Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
ForsíðaFélagsvísindiLögfræðiHvernig stofnar maður þjóðríki, til dæmis ef maður á jörð á Suðurlandi eða eyju á Breiðafirði?
Stofnast getur til ríkja með tvenns konar hætti. Í fyrsta lagi getur verið að landsvæði sé þegar háð yfirráðum eins eða fleiri ríkja. Ef svo háttar til getur nýtt ríki aðeins stofnast á svæðinu með einhvers konar samningum við það ríki eða þá í kjölfar uppreisnar, stríðs eða annarra átaka, sem leiða til þess að íbúar viðkomandi svæðis taka stjórn þess varanlega í eigin hendur. Íslenska ríkið varð til dæmis til á grundvelli sambandslagasamningsins við Danmörku árið 1918, eins og flestum er kunnugt. Önnur ríki hafa orðið til með meira eða minna vopnuðum átökum. Nýlegt dæmi um stofnun slíks ríkis er Erítrea sem var hérað í Eþiópíu allt til ársins 1991.
Oft er þó sjálfstæðisþróun ríkja bæði grundvölluð á vopnaðri baráttu og síðan beinu og óbeinu samkomulagi við það ríki sem áður fór með yfirráð yfir svæðinu. Stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna hefur til dæmis mjög verið til umræðu á undanförnum árum og er ljóst að þar koma bæði við sögu vopnuð átök og samningar, enda þótt ekki sjái fyrir endann á þeirri þróun. Mikilvægur þáttur í því að nýtt ríki geti þrifist í samfélagi þjóðanna er að það njóti viðurkenningar annarra ríkja og alþjóðlegra stofnana, en um það atriði er ekki ástæða til ræða frekar hér.
Í annan stað kann tiltekið svæði að hafa verið utan yfirráða nokkurs ríkis. Nýtt ríki getur þá stofnast á svæðinu í kjölfar landnáms (eða svæðið er fellt undir yfirráð annars ríkis með töku þess). Þetta á auðvitað aðeins við þegar svæði er ekki þegar talið vera háð yfirráðum einhvers ríkis, en auk þess verður svæðið að vera þess eðlis að unnt sé að gera tilkall til yfirráða yfir því (lat. terra nullius). Surtsey varð til dæmis hluti íslensks yfirráðasvæðis þegar hún varð til á árunum 1963 til 1967.
Íslenska ríkið á auðvitað rætur sínar í fundi og landnámi Íslands og stofnun allsherjarríkis sem almennt er færð til ársins 930. Í framkvæmd hafa þó oft risið vafamál um hvort unnt væri að nema landsvæði og færa þau undir yfirráð ríkja. Á dögum landafundanna litu ríki Evrópu til dæmis þannig á að lönd nýja heimsins væru ónumin og unnt væri að gera tilkall til yfirráða yfir þeim, enda þótt á þessum svæðum væru þegar fyrir hendi samfélög manna sem fullnægðu í ýmsum tilvikum samkvæmt góðum rökum skilyrðum til að teljast ríki.
Á seinni tímum hafa vaknað upp spurningar um ýmis lítt byggð eða óbyggð svæði. Norðmenn gerðu til dæmis tilkall til austurhluta Grænlands á fyrri hluta þessarar aldar og var deila Dana og Norðmanna leidd til lykta fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Íslendingar viðurkenndu ekki endanlega yfirráð Norðmanna yfir Jan Mayen fyrr með samningum árið 1981. Sérstæðasta dæmið um stofnun ríkis er eflaust svokallað Sjóland (e. Sealand) sem stofnað var árið 1967 á tilbúnu varnarmannvirki á Ermarsundi skammt utan landhelgi Stóra-Bretlands. Þótt Sjóland sé áhugavert frá fræðilegu sjónarmiði (meðal annars með hliðsjón af því hvort unnt sé að stofna ríki á manngerðu landsvæði) hefur það takmarkaða raunhæfa þýðingu þar sem það hefur ekki hlotið viðurkenningu neins annars ríkis svo kunnugt sé.
Ýmis vafamál eru einnig fyrir hendi um endimörk ríkisyfirráða, til dæmis um yfirráð yfir heimskautunum og geimnum svo eitthvað sé nefnt. Hafa ber í huga að ekki eru öll svæði, sem eru utan yfirráða ríkja, þess eðlis að unnt sé að gera tilkall til yfirráða yfir þeim. Þannig er til dæmis talið að ekki sé heimilt að kalla til yfirráða yfir úthöfunum heldur eigi öll ríki þar jafnan rétt (lat.res communis).
Af framangreindu má draga þá ályktun að stofnun ríkis á eyju á Breiðafirði eða jörð á Suðurlandi er verulegum erfiðleikum bundin. Þessi svæði eru þegar undir yfirráðum íslenska ríkisins og er ekki líklegt að þeim yrði afsalað eða stofnun ríkja á þeim samþykkt með neinum hætti. Engin þjóðaréttarleg rök myndu heldur styðja kröfur um að svæði sem þessi yrðu að fullvalda ríkjum. Jafnvel þótt einhverjum aðilum tækist að ná virkri stjórn á þess konar svæðum án samþykkis íslenska ríkisins er því mjög ólíklegt að þeir myndu njóta viðurkenningar annarra sem ríki í samfélagi þjóðanna.
Skúli Magnússon. „Hvernig stofnar maður þjóðríki, til dæmis ef maður á jörð á Suðurlandi eða eyju á Breiðafirði?“ Vísindavefurinn, 1. febrúar 2002, sótt 15. september 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2090.
Skúli Magnússon. (2002, 1. febrúar). Hvernig stofnar maður þjóðríki, til dæmis ef maður á jörð á Suðurlandi eða eyju á Breiðafirði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2090
Skúli Magnússon. „Hvernig stofnar maður þjóðríki, til dæmis ef maður á jörð á Suðurlandi eða eyju á Breiðafirði?“ Vísindavefurinn. 1. feb. 2002. Vefsíða. 15. sep. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2090>.