Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Menn hafa notað einhvers konar lengdareiningar frá alda öðli. Elstu einingarnar miðast nær allar við við mannslíkamann: Þumlungur eða tomma, spönn, fet, alin, stika, faðmur og svo framvegis. Og við veljum okkur einingu eftir því hvað við ætlum að mæla. Þess vegna tilgreinum við, jafnvel enn þann dag í dag, lengd á nöglum í tommum, hæð manna í fetum, dýpi í vatni í föðmum og þannig mætti áfram telja. Álnin er hins vegar sjaldséð í seinni tíð þó að hún hafi líklega verið algengasta lengdareiningin áður fyrr, bæði hér á landi og víðar.
Helsti gallinn við þessar lengdareiningar er auðvitað sá að mennirnir og líkamshlutar þeirra eru misjafnir að stærð. Þennan galla vildu menn losna við ásamt öðrum með því að innleiða metrakerfið í lok 18. aldar eins og fram kemur í svari Guðmundar Hálfdanarsonar við spurningu um bandaríska einingakerfið hér á Vísindavefnum. Samt sem áður kemur það fyrir að við notum mannslíkamann í tengslum við metrakerfið, til dæmis þegar við stikum út herbergi í húsum.
Annar galli við einingar sem byggjast á mannslíkamanum er sá að þær eru að stofni til ekki heilt eða einfalt margfeldi hver af annarri. Þegar fram í sótti komu menn sér að vísu saman um sæmilega einfaldar tölur, eins og að fetið sé 12 tommur og faðmurinn 6 fet, en hlutfallstölurnar eru innbyrðis ólíkar og þá verður þetta flókið.
En snúum okkur aftur að álninni. Kannski er það einn af göllum hennar nú á dögum að vandi er að fallbeygja orðið og það breytist auk þess við það að taka á sig greini: alin, alin, alin, álnar; álnir, álnir, álnum, álna; álnin, álnina, álninni, álnarinnar; álnirnar, álnirnar, álnunum, álnanna.
Grundvöllur álnarinnar er einn og samur alls staðar, það er fjarlægðin frá olnboga fram fyrir fingurgóm, oftast góm löngutangar en stundum þumalfingurs. Engu að síður hafa menn haft um þetta nokkuð mismunandi tölur í aldanna rás. Þannig er til í Íslandssögunni til dæmis bæði íslensk og dönsk alin og auk þess Hamborgaralin. Álnin hentar afar vel til að mæla vaðmál bæði vegna þess að hún er hæfilega löng til þess og eins hefur verið hentugt að mæla vaðmálið við framhandlegginn. Þannig var það ekki tilviljun að alin vaðmáls bætti við sig hlutverki og varð að verðeiningu eins og menn þekkja. En af svipaðri ástæðu er hentugt að mæla lengdir á jörð eða gólfi í fetum eða stikum en hitt væri heldur umhendis að nota framhandlegginn til þess.
Okkur nútímamönnum er afar tamt að tala um langar vegalengdir, sem við mælum oft í kílómetrum og jafnvel hundruðum kílómetra. En fyrr á öldum hafa menn í rauninni engin ráð haft til að mæla slíkar vegalengdir með neinni umtalsverðri nákvæmni nema þá þar sem land er rennislétt og torfærulaust. Auk þess gátu menn beitt eða reynt að beita stjörnufræði til að mæla vegalengdir sem hlaupa á hundruðum eða þúsundum kílómetra en slík þekking var öll mjög á reiki lengi fram eftir öldum eins og glöggt má sjá af misskilningnum kringum ferðir Kólumbusar.
Því er ekki að furða að menn höfðu lengi vel mjög afstæðar einingar um langar fjarlægðir, töluðu um dagleiðir, bæjarleiðir og stekkjarvegi. Landfræðilegar einingar, sem svo mætti kalla, voru varla til fyrr en á 18. öld að menn byrja að nota danskar mílur. Um svipað leyti eða nokkru síðar hófust hér landmælingar og þar með leystu menn loksins þá þraut að mæla langar vegalengdir í torfæru landi af einhverju viti.
Þessi texti svarar að sjálfsögðu ekki spurningunni um "landfræðilega alin" enda hefur spyrjandi gefið okkur í skyn að hann hafi gleggri hugmyndir um hana en við. En lesandinn er vonandi nokkru nær um álnina sjálfa og um gamlar lengdareiningar yfirleitt. Eins höfum við væntanlega séð í hendi okkar að "landfræðileg alin" hefur varla verið mæld með því að bera framhandlegginn að landinu.
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað er "landfræðileg alin"?“ Vísindavefurinn, 17. mars 2000, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=244.
Þorsteinn Vilhjálmsson. (2000, 17. mars). Hvað er "landfræðileg alin"? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=244
Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvað er "landfræðileg alin"?“ Vísindavefurinn. 17. mar. 2000. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=244>.