Sólin Sólin Rís 11:03 • sest 15:36 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:22 • Síðdegis: 18:41 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:09 • Síðdegis: 12:39 í Reykjavík

Hvers konar letur er höfðaletur? Hvað má segja um uppruna þess og notkun gegnum tíðina?

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir

Höfðaletur er séríslensk skrautleturgerð sem fyrst og fremst var notuð í tréskurði. Um leið má eiginlega segja að það sé eina séríslenska leturgerðin. Höfðaletur þróaðist út frá gotnesku smástafaletri/lágstafaletri á 16. öld. Það afbrigði gotnesks skrautstíls sem höfðaletur virðist hafa þróast út frá er svokallað bendlaletur, sem einkennist af því að stafir eru eins og mótaðir af uppábrotnum borða eða renningi.

Höfðaletur var notað meira og var lífseigara í íslenskri skrautletrun en nokkur önnur stafagerð. Einhverra hluta vegna virðist höfðaletrið hafa höfðað ríkt til fegurðarskyns Íslendinga og haft í því tilliti yfirburði fram yfir aðra stíla.

Höfðaletrið var þjóðarlist. Það voru alþýðulistamenn sem skáru höfðaletur fyrir alþýðuna.Hluti af rúmfjöl frá árinu 1682 skreytt með höfðaletri. Áletrunin sem sést á myndinni er: drottinn sie med (það er drottinn sé með...). Í heild er áletrunin á rúmfjölinni svo: drottinn sie med / mier dag og nott d / drottinn sem veiter f / fridar gnott drottinn / frelsa fra dauda mi / mig drottinn eilifur eg bid / þig drottinn þin blida dirdar / hond drottinn bevare lif og ond.

Höfðaletrið bauð upp á fjölbreytileg tilbrigði og það hefur þann eiginleika að jafnvel þótt útskurðarfærnin sé ekki upp á marga fiska og hver stafur fyrir sig jafnvel klaufalegur getur heildarútkoman verið gullfalleg.

Allt fram á 19. öld var nafnið höfðaletur notað um mjög fjölbreytilegar skrautleturgerðir. Það er ekki fyrr en líður að 20. öld að merking þess þrengist í þá sem hún hefur í dag.

Þrátt fyrir ákveðin sameiginleg einkenni réðust takmarkanir letursins varðandi stærð, lögun og læsileika af duttlungum og tilfinningu þess sem skar. Stílfestan hefur ekki skipt alþýðulistamanninn miklu máli þar sem engar eiginlegar „reglur“ giltu. Afbrigði höfðaleturs eru því svo að segja jafn mörg þeim sem skáru.

Notkun höfðaleturs einskorðaðist nánast alla tíð við gripi úr tré og málmi, en einnig úr horni. Það er ekki fyrr en á 20. öld sem efnisnotkunin verður fjölbreyttari. Höfðaletur var ekki notað sem skrifletur. Það hentaði einfaldlega illa til aðferða og efna annarra en í útskurðarhefðinni.

Letrið var langmest skorið í tré og eiginleikar viðarins og áhöldin sem notuð voru við útskurðinn höfðu mikil áhrif á útlit höfðaleturs, ekki síst hið kassalaga form þess og yfirborðsskraut.

Algengast var að höfðaletur væri haft til skrauts á daglega brúkshluti, svo sem kistla, rúmfjalir, lára, spæni, trafakefli og svo framvegis þó því bregði fyrir á gripum sem höfðu stásslegra hlutverk.Lár, trafaöskjur, stokkur, trafakefli og hornspónn skreytt með höfðaletri.

Eiginlegir höfðaleturstölustafir voru svo að segja ekki til, þetta var fyrst og fremst bókstafaletur. Tölustafir voru þó stundum útfærðir í einhvers konar höfðaletursstíl, eða notaðir bókstafir til að tákna tölustafi, svo sem í ártölum (eins og rómversku tölurnar). Algengara var að tölustafir væru hafðir með annars konar letri.

Höfðaletur var fyrst og fremst skrautletur og sá þáttur hefur oft vegið þyngra en læsi þess og jafnvel innihald textans.

Letrið var útbreitt og virðist hafa verið þekkt meðal þorra manna í landinu. En höfðaletursáletranir áttu ekki að vera auðlæsar hverjum sem er. Þvert á móti átti letrið að vera dularfullt. Áletranirnar voru stundum hafðar aftur á bak, á einhvers konar dulmáli eða skammstafaðar, svo innihald textans væri eingöngu skiljanlegt eiganda gripsins og þeim sem skar. Nokkur fjöldi slíkra höfðaletursáletrana er enn óleystur í dag. Þrátt fyrir þessa torræðni og dularfulla yfirbragð er ekkert sem bendir til að höfðaletur hafi nokkurn tíma verið notað til galdraiðkunar.

Sjálfstæðisbaráttunni á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. fylgdi aukin þjóðernisvitund og vakning á því sem talið var þjóðlegt. Um leið fór að bera á áhyggjum af því að Íslendingar væru að glutra niður því sem með rétti gæti talist íslensk listhefð, þar með talið höfðaletrinu.

Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi lagði sitt af mörkum til endurreisnar höfðaletursins í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1900. Þar birti hann tvö höfðaletursstafróf, annað sem hann áleit vera frumstafróf höfðaleturs og hitt hið fullmótaða höfðaletursstafróf.

Einn helsti baráttumaður fyrir endurreisn höfðaletursins á 20. öld var Ríkarður Jónsson tréskurðarmeistari. Hann skrifaði einskonar áróður um íslenskan útskurð og höfðaletur í Tímarit iðnaðarmanna árið 1928 og nokkuð ítarlega grein um höfðaletur í Iðnsögu Íslands árið 1943 þar sem hann birti átta höfðaletursstafróf.

Ef ekki hefði verið fyrir vinnu þessara manna væri höfðaleturshefðin sjálfsagt endanlega horfin. En um leið hætti svo að segja öll þróun og nýsköpun í gerð höfðaleturs. Í höfðaletri 20. aldarinnar unnu menn af nokkurri nákvæmni eftir þessum birtu stafrófum og virðast lítið hafa leitað til gamalla gripa með höfðaletri til innblásturs eða fyrirmyndar (á því eru þó undantekningar).Trafaöskjur frá 17. öld. Í trafaöskjum geymdu konur tröf, það er klúta úr hvítu lérefti sem voru notaðir sem vafningar um höfuðbúnað gamla faldbúningsins. Á loki askjanna eru þrjár höfðaleturslínur en í miðju eru fjórar línur með latínuletri. Áletrunin byrjar í ysta hring og er svo: gudrun loptsdottir a / hafdv gvd i hvg og minne / hafdv gvd firer avgvm þier / hvxadvm gvd i hvg og sinne / heirer gvd og til þin sier / virtv gvd i velgeinini / vittv ad gvd þin he.

Notkun höfðaleturs varð hins vegar fjölbreyttari á 20. öldinni en nokkru sinni fyrr, ekki síst hvað varðar efnisnotkun.

Einu ítarlegu fræðilegu rannsóknina á höfðaletri vann Gunnlaugur S. E. Briem á árunum 1974-1979, sem varð doktorsritgerð hans árið 1980. Ritgerð hans, Höfðaletur, a study of Icelandic ornamental lettering from the sixteenth century to the present, hefur ekki verið gefin út.

Gerð gripa með höfðaletri hefur síðustu áratugina einskorðast að miklu leyti við minjagripaframleiðslu, ekki síst fyrir erlenda ferðamenn.

Helsta heimild og myndir:
  • Gunnlaugur S. E. Briem: Höfðaletur: a study of Icelandic ornamental lettering from the sixteenth century to the present. Department of Graphic Information, London, 1980 (óútg.).
  • Myndir: Ívar Brynjólfsson.

Höfundur

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir

sérfræðingur í munasafni Þjóðminjasafns Íslands

Útgáfudagur

10.8.2011

Spyrjandi

Karl Karlsson, Emelía Bragadóttir, Árný Björnsdóttir, Bjarki Jónsson, Ingi Þór Þórisson, Lára Elín Guðbrandsdóttir

Tilvísun

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir. „Hvers konar letur er höfðaletur? Hvað má segja um uppruna þess og notkun gegnum tíðina?“ Vísindavefurinn, 10. ágúst 2011. Sótt 8. desember 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=21382.

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir. (2011, 10. ágúst). Hvers konar letur er höfðaletur? Hvað má segja um uppruna þess og notkun gegnum tíðina? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=21382

Freyja Hlíðkvist Ómarsdóttir. „Hvers konar letur er höfðaletur? Hvað má segja um uppruna þess og notkun gegnum tíðina?“ Vísindavefurinn. 10. ágú. 2011. Vefsíða. 8. des. 2022. <http://visindavefur.is/svar.php?id=21382>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar letur er höfðaletur? Hvað má segja um uppruna þess og notkun gegnum tíðina?
Höfðaletur er séríslensk skrautleturgerð sem fyrst og fremst var notuð í tréskurði. Um leið má eiginlega segja að það sé eina séríslenska leturgerðin. Höfðaletur þróaðist út frá gotnesku smástafaletri/lágstafaletri á 16. öld. Það afbrigði gotnesks skrautstíls sem höfðaletur virðist hafa þróast út frá er svokallað bendlaletur, sem einkennist af því að stafir eru eins og mótaðir af uppábrotnum borða eða renningi.

Höfðaletur var notað meira og var lífseigara í íslenskri skrautletrun en nokkur önnur stafagerð. Einhverra hluta vegna virðist höfðaletrið hafa höfðað ríkt til fegurðarskyns Íslendinga og haft í því tilliti yfirburði fram yfir aðra stíla.

Höfðaletrið var þjóðarlist. Það voru alþýðulistamenn sem skáru höfðaletur fyrir alþýðuna.Hluti af rúmfjöl frá árinu 1682 skreytt með höfðaletri. Áletrunin sem sést á myndinni er: drottinn sie med (það er drottinn sé með...). Í heild er áletrunin á rúmfjölinni svo: drottinn sie med / mier dag og nott d / drottinn sem veiter f / fridar gnott drottinn / frelsa fra dauda mi / mig drottinn eilifur eg bid / þig drottinn þin blida dirdar / hond drottinn bevare lif og ond.

Höfðaletrið bauð upp á fjölbreytileg tilbrigði og það hefur þann eiginleika að jafnvel þótt útskurðarfærnin sé ekki upp á marga fiska og hver stafur fyrir sig jafnvel klaufalegur getur heildarútkoman verið gullfalleg.

Allt fram á 19. öld var nafnið höfðaletur notað um mjög fjölbreytilegar skrautleturgerðir. Það er ekki fyrr en líður að 20. öld að merking þess þrengist í þá sem hún hefur í dag.

Þrátt fyrir ákveðin sameiginleg einkenni réðust takmarkanir letursins varðandi stærð, lögun og læsileika af duttlungum og tilfinningu þess sem skar. Stílfestan hefur ekki skipt alþýðulistamanninn miklu máli þar sem engar eiginlegar „reglur“ giltu. Afbrigði höfðaleturs eru því svo að segja jafn mörg þeim sem skáru.

Notkun höfðaleturs einskorðaðist nánast alla tíð við gripi úr tré og málmi, en einnig úr horni. Það er ekki fyrr en á 20. öld sem efnisnotkunin verður fjölbreyttari. Höfðaletur var ekki notað sem skrifletur. Það hentaði einfaldlega illa til aðferða og efna annarra en í útskurðarhefðinni.

Letrið var langmest skorið í tré og eiginleikar viðarins og áhöldin sem notuð voru við útskurðinn höfðu mikil áhrif á útlit höfðaleturs, ekki síst hið kassalaga form þess og yfirborðsskraut.

Algengast var að höfðaletur væri haft til skrauts á daglega brúkshluti, svo sem kistla, rúmfjalir, lára, spæni, trafakefli og svo framvegis þó því bregði fyrir á gripum sem höfðu stásslegra hlutverk.Lár, trafaöskjur, stokkur, trafakefli og hornspónn skreytt með höfðaletri.

Eiginlegir höfðaleturstölustafir voru svo að segja ekki til, þetta var fyrst og fremst bókstafaletur. Tölustafir voru þó stundum útfærðir í einhvers konar höfðaletursstíl, eða notaðir bókstafir til að tákna tölustafi, svo sem í ártölum (eins og rómversku tölurnar). Algengara var að tölustafir væru hafðir með annars konar letri.

Höfðaletur var fyrst og fremst skrautletur og sá þáttur hefur oft vegið þyngra en læsi þess og jafnvel innihald textans.

Letrið var útbreitt og virðist hafa verið þekkt meðal þorra manna í landinu. En höfðaletursáletranir áttu ekki að vera auðlæsar hverjum sem er. Þvert á móti átti letrið að vera dularfullt. Áletranirnar voru stundum hafðar aftur á bak, á einhvers konar dulmáli eða skammstafaðar, svo innihald textans væri eingöngu skiljanlegt eiganda gripsins og þeim sem skar. Nokkur fjöldi slíkra höfðaletursáletrana er enn óleystur í dag. Þrátt fyrir þessa torræðni og dularfulla yfirbragð er ekkert sem bendir til að höfðaletur hafi nokkurn tíma verið notað til galdraiðkunar.

Sjálfstæðisbaráttunni á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. fylgdi aukin þjóðernisvitund og vakning á því sem talið var þjóðlegt. Um leið fór að bera á áhyggjum af því að Íslendingar væru að glutra niður því sem með rétti gæti talist íslensk listhefð, þar með talið höfðaletrinu.

Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi lagði sitt af mörkum til endurreisnar höfðaletursins í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1900. Þar birti hann tvö höfðaletursstafróf, annað sem hann áleit vera frumstafróf höfðaleturs og hitt hið fullmótaða höfðaletursstafróf.

Einn helsti baráttumaður fyrir endurreisn höfðaletursins á 20. öld var Ríkarður Jónsson tréskurðarmeistari. Hann skrifaði einskonar áróður um íslenskan útskurð og höfðaletur í Tímarit iðnaðarmanna árið 1928 og nokkuð ítarlega grein um höfðaletur í Iðnsögu Íslands árið 1943 þar sem hann birti átta höfðaletursstafróf.

Ef ekki hefði verið fyrir vinnu þessara manna væri höfðaleturshefðin sjálfsagt endanlega horfin. En um leið hætti svo að segja öll þróun og nýsköpun í gerð höfðaleturs. Í höfðaletri 20. aldarinnar unnu menn af nokkurri nákvæmni eftir þessum birtu stafrófum og virðast lítið hafa leitað til gamalla gripa með höfðaletri til innblásturs eða fyrirmyndar (á því eru þó undantekningar).Trafaöskjur frá 17. öld. Í trafaöskjum geymdu konur tröf, það er klúta úr hvítu lérefti sem voru notaðir sem vafningar um höfuðbúnað gamla faldbúningsins. Á loki askjanna eru þrjár höfðaleturslínur en í miðju eru fjórar línur með latínuletri. Áletrunin byrjar í ysta hring og er svo: gudrun loptsdottir a / hafdv gvd i hvg og minne / hafdv gvd firer avgvm þier / hvxadvm gvd i hvg og sinne / heirer gvd og til þin sier / virtv gvd i velgeinini / vittv ad gvd þin he.

Notkun höfðaleturs varð hins vegar fjölbreyttari á 20. öldinni en nokkru sinni fyrr, ekki síst hvað varðar efnisnotkun.

Einu ítarlegu fræðilegu rannsóknina á höfðaletri vann Gunnlaugur S. E. Briem á árunum 1974-1979, sem varð doktorsritgerð hans árið 1980. Ritgerð hans, Höfðaletur, a study of Icelandic ornamental lettering from the sixteenth century to the present, hefur ekki verið gefin út.

Gerð gripa með höfðaletri hefur síðustu áratugina einskorðast að miklu leyti við minjagripaframleiðslu, ekki síst fyrir erlenda ferðamenn.

Helsta heimild og myndir:
  • Gunnlaugur S. E. Briem: Höfðaletur: a study of Icelandic ornamental lettering from the sixteenth century to the present. Department of Graphic Information, London, 1980 (óútg.).
  • Myndir: Ívar Brynjólfsson.
...