

Eiginlegir höfðaleturstölustafir voru svo að segja ekki til, þetta var fyrst og fremst bókstafaletur. Tölustafir voru þó stundum útfærðir í einhvers konar höfðaletursstíl, eða notaðir bókstafir til að tákna tölustafi, svo sem í ártölum (eins og rómversku tölurnar). Algengara var að tölustafir væru hafðir með annars konar letri. Höfðaletur var fyrst og fremst skrautletur og sá þáttur hefur oft vegið þyngra en læsi þess og jafnvel innihald textans. Letrið var útbreitt og virðist hafa verið þekkt meðal þorra manna í landinu. En höfðaletursáletranir áttu ekki að vera auðlæsar hverjum sem er. Þvert á móti átti letrið að vera dularfullt. Áletranirnar voru stundum hafðar aftur á bak, á einhvers konar dulmáli eða skammstafaðar, svo innihald textans væri eingöngu skiljanlegt eiganda gripsins og þeim sem skar. Nokkur fjöldi slíkra höfðaletursáletrana er enn óleystur í dag. Þrátt fyrir þessa torræðni og dularfulla yfirbragð er ekkert sem bendir til að höfðaletur hafi nokkurn tíma verið notað til galdraiðkunar. Sjálfstæðisbaráttunni á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. fylgdi aukin þjóðernisvitund og vakning á því sem talið var þjóðlegt. Um leið fór að bera á áhyggjum af því að Íslendingar væru að glutra niður því sem með rétti gæti talist íslensk listhefð, þar með talið höfðaletrinu. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi lagði sitt af mörkum til endurreisnar höfðaletursins í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags árið 1900. Þar birti hann tvö höfðaletursstafróf, annað sem hann áleit vera frumstafróf höfðaleturs og hitt hið fullmótaða höfðaletursstafróf. Einn helsti baráttumaður fyrir endurreisn höfðaletursins á 20. öld var Ríkarður Jónsson tréskurðarmeistari. Hann skrifaði einskonar áróður um íslenskan útskurð og höfðaletur í Tímarit iðnaðarmanna árið 1928 og nokkuð ítarlega grein um höfðaletur í Iðnsögu Íslands árið 1943 þar sem hann birti átta höfðaletursstafróf. Ef ekki hefði verið fyrir vinnu þessara manna væri höfðaleturshefðin sjálfsagt endanlega horfin. En um leið hætti svo að segja öll þróun og nýsköpun í gerð höfðaleturs. Í höfðaletri 20. aldarinnar unnu menn af nokkurri nákvæmni eftir þessum birtu stafrófum og virðast lítið hafa leitað til gamalla gripa með höfðaletri til innblásturs eða fyrirmyndar (á því eru þó undantekningar).

Notkun höfðaleturs varð hins vegar fjölbreyttari á 20. öldinni en nokkru sinni fyrr, ekki síst hvað varðar efnisnotkun. Einu ítarlegu fræðilegu rannsóknina á höfðaletri vann Gunnlaugur S. E. Briem á árunum 1974-1979, sem varð doktorsritgerð hans árið 1980. Ritgerð hans, Höfðaletur, a study of Icelandic ornamental lettering from the sixteenth century to the present, hefur ekki verið gefin út. Gerð gripa með höfðaletri hefur síðustu áratugina einskorðast að miklu leyti við minjagripaframleiðslu, ekki síst fyrir erlenda ferðamenn. Helsta heimild og myndir:
- Gunnlaugur S. E. Briem: Höfðaletur: a study of Icelandic ornamental lettering from the sixteenth century to the present. Department of Graphic Information, London, 1980 (óútg.).
- Myndir: Ívar Brynjólfsson.