Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Þetta er föstudagssvar, sem þýðir að ekki ber að taka hvert orð bókstaflega, en vonandi getur það samt vakið til umhugsunar.
Við höldum að í framtíðinni verði ekki tæknilega nauðsynlegt að eiga foreldra. Sá sem vill komast hjá því fer í einhvers konar erfðabanka þar sem varðveittur er fjöldi eggja úr ýmsum konum og sæði úr mörgum körlum, sennilega í einhvers konar kúlum eða hylkjum. Hann biður bankastarfsmennina um að finna egg með slembiaðferð, svipað og þegar dregið er í lottóinu. Hann leggur ríkt á við starfsmennina að þetta eigi að gera þannig að ómögulegt sé að vita úr hvaða konu eggið er. Síðan er farið eins að með sæðið. Frjóvgunin fer fram í glasi og meðgangan í þar til gerðum poka þannig að engin kona geti heldur talist móðir að því leyti að hún hafi gengið með barnið. Svo gætir viðkomandi þess að aldrei sé tekið af honum eða henni lífsýni sem nota mætti til að rekja erfðaefnið.
Það er að vísu á þessu einn annmarki. Sá sem verður til með slembigetnaði í erfðaefnabankanum hefur náttúrlega ekki getað farið sjálfur í bankann og beðið um slíkan getnað vegna þess að til þess að fara í bankann þarf maður fyrst að vera til. Og enginn er til fyrir eigin getnað. En þetta er bara heimspekilegt vandamál og því látum við það í léttu rúmi liggja; kannski notar þessi söguhetja okkar bara tímavél til að koma þessu í kring!?
Sá sem verður til við slembigetnað hefur að vísu erfðaefni úr tilteknum einstaklingum, en þar sem enginn getur vitað hverjir þeir eru, getur hann sagt að hann eigi enga tiltekna foreldra. Að minnsta kosti eru engir sem hafa foreldravald yfir viðkomandi og geta gert honum eða henni að taka lýsi á hverjum morgni alla bernskuna og taka til í herberginu sínu minnst einu sinni í viku langt fram á unglingsár.
Hitt er svo annað mál hvort þetta sé eftirsóknarvert hlutskipti. Niðurstöður félagsvísindanna benda ekki til þess og í bókmenntum mannkynsins má lesa mörg dæmi um þá erfiðleika sem fylgja því að vera foreldralaus. Einstaka mönnum hefur þó tekist að vinna ýmis afrek þrátt fyrir slíka byrjun í kapphlaupi lífsins, en slíkt eru aðeins einstök dæmi sem eru ekki tölfræðilega marktæk. Þau merkja ekki að það sé hagstætt fyrir Pétur og Pál, Jón eða Gunnu, að hafa alist upp án foreldra.
En af því að þetta er vísindavefur getum við ekki stillt okkur um að nefna að einn frægasti vísindamaður allra tíma, Englendingurinn Ísak Newton, missti föður sinn áður en hann fæddist og ólst ekki upp hjá móður sinni. En þó að hann hafi verið mikill afreksmaður er ekki víst að okkur hefði líkað vel við hann persónulega.
Ritstjórn Vísindavefsins. „Þarf maður að eiga foreldra?“ Vísindavefurinn, 30. mars 2002, sótt 8. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=2250.
Ritstjórn Vísindavefsins. (2002, 30. mars). Þarf maður að eiga foreldra? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=2250
Ritstjórn Vísindavefsins. „Þarf maður að eiga foreldra?“ Vísindavefurinn. 30. mar. 2002. Vefsíða. 8. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=2250>.