Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hversu stór er einingin hundrað, sem notuð var um stærð jarða?

Gísli Gunnarsson (1938-2020)

Hundrað að fornu merkti 120. Upphaf orðsins er ekki yngra en frá 11. öld, sennilega eldra, og merkti fyrst 120 álnir vaðmáls þar sem hver alin skyldi vera af tilskilinni stærð og réttum gæðum. Eftir því sem tímar liðu urðu tengslin við vaðmálið ógleggri og virðast vera með öllu horfin á 17. öld. Bæði alin og hundrað urðu þegar á miðöldum eingöngu verðmætiseiningar, líkt og SDR (sérstök dráttarréttindi) er nú á dögum.

Annars var tvenns konar verðmætiskerfi í gangi. Elst er sennilega aura/markakerfið, lögaurakerfið, en það byggðist einnig á alininni. Sex álnir gerðu einn eyri og átta aurar eina mörk þannig að alls voru 48 álnir í mörkinni. Þetta kerfi var einkum notað í dómsmálum allt fram á 19. öld. En í viðskiptum og þó einkum í jarðamati varð vani að nota hundraðakerfið þótt einnig þar væri kerfunum gjarnan blandað saman þegar kom að greiðslum. Raunar tengdust þau þannig að tvær og hálf mörk voru í einu hundraði.

Þegar leið á miðaldir var einng farið að nota verðmætiseininguna „fiskur”. Gildur fiskur átti að vera unninn og þurrkaður og vega nálægt einu kílói í því formi. En fiskur varð með tímanum einnig fyrst og fremst verðmætiseining. Í Búalögum, reglunum um viðskipti „manna á meðal hér á landi”, voru tveir fiskar jafngildi einnar álnar. Hundraðið var þannig 240 fiskar. Þannig náðist óskahlutfall hæstu og lægstu verðmætiseiningar, 1:240. Þetta hlutfall er oft kennt við Karl mikla sem ríkti í Frankaríki 768-814, en peningakerfi hans hafði þessi einkenni. Það var tekið upp í Englandi; til ársins 1970 voru 240 pence í einu sterlingspundi. Norrænir menn notuðu þetta kerfi í verðmætiseiningum sínum hvenær sem þeir gátu. Til dæmis var 1 mörk = 8 aurar = 24 örtugir = 240 „peningar”.

Hundraðareikningurinn var notaður við jarðamatið sem þurfti að koma á við innleiðingu svonefndrar tíundar árið 1096. Tíund var skattur sem bændur eða jarðeigendur áttu að greiða kirkjunni og var erlendis tekjuskattur; kirkjunni skyldi greiddur tíundi hluti alls þess sem framleitt var. Á Íslandi var hins vegar komið á eignaskatti og skyldi kirkjunni greiddur hundraðasti hluti metinnar eignar á ári hverju. Eigi að síður var skattur þessi nefnd tíund. Hann var miklu léttari en hin eiginlega tíund því að með eignaskattsfyrirkomulaginu varð öll vinna tíundarfrjáls.

Á hvaða verðmætum byggðist hundraðatal jarða? Um þetta hafa menn deilt síðan á 17. öld og Jarðabókarhöfundarnir Árni Magnússon og Páll Vídalín, sem sömdu jarðabók fyrir allt landið snemma á 18. öld, gátu alls ekki útskýrt upphaf þessa kerfis. Í raun áttu þeir að búa til nýtt og nútímalegra jarðamat en vannst alls ekki tími til þess þannig gamla jarðamatið frá miðöldum hélst að mestu leyti óbreytt allt til ársins 1922! Vinsæl kenning hefur verið sú að matið hafi í upphafi byggst á því hve margar skepnur var hægt að fóðra á jörðunum. Vera má að svo hafi verið við innleiðingu matsins á 11. öld en skoðun á jarðamati á seinni öldum (eftir 1600) sýnir ljóslega að kenning þessi getur ekki útskýrt muninn á mati jarða þá nema að litlu leyti.

Líklegast tel ég að jarðeigendur hafi á 11. öld samið sín á milli hvaða mat skyldi þá vera á hverri jörð. Forsendur þessa mats hafa alls ekki þurft að vera hagrænar að öllu leyti. Þessi ákvörðun um jarðamat hélst síðan að mestu óbreytt í meira en 800 ár. Þegar breytingar voru nauðsynlegar vegna þess að jörðum var skipt (eða þær sameinaðar) eða vegna breyttra atvinnuhátta, og þá einkum aukinna fiskveiða eftir 1200/1300, var reynt að halda breytingum í lágmarki. Jafnvel í nýja jarðamatinu 1922 var reynt að breyta sem minnst innbyrðis verðmætishlutföllum jarða og ef slíkt var gert, var skammt í mótmæli bænda. Þeir vildu hafa jarðir sínar metnar sem lægst til að þurfa að greiða sem minnst í skatt; samanburður við nágrannann var reglan og breytingar á innbyrðis hlutföllum því illa séðar.

Jarðir voru nokkuð mishátt metnar eftir því hvar á landinu þær voru. Þannig virðist almenna meðaljörðin íslenska hafa verið metin á 20 hundruð en í einum landsfjórðungi, Austurlandi, var hún venjulega metin á 12 hundruð. Reynt var að samræma matið 1848-1861 en án árangurs.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Höfundur

Gísli Gunnarsson (1938-2020)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

2.4.2002

Spyrjandi

Svava Kristjánsdóttir

Tilvísun

Gísli Gunnarsson (1938-2020). „Hversu stór er einingin hundrað, sem notuð var um stærð jarða? “ Vísindavefurinn, 2. apríl 2002. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2256.

Gísli Gunnarsson (1938-2020). (2002, 2. apríl). Hversu stór er einingin hundrað, sem notuð var um stærð jarða? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2256

Gísli Gunnarsson (1938-2020). „Hversu stór er einingin hundrað, sem notuð var um stærð jarða? “ Vísindavefurinn. 2. apr. 2002. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2256>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hversu stór er einingin hundrað, sem notuð var um stærð jarða?
Hundrað að fornu merkti 120. Upphaf orðsins er ekki yngra en frá 11. öld, sennilega eldra, og merkti fyrst 120 álnir vaðmáls þar sem hver alin skyldi vera af tilskilinni stærð og réttum gæðum. Eftir því sem tímar liðu urðu tengslin við vaðmálið ógleggri og virðast vera með öllu horfin á 17. öld. Bæði alin og hundrað urðu þegar á miðöldum eingöngu verðmætiseiningar, líkt og SDR (sérstök dráttarréttindi) er nú á dögum.

Annars var tvenns konar verðmætiskerfi í gangi. Elst er sennilega aura/markakerfið, lögaurakerfið, en það byggðist einnig á alininni. Sex álnir gerðu einn eyri og átta aurar eina mörk þannig að alls voru 48 álnir í mörkinni. Þetta kerfi var einkum notað í dómsmálum allt fram á 19. öld. En í viðskiptum og þó einkum í jarðamati varð vani að nota hundraðakerfið þótt einnig þar væri kerfunum gjarnan blandað saman þegar kom að greiðslum. Raunar tengdust þau þannig að tvær og hálf mörk voru í einu hundraði.

Þegar leið á miðaldir var einng farið að nota verðmætiseininguna „fiskur”. Gildur fiskur átti að vera unninn og þurrkaður og vega nálægt einu kílói í því formi. En fiskur varð með tímanum einnig fyrst og fremst verðmætiseining. Í Búalögum, reglunum um viðskipti „manna á meðal hér á landi”, voru tveir fiskar jafngildi einnar álnar. Hundraðið var þannig 240 fiskar. Þannig náðist óskahlutfall hæstu og lægstu verðmætiseiningar, 1:240. Þetta hlutfall er oft kennt við Karl mikla sem ríkti í Frankaríki 768-814, en peningakerfi hans hafði þessi einkenni. Það var tekið upp í Englandi; til ársins 1970 voru 240 pence í einu sterlingspundi. Norrænir menn notuðu þetta kerfi í verðmætiseiningum sínum hvenær sem þeir gátu. Til dæmis var 1 mörk = 8 aurar = 24 örtugir = 240 „peningar”.

Hundraðareikningurinn var notaður við jarðamatið sem þurfti að koma á við innleiðingu svonefndrar tíundar árið 1096. Tíund var skattur sem bændur eða jarðeigendur áttu að greiða kirkjunni og var erlendis tekjuskattur; kirkjunni skyldi greiddur tíundi hluti alls þess sem framleitt var. Á Íslandi var hins vegar komið á eignaskatti og skyldi kirkjunni greiddur hundraðasti hluti metinnar eignar á ári hverju. Eigi að síður var skattur þessi nefnd tíund. Hann var miklu léttari en hin eiginlega tíund því að með eignaskattsfyrirkomulaginu varð öll vinna tíundarfrjáls.

Á hvaða verðmætum byggðist hundraðatal jarða? Um þetta hafa menn deilt síðan á 17. öld og Jarðabókarhöfundarnir Árni Magnússon og Páll Vídalín, sem sömdu jarðabók fyrir allt landið snemma á 18. öld, gátu alls ekki útskýrt upphaf þessa kerfis. Í raun áttu þeir að búa til nýtt og nútímalegra jarðamat en vannst alls ekki tími til þess þannig gamla jarðamatið frá miðöldum hélst að mestu leyti óbreytt allt til ársins 1922! Vinsæl kenning hefur verið sú að matið hafi í upphafi byggst á því hve margar skepnur var hægt að fóðra á jörðunum. Vera má að svo hafi verið við innleiðingu matsins á 11. öld en skoðun á jarðamati á seinni öldum (eftir 1600) sýnir ljóslega að kenning þessi getur ekki útskýrt muninn á mati jarða þá nema að litlu leyti.

Líklegast tel ég að jarðeigendur hafi á 11. öld samið sín á milli hvaða mat skyldi þá vera á hverri jörð. Forsendur þessa mats hafa alls ekki þurft að vera hagrænar að öllu leyti. Þessi ákvörðun um jarðamat hélst síðan að mestu óbreytt í meira en 800 ár. Þegar breytingar voru nauðsynlegar vegna þess að jörðum var skipt (eða þær sameinaðar) eða vegna breyttra atvinnuhátta, og þá einkum aukinna fiskveiða eftir 1200/1300, var reynt að halda breytingum í lágmarki. Jafnvel í nýja jarðamatinu 1922 var reynt að breyta sem minnst innbyrðis verðmætishlutföllum jarða og ef slíkt var gert, var skammt í mótmæli bænda. Þeir vildu hafa jarðir sínar metnar sem lægst til að þurfa að greiða sem minnst í skatt; samanburður við nágrannann var reglan og breytingar á innbyrðis hlutföllum því illa séðar.

Jarðir voru nokkuð mishátt metnar eftir því hvar á landinu þær voru. Þannig virðist almenna meðaljörðin íslenska hafa verið metin á 20 hundruð en í einum landsfjórðungi, Austurlandi, var hún venjulega metin á 12 hundruð. Reynt var að samræma matið 1848-1861 en án árangurs.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:...