| FRUMTÖLUR | RAÐTÖLUR | |||
| kk./öll kyn | kvk. | hk. | ||
| 1 | eis | mia | en | prótos |
| 2 | duo | deuteros | ||
| 3 | treis | treis | tria | tritos |
| 4 | tessares | tessares | tessara | tetartos |
| 5 | pente | pemptos | ||
| 6 | hex | hektos | ||
| 7 | hepta | hebdomos | ||
| 8 | októ | ogdoos | ||
| 9 | ennea | enatos | ||
| 10 | deka | dekatos |
Í flestum vestur-evrópskum málum koma þessi orð fyrir í ýmsum samsetningum. Einkum á þetta við um margvísleg fræðiorð sem ýmist eru mynduð beint af grískum orðstofnum eða voru upphaflega grísk tökuorð í latínu og eru fengin þaðan. Það er hins vegar nokkuð mismunandi hvort það eru frumtölurnar eða raðtölurnar sem orðin eru mynduð úr. Sem dæmi mætti nefna:- proton: róteind (eiginlega: hið fyrsta)
- trigon: þríhyrningur, trigonometry: hornafræði (eiginlega: þríhyrningafræði), trilogy: þríleikur
- pentagon: fimmhyrningur, pentagram: fimm arma stjarna, Pentateuch: Fimmbókaritið en það er annað nafn á Mósebókunum í Gamla testamentinu
- hexagramm: sexhyrnd stjarna, samsett úr tveimur þríhyrningum, einnig nefnt Davíðsstjarna; hexameter: sexliðaháttur (tiltekinn bragarháttur)
- octopus: kolkrabbi (eiginlega: áttfættlingur)
Deka er eitt af forskeytunum í metrakerfinu og táknar stærðina sem er tíföld grunnmælieiningin, til dæmis væri tíu metra lengd einn dekametri. Nýverið kom líka út íslensk þýðing á ítölsku bókinni Dekameron. Þó að bókin sé ítölsk er titillinn dreginn af grísku orðunum "deka hemerón" sem þýða eiginlega "tíu daga". Þetta vísar til þess að efni bókarinnar er lagt í munn tíu persónum sem segja hver annarri sögur á tíu daga tímabili.
Að lokum má nefna að ein allra stærsta skrifstofubygging veraldar er bandaríska varnarmálaráðuneytið, Pentagon. Eins og sjá má af myndum er þetta gríska nafn vel valið þar sem það lýsir fimmhyrndu húsinu prýðilega.
Mynd: HB