Enska heimspekingnum John Locke er oft eignuð þessi orð en í riti sínu Ritgerð um mannlegan skilning (1690) notar hann raunar orðin „white paper“ eða „hvítt blað“ til þess að lýsa mannshuganum við fæðingu (II.i.2). En hvað þýðir það að hugurinn sé eins og óskrifað blað? Raunhyggjumenn eins og John Locke töldu að engin þekking eða hugtök væru meðfædd heldur væri reynslan uppspretta allrar mannlegrar þekkingar. Andspænis raunhyggjunni var rökhyggjan svonefnda sem lagði áherslu á hlutverk skynseminnar í öflun þekkingar. Um þetta má lesa í svari undirritaðs við spurningunni Hver er munurinn á raunhyggju og rökhyggju?Grískri heimspekingurinn Aristóteles hafði lýst huganum eða skynseminni (gr. nous) með svipuðu orðalagi þegar á 4. öld f.Kr. Hann segir í riti sínu Um sálina:
Á megundarstigi er skynsemin með einhverjum hætti öll hugsunarviðföng, en hún er ekkert þeirra í fullnun, fyrr en hún hugsar. Þessu er eins farið og um ritspjald, sem ekkert er ritað á í fullnun. Það er einmitt það, sem gerist með skynsemina. (429b30-430a2)Aristóteles er að vísu ekki að lýsa eðli mannshugans við fæðingu eins og Locke, heldur eðli hugsunar almennt. Aristóteles heldur því fram að hugurinn eða skynsemin (nous) geti tekið á sig form hvaða viðfangs sem er rétt eins og það er mögulegt að rita hvaða texta sem er á ritspjaldið en þar til það gerist er hugurinn ómótaður af viðfanginu eins og ritspjald sem ekkert hefur verið ritað á enn þá. Mynd: