Góðan dag. Hugtakið dagslátta var notað yfir skika í túni sem einn maður gat slegið á einum degi með orfi og ljá. Spurningin er: Hvað er dagslátta stór í m2 eða stór hluti af hektara?Þessari spurningu er ekki hægt að svara með nákvæmum hætti. Eins og einn spyrjandi nefnir vísar dagslátta til skika af túni eða engi sem sláttumaður gat slegið með orfi og ljá á einum degi. Óvissa um stærð dagsláttunnar gat því markast af ýmsu, til að mynda hvort verið var að slá þýflendi eða slétt tún, af ákafa og færni sláttumannsins og einnig því hversu vel ljárinn beit, svo eitthvað sé nefnt. Fyrr á tíð komu menn sér því saman um að dagslátta væri af tiltekinni stærð. Svona er hún skilgreind í grein Björns M. Ólsen í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags frá árinu 1910:
Allir vita, að ein dagslátta er 900 ferhirningfaðmar, eða jöfn ferskeitingi (»kvaðrati«), sem er 30 faðmar á hvern veg.Vandinn er þó ekki úr sögunni með þessu því mælieiningin faðmur er ein af þeim lengdareiningum sem tekur mið af mannslíkamanum og því erfitt að tilgreina nákvæma stærð hennar í metrakerfinu.[1]

Ferningur að stærðinni 60 x 60 m teiknaður með rauðum lit á Klambratún í Reykjavík. Stærðin samsvarar einni dagsláttu, miðað við ýmsar gefnar forsendur.
Því verður og eigi neitað, sem dagleg raun ber vitni um hið gamla „vallamál, sem í öllum stöðum hér í landinu, sem eg til veit, hefir verið í faðmatali mælt að fornu og nýu; kalla menn það með ýmsu móti í ýmsum landsins héröðum, sumir eyrisvöll, sumir 10 álna völl; norðanlands er það dagslátta kölluð, og þá 2 eyrisvellir fylgjast að, heitir það tveggjadaga sláttur, og svo framvegis, þartil sem eru 6 eyrisvellir, það heitir vikuverk. Öllum ber þó saman í því, að hverr eyrisvöllur eður dagslátta skuli vera 30 málfaðmar í hvert horn, það eru alls 900 ferskeittir málfaðmar intra suos terminos.Umreiknuð í metrakerfi var álnin ekki alltaf jafn löng. Forn alin var um það bil 50 cm, íslensk alin sem notuð var á 17. og 18. öld var um 57 cm, þó að stundum hafi hún verið allt frá 54 upp í tæpa 63 cm,[2] og svonefnd dönsk alin var 62,8 cm. Sú danska var í gildi hér á landi til ársins 1907 þegar metrakerfið var loksins innleitt.

Dagslátta teiknuð með rauðum lit á aðalvöll KR-inga í Vesturbæ Reykjavíkur.
- ^ Nú á dögum bregður lengdareiningunni faðmi helst fyrir þegar dýpi í vatni er mælt.
- ^ Samanber svar við spurningunni Hvað er danskt fet margir sentímetrar?
- ^ Lesendur geta svo sett aðrar tölur í stað 2 m, allt eftir því við hvaða lengd á alin þeir vilja miða og hvort þeir nota faðm eða málfaðm.
- Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - Megintexti (01.01.1910) - Tímarit.is. (Sótt 2.05.2022).
- Skýringar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast - Bækur.is. (Sótt 2.05.2022).
- Unnar með Borgarvefsjá af ritstjórn Vísindavefsins.