópuðu ókvæðisorð. Bruckner stóð á sextugu þegar sinfóníur hans tóku loks að vekja almenna athygli. Það markaði tímamót á ferlinum þegar sjöunda sinfónía hans var leikin í Leipzig á minningartónleikum um Richard Wagner árið 1884. Bruckner vann að sinfóníunni einmitt um það leyti sem Wagner féll frá og taldi sig hafa fengið hugboð um lát hans sem hann túlkaði í hæga þættinum.

Slæmar viðtökur um árabil höfðu grafið undan sjálfstraustinu og sárin greru seint. Bruckner var þjakaður af minnimáttarkennd og viðnám hans var lítið þegar nemendur hans og samstarfsmenn lögðu til margvíslegar breytingar á verkum hans, ekki síst styttingar. Stundum samþykkti hann breytingarnar möglunarlaust, í öðrum tilvikum voru þær gerðar án hans vitundar. Síðasta áratuginn sem Bruckner lifði tók hann sjálfur fullan þátt í „lagfæringarmaníunni“, eins og þessi furðulega árátta höfundarins hefur verið kölluð. Afleiðingin er að í flestum tilvikum eru til þrjár eða fjórar ólíkar útgáfur af sinfóníum Bruckners og fræðimenn 20. aldar höfðu ærinn starfa við að greiða úr flækjunni.

Allar eru sinfóníur Bruckners með hefðbundnu fjögurra þátta sniði, að þeirri níundu og síðustu undanskilinni. Hann lést frá henni ófullgerðri og tíðkast hefur að flytja hana án lokakaflans sem hann skildi við í skissuformi. Í öllum sinfóníum hans er augljóst hvert innblásturinn er sóttur; hann var sífellt með Níundu sinfóníu Beethovens í höfðinu. Margar sinfóníur Bruckners hefjast einmitt á sama hátt, á örveikum, titrandi tóni sem með tíð og tíma fæðir af sér stef – eins og hlustandinn heyri heilan heim verða til. Í hægum þáttum skiptir Bruckner oftast nær milli tilbrigða við tvö meginstef, rétt eins og Beethoven í Níundu sinfóníunni. Í scherzo-þáttunum má oft heyra enduróm ljúfra austurrískra sveitadansa og lokakaflinn er stórbrotið niðurlag.

Mynd:


Þetta svar er stytt og aðeins aðlöguð útgáfa af umfjöllun um Anton Bruckner í bókinni Saga tónlistarinnar sem Forlagið gaf út árið 2016 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

Höfundur

Árni Heimir Ingólfsson

tónlistarfræðingur

Útgáfudagur

2.5.2017

Spyrjandi

Atli Sigurðsson

Tilvísun

Árni Heimir Ingólfsson. „Hvað samdi Anton Bruckner margar sinfóníur?“ Vísindavefurinn, 2. maí 2017. Sótt 22. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=19707.

Árni Heimir Ingólfsson. (2017, 2. maí). Hvað samdi Anton Bruckner margar sinfóníur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=19707

Árni Heimir Ingólfsson. „Hvað samdi Anton Bruckner margar sinfóníur?“ Vísindavefurinn. 2. maí. 2017. Vefsíða. 22. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=19707>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað samdi Anton Bruckner margar sinfóníur?
Anton Bruckner (1824-96) var eitt af helstu sinfóníutónskáldum Vínarborgar á síðustu áratugum 19. aldar. Hann samdi 11 sinfóníur, en tvær hinar elstu voru ekki gefnar út fyrr en að honum látnum. Þar sem ekki þótti við hæfi að gefa þeim númerin 10 og 11 eru þær almennt kallaðar sinfóníur nr. 0 og nr. 00.

Bruckner var fæddur í smáþorpi nærri Linz í Austurríki og hóf feril sinn sem organisti við Florianklaustrið þar í grennd. Hann var eitt af hinum seinþroska tónskáldum sögunnar. Hann var fær organisti en var kominn yfir þrítugt þegar hann hóf eiginlegt tónsmíðanám. Til Vínarborgar fluttist hann 44 ára og tók við prófessorstöðu í hljómfræði við tónlistarskólann, en viðurkenningin lét á sér standa. Sumir töldu hann lítið annað en sveitadurg og aldrei fékk hann stöðu sem tónsmíðaprófessor.

Anton Bruckner (1824-96).

Vínarfílharmónían hafnaði fyrstu tveimur sinfóníum hans og frumflutningi þeirrar þriðju (1877, með tónskáldið sjálft á stjórnandapallinum) var afspyrnu illa tekið. Sumir gengu út, aðrir bauluðu og hrópuðu ókvæðisorð. Bruckner stóð á sextugu þegar sinfóníur hans tóku loks að vekja almenna athygli. Það markaði tímamót á ferlinum þegar sjöunda sinfónía hans var leikin í Leipzig á minningartónleikum um Richard Wagner árið 1884. Bruckner vann að sinfóníunni einmitt um það leyti sem Wagner féll frá og taldi sig hafa fengið hugboð um lát hans sem hann túlkaði í hæga þættinum.

Slæmar viðtökur um árabil höfðu grafið undan sjálfstraustinu og sárin greru seint. Bruckner var þjakaður af minnimáttarkennd og viðnám hans var lítið þegar nemendur hans og samstarfsmenn lögðu til margvíslegar breytingar á verkum hans, ekki síst styttingar. Stundum samþykkti hann breytingarnar möglunarlaust, í öðrum tilvikum voru þær gerðar án hans vitundar. Síðasta áratuginn sem Bruckner lifði tók hann sjálfur fullan þátt í „lagfæringarmaníunni“, eins og þessi furðulega árátta höfundarins hefur verið kölluð. Afleiðingin er að í flestum tilvikum eru til þrjár eða fjórar ólíkar útgáfur af sinfóníum Bruckners og fræðimenn 20. aldar höfðu ærinn starfa við að greiða úr flækjunni.

Allar eru sinfóníur Bruckners með hefðbundnu fjögurra þátta sniði, að þeirri níundu og síðustu undanskilinni. Hann lést frá henni ófullgerðri og tíðkast hefur að flytja hana án lokakaflans sem hann skildi við í skissuformi. Í öllum sinfóníum hans er augljóst hvert innblásturinn er sóttur; hann var sífellt með Níundu sinfóníu Beethovens í höfðinu. Margar sinfóníur Bruckners hefjast einmitt á sama hátt, á örveikum, titrandi tóni sem með tíð og tíma fæðir af sér stef – eins og hlustandinn heyri heilan heim verða til. Í hægum þáttum skiptir Bruckner oftast nær milli tilbrigða við tvö meginstef, rétt eins og Beethoven í Níundu sinfóníunni. Í scherzo-þáttunum má oft heyra enduróm ljúfra austurrískra sveitadansa og lokakaflinn er stórbrotið niðurlag.

Mynd:


Þetta svar er stytt og aðeins aðlöguð útgáfa af umfjöllun um Anton Bruckner í bókinni Saga tónlistarinnar sem Forlagið gaf út árið 2016 og birt með góðfúslegu leyfi höfundar og útgefanda.

...