Sólin Sólin Rís 11:08 • sest 15:33 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:59 • Sest 13:45 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:11 • Síðdegis: 17:22 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:25 • Síðdegis: 23:31 í Reykjavík

Hver er munurinn á raunhyggju og rökhyggju?

Geir Þ. Þórarinsson

Raunhyggja og rökhyggja eru meginstraumar í þekkingarfræði, fremur en tilteknar kenningar. Ýmis afbrigði eru til að hvorri tveggja. Reyndar eru afbrigðin jafn mörg og heimspekingarnir. Raunhyggja er í hnotskurn hver sú kenning sem leggur megináherslu á hlutverk reynslunnar í öflun þekkingar. Rökhyggja er á hinn bóginn hver sú kenning sem leggur megináherslu á hlutverk skynseminnar í öflun þekkingar. Ágreiningurinn snýst að verulegu leyti um möguleikann svokallaðri a priori þekkingu, það er þekkingu sem styðst ekki við reynslu.

Helstu málsvarar rökhyggjunnar eru venjulega taldir vera þeir René Descartes, Baruch Spinoza og Gottfried Wilhelm Leibniz en einnig mætti nefna ýmsa aðra eins og Blaise Pascal, Nicolas Malebranche og fleiri. Helstu málsvarar raunhyggjunnar eru venjulega taldir vera þeir John Locke, George Berkeley og David Hume en einnig mætti nefna þá Thomas Hobbes og Pierre Gassendi og ýmsa aðra. Þessir heimspekingar voru allir afar ólíkir. Rökhyggjumennirnir voru innbyrðis ólíkir um margt og sömu sögu er að segja um raunhyggjumennina. Aftur á móti voru sumir rökhyggjumenn og sumir raunhyggjumenn sammála um ýmislegt annað en eðli og uppsprettur þekkingar. Enginn þeirra lýsti sjálfum sér sem rökhyggjumanni eða raunhyggjumanni, heldur eru það 19. aldar heiti á þessum tveimur straumum heimspekinnar en þeir heimspekingar sem hér hafa verið nefndir voru uppi á 17. og 18. öld. Því ber að varast að láta flokkunina í rökhyggju og raunhyggju villa sér sýn.

Eins og áður sagði lögðu rökhyggjumenn megináherslu á hlutverk skynseminnar í öflun þekkingar. Þeir töldu að með skynseminni einni væri hægt að komast að öruggri þekkingu, að minnsta kosti um sumt. Stærðfræðin er ágætt dæmi en við virðumst til að mynda vita að hornasumma þríhyrnings sé 180 gráður alveg óháð reynslu okkar af þríhyrningum. Gagnrýnendur bentu á hinn bóginn á að þekking af þessu tagi virðist vera lítið annað en afleiðing af upphaflegri skilgreiningu okkar á grundvallarhugtökum stærðfræðinnar. Til þess að það sé hægt að öðlast einhverja umtalsverða þekkingu með skynseminni einni verður að gera ráð fyrir að einhver þekking eða hugtök séu meðfædd og að svo megi leiða út frekari vitneskju þaðan. Sem dæmi má nefna þá hugmynd að við höfum meðfæddar siðareglur eins og að manni beri að efna loforð og þá kenningu að hugmyndin um fullkominn guð sé meðfædd. Descartes taldi til að mynda að út frá grunnhugmyndinni um guð væri hægt að leiða örugga þekkingu á lögmálum eðlisfræðinnar enda taldi hann að öll sannindi, jafnvel það sem er nauðsynlega satt, væri háð vilja guðs. Rökhyggjumennirnir höfðu ólíkar hugmyndir um nákvæmlega hvaða hugtök eða þekking væri meðfædd.

Raunhyggjumenn töldu aftur á móti að engin þekking eða hugtök væru meðfædd heldur væri reynslan uppspretta allrar mannlegrar þekkingar. Að sjálfsögðu er hægt að vita og sýna fram á að hornasumma þríhyrnings sé 180 gráður óháð athugunum á raunverulegum þríhyrningum í heiminum. En slík vitneskja virðist, eins og áður sagði, vera afleiðing af skilgreiningum okkar á grundvallarhugtökum og ef við höfum einhverja þekkingu á þeim, þá er hún fengin úr reynslunni. Raunhyggjumenn höfnuðu því algerlega þeirri hugmynd að þekking eða hugtök væru meðfædd. Ef hugtök væru meðfædd, þá myndi ekki vera jafn mikill ágreiningur um þau og raun ber vitni. Ef við hefðum meðfædda þekkingu um að manni beri að efna loforð sín ættu allir að vera sammála um að svo sé en sú virðist ekki vera raunin því sumum þykir ekkert athugavert við að segja ósatt ef það kemur sér vel fyrir þá. Enn fremur þyrfti ekki að kenna börnum að þeim beri að efna loforð sín ef þau hefðu meðfædda vitneskju um það en þetta þarf einmitt að kenna börnum rétt eins og hvað annað. Þess vegna sagði Locke að hugurinn væri við fæðingu eins og óskrifað blað. Það er svo reynslan sem skrifar á blaðið.

Stundum er orðið raunhyggja líka notað um ákveðnar hugmyndir um aðferðafræði í vísindum. Þá er raunhyggja það viðhorf að vísindin eigi að byggja á athugunum og tilraunum öðru fremur. En af þessu leiðir ekki að hugurinn sé við fæðingu óskrifað blað. Francis Bacon var einnig raunhyggjumaður í þessum aðferðafræðilega skilningi, þótt hann hafi ekki verið raunhyggjumaður í þekkingarfræði. Aftur á móti voru rökhyggjumennirnir einnig sammála um mikilvægi athugana í vísindum enda þótt þeir hafi gjarnan litið til stærðfræðinnar sem fyrirmyndar annarra vísindagreina.

Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant reyndi að sætta raunhyggju og rökhyggju í heimspeki sinni. Hann féllst á aðferðafræðilega raunhyggju í vísindum og hafnaði einnig að einhverju leyti kenningunni um meðfæddar hugmyndir. Aftur á móti taldi hann að hugurinn væri við fæðingu mótaður í ákveðið form, sem gerði okkur kleift að mynda reynslu úr upplifunum okkar. Að þessu leyti svipar kenningu Kants eilítið til kenningar Leibniz sem hafnaði lýsingu Lockes að hugurinn væri við fæðingu óskrifað blað en lýsti honum í staðinn sem marmarablokk sem hefur í sér ákveðnar sprungur þannig að hún hefur fyrirfram ákveðna tilhneigingu til að brotna á ákveðinn hátt. Hjá Kant eru tími og rúm til að mynda form skynhæfninnar sem gera okkur kleift að mynda reynslu úr upplifunum okkar; við gætum ekki hafa myndað þessi hugtök úr reynslunni því án þeirra væru upplifanir okkar óreiðukenndar og óskiljanlegar.

Kant hélt því fram að það væri möguleiki á a priori þekkingu. Hann gerði greinarmun annars vegar á greinandi dómum og sameinandi dómum og hins vegar á fyrirfram dómum og eftir á dómum (eða a priori og a posteriori dómum). Dæmi um greinandi dóm er til dæmis eftirfarandi: „Allir piparsveinar eru ógiftir karlmenn“. Greinandi dómar byggjast á mótsagnarlögmálinu og engu öðru. Þeir eru skýrandi því að umsögnin segir ekkert sem ekki er sagt í frumlaginu. Sameinandi dómar eru á hinn bóginn víkkandi, það er þeir bæta einhverju við það sem frumlagið segir. Dæmi um sameinandi dóm gæti verið: „Jón er piparsveinn“. Fyrirfram dómar eru dómar sem við getum fellt óháð reynslu en eftir á dómar eru dómar sem byggja á reynslu. Dómar sem eru eftir á og sameinandi dómar eru venjulegir reynsludómar. Venjulega eru fyrirfram dómar greinandi. En þeir bæta engu við þekkingu okkar. Kant hélt því fram að einnig væri mögulegt að fella fyrirfram sameinandi dóma en eru dómar sem styðjast ekki við reynslu, en bæta þó einhverju við upphaflegu hugsunina. Hjá Kant eru þetta stærðfræðilegir og frumspekilegir dómar en frumspekin takmarkast við rannsókn á huganum og getu hans, hún verður að Gagnrýni hreinnar skynsemi eins og frægasta rit Kants heitir á íslensku. Ávinningurinn er sá að það þarf ekki að halda því fram að reynslan liggi allri þekkingu til grundvallar, heldur er til þekking, frumspekileg þekking, sem sprettur af hreinum skilningi.

Bæði raunhyggja og rökhyggja hafa í einni eða annarri mynd lifað til þessa dags. Ef til vill hefur raunhyggjan átt eilítið meiri vinsældum að fagna innan heimspekinnar. Sem dæmi um raunhyggjumenn má nefna John Stuart Mill á nítjándu öld og Bertrand Russell á þeirri tuttugustu. Fyrir miðja tuttugustu öld kom fram svonefnd rökfræðileg raunhyggja sem lesa má um í svari Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni Hvað er heimspekihugtakið sannreynsla, eða það sem er kallað verification á ensku? Rökfræðilegu raunhyggjumennirnir voru rammir raunhyggjumenn sem töldu að undirstöður mannlegrar þekkingar væru bein skynjun annars vegar og rökfræði hins vegar. Þeir höfnuðu allri frumspeki sem þeir héldu fram að væri merkingarlaus af því að það væri ekki með nokkru móti hægt að sannreyna þær, hvorki með rökleiðslu né raunprófunum. Þótt tími rökfræðilegu raunhyggjunnar sé á enda á hún sér þó ýmis skilgetin afkvæmi í samtímanum.

Að lokum ber að nefna málvísindamanninn Noam Chomsky sem hefur sett fram öfluga kenningu um máltöku barna í anda rökhyggjunnar. Kenningin er á þá leið að hugurinn sé við fæðingu mótaður þannig að börn geti tileinkað sér tungumál og lært að tala. Eða eins og Guðrun Kvaran segir í svari sínu um kenningu Chomskys:
Gert er ráð fyrir að börn fæðist með tilfinningu fyrir því hvernig mál eru byggð upp; börnin hafi ákveðna meðfædda þekkingu á málfræði og séu því undir það búin að tileinka sér málið sem þau alast upp við.

Það sem Chomsky telur að sé meðfætt er ekki þekking á neinni málfræði strangt tekið heldur getan til að tileinka sér hana. Chomsky telur að börn læri að tala mun hraðar en hægt er að útskýra með tilvísun til reynslunnar. Þessi rök eru stundum nefnd rökin um fátækt reynslunnar. Chomsky heldur því fram að til þess að útskýra máltöku barna verði að gera ráð fyrir að þau séu þegar við fæðingu í stakk búin að tileinka sér allsherjarmálfræði sem eru þau málfræðilegu atriði sem eru öllum tungumálum sameiginleg. Þessi sameiginlega málfræði er stundum nefnd djúpgerð málanna.

Deilan um hvort hugurinn sé óskrifað blað við fæðingu og um hlutverk reynslunnar í öflun þekkingar lifir því góðu lífi enn í dag.

Ítarefni:

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

6.5.2008

Spyrjandi

Ólöf Ósk Johnsen, f. 1992

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver er munurinn á raunhyggju og rökhyggju?“ Vísindavefurinn, 6. maí 2008. Sótt 11. desember 2023. http://visindavefur.is/svar.php?id=24216.

Geir Þ. Þórarinsson. (2008, 6. maí). Hver er munurinn á raunhyggju og rökhyggju? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=24216

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver er munurinn á raunhyggju og rökhyggju?“ Vísindavefurinn. 6. maí. 2008. Vefsíða. 11. des. 2023. <http://visindavefur.is/svar.php?id=24216>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er munurinn á raunhyggju og rökhyggju?
Raunhyggja og rökhyggja eru meginstraumar í þekkingarfræði, fremur en tilteknar kenningar. Ýmis afbrigði eru til að hvorri tveggja. Reyndar eru afbrigðin jafn mörg og heimspekingarnir. Raunhyggja er í hnotskurn hver sú kenning sem leggur megináherslu á hlutverk reynslunnar í öflun þekkingar. Rökhyggja er á hinn bóginn hver sú kenning sem leggur megináherslu á hlutverk skynseminnar í öflun þekkingar. Ágreiningurinn snýst að verulegu leyti um möguleikann svokallaðri a priori þekkingu, það er þekkingu sem styðst ekki við reynslu.

Helstu málsvarar rökhyggjunnar eru venjulega taldir vera þeir René Descartes, Baruch Spinoza og Gottfried Wilhelm Leibniz en einnig mætti nefna ýmsa aðra eins og Blaise Pascal, Nicolas Malebranche og fleiri. Helstu málsvarar raunhyggjunnar eru venjulega taldir vera þeir John Locke, George Berkeley og David Hume en einnig mætti nefna þá Thomas Hobbes og Pierre Gassendi og ýmsa aðra. Þessir heimspekingar voru allir afar ólíkir. Rökhyggjumennirnir voru innbyrðis ólíkir um margt og sömu sögu er að segja um raunhyggjumennina. Aftur á móti voru sumir rökhyggjumenn og sumir raunhyggjumenn sammála um ýmislegt annað en eðli og uppsprettur þekkingar. Enginn þeirra lýsti sjálfum sér sem rökhyggjumanni eða raunhyggjumanni, heldur eru það 19. aldar heiti á þessum tveimur straumum heimspekinnar en þeir heimspekingar sem hér hafa verið nefndir voru uppi á 17. og 18. öld. Því ber að varast að láta flokkunina í rökhyggju og raunhyggju villa sér sýn.

Eins og áður sagði lögðu rökhyggjumenn megináherslu á hlutverk skynseminnar í öflun þekkingar. Þeir töldu að með skynseminni einni væri hægt að komast að öruggri þekkingu, að minnsta kosti um sumt. Stærðfræðin er ágætt dæmi en við virðumst til að mynda vita að hornasumma þríhyrnings sé 180 gráður alveg óháð reynslu okkar af þríhyrningum. Gagnrýnendur bentu á hinn bóginn á að þekking af þessu tagi virðist vera lítið annað en afleiðing af upphaflegri skilgreiningu okkar á grundvallarhugtökum stærðfræðinnar. Til þess að það sé hægt að öðlast einhverja umtalsverða þekkingu með skynseminni einni verður að gera ráð fyrir að einhver þekking eða hugtök séu meðfædd og að svo megi leiða út frekari vitneskju þaðan. Sem dæmi má nefna þá hugmynd að við höfum meðfæddar siðareglur eins og að manni beri að efna loforð og þá kenningu að hugmyndin um fullkominn guð sé meðfædd. Descartes taldi til að mynda að út frá grunnhugmyndinni um guð væri hægt að leiða örugga þekkingu á lögmálum eðlisfræðinnar enda taldi hann að öll sannindi, jafnvel það sem er nauðsynlega satt, væri háð vilja guðs. Rökhyggjumennirnir höfðu ólíkar hugmyndir um nákvæmlega hvaða hugtök eða þekking væri meðfædd.

Raunhyggjumenn töldu aftur á móti að engin þekking eða hugtök væru meðfædd heldur væri reynslan uppspretta allrar mannlegrar þekkingar. Að sjálfsögðu er hægt að vita og sýna fram á að hornasumma þríhyrnings sé 180 gráður óháð athugunum á raunverulegum þríhyrningum í heiminum. En slík vitneskja virðist, eins og áður sagði, vera afleiðing af skilgreiningum okkar á grundvallarhugtökum og ef við höfum einhverja þekkingu á þeim, þá er hún fengin úr reynslunni. Raunhyggjumenn höfnuðu því algerlega þeirri hugmynd að þekking eða hugtök væru meðfædd. Ef hugtök væru meðfædd, þá myndi ekki vera jafn mikill ágreiningur um þau og raun ber vitni. Ef við hefðum meðfædda þekkingu um að manni beri að efna loforð sín ættu allir að vera sammála um að svo sé en sú virðist ekki vera raunin því sumum þykir ekkert athugavert við að segja ósatt ef það kemur sér vel fyrir þá. Enn fremur þyrfti ekki að kenna börnum að þeim beri að efna loforð sín ef þau hefðu meðfædda vitneskju um það en þetta þarf einmitt að kenna börnum rétt eins og hvað annað. Þess vegna sagði Locke að hugurinn væri við fæðingu eins og óskrifað blað. Það er svo reynslan sem skrifar á blaðið.

Stundum er orðið raunhyggja líka notað um ákveðnar hugmyndir um aðferðafræði í vísindum. Þá er raunhyggja það viðhorf að vísindin eigi að byggja á athugunum og tilraunum öðru fremur. En af þessu leiðir ekki að hugurinn sé við fæðingu óskrifað blað. Francis Bacon var einnig raunhyggjumaður í þessum aðferðafræðilega skilningi, þótt hann hafi ekki verið raunhyggjumaður í þekkingarfræði. Aftur á móti voru rökhyggjumennirnir einnig sammála um mikilvægi athugana í vísindum enda þótt þeir hafi gjarnan litið til stærðfræðinnar sem fyrirmyndar annarra vísindagreina.

Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant reyndi að sætta raunhyggju og rökhyggju í heimspeki sinni. Hann féllst á aðferðafræðilega raunhyggju í vísindum og hafnaði einnig að einhverju leyti kenningunni um meðfæddar hugmyndir. Aftur á móti taldi hann að hugurinn væri við fæðingu mótaður í ákveðið form, sem gerði okkur kleift að mynda reynslu úr upplifunum okkar. Að þessu leyti svipar kenningu Kants eilítið til kenningar Leibniz sem hafnaði lýsingu Lockes að hugurinn væri við fæðingu óskrifað blað en lýsti honum í staðinn sem marmarablokk sem hefur í sér ákveðnar sprungur þannig að hún hefur fyrirfram ákveðna tilhneigingu til að brotna á ákveðinn hátt. Hjá Kant eru tími og rúm til að mynda form skynhæfninnar sem gera okkur kleift að mynda reynslu úr upplifunum okkar; við gætum ekki hafa myndað þessi hugtök úr reynslunni því án þeirra væru upplifanir okkar óreiðukenndar og óskiljanlegar.

Kant hélt því fram að það væri möguleiki á a priori þekkingu. Hann gerði greinarmun annars vegar á greinandi dómum og sameinandi dómum og hins vegar á fyrirfram dómum og eftir á dómum (eða a priori og a posteriori dómum). Dæmi um greinandi dóm er til dæmis eftirfarandi: „Allir piparsveinar eru ógiftir karlmenn“. Greinandi dómar byggjast á mótsagnarlögmálinu og engu öðru. Þeir eru skýrandi því að umsögnin segir ekkert sem ekki er sagt í frumlaginu. Sameinandi dómar eru á hinn bóginn víkkandi, það er þeir bæta einhverju við það sem frumlagið segir. Dæmi um sameinandi dóm gæti verið: „Jón er piparsveinn“. Fyrirfram dómar eru dómar sem við getum fellt óháð reynslu en eftir á dómar eru dómar sem byggja á reynslu. Dómar sem eru eftir á og sameinandi dómar eru venjulegir reynsludómar. Venjulega eru fyrirfram dómar greinandi. En þeir bæta engu við þekkingu okkar. Kant hélt því fram að einnig væri mögulegt að fella fyrirfram sameinandi dóma en eru dómar sem styðjast ekki við reynslu, en bæta þó einhverju við upphaflegu hugsunina. Hjá Kant eru þetta stærðfræðilegir og frumspekilegir dómar en frumspekin takmarkast við rannsókn á huganum og getu hans, hún verður að Gagnrýni hreinnar skynsemi eins og frægasta rit Kants heitir á íslensku. Ávinningurinn er sá að það þarf ekki að halda því fram að reynslan liggi allri þekkingu til grundvallar, heldur er til þekking, frumspekileg þekking, sem sprettur af hreinum skilningi.

Bæði raunhyggja og rökhyggja hafa í einni eða annarri mynd lifað til þessa dags. Ef til vill hefur raunhyggjan átt eilítið meiri vinsældum að fagna innan heimspekinnar. Sem dæmi um raunhyggjumenn má nefna John Stuart Mill á nítjándu öld og Bertrand Russell á þeirri tuttugustu. Fyrir miðja tuttugustu öld kom fram svonefnd rökfræðileg raunhyggja sem lesa má um í svari Ólafs Páls Jónssonar við spurningunni Hvað er heimspekihugtakið sannreynsla, eða það sem er kallað verification á ensku? Rökfræðilegu raunhyggjumennirnir voru rammir raunhyggjumenn sem töldu að undirstöður mannlegrar þekkingar væru bein skynjun annars vegar og rökfræði hins vegar. Þeir höfnuðu allri frumspeki sem þeir héldu fram að væri merkingarlaus af því að það væri ekki með nokkru móti hægt að sannreyna þær, hvorki með rökleiðslu né raunprófunum. Þótt tími rökfræðilegu raunhyggjunnar sé á enda á hún sér þó ýmis skilgetin afkvæmi í samtímanum.

Að lokum ber að nefna málvísindamanninn Noam Chomsky sem hefur sett fram öfluga kenningu um máltöku barna í anda rökhyggjunnar. Kenningin er á þá leið að hugurinn sé við fæðingu mótaður þannig að börn geti tileinkað sér tungumál og lært að tala. Eða eins og Guðrun Kvaran segir í svari sínu um kenningu Chomskys:
Gert er ráð fyrir að börn fæðist með tilfinningu fyrir því hvernig mál eru byggð upp; börnin hafi ákveðna meðfædda þekkingu á málfræði og séu því undir það búin að tileinka sér málið sem þau alast upp við.

Það sem Chomsky telur að sé meðfætt er ekki þekking á neinni málfræði strangt tekið heldur getan til að tileinka sér hana. Chomsky telur að börn læri að tala mun hraðar en hægt er að útskýra með tilvísun til reynslunnar. Þessi rök eru stundum nefnd rökin um fátækt reynslunnar. Chomsky heldur því fram að til þess að útskýra máltöku barna verði að gera ráð fyrir að þau séu þegar við fæðingu í stakk búin að tileinka sér allsherjarmálfræði sem eru þau málfræðilegu atriði sem eru öllum tungumálum sameiginleg. Þessi sameiginlega málfræði er stundum nefnd djúpgerð málanna.

Deilan um hvort hugurinn sé óskrifað blað við fæðingu og um hlutverk reynslunnar í öflun þekkingar lifir því góðu lífi enn í dag.

Ítarefni:

Myndir:...