Sólin Sólin Rís 03:39 • sest 23:26 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:44 • Sest 23:45 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:16 • Síðdegis: 24:35 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:54 • Síðdegis: 18:27 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:39 • sest 23:26 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:44 • Sest 23:45 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 12:16 • Síðdegis: 24:35 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:54 • Síðdegis: 18:27 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvert var helsta hlutverk Heimdalls í norrænu goðafræðinni? Hvað gerði hann í ragnarökum?

Kolfinna Jónatansdóttir

Guðinn Heimdallur kemur fyrir í flestum þeim rituðu heimildum sem til eru um norræna goðafræði, stundum er einungis minnst á hann en á öðrum stöðum er honum lýst í lengra máli. Helstu heimildir okkar um Heimdall og hlutverk hans eru Snorra-Edda og eddukvæðin Grímnismál, Hyndluljóð, Lokasenna, Þrymskviða, Rígsþula og Völuspá. Deilt hefur verið um aldur þessara heimilda en elstu handritin sem geyma þær eru frá 13. öld, og því rituð meira en 200 árum eftir að kristni var tekin upp og því ljóst að margt tengt goðsögum hefur afbakast, gleymst eða glatast á þeim tíma. Í Snorra-Eddu er til dæmis vitnað til tveggja nú glataðra kvæða þar sem Heimdallur virðist hafa leikið stórt hlutverk, Heimdallargaldurs og Húsdrápu. Engin merki eru um að Heimdallur hafi verið tilbeðinn og engar heimildir eru um hann á germönsku svæði utan Norðurlandanna, en hliðstæður margra annarra norrænna guða má finna í germönskum heimildum.

Margt af því sem fram kemur um Heimdall í framangreindum heimildum er brotakennt og óljóst og erfitt er að búa til heildstæða mynd af guðinum og hlutverki hans út frá þeim. Jafnvel nafn hans er torskilið og deilt um merkingu þess, heim- virðist vísa annaðhvort til heima eða heims, dallur er torræðara en ein af hugsanlegum skýringartillögum er að það sé skylt fornenska orðinu deall sem merkir bjartur, sem á ágætlega við það að hann er oft kallaður hinn hvíti ás og heitir einnig Gullintanni. Hestur hans heitir Gulltoppur eða Gullintoppur. Annað nafn Heimdallar er Hallinskíði, en orðin hallinskíði og heimdali eru gefin upp í þulum Snorra-Eddu sem heiti á hrútum. Af þeim sökum og vegna þess að sverð getur verið kallað höfuð Heimdallar, sem bendir helst til horna, hafa margir tengt Heimdall við hrúta, líkt og Óðinn er tengdur hröfnum og úlfum og Freyr göltum. En það er ekki eina tengingin á milli höfða, Heimdallar og vopna, sagt er að mannshöfuð hafi orðið Heimdalli að bana, en engar sögur eða nánari skýringar hafa varðveist um það.

Heimdallur á lúðurinn Gjallarhorn og þegar hann blæs í hann þá á það að heyrast í alla heima.

Heimdallur er oftast talinn vera ás, þó að í Þrymskviðu sé gefið í skyn að hann sé vanaættar. Uppruni hans er reyndar ansi sérstakur, því hann á níu mæður sem allar eru systur, í Hyndluljóðum eru þær sagðar vera jötnameyjar sem hafi átt hann við enda jarðar í árdaga. Endi jarðar minnir á skil jarðar og hafs og þar sem systurnar eru níu hefur mörgum þótt nærtækast að tengja mæður Heimdallar við Ægisdæturnar níu, öldurnar. Á tveimur stöðum er Heimdallur sagður vera sonur Óðins en þar sem allmargir guðir eru sagðir synir hans án þess að slík tengsl virðist nokkurn tíma hafa verið þar á milli gæti það verið ung fornfræðileg viðbót og tilraun til að gera Óðin að föður allra ása.

Heimdallur virðist hafa gegnt ákveðnu forfeðrahlutverki, í Völuspá ávarpar völvan meiri og minni syni Heimdallar, óljóst er hvort þar eigi hún við guði eða menn. Til er eddukvæðið Rígsþula þar sem sagt er í formála að Heimdallur sé kallaður Rígur og svo er því lýst hvernig Rígur heimsækir þrenn hjón og fær að hvíla á milli þeirra og allar eignast konurnar syni eftir heimsóknina. Ákveðin stéttaskipting sést á lýsingum á hjónunum sem og á nöfnum og iðju sonanna sem heita Þræll, Karl og Jarl. Kvæðið hefur því stundum verið túlkað sem lýsing á því hvernig stéttir urðu til. Rígur skiptir sér eingöngu af þriðja syninum Jarli og kennir honum ýmis fræði og sér einnig um uppfræðslu sonar hans sem virðist eiga að verða konungur, en kvæðið endar áður en það verður að veruleika. Nafnið Rígur er oft tengt við fornírska orðið ríg sem merkir konungur. Oft er dregið í efa að Rígur sé Heimdallur, þar sem margt í sambandi við hann minnir meira á það sem við vitum um Óðin.

Heimdallur er víða sagður vera vörður goða og virðist það hafa verið hans helsta hlutverk miðað við þær heimildir sem við höfum. Hann býr í Himinbjörgum við enda himins og gætir brúarinnar Bifrastar fyrir bergrisum. Hvergi kemur fram að hann hafi haft einhver völd til að ákveða hver fengi að fara yfir brúna heldur virðist hlutverk hans hafa verið að vara við aðsteðjandi hættu. Hann hefur ótvíræða varðarhæfileika, þarf minni svefn en fugl, sér mörg hundruð kílómetra frá sér hvort sem er að nóttu eða degi og heyrir svo vel að hann heyrir ull vaxa og gras gróa. Hann á lúðurinn Gjallarhorn og þegar hann blæs í hann þá á það að heyrast í alla heima. Þegar ragnarök eru hafin og óvinir ása hafa safnast saman á vellinum Vígríði þá blæs Heimdallur í horn sitt og vekur þar með goðin, sem þinga og Óðinn fer og leitar ráða hjá Mími, áður en þau halda til bardagans.

Í Völuspá kemur fram að Heimdallur hafi falið hljóð sitt undir helgu tré. Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um hvað orðið hljóð merki í því samhengi, hvort það geti verið lúðurinn Gjallarhorn eða hvort Heimdallur fórni heyrn sinni eða eyra, líkt og Óðinn öðru auga sínu, fyrir aukna hæfileika á sama sviði og öðlist þannig hugsanlega yfirnáttúrulega heyrn.

Heimildum ber saman um að Heimdallur blæs í lúður sinn í ragnarökum, en nokkuð óljóst er með hlutverk hans í atburðarásinni eftir það.

Tvær aðalheimildir okkar um atburðarás ragnaraka eru Snorra-Edda og Völuspá, í báðum er því lýst að Heimdallur blási í lúður sinn og í Völuspá er hann ekki nefndur aftur. Í Snorra-Eddu er lýst einvígjum fimm guða við óvætti og síðasta orrustan sem er nefnd er þegar Loki og Heimdallur berjast og drepa hvor annan. Engar lýsingar eru til á bardaga þessara tveggja guða í ragnarökum, en til eru heimildir um að þeir hafi verið fjandvinir og barist við önnur tækifæri. Í Snorra-Eddu er vitnað til kvæðisins Húsdrápu þar sem Loki og Heimdallur berjast í selshömum við Singastein og einnig sagt að þeir hafi deilt um Brísingamen. Ekkert tengir þann bardaga við ragnarök en Kurt Schier hefur bent á hugsanlegar hliðstæður hans við sköpunarsögur utan hins indóevrópska svæðis.

Við erum því með goð sem fæðist í árdaga og deyr við ragnarök en gegnir engu aðalhlutverki í millitíðinni, er jaðarpersóna. Georges Dumézil bar þessa eiginleika Heimdalls saman við indóíranska rammaguði og rammahetjur, sem eiga það sammerkt að vera til við upphaf heims og lok hans en eru aukapersónur á meðan heimurinn er til og sinna oft varðarhlutverki. Einnig hefur verið litið á Heimdall og varðarstöðu hans sem merki um að hann gæti verið táknmynd fyrir veraldartréð eða veraldarsúluna, en hugmyndir um slíkt koma víða fyrir í trúarbrögðum, einkum þeim sem tengjast sjamanisma. Einnig hafa verið uppi hugmyndir um keltnesk áhrif á Heimdall, nafnið Rígur er að öllum líkindum komið úr írsku og til eru keltneskar goðsögur um börn sem eiga níu mæður og höfuð sem notuð eru sem vopn.

Heimildir og frekari fróðleikur:
  • Dumézil, Georges. 1973 [1959]. Gods of the Ancient Northmen [Upphaflegur titill: Les Dieux des Germains, gefin út í Frakklandi 1959]. Ritstjórn/Umsjón með þýðingum: Einar Haugen. University of California Press, Berkely, Los Angeles & London.
  • Schier, Kurt. 1999. Loki og Heimdallur: Athugasemdir um eðli og uppruna tveggja torræðra goða. Heiðin minni: greinar um fornar bókmenntir: 25-46.
  • Um Heimdall og tengsl hans við veraldartréð má meðal annars sjá: Tolley, Clive. 2009. Shamanism in Norse Myth and Magic. Academia Scientiarum Fennica, Helsinki.
  • Um tengsl Heimdallar við írska og keltneska menningu má til dæmis sjá: Sayers, William. 1993. Irish Perspectives on Heimdallr. Alvíssmál 2: 3-30.

Myndir:

Höfundur

doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild HÍ

Útgáfudagur

16.11.2012

Spyrjandi

Guðjón Vésteinsson, Guðrún Katrín

Tilvísun

Kolfinna Jónatansdóttir. „Hvert var helsta hlutverk Heimdalls í norrænu goðafræðinni? Hvað gerði hann í ragnarökum?“ Vísindavefurinn, 16. nóvember 2012, sótt 14. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=19842.

Kolfinna Jónatansdóttir. (2012, 16. nóvember). Hvert var helsta hlutverk Heimdalls í norrænu goðafræðinni? Hvað gerði hann í ragnarökum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=19842

Kolfinna Jónatansdóttir. „Hvert var helsta hlutverk Heimdalls í norrænu goðafræðinni? Hvað gerði hann í ragnarökum?“ Vísindavefurinn. 16. nóv. 2012. Vefsíða. 14. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=19842>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvert var helsta hlutverk Heimdalls í norrænu goðafræðinni? Hvað gerði hann í ragnarökum?
Guðinn Heimdallur kemur fyrir í flestum þeim rituðu heimildum sem til eru um norræna goðafræði, stundum er einungis minnst á hann en á öðrum stöðum er honum lýst í lengra máli. Helstu heimildir okkar um Heimdall og hlutverk hans eru Snorra-Edda og eddukvæðin Grímnismál, Hyndluljóð, Lokasenna, Þrymskviða, Rígsþula og Völuspá. Deilt hefur verið um aldur þessara heimilda en elstu handritin sem geyma þær eru frá 13. öld, og því rituð meira en 200 árum eftir að kristni var tekin upp og því ljóst að margt tengt goðsögum hefur afbakast, gleymst eða glatast á þeim tíma. Í Snorra-Eddu er til dæmis vitnað til tveggja nú glataðra kvæða þar sem Heimdallur virðist hafa leikið stórt hlutverk, Heimdallargaldurs og Húsdrápu. Engin merki eru um að Heimdallur hafi verið tilbeðinn og engar heimildir eru um hann á germönsku svæði utan Norðurlandanna, en hliðstæður margra annarra norrænna guða má finna í germönskum heimildum.

Margt af því sem fram kemur um Heimdall í framangreindum heimildum er brotakennt og óljóst og erfitt er að búa til heildstæða mynd af guðinum og hlutverki hans út frá þeim. Jafnvel nafn hans er torskilið og deilt um merkingu þess, heim- virðist vísa annaðhvort til heima eða heims, dallur er torræðara en ein af hugsanlegum skýringartillögum er að það sé skylt fornenska orðinu deall sem merkir bjartur, sem á ágætlega við það að hann er oft kallaður hinn hvíti ás og heitir einnig Gullintanni. Hestur hans heitir Gulltoppur eða Gullintoppur. Annað nafn Heimdallar er Hallinskíði, en orðin hallinskíði og heimdali eru gefin upp í þulum Snorra-Eddu sem heiti á hrútum. Af þeim sökum og vegna þess að sverð getur verið kallað höfuð Heimdallar, sem bendir helst til horna, hafa margir tengt Heimdall við hrúta, líkt og Óðinn er tengdur hröfnum og úlfum og Freyr göltum. En það er ekki eina tengingin á milli höfða, Heimdallar og vopna, sagt er að mannshöfuð hafi orðið Heimdalli að bana, en engar sögur eða nánari skýringar hafa varðveist um það.

Heimdallur á lúðurinn Gjallarhorn og þegar hann blæs í hann þá á það að heyrast í alla heima.

Heimdallur er oftast talinn vera ás, þó að í Þrymskviðu sé gefið í skyn að hann sé vanaættar. Uppruni hans er reyndar ansi sérstakur, því hann á níu mæður sem allar eru systur, í Hyndluljóðum eru þær sagðar vera jötnameyjar sem hafi átt hann við enda jarðar í árdaga. Endi jarðar minnir á skil jarðar og hafs og þar sem systurnar eru níu hefur mörgum þótt nærtækast að tengja mæður Heimdallar við Ægisdæturnar níu, öldurnar. Á tveimur stöðum er Heimdallur sagður vera sonur Óðins en þar sem allmargir guðir eru sagðir synir hans án þess að slík tengsl virðist nokkurn tíma hafa verið þar á milli gæti það verið ung fornfræðileg viðbót og tilraun til að gera Óðin að föður allra ása.

Heimdallur virðist hafa gegnt ákveðnu forfeðrahlutverki, í Völuspá ávarpar völvan meiri og minni syni Heimdallar, óljóst er hvort þar eigi hún við guði eða menn. Til er eddukvæðið Rígsþula þar sem sagt er í formála að Heimdallur sé kallaður Rígur og svo er því lýst hvernig Rígur heimsækir þrenn hjón og fær að hvíla á milli þeirra og allar eignast konurnar syni eftir heimsóknina. Ákveðin stéttaskipting sést á lýsingum á hjónunum sem og á nöfnum og iðju sonanna sem heita Þræll, Karl og Jarl. Kvæðið hefur því stundum verið túlkað sem lýsing á því hvernig stéttir urðu til. Rígur skiptir sér eingöngu af þriðja syninum Jarli og kennir honum ýmis fræði og sér einnig um uppfræðslu sonar hans sem virðist eiga að verða konungur, en kvæðið endar áður en það verður að veruleika. Nafnið Rígur er oft tengt við fornírska orðið ríg sem merkir konungur. Oft er dregið í efa að Rígur sé Heimdallur, þar sem margt í sambandi við hann minnir meira á það sem við vitum um Óðin.

Heimdallur er víða sagður vera vörður goða og virðist það hafa verið hans helsta hlutverk miðað við þær heimildir sem við höfum. Hann býr í Himinbjörgum við enda himins og gætir brúarinnar Bifrastar fyrir bergrisum. Hvergi kemur fram að hann hafi haft einhver völd til að ákveða hver fengi að fara yfir brúna heldur virðist hlutverk hans hafa verið að vara við aðsteðjandi hættu. Hann hefur ótvíræða varðarhæfileika, þarf minni svefn en fugl, sér mörg hundruð kílómetra frá sér hvort sem er að nóttu eða degi og heyrir svo vel að hann heyrir ull vaxa og gras gróa. Hann á lúðurinn Gjallarhorn og þegar hann blæs í hann þá á það að heyrast í alla heima. Þegar ragnarök eru hafin og óvinir ása hafa safnast saman á vellinum Vígríði þá blæs Heimdallur í horn sitt og vekur þar með goðin, sem þinga og Óðinn fer og leitar ráða hjá Mími, áður en þau halda til bardagans.

Í Völuspá kemur fram að Heimdallur hafi falið hljóð sitt undir helgu tré. Fræðimenn eru ekki á eitt sáttir um hvað orðið hljóð merki í því samhengi, hvort það geti verið lúðurinn Gjallarhorn eða hvort Heimdallur fórni heyrn sinni eða eyra, líkt og Óðinn öðru auga sínu, fyrir aukna hæfileika á sama sviði og öðlist þannig hugsanlega yfirnáttúrulega heyrn.

Heimildum ber saman um að Heimdallur blæs í lúður sinn í ragnarökum, en nokkuð óljóst er með hlutverk hans í atburðarásinni eftir það.

Tvær aðalheimildir okkar um atburðarás ragnaraka eru Snorra-Edda og Völuspá, í báðum er því lýst að Heimdallur blási í lúður sinn og í Völuspá er hann ekki nefndur aftur. Í Snorra-Eddu er lýst einvígjum fimm guða við óvætti og síðasta orrustan sem er nefnd er þegar Loki og Heimdallur berjast og drepa hvor annan. Engar lýsingar eru til á bardaga þessara tveggja guða í ragnarökum, en til eru heimildir um að þeir hafi verið fjandvinir og barist við önnur tækifæri. Í Snorra-Eddu er vitnað til kvæðisins Húsdrápu þar sem Loki og Heimdallur berjast í selshömum við Singastein og einnig sagt að þeir hafi deilt um Brísingamen. Ekkert tengir þann bardaga við ragnarök en Kurt Schier hefur bent á hugsanlegar hliðstæður hans við sköpunarsögur utan hins indóevrópska svæðis.

Við erum því með goð sem fæðist í árdaga og deyr við ragnarök en gegnir engu aðalhlutverki í millitíðinni, er jaðarpersóna. Georges Dumézil bar þessa eiginleika Heimdalls saman við indóíranska rammaguði og rammahetjur, sem eiga það sammerkt að vera til við upphaf heims og lok hans en eru aukapersónur á meðan heimurinn er til og sinna oft varðarhlutverki. Einnig hefur verið litið á Heimdall og varðarstöðu hans sem merki um að hann gæti verið táknmynd fyrir veraldartréð eða veraldarsúluna, en hugmyndir um slíkt koma víða fyrir í trúarbrögðum, einkum þeim sem tengjast sjamanisma. Einnig hafa verið uppi hugmyndir um keltnesk áhrif á Heimdall, nafnið Rígur er að öllum líkindum komið úr írsku og til eru keltneskar goðsögur um börn sem eiga níu mæður og höfuð sem notuð eru sem vopn.

Heimildir og frekari fróðleikur:
  • Dumézil, Georges. 1973 [1959]. Gods of the Ancient Northmen [Upphaflegur titill: Les Dieux des Germains, gefin út í Frakklandi 1959]. Ritstjórn/Umsjón með þýðingum: Einar Haugen. University of California Press, Berkely, Los Angeles & London.
  • Schier, Kurt. 1999. Loki og Heimdallur: Athugasemdir um eðli og uppruna tveggja torræðra goða. Heiðin minni: greinar um fornar bókmenntir: 25-46.
  • Um Heimdall og tengsl hans við veraldartréð má meðal annars sjá: Tolley, Clive. 2009. Shamanism in Norse Myth and Magic. Academia Scientiarum Fennica, Helsinki.
  • Um tengsl Heimdallar við írska og keltneska menningu má til dæmis sjá: Sayers, William. 1993. Irish Perspectives on Heimdallr. Alvíssmál 2: 3-30.

Myndir:...