Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvernig er hægt að sanna að það sé ekki líf á einhverri plánetu?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Spurninguna má skilja á tvo vegu:
A. Hvernig er hægt að sýna fram á að ekki sé til einhver pláneta utan jarðarinnar, þar sem líf er að finna?

B. Ef við horfum á einhverja tiltekna reikistjörnu, hvernig er þá hægt að sýna fram á að ekki sé líf á henni?

Vert er að taka eftir að við kjósum heldur að nota orðalagið "að sýna fram á" en "að sanna". Í eiginlegum raunvísindum eins og hér um ræðir eru niðurstöður yfirleitt ekki "sannaðar" í þeim skilningi að þær hljóti að vera réttar og geti alls ekki verið rangar, heldur er "sýnt fram á" niðurstöðurnar og það merkir að þær séu réttar samkvæmt því sem við best vitum. Í stærðfræði eru niðurstöður hins vegar "sannaðar" sem merkir að þær hljóti að vera réttar ef fullyrðingarnar sem gengið er út frá í sönnuninni eru réttar.

Svarið við fyrri spurningunni (A) er einfalt: Það er alls ekki hægt nú á dögum að sýna fram á að ekkert líf sé til utan jarðarinnar og sennilega verður það aldrei hægt.

Alheimurinn er gríðarlega stór. Í honum er aðeins pínulítill skiki sem við þekkjum nógu vel til þess að við getum sagt að á tilteknum stöðum þar sé ekkert líf að finna. Þetta á til dæmis við núna um sólkerfið okkar: Við vitum að ekkert líf er á flestum reikistjörnunum en teljum að svo stöddu hugsanlegt að einhvern tímann hafi verið líf á Mars.

Þessi skiki í geimnum sem við þekkjum svona vel á væntanlega eftir að stækka þannig að við útilokum fleiri og fleiri staði sem hugsanlega bústaði lífvera. Hins vegar eru engar líkur á því af ýmsum ástæðum að þessi skiki svona nákvæmrar þekkingar muni nokkurn tímann ná yfir allan heiminn. Hitt gæti þó gerst einhvern tímann í framtíðinni að menn teldu sig hafa kannað svo stóran skika í alheiminum án þess að finna þar líf, að þeir teldu þá ólíklegt að það ætti eftir að finnast. En svo gæti líka farið að menn fyndu líf úti í geimnum og þá væri þessi spurning endanlega afgreidd.

Svarið við spurningu B, um líf á tiltekinni reikistjörnu, er nokkru snúnara. Þegar við leitum að einhverju þurfum við að vita að hverju við erum að leita. Leitin að lífi í geimnum miðast því við að finna lífverur sem séu eitthvað í líkingu við það sem við þekkjum. Við gerum þá einnig ráð fyrir að þær þurfi svipuð skilyrði og þau sem ríkja hér á jörðinni, svo sem lofthjúp, súrefni, vatn í fljótandi formi, hæfilegan hita og svo framvegis. Þannig getum við útilokað að nokkurt líf sé á Merkúríusi af því að þar er nær enginn lofthjúpur og auk þess alltof heitt. Á ytri reikistjörnunum í sólkerfi okkar er hins vegar alltof kalt þannig að þar er ekki fljótandi vatn.

Þessum sömu aðferðum útilokunarinnar er eða verður hægt að beita við ýmsar reikistjörnur sem finnast við sólstjörnur utan sólkerfisins, en þessum reikistjörnum fer nú ört fjölgandi eins og fram kemur í öðrum svörum á Vísindavefnum. En sumar af þessum reikistjörnum verða miklu líklegri en aðrar sem bústaðir lífvera og þær verða þá rannsakaðar nánar. Við getum ekki vitað fyrirfram um niðurstöður þeirra rannsókna.

Það virðist vera útbreiddur misskilningur að vísindamenn almennt hafi einhverja fyrirfram gefna skoðun á því hvort líf sé að finna utan sólkerfisins eða ekki. Til dæmis lítur út fyrir að margir telji að vísindamenn nútímans útiloki slíkt líf fyrirfram. En svo er auðvitað alls ekki heldur ganga stjarnvísindamenn og líffræðingar að rannsóknum sem þessum með opnum huga og gera fyllilega ráð fyrir þeim möguleika að finna líf í óravíddum geimsins.

Vísindamenn hugsa þó ef til vill öðru vísi en margir aðrir um þessi mál að því leyti að þeir gera sér grein fyrir því að samskipti við lífverur úti í geimnum eru miklum annmörkum háð. Um þetta má lesa nánar í öðrum svörum hér á Vísindavefnum:



Mynd: Life On Other Planets in the Solar System

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

24.1.2002

Spyrjandi

Kristín Ólafsdóttir, fædd 1989

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig er hægt að sanna að það sé ekki líf á einhverri plánetu? “ Vísindavefurinn, 24. janúar 2002. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2068.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2002, 24. janúar). Hvernig er hægt að sanna að það sé ekki líf á einhverri plánetu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2068

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvernig er hægt að sanna að það sé ekki líf á einhverri plánetu? “ Vísindavefurinn. 24. jan. 2002. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2068>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig er hægt að sanna að það sé ekki líf á einhverri plánetu?
Spurninguna má skilja á tvo vegu:

A. Hvernig er hægt að sýna fram á að ekki sé til einhver pláneta utan jarðarinnar, þar sem líf er að finna?

B. Ef við horfum á einhverja tiltekna reikistjörnu, hvernig er þá hægt að sýna fram á að ekki sé líf á henni?

Vert er að taka eftir að við kjósum heldur að nota orðalagið "að sýna fram á" en "að sanna". Í eiginlegum raunvísindum eins og hér um ræðir eru niðurstöður yfirleitt ekki "sannaðar" í þeim skilningi að þær hljóti að vera réttar og geti alls ekki verið rangar, heldur er "sýnt fram á" niðurstöðurnar og það merkir að þær séu réttar samkvæmt því sem við best vitum. Í stærðfræði eru niðurstöður hins vegar "sannaðar" sem merkir að þær hljóti að vera réttar ef fullyrðingarnar sem gengið er út frá í sönnuninni eru réttar.

Svarið við fyrri spurningunni (A) er einfalt: Það er alls ekki hægt nú á dögum að sýna fram á að ekkert líf sé til utan jarðarinnar og sennilega verður það aldrei hægt.

Alheimurinn er gríðarlega stór. Í honum er aðeins pínulítill skiki sem við þekkjum nógu vel til þess að við getum sagt að á tilteknum stöðum þar sé ekkert líf að finna. Þetta á til dæmis við núna um sólkerfið okkar: Við vitum að ekkert líf er á flestum reikistjörnunum en teljum að svo stöddu hugsanlegt að einhvern tímann hafi verið líf á Mars.

Þessi skiki í geimnum sem við þekkjum svona vel á væntanlega eftir að stækka þannig að við útilokum fleiri og fleiri staði sem hugsanlega bústaði lífvera. Hins vegar eru engar líkur á því af ýmsum ástæðum að þessi skiki svona nákvæmrar þekkingar muni nokkurn tímann ná yfir allan heiminn. Hitt gæti þó gerst einhvern tímann í framtíðinni að menn teldu sig hafa kannað svo stóran skika í alheiminum án þess að finna þar líf, að þeir teldu þá ólíklegt að það ætti eftir að finnast. En svo gæti líka farið að menn fyndu líf úti í geimnum og þá væri þessi spurning endanlega afgreidd.

Svarið við spurningu B, um líf á tiltekinni reikistjörnu, er nokkru snúnara. Þegar við leitum að einhverju þurfum við að vita að hverju við erum að leita. Leitin að lífi í geimnum miðast því við að finna lífverur sem séu eitthvað í líkingu við það sem við þekkjum. Við gerum þá einnig ráð fyrir að þær þurfi svipuð skilyrði og þau sem ríkja hér á jörðinni, svo sem lofthjúp, súrefni, vatn í fljótandi formi, hæfilegan hita og svo framvegis. Þannig getum við útilokað að nokkurt líf sé á Merkúríusi af því að þar er nær enginn lofthjúpur og auk þess alltof heitt. Á ytri reikistjörnunum í sólkerfi okkar er hins vegar alltof kalt þannig að þar er ekki fljótandi vatn.

Þessum sömu aðferðum útilokunarinnar er eða verður hægt að beita við ýmsar reikistjörnur sem finnast við sólstjörnur utan sólkerfisins, en þessum reikistjörnum fer nú ört fjölgandi eins og fram kemur í öðrum svörum á Vísindavefnum. En sumar af þessum reikistjörnum verða miklu líklegri en aðrar sem bústaðir lífvera og þær verða þá rannsakaðar nánar. Við getum ekki vitað fyrirfram um niðurstöður þeirra rannsókna.

Það virðist vera útbreiddur misskilningur að vísindamenn almennt hafi einhverja fyrirfram gefna skoðun á því hvort líf sé að finna utan sólkerfisins eða ekki. Til dæmis lítur út fyrir að margir telji að vísindamenn nútímans útiloki slíkt líf fyrirfram. En svo er auðvitað alls ekki heldur ganga stjarnvísindamenn og líffræðingar að rannsóknum sem þessum með opnum huga og gera fyllilega ráð fyrir þeim möguleika að finna líf í óravíddum geimsins.

Vísindamenn hugsa þó ef til vill öðru vísi en margir aðrir um þessi mál að því leyti að þeir gera sér grein fyrir því að samskipti við lífverur úti í geimnum eru miklum annmörkum háð. Um þetta má lesa nánar í öðrum svörum hér á Vísindavefnum:



Mynd: Life On Other Planets in the Solar System ...