Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Svarið er nei. Slík ráðstöfun fjármuna byggist á því að menn rugla saman tveimur allsendis óskyldum hlutum. Annars vegar er vissulega æskilegt að fara með undirstöður húss niður á fast til að húsið hreyfist síður. Hins vegar er jarðtenging síst betri ef hún nær niður á fast því að rafleiðni í jörðinni er síst meiri eða hagstæðari í berggrunninum en í mýri, jarðvegi eða setlögum sem liggja ofan á honum.
Við vitum öll að hús geta hreyfst til á grunninum ef undirstöður þeirra eru ótraustar, til dæmis ekki reistar á föstu bergi. Þess vegna reyndu menn fyrst í stað að reisa steinhús þar sem ekki er djúpt niður á fast. Síðan fleygði tækninni fram og nú þykir ekki tiltökumál að grafa undirstöðurnar niður á fast þó að dýpi sé verulegt. Meðal annars byggja menn hús þar sem áður voru þykkar mýrar, samanber bæði Kringlumýrina og Vatnsmýrina í Reykjavík.
Rafkerfi húsa eru jarðtengd til þess að verja okkur fyrir því til dæmis að raftæki úr málmi leiði út sem kallað er. Við fáum þá í okkur rafstraum ef við snertum málmhylki tækisins. En ef tækið og rafkerfi hússins eru rétt jarðtengd þá fer rafstraumurinn í staðinn niður í jörðina. Ef raflögnin er gerð samkvæmt nýlegum kröfum er einnig í henni svokallaður lekaliði sem nemur það að útleiðsla er í straumrásinni og rýfur strauminn inn á hana frá rafveitunni.
Jarðtenging er síst betri ef hún nær niður á fast sem kallað er.
Við tilteknar aðstæður getur verið ástæða til að jarðtengja sem flesta málmhluti í húsum. Til dæmis kann að vera að menn vilji koma í veg fyrir stöðurafmagn sem svo er kallað og hefur áður verið til umræðu hér á Vísindavefnum. Þannig getur verið full ástæða til að jarðtengja málmrör og aðra málmhluti í fjósum til að kýrnar fái ekki straumhögg þegar þær snerta slíka hluti.
Sumir ganga enn lengra og gera sér áhyggjur út af svokallaðri rafsegulmengun í húsum. Rafsegulsvið sem raunvísindamenn eða verkfræðingar mæla í venjulegum húsum eru þó afar veik og allsendis óljóst frá sjónarmiði vísinda að þau hafi nein umtalsverð áhrif á fólk eða dýr, til að mynda ef borið er saman við ýmis önnur óæskileg áhrif sem við verðum fyrir frá umhverfi okkar nú á dögum og eru óumdeild. Samkvæmt niðurstöðum úr vísindalegum rannsóknum er til dæmis margfalt ríkari ástæða til að huga að loftinu sem við öndum að okkur og matnum sem við borðum en hugsanlegum veikum rafsegulsviðum í umhverfinu.
En hvað sem þessu líður er eftirfarandi alveg ljóst: Til þess að rafstraumur berist sem greiðlegast til jarðar getur skipt máli að rafleiðni sé sem best þar sem hann er leiddur út í jörðina. Til þess reyna menn að útbúa enda rafleiðslunnar þannig að sem best snerting fáist við leiðandi efni í jörðinni eins og til dæmis grunnvatn. Ávinningurinn af því að fara með enda leiðslunnar „niður á fast“ er þess vegna minni en enginn.
Af þessum ástæðum ráku íslenskir eðlisfræðingar upp stór augu þegar sagt var frá því í fjölmiðlum fyrir nokkrum árum að jarðtenging í verslunarmiðstöð í Reykjavík hefði verið leidd niður á fast sem er á verulegu dýpi á viðkomandi stað. Eitthvað hefur þar skolast illilega til, annaðhvort í frásögn fjölmiðla, hagsýni húsbyggjandans eða í ráðgjöf þeirra sérfróðu manna sem hann hefur væntanlega haft sér til halds og trausts.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Er betra að fara með jarðtengingu húsa niður á fast sem kallað er?“ Vísindavefurinn, 7. mars 2002, sótt 7. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2165.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2002, 7. mars). Er betra að fara með jarðtengingu húsa niður á fast sem kallað er? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2165
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Er betra að fara með jarðtengingu húsa niður á fast sem kallað er?“ Vísindavefurinn. 7. mar. 2002. Vefsíða. 7. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2165>.