Sólin Sólin Rís 03:54 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:46 • Síðdegis: 17:17 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:55 • Síðdegis: 23:37 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:54 • sest 23:12 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:46 • Síðdegis: 17:17 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:55 • Síðdegis: 23:37 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað er allsherjarregla, hvar er hún skilgreind og hver er það sem skilgreinir hana á hverjum tíma?

Halldór Gunnar HaraldssonVíða er í lögum vísað til allsherjarreglu, ekki síst í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Er þá sagt að löggjafanum sé heimilt að takmarka mannréttindin í þágu allsherjarreglu. Þannig segir í 63. grein stjórnarskrárinnar að allir eigi rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins en þó megi ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.

Ennfremur segir í 73. grein að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Hins vegar eru í lögum engar nákvæmar útlistanir á því hvað í allsherjarreglu felst.

Mat á því hvað allsherjarregla sé hlýtur því að mótast af löggjöf og aðstæðum á hverjum tíma. Þannig verður að ætla að löggjafinn hafi til þess ríkan rétt að ákvarða hvað í allsherjarreglu felst í skjóli lagasetningarvalds síns. Jafnframt hlýtur mat á þessu að koma til kasta dómstóla eftir atvikum.

Almennt má þó segja að með allsherjarreglu sé átt við að haldið sé uppi lögum og reglum í samfélaginu eftir því sem nauðsynlegt verður að teljast. Vitaskuld hlýtur mat á þessu að vera nokkuð pólitísks eðlis. Hins vegar hlýtur að mega gera ráð fyrir að í allsherjarreglu felist að minnsta kosti að menn geti gengið um götur óáreittir, viðskipti geti gengið sinn vanagang og að eignir borgaranna séu látnar í friði.

Einfaldast er að skýra hugtakið allsherjarreglu út með því að taka dæmi. Maður hefur frelsi til að tjá þá skoðun sína að séreign sé ekkert annað en stuldur. Hann truflar allsherjarreglu ekki beinlínis með því. Hins vegar kann að gegna öðru máli prédiki hann þessa skoðun sína í gjallarhorn yfir æstum múg sem gerir sig líklegan til að ráðast til atlögu við eignir vel stæðs kaupmanns.

Enn má nefna að almennt teljast menn saklausir uns sekt er sönnuð. En allsherjarregla kann að krefjast þess að grunaður maður sé hnepptur í gæsluvarðhald tímabundið.

Það sem talið er nauðsynlegt til verndar allsherjarreglu kann að vera mismunandi eftir tíðaranda og breytilegum viðhorfum. Þannig er ekki útilokað að viðhorf hafi breyst í kjölfar nýlegra hryðjuverka í Bandaríkjunum þannig að eftir þau verði frekar gengið á réttindi og frelsi borgaranna í skjóli þess að það sé nauðsynlegt til að viðhalda allsherjarreglu.

Í styrjöldum víkur frelsið gjarnan fyrir öðrum hagsmunum. Allsherjarreglu hefur þá verið raskað stórkostlega og frelsi borgaranna er takmarkað tímabundið í því skyni að koma henni aftur á. Þó má ekki gleyma því að stríðsrekstur getur verið brot á allsherjarreglu sé hann ekki í sjálfsvörn.

Þannig hlýtur það að vera matatriði hvað telst allsherjarregla og hvað sé nauðsynlegt til verndar henni. Eitt ber þó að hafa í huga varðandi mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Það er sú staðreynd að frelsið er sett fram sem meginregla en undantekningar frá því svo taldar upp. Það er alkunn regla við lögskýringar að skýra ber undantekningarreglur í lögum þröngt.

Heimildum löggjafans til að skerða frelsið í þágu óljósra markmiða eins og góðs siðferðis, almannahagsmuna og allsherjarreglu eru því í raun settar þrengri skorður en ætla mætti af einni saman orðanna hljóðan. Er það vísast ástæða þess að ekki er talin þörf á að skýra þessi hugtök betur út í lögum en raun ber vitni.

Þá ber og að hafa í huga reglu skaðabótaréttar um tengsl tjóns við skaðvæna athöfn. Óljós tengsl duga ekki. Þannig verður maðurinn sem prédikar að eign sé stuldur tæplega talinn raska allsherjarreglu þó að boðskapur hans kunni á löngum tíma að grafa undan eignarréttinum og þar með hugsanlega allsherjarreglu; til þess eru tengslin við allsherjarreglu of langsótt.Mynd: HB

Höfundur

Útgáfudagur

30.12.2001

Spyrjandi

Klemens Ó. Þrastarson

Tilvísun

Halldór Gunnar Haraldsson. „Hvað er allsherjarregla, hvar er hún skilgreind og hver er það sem skilgreinir hana á hverjum tíma?“ Vísindavefurinn, 30. desember 2001, sótt 19. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2028.

Halldór Gunnar Haraldsson. (2001, 30. desember). Hvað er allsherjarregla, hvar er hún skilgreind og hver er það sem skilgreinir hana á hverjum tíma? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2028

Halldór Gunnar Haraldsson. „Hvað er allsherjarregla, hvar er hún skilgreind og hver er það sem skilgreinir hana á hverjum tíma?“ Vísindavefurinn. 30. des. 2001. Vefsíða. 19. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2028>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvað er allsherjarregla, hvar er hún skilgreind og hver er það sem skilgreinir hana á hverjum tíma?


Víða er í lögum vísað til allsherjarreglu, ekki síst í mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Er þá sagt að löggjafanum sé heimilt að takmarka mannréttindin í þágu allsherjarreglu. Þannig segir í 63. grein stjórnarskrárinnar að allir eigi rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins en þó megi ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.

Ennfremur segir í 73. grein að tjáningarfrelsi megi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Hins vegar eru í lögum engar nákvæmar útlistanir á því hvað í allsherjarreglu felst.

Mat á því hvað allsherjarregla sé hlýtur því að mótast af löggjöf og aðstæðum á hverjum tíma. Þannig verður að ætla að löggjafinn hafi til þess ríkan rétt að ákvarða hvað í allsherjarreglu felst í skjóli lagasetningarvalds síns. Jafnframt hlýtur mat á þessu að koma til kasta dómstóla eftir atvikum.

Almennt má þó segja að með allsherjarreglu sé átt við að haldið sé uppi lögum og reglum í samfélaginu eftir því sem nauðsynlegt verður að teljast. Vitaskuld hlýtur mat á þessu að vera nokkuð pólitísks eðlis. Hins vegar hlýtur að mega gera ráð fyrir að í allsherjarreglu felist að minnsta kosti að menn geti gengið um götur óáreittir, viðskipti geti gengið sinn vanagang og að eignir borgaranna séu látnar í friði.

Einfaldast er að skýra hugtakið allsherjarreglu út með því að taka dæmi. Maður hefur frelsi til að tjá þá skoðun sína að séreign sé ekkert annað en stuldur. Hann truflar allsherjarreglu ekki beinlínis með því. Hins vegar kann að gegna öðru máli prédiki hann þessa skoðun sína í gjallarhorn yfir æstum múg sem gerir sig líklegan til að ráðast til atlögu við eignir vel stæðs kaupmanns.

Enn má nefna að almennt teljast menn saklausir uns sekt er sönnuð. En allsherjarregla kann að krefjast þess að grunaður maður sé hnepptur í gæsluvarðhald tímabundið.

Það sem talið er nauðsynlegt til verndar allsherjarreglu kann að vera mismunandi eftir tíðaranda og breytilegum viðhorfum. Þannig er ekki útilokað að viðhorf hafi breyst í kjölfar nýlegra hryðjuverka í Bandaríkjunum þannig að eftir þau verði frekar gengið á réttindi og frelsi borgaranna í skjóli þess að það sé nauðsynlegt til að viðhalda allsherjarreglu.

Í styrjöldum víkur frelsið gjarnan fyrir öðrum hagsmunum. Allsherjarreglu hefur þá verið raskað stórkostlega og frelsi borgaranna er takmarkað tímabundið í því skyni að koma henni aftur á. Þó má ekki gleyma því að stríðsrekstur getur verið brot á allsherjarreglu sé hann ekki í sjálfsvörn.

Þannig hlýtur það að vera matatriði hvað telst allsherjarregla og hvað sé nauðsynlegt til verndar henni. Eitt ber þó að hafa í huga varðandi mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Það er sú staðreynd að frelsið er sett fram sem meginregla en undantekningar frá því svo taldar upp. Það er alkunn regla við lögskýringar að skýra ber undantekningarreglur í lögum þröngt.

Heimildum löggjafans til að skerða frelsið í þágu óljósra markmiða eins og góðs siðferðis, almannahagsmuna og allsherjarreglu eru því í raun settar þrengri skorður en ætla mætti af einni saman orðanna hljóðan. Er það vísast ástæða þess að ekki er talin þörf á að skýra þessi hugtök betur út í lögum en raun ber vitni.

Þá ber og að hafa í huga reglu skaðabótaréttar um tengsl tjóns við skaðvæna athöfn. Óljós tengsl duga ekki. Þannig verður maðurinn sem prédikar að eign sé stuldur tæplega talinn raska allsherjarreglu þó að boðskapur hans kunni á löngum tíma að grafa undan eignarréttinum og þar með hugsanlega allsherjarreglu; til þess eru tengslin við allsherjarreglu of langsótt.Mynd: HB...