Í 194. grein almennra hegningarlaga númer 19/1940 með síðari breytingum segir að hver sem með ofbeldi eða hótun um ofbeldi þröngvar manni til holdlegs samræðis eða annarra kynferðismaka skuli sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.
Í 195. grein sömu laga segir hins vegar að hver sem með annars konar ólögmætri nauðung þröngvar manni til samræðis eða annarra kynferðismaka skuli sæta fangelsi allt að 6 árum.
Munurinn á greinunum tveimur er því sá að nauðungin sem um getur í 195. grein er vægari en sú sem fjallað er um í 194. grein. Grein 195 á við það, að brotaþola, sem oftast er kona, sé hótað því að hann verði beittur frelsissviptingu eða ofbeldi eða sakburði um vansæmandi eða refsiverða háttsemi.
HeimildSafn greinargerða við almenn hegningarlög, útgefið af Úlfljóti 1989.
Mynd: Web Gallery of Art, "Dætrum Levkipposar nauðgað" eftir Pieter Pauwel Rubens, frá því um 1618.