Þrátt fyrir mikla leit höfum við ekki fundið öruggar heimildir fyrir því að þetta sé til. Hins vegar er spurningin náttúrlega dæmi um hroka okkar mannanna gagnvart eigin sköpunarverki okkar, tölvunum. Svona teljum við okkur óhætt að gera grín að þeim í trausti þess að þær geti ekki svarað fyrir sig að eigin frumkvæði og hafi raunar ekki heldur kímnigáfu til þess. Einhvern tímann kemur að því að svona lagað verður kært fyrir jafnréttisráði. En við hérna á Vísindavefnum teljum okkur jafnréttissinnuð og tökum því fúslega að okkur að halda uppi merki jafnréttisins að svo stöddu.
En fyrst er rétt að þýða villuboðið:VILLA: Lyklaborðið er ekki í sambandi. Ýttu á takkann F1 til að halda áframEðlilegt og sjálfsagt viðbragð við fyrri setningunni er náttúrlega það að setja lyklaborðið í samband hið snarasta. Þetta getur hver meðalauli sagt sér sjálfur og þarf því ekki að taka það fram; stafabilið á eftir punktinum segir það! Hins vegar mundu margir ætla að það dygði yfirleitt að setja í samband, en höfundur textans, hver sem hann er, veit greinilega betur. Sennilega er F1 uppáhaldstakkinn hans alveg eins og svokallaður "Any key" er í sérstöku uppáhaldi hjá sumum tölvunjörðum, sjá svar okkar við spurningunni Oft þegar ég er í tölvunni þá kemur skipunin „press any key". Hvar er þessi hnappur? Við sjáum alltént ekki að það væri neitt betra að ýta á Fn þar sem n = 2, 3, ..., -- eða hvað? Eftir að við birtum þetta svar hefur okkur borist eftirfarandi frá Atla Harðarsyni heimspekingi og framhaldsskólakennara.
Í einhverri útgáfu MS-DOS (4.x trúlega) var hægt að fá meldinguna: "Keyboard missing. Press any key to continue." Þetta varð allfrægt á sínum tíma.Við þökkum Atla ábendinguna og hvetjum lesendur til að senda okkur fleiri slíkar þegar þeir sjá ástæðu til. Þorleifur S. Ásgeirsson sendi okkur þessa viðbót og athugasemd við ábendingu Atla:
Þessi villuboð voru aldrei í DOS. Þau komu úr eldri útgáfum af grunnstýrikerfi tölvunnar BIOS (Basic Input Output System) og tengdust skipun i " Biosinum" sem heitir 'error report', þar sem einn valmöguleikinn var 'keyboard error'. Ef hann var valinn komu þessi boð eða eitthvað í þessa áttina: "Keyboard not present press F1 to continue or Del to enter setup."
Mynd: HB