Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hvar finnur maður helgan stein og hvernig sest maður í hann?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Maður byrjar á því að fá her manns til að stela öllu steini léttara. Þá eru aðeins eftir steinar og það sem er þaðan af þyngra en þó gæti legið fiskur undir steini á stöku stað. Helga eða heilaga steininn má síðan finna með því að berja höfðinu við steininn, það er að segja alla steinana þar til sá rétti finnst. Rétt er að gæta þess að ekki standi steinn yfir steini á því svæði sem búið er að leita á. Þeir sem hafa lengi steininn klappað eru líklegri til að finna steininn helga en aðrir.

Hann má raunar þekkja á því að hann er ekki eins og aðrir steinar. Hann er eins og kross í laginu og geislar frá sér ljósi. Stundum þarf að brjóta hann úr stálinu með sleggju. Þá tekur steininn úr eins og það er kallað. Síðan þarf að bera hann eða koma honum á réttan stað en það kallast krossburður og sá sem gerir það nefnist krossberi. Krossburður af þessu tagi er að sjálfsögðu miklu erfiðari en að bera venjulega trékrossa. Gott er að velja steininum stað steinsnar frá krossgötum en sumir kjósa þó heldur að hafa helga steininn þar sem steinhljóð ríkir.

Nú er komið að því að setjast í steininn, sem er að sjálfsögðu allt annað mál og vandasamara en að setjast á hann. Best er að gera þetta að kvöldi þrettánda dags jóla eftir að flugeldum er lokið. Þá er tekin sama sleggja og áður og steinninn brotinn sundur í tvennt. Brotin sem nefnast steinbörn eru lögð á blágrýtisklöpp með um það bil 60 cm millibili. Gerandinn sest síðan milli brotanna og reynir að láta fara eins vel um sig og hann getur, en flestir sem gera þetta ætla sér að sitja í helga steininum til æviloka. Óvíst er þó með öllu að það takist því að hér þarf að hafa í huga hið fornkveðna, að "tvisvar verður sá feginn er á steininn sest; niður að setjast og upp að standa".

Ef gerandinn sem ætlar að setjast í helgan stein vill vera milli steins og sleggju getur hann einfaldlega látið vera að brjóta helga steininn og sett sleggjuna í staðinn fyrir annað steinbarnið. Þeir sem velja þessa leið eru þó yfirleitt órólegri en hinir sem setjast í venjulegan helgan stein.

Rétt er að taka fram að þar sem talað er um "sleggju" í þessu svari er átt við raunverulega sleggju með þungum og góðum haus úr einsleitu járni og alls ekki með tangur eða tetur af heila inni í sér. Stafrænar sleggjur eða sleggjur úr sýndarveruleikanum duga ekki heldur til þessara verka. Á þetta er minnt vegna þess að spyrjandi er einn af aðstandendum vefsetursins "sleggjan.com" sem starfrækt var hér á landi til skamms tíma. Þessi sleggja veitti Vísindavefnum aðhald og athygli þegar hann var að stíga fyrstu skrefin fyrir 2 árum, en hún virðist nú hafa gengið fyrir ætternisstapa. Við vitum hins vegar ekki hvort hvarf sleggjunnar tengist því að spyrjandi sýnist hafa breytt rithætti á nafni sínu.

Svo getur líka verið að spurningin sé alls ekki frá spyrjandanum, ef svo má að orði komast, heldur frá einhverjum félaga hans. Spyrjandinn væri þá á hinn bóginn vís til þess að senda inn aðrar spurningar í nafni félaga sinna þannig að í þessum hópi getur það orðið býsna flókið heimspekilegt og rökfræðilegt viðfangsefni að skilgreina hvað við er átt með orðinu 'spyrjandi'. En um þetta vísum við meðal annars í svar okkar við spurningunni Hver er að hringja bjöllunni?

Þetta er tvöþúsundasta svarið sem birtist á Vísindavefnum.

Heimild:

Halldór Halldórsson, Íslenzkt orðtakasafn I-II. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1969.



Mynd: HB

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

25.1.2002

Spyrjandi

Benedikt Voge

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvar finnur maður helgan stein og hvernig sest maður í hann?“ Vísindavefurinn, 25. janúar 2002. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2071.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2002, 25. janúar). Hvar finnur maður helgan stein og hvernig sest maður í hann? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2071

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvar finnur maður helgan stein og hvernig sest maður í hann?“ Vísindavefurinn. 25. jan. 2002. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2071>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar finnur maður helgan stein og hvernig sest maður í hann?
Maður byrjar á því að fá her manns til að stela öllu steini léttara. Þá eru aðeins eftir steinar og það sem er þaðan af þyngra en þó gæti legið fiskur undir steini á stöku stað. Helga eða heilaga steininn má síðan finna með því að berja höfðinu við steininn, það er að segja alla steinana þar til sá rétti finnst. Rétt er að gæta þess að ekki standi steinn yfir steini á því svæði sem búið er að leita á. Þeir sem hafa lengi steininn klappað eru líklegri til að finna steininn helga en aðrir.

Hann má raunar þekkja á því að hann er ekki eins og aðrir steinar. Hann er eins og kross í laginu og geislar frá sér ljósi. Stundum þarf að brjóta hann úr stálinu með sleggju. Þá tekur steininn úr eins og það er kallað. Síðan þarf að bera hann eða koma honum á réttan stað en það kallast krossburður og sá sem gerir það nefnist krossberi. Krossburður af þessu tagi er að sjálfsögðu miklu erfiðari en að bera venjulega trékrossa. Gott er að velja steininum stað steinsnar frá krossgötum en sumir kjósa þó heldur að hafa helga steininn þar sem steinhljóð ríkir.

Nú er komið að því að setjast í steininn, sem er að sjálfsögðu allt annað mál og vandasamara en að setjast á hann. Best er að gera þetta að kvöldi þrettánda dags jóla eftir að flugeldum er lokið. Þá er tekin sama sleggja og áður og steinninn brotinn sundur í tvennt. Brotin sem nefnast steinbörn eru lögð á blágrýtisklöpp með um það bil 60 cm millibili. Gerandinn sest síðan milli brotanna og reynir að láta fara eins vel um sig og hann getur, en flestir sem gera þetta ætla sér að sitja í helga steininum til æviloka. Óvíst er þó með öllu að það takist því að hér þarf að hafa í huga hið fornkveðna, að "tvisvar verður sá feginn er á steininn sest; niður að setjast og upp að standa".

Ef gerandinn sem ætlar að setjast í helgan stein vill vera milli steins og sleggju getur hann einfaldlega látið vera að brjóta helga steininn og sett sleggjuna í staðinn fyrir annað steinbarnið. Þeir sem velja þessa leið eru þó yfirleitt órólegri en hinir sem setjast í venjulegan helgan stein.

Rétt er að taka fram að þar sem talað er um "sleggju" í þessu svari er átt við raunverulega sleggju með þungum og góðum haus úr einsleitu járni og alls ekki með tangur eða tetur af heila inni í sér. Stafrænar sleggjur eða sleggjur úr sýndarveruleikanum duga ekki heldur til þessara verka. Á þetta er minnt vegna þess að spyrjandi er einn af aðstandendum vefsetursins "sleggjan.com" sem starfrækt var hér á landi til skamms tíma. Þessi sleggja veitti Vísindavefnum aðhald og athygli þegar hann var að stíga fyrstu skrefin fyrir 2 árum, en hún virðist nú hafa gengið fyrir ætternisstapa. Við vitum hins vegar ekki hvort hvarf sleggjunnar tengist því að spyrjandi sýnist hafa breytt rithætti á nafni sínu.

Svo getur líka verið að spurningin sé alls ekki frá spyrjandanum, ef svo má að orði komast, heldur frá einhverjum félaga hans. Spyrjandinn væri þá á hinn bóginn vís til þess að senda inn aðrar spurningar í nafni félaga sinna þannig að í þessum hópi getur það orðið býsna flókið heimspekilegt og rökfræðilegt viðfangsefni að skilgreina hvað við er átt með orðinu 'spyrjandi'. En um þetta vísum við meðal annars í svar okkar við spurningunni Hver er að hringja bjöllunni?

Þetta er tvöþúsundasta svarið sem birtist á Vísindavefnum.

Heimild:

Halldór Halldórsson, Íslenzkt orðtakasafn I-II. Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1969.



Mynd: HB

...