Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hver er Stephen Hawking og hvert er hans framlag til vísindanna?

Lárus Thorlacius

Stephen William Hawking fæddist 8. janúar 1942 í Oxford á Englandi, en ólst upp í London og bænum St. Albans sem er skammt fyrir norðan höfuðborgina. Það fer ekki mörgum sögum af bernsku hans og æsku. Hann var elstur fjögurra barna. Foreldrar hans voru háskólafólk og höfðu báðir stundað nám við Oxfordháskóla. Faðir hans starfaði við rannsóknir á hitabeltissjúkdómum við Rannsóknastofnun ríkisins í læknisfræði (National Institute for Medical Research) þannig að áhugi á vísindum var ekki langt undan.

Átta eða níu ára gamall ákvað Stephen að verða raunvísindamaður og snerist honum aldrei hugur í því efni. Á unglingsárunum komst hann að þeirri niðurstöðu að líffræði og greinar skyldar henni væru ekki fyrir sig. Hann hugðist frekar leggja stund á nákvæmari vísindi og fjórtán ára var hann staðráðinn í að verða eðlisfræðingur eða stærðfræðingur. Faðir Stephens reyndi að beina honum inn á hagnýtari brautir með atvinnuhorfur í huga en árangurslaust.

Stephen Hawking í Cambridge árið 2008.

Hawking hóf nám í eðlisfræði við Oxfordháskóla haustið 1959. Hann þurfti tiltölulega lítið að hafa fyrir náminu og sinnti því ekki meira en nauðsyn krafði til að kennararnir hefðu trú á honum en eyddi þess í stað miklum tíma í íþróttir og félagslíf. Til dæmis var hann um tíma stýrimaður í einu kappróðrarliði skólans.

Síðasta árið í Oxford og í upphafi framhaldsnáms í Cambridge fór Hawking að kenna veikinda sem áttu eftir að reynast alvarleg. Fyrstu einkennin voru að hann hrasaði oft, rak sig í hluti, átti erfitt með að hnýta skóreimar og varð þvoglumæltur. Læknar sögðu honum að ástandið ætti eftir að versna því að hann væri með sjúkdóm sem nefnist hreyfitaugungahrörnun (amyotrophic lateral schlerosis eða motor neuron disease) sem lamar líkamann smám saman og leiðir yfirleitt til dauða á nokkrum árum. Þetta var mikið áfall og Hawking kom vart nærri náminu um skeið, enda tók því varla að leggja út á erfiða braut rannsókna í eðlisfræði þegar honum var ekki hugað líf.

Hann náði þó fótfestu á ný eftir tveggja ára rótleysi og hefur helgað sig fræðunum síðan. Afturhvarf sitt til lífs og starfa þakkar hann bæði því að veikindin ágerðust hægar en honum hafði verið spáð, og því að hann kynntist Jane Wilde sem var við tungumálanám í London. Þau giftu sig árið 1965 og eignuðust tvo syni og eina dóttur. Hawking og kona hans skildu árið 1990. Nokkru síðar hóf hann sambúð með hjúkrunarkonu sinni, Elaine Mason, og þau giftu sig árið 1995.

Leiðbeinandi Hawkings í Cambridge var Dennis W. Sciama þáverandi forstöðumaður rannsóknahópsins í þyngdarsviðsfræðum og heimsfræði. Hann gerði sér grein fyrir hæfileikum nemanda síns og hafði áhyggjur af heilsufari hans. Hann sýndi þolinmæði meðan Hawking lá í þunglyndi og reyndi að hvetja hann áfram. "Hluti vandans," segir hann, "var að Hawking hafði ekki ennþá fundið sér áhugavert óleyst vandamál, sem reyndi á hæfileika hans til fulls og gæti orðið efni í doktorsritgerð."

Gott verkefni rak loks á fjörur hans í grein um svarthol eftir ungan enskan sérfræðing í stærðfræðilegri eðlisfræði, Roger Penrose að nafni, og þá fóru hjólin að snúast. Hawking sýndi að niðurstöður greinarinnar hefðu mikilvægar afleiðingar í heimsfræði, því að með viðeigandi breytingum mætti heimfæra þær upp á upphaf alheimsins í ákveðnum heimslíkönum. Það varð upphafið að rannsóknum hans á sérstæðum í almennu afstæðiskenningunni og árangursríku samstarfi þeirra Penroses, en meira má lesa um sérstæður í svari sama höfundar við spurningunni Hefur tilvist sérstæðu verið staðfest í stjarnvísindum?

Lucy Hawking, dóttir Stephen Hawking, kynnir föður siní tilefni af fyrirlestri sem hann flutti á 50 ára afmæli NASA árið 2008.

Hawking hlaut doktorsnafnbót árið 1966 frá Cambridgeháskóla en hélt þar áfram rannsóknum að námi loknu og hefur starfað þar síðan. Árið 1977 var hann skipaður prófessor í þyngdarfræðum við sameiginlega deild í kennilegri eðlisfræði og hagnýtri stærðfræði og árið 1979 var honum veitt Lúkasarembættið, sem er prófessorsstaða í stærðfræði og nýtur mikillar virðingar. Meðal þeirra sem gegnt hafa embættinu er Isaac Newton. Hawking hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir störf sín og fjöldi háskóla víðsvegar um heiminn hefur veitt honum heiðursnafnbót. Árið 1974 fékk hann inngöngu í Konunglega vísindafélagið í London, þrjátíu og tveggja ára að aldri, og hljóta fáir þann heiður svo ungir.

Starfið sem Hawking valdi sér krefst ekki líkamlegrar vinnu og það hefur komið sér vel. Nú er komið hátt á fjórða áratug síðan hann greindist með hreyfitaugungahrörnun. Sem betur fer rættust fyrstu spár lækna ekki en sjúkdómurinn hefur engu að síður leikið hann ákaflega illa. Upp úr 1970 gat hann ekki lengur gengið og erfitt varð fyrir ókunnuga að skilja mál hans. Núorðið kemst hann leiðar sinnar í vélknúnum hjólastól, sem hann stýrir með fingrum vinstri handar. Árið 1985 varð hann að gangast undir uppskurð vegna lungnabólgu og missti þá röddina. Hann heldur sambandi við fólk með hjálp tölvu sem búin er raddgervli. Með því að velja orð eða bókstafi á tölvuskjánum getur hann myndað setningar, sem ýmist má skrifa á skjáinn, eða láta tölvuna segja. Búnaðurinn var hannaður í Kaliforníu og Hawking biður ókunnuga gjarnan velvirðingar á því að hann skuli tala með bandarískum hreim.

Þrátt fyrir fötlun sína virðist Hawking búa yfir óþrjótandi starfsþreki og slær hvergi af við vinnu heldur skrifar ritgerðir um fræðin af kappi og flytur fyrirlestra víðsvegar um heiminn. Hann leiðbeinir stúdentum í framhaldsnámi og vinnur að rannsóknum í þyngdarfræðum og heimsfræði við Cambridgeháskóla, en rannsóknahópurinn þar er tvímælalaust í fremstu röð í heiminum í þeim fræðum.

Þetta svar er byggt á inngangi sem höfundur ritaði að íslenskri þýðingu á Sögu tímans eftir Stephen W. Hawking.

Áhugaverðir tenglar:



Myndir:
  • Stephen Hawking á Wikipedia.org. Fyrri myndin er birt undir leyfinu Creative Commons Attribution 2.0 Generic.

Höfundur

Lárus Thorlacius

prófessor í eðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

2.1.2002

Spyrjandi

Jón Jónsson

Tilvísun

Lárus Thorlacius. „Hver er Stephen Hawking og hvert er hans framlag til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 2. janúar 2002. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2029.

Lárus Thorlacius. (2002, 2. janúar). Hver er Stephen Hawking og hvert er hans framlag til vísindanna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2029

Lárus Thorlacius. „Hver er Stephen Hawking og hvert er hans framlag til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 2. jan. 2002. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2029>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er Stephen Hawking og hvert er hans framlag til vísindanna?
Stephen William Hawking fæddist 8. janúar 1942 í Oxford á Englandi, en ólst upp í London og bænum St. Albans sem er skammt fyrir norðan höfuðborgina. Það fer ekki mörgum sögum af bernsku hans og æsku. Hann var elstur fjögurra barna. Foreldrar hans voru háskólafólk og höfðu báðir stundað nám við Oxfordháskóla. Faðir hans starfaði við rannsóknir á hitabeltissjúkdómum við Rannsóknastofnun ríkisins í læknisfræði (National Institute for Medical Research) þannig að áhugi á vísindum var ekki langt undan.

Átta eða níu ára gamall ákvað Stephen að verða raunvísindamaður og snerist honum aldrei hugur í því efni. Á unglingsárunum komst hann að þeirri niðurstöðu að líffræði og greinar skyldar henni væru ekki fyrir sig. Hann hugðist frekar leggja stund á nákvæmari vísindi og fjórtán ára var hann staðráðinn í að verða eðlisfræðingur eða stærðfræðingur. Faðir Stephens reyndi að beina honum inn á hagnýtari brautir með atvinnuhorfur í huga en árangurslaust.

Stephen Hawking í Cambridge árið 2008.

Hawking hóf nám í eðlisfræði við Oxfordháskóla haustið 1959. Hann þurfti tiltölulega lítið að hafa fyrir náminu og sinnti því ekki meira en nauðsyn krafði til að kennararnir hefðu trú á honum en eyddi þess í stað miklum tíma í íþróttir og félagslíf. Til dæmis var hann um tíma stýrimaður í einu kappróðrarliði skólans.

Síðasta árið í Oxford og í upphafi framhaldsnáms í Cambridge fór Hawking að kenna veikinda sem áttu eftir að reynast alvarleg. Fyrstu einkennin voru að hann hrasaði oft, rak sig í hluti, átti erfitt með að hnýta skóreimar og varð þvoglumæltur. Læknar sögðu honum að ástandið ætti eftir að versna því að hann væri með sjúkdóm sem nefnist hreyfitaugungahrörnun (amyotrophic lateral schlerosis eða motor neuron disease) sem lamar líkamann smám saman og leiðir yfirleitt til dauða á nokkrum árum. Þetta var mikið áfall og Hawking kom vart nærri náminu um skeið, enda tók því varla að leggja út á erfiða braut rannsókna í eðlisfræði þegar honum var ekki hugað líf.

Hann náði þó fótfestu á ný eftir tveggja ára rótleysi og hefur helgað sig fræðunum síðan. Afturhvarf sitt til lífs og starfa þakkar hann bæði því að veikindin ágerðust hægar en honum hafði verið spáð, og því að hann kynntist Jane Wilde sem var við tungumálanám í London. Þau giftu sig árið 1965 og eignuðust tvo syni og eina dóttur. Hawking og kona hans skildu árið 1990. Nokkru síðar hóf hann sambúð með hjúkrunarkonu sinni, Elaine Mason, og þau giftu sig árið 1995.

Leiðbeinandi Hawkings í Cambridge var Dennis W. Sciama þáverandi forstöðumaður rannsóknahópsins í þyngdarsviðsfræðum og heimsfræði. Hann gerði sér grein fyrir hæfileikum nemanda síns og hafði áhyggjur af heilsufari hans. Hann sýndi þolinmæði meðan Hawking lá í þunglyndi og reyndi að hvetja hann áfram. "Hluti vandans," segir hann, "var að Hawking hafði ekki ennþá fundið sér áhugavert óleyst vandamál, sem reyndi á hæfileika hans til fulls og gæti orðið efni í doktorsritgerð."

Gott verkefni rak loks á fjörur hans í grein um svarthol eftir ungan enskan sérfræðing í stærðfræðilegri eðlisfræði, Roger Penrose að nafni, og þá fóru hjólin að snúast. Hawking sýndi að niðurstöður greinarinnar hefðu mikilvægar afleiðingar í heimsfræði, því að með viðeigandi breytingum mætti heimfæra þær upp á upphaf alheimsins í ákveðnum heimslíkönum. Það varð upphafið að rannsóknum hans á sérstæðum í almennu afstæðiskenningunni og árangursríku samstarfi þeirra Penroses, en meira má lesa um sérstæður í svari sama höfundar við spurningunni Hefur tilvist sérstæðu verið staðfest í stjarnvísindum?

Lucy Hawking, dóttir Stephen Hawking, kynnir föður siní tilefni af fyrirlestri sem hann flutti á 50 ára afmæli NASA árið 2008.

Hawking hlaut doktorsnafnbót árið 1966 frá Cambridgeháskóla en hélt þar áfram rannsóknum að námi loknu og hefur starfað þar síðan. Árið 1977 var hann skipaður prófessor í þyngdarfræðum við sameiginlega deild í kennilegri eðlisfræði og hagnýtri stærðfræði og árið 1979 var honum veitt Lúkasarembættið, sem er prófessorsstaða í stærðfræði og nýtur mikillar virðingar. Meðal þeirra sem gegnt hafa embættinu er Isaac Newton. Hawking hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir störf sín og fjöldi háskóla víðsvegar um heiminn hefur veitt honum heiðursnafnbót. Árið 1974 fékk hann inngöngu í Konunglega vísindafélagið í London, þrjátíu og tveggja ára að aldri, og hljóta fáir þann heiður svo ungir.

Starfið sem Hawking valdi sér krefst ekki líkamlegrar vinnu og það hefur komið sér vel. Nú er komið hátt á fjórða áratug síðan hann greindist með hreyfitaugungahrörnun. Sem betur fer rættust fyrstu spár lækna ekki en sjúkdómurinn hefur engu að síður leikið hann ákaflega illa. Upp úr 1970 gat hann ekki lengur gengið og erfitt varð fyrir ókunnuga að skilja mál hans. Núorðið kemst hann leiðar sinnar í vélknúnum hjólastól, sem hann stýrir með fingrum vinstri handar. Árið 1985 varð hann að gangast undir uppskurð vegna lungnabólgu og missti þá röddina. Hann heldur sambandi við fólk með hjálp tölvu sem búin er raddgervli. Með því að velja orð eða bókstafi á tölvuskjánum getur hann myndað setningar, sem ýmist má skrifa á skjáinn, eða láta tölvuna segja. Búnaðurinn var hannaður í Kaliforníu og Hawking biður ókunnuga gjarnan velvirðingar á því að hann skuli tala með bandarískum hreim.

Þrátt fyrir fötlun sína virðist Hawking búa yfir óþrjótandi starfsþreki og slær hvergi af við vinnu heldur skrifar ritgerðir um fræðin af kappi og flytur fyrirlestra víðsvegar um heiminn. Hann leiðbeinir stúdentum í framhaldsnámi og vinnur að rannsóknum í þyngdarfræðum og heimsfræði við Cambridgeháskóla, en rannsóknahópurinn þar er tvímælalaust í fremstu röð í heiminum í þeim fræðum.

Þetta svar er byggt á inngangi sem höfundur ritaði að íslenskri þýðingu á Sögu tímans eftir Stephen W. Hawking.

Áhugaverðir tenglar:



Myndir:
  • Stephen Hawking á Wikipedia.org. Fyrri myndin er birt undir leyfinu Creative Commons Attribution 2.0 Generic.
...