Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 07:55 • sest 18:34 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:27 • Síðdegis: 20:42 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:18 • Síðdegis: 14:45 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Er Jónsbók enn í gildi í íslenskum lögum?

Þorsteinn Hjaltason

Stutta svarið við þessari spurningu er: Rúmur tíundi hluti lögbókarinnar frá 1281, sem nefnd hefur verið Jónsbók, er enn í lagasafni Íslands.

Íslendingar gengust Noregskonungi á hönd á árunum 1262-4. Þjóðveldislögin giltu þá í landinu, það er Grágás. Konungur vildi skipta þeim lögum út fyrir eigin lögbók. Hann fékk lögleiddar tvær lögbækur með skömmu millibili. Fyrri lögbókin var nefnd Járnsíða og þótti ekki góð og gilti bara í um 10 ár. Betur tókst til með síðari lögbók konungs, sem lögleidd var á Alþingi árið 1281. Fljótlega var farið að nefna hana Jónsbók eftir aðalhöfundi hennar, Jóni lögmanni Einarssyni. Jónsbók var meginréttarheimild á Íslandi í meira en 400 ár.

Upprunalega lögbókin, sem konungur lagði fyrir Alþingi árið 1281, er ekki lengur til en hún hefur varðveist í mörgum afskriftum. Reyndar er engin íslensk miðaldabók til í eins mörgum handritum og Jónsbók. Til eru 224 heil eða heilleg handrit af Jónsbók og 62 handritabrot. Elsta handritið er frá því fyrir 1300 (AM 134 4to) en fallegasta handritið er frá 1363 og er nefnt Skarðsbók (AM 350 fol.). Myndprentuð eftirgerð af Skarðsbók var gerð í tilefni 700 ára afmælis Jónsbókar árið 1981. Mjög vel tókst til. Bókin er gullfalleg og sýnir vel hversu mikill kjörgripur frummyndin er. Jónsbók var fyrsta bókin sem prentuð var á Íslandi, sem ekki var Guðsorðabók. Það var gert árið 1578 í Hólaprentsmiðju. Jónsbók hefur verið prentuð nokkrum sinnum síðan það er 1578, 1580, 1591 (Núpufellsbók, ekki er vitað hvenær hún var prentuð en talið er að það hafi verið einhvern tímann á bilinu 1582 til 1620), 1707, 1709, 1763 (dönsk þýðing Egils Þórhallssonar (1734-1789)), 1858 (Akureyrarútgáfan), 1885 (Gustav Storm í bókinni Norges gamle love), 1904 (fræðileg útgáfa), 1934 (ljósprentuð 1578 útgáfan), 1981 (Skarðsbók myndprentuð) og 2004 (fræðileg útgáfa).

Blaðsíða úr Jónsbók í myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar frá 1981.

Í bréfi Magnúsar konungs, sem fylgdi Jónsbók, segir að bókinni sé skipt í 10 bálka. Hverjum bálki er svo skipt í marga kafla. Mjög snemma eða strax í Skarðsbók (1363) fór að bera á ýmiskonar ruglingi í bálka- og kaflaskiptingunni, sem ýmist erfðist í næstu útgáfur eða var leiðrétt og þá mismunandi eftir útgáfum eða skrifað var upp eftir öðrum handritum en Skarðsbók. Í það minnsta riðlaðist skipan bókarinnar og er því ekki að öllu leyti samræmi á milli Jónsbókarútgáfna hvað þetta varðar. Ekki er þó um stórvægilegan mun að ræða. Sem dæmi má nefna að Jónsbók frá 2004 er skipt í 13 bálka og 260 kafla en í Jónsbókarútgáfunni frá 1904 eru bálkarnir 10 og kaflarnir 251.

Eftir að einveldið komst á árið 1662 hvarf fljótlega síðasti snefill af löggjafarvaldi Alþingis til konungs. Enn meiri þáttaskil urðu þegar Kristján konungur fimmti setti lögbók fyrir Danmörku árið 1683 og fyrir Noreg árið 1687. Þessar lögbækur nefnast Dönsku og Norsku lög og var hvorugri ætlað að gilda á Íslandi. Á átjándu öld setti konungur nokkrar óljósar tilskipanir um gildi Norsku laga á Íslandi. Oft og tíðum var ekki kveðið nákvæmar að orði en það, að ákvæðin og heilu bálkarnir ættu að gilda eins og átt gæti við á Íslandi. Kastað var höndum til þessa verks vegna þess að lögbók átti fljótlega að taka gildi á Íslandi. Meinið var, að það gerðist aldrei. Stafaði af þessu hinn mesti glundroði og má segja að á 18. öldinni hafi næsta fáir kunnað skil á því, hvað væru í rauninni gildandi lög í landinu. Það leiddi til þess að dómar voru oft og tíðum byggðir á dönskum og norskum lögum, sem hvorki höfðu verið sett fyrir Ísland né birt hér. Hafði strax upp úr 1700 fjarað svo mjög undan Jónsbók, að Árni Magnússon (1663-1730) snupraði Björn Þorleifsson (1663-1710) Hólabiskup fyrir að láta prenta hana árið 1707. Árni segir í bréfi til biskups, að hann hefði ráðið frá því að bókin yrði prentuð og segir að margt í bókinni sé undarlegt og stór hluti hennar sé liðinn undir lok. Árni vildi samt fá eintak handa sjálfum sér og þá frekar tvö en eitt úr því að biskup var hvort sem er búinn að prenta bókina. Magnús Stephensen (1762-1833), dómstjóri Landsyfirréttar, lyfti grettistaki við að leysa úr réttaróvissunni. Þegar hann lést árið 1833 var réttaróvissunni að miklu leyti eytt.

Í Jónsbók frá 1858, það er Akureyrarútgáfunni, gera þeir Jörgen Pétur Havstein (1812-1875) amtmaður í Norður- og austuramtinu og Eggert Briem (1811-1894) sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu grein fyrir hvað úr Jónsbók sé gildandi réttur í landinu. Niðurstaða þeirra var sú að eftirgreindir bálkar væru að mestu úr gildi fallnir: Þingfararbálkur, Kristinn réttur með konungs erfðum, Konungsþegnskylda, Mannhelgi, Þjófabálkur Kvennagiftingar með erfðatali og arftökum og Framfærslubálkur. Hins vegar væru þessir þættir að mestu í gildi: Landsleigubálkur, Rekabálkur, Landabrigðabálkur, Kaupabálkur og Farmannabálkur.

Upphaf Kaupabálks Jónsbókar í myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar.

Hvernig er þessu háttað núna nær 160 árum síðar, er Jónsbók enn í gildi? Við skulum glugga í lagasafn Íslands fyrir árið 2014 og athuga hvort þar sé að finna einhverjar slitrur úr Jónsbók.

Núna eru lög birt í Stjórnartíðindum og er þægilegt að skoða þau á vef Alþingis. Lagasafn Alþingis á vefnum er uppfært 2-3 á ári. Við skulum leita að Jónsbók í lagasafninu á Alþingisvefnum með því að slá inn '1281' í reitinn 'frá árinu' á ofangreindri leitarsíðu. Þá fáum við upp 4 skjöl merkt Jónsbók. Þetta er það af Jónsbók sem enn er í lagasafni Íslands árið 2014. Við skulum smella á skjölin og færa textann allan inn í ritvinnsluforrit, sem telur fyrir okkur orðin í skjalinu. Þau reynast vera 7.744 að tölu. Í Jónsbókarútgáfunni frá 1904 eru 64.000 orð. Samkvæmt þessari rannsókn okkar eru því 12,10% af Jónsbók enn tilgreind í lagasafninu. Það er líka hægt að mæla magnið og hlutfallið með því að telja fjölda tákna (stafa) án bila. Táknin (stafirnir) eru 30.262 í Jónsbókartexta lagasafnsins en tákn án bila eru 278.491 í Jónsbókarútgáfunni frá 2004. Samkvæmt þessari mælingu er 10,8% af texta Jónsbókar enn í lagasafninu.

Árið 1945 voru hlutar af 56 köflum Jónsbókar í lagasafninu. Árið 1983 voru kaflarnir 47 og hefur þeim ekki fækkað síðan þá. Lagasafnið var tölvuskráð árið 1984 og í tilefni af því var ákveðið að hreinsa til í því. Árið 1985 var kosin 9 manna nefnd til að vera til ráðuneytis um framkvæmd þingsályktunar um grisjunina. Markmið nefndarinnar var lagahreinsun en einnig átti að hafa í huga lagaverndun, samanber viðtal við formann nefndarinnar í Morgunblaðinu 4. nóvember 1989 (bls. 36) og neðangreind ummæli í nefndaráliti um þingsályktunartillöguna:

Þótt ljóst sé að þar sé að finna ákvæði sem að skaðlausu má fella niður eru þau ekki mikil að vöxtum, né heldur til neins trafala, en setja sum hver skemmtilegan svip á safnið. Jónsbókarákvæðin frá 1281 munu vera alveg einstök í lagasafni nú á dögum og minna á langa sögu Alþingis sem löggjafarstofnunar.

Það er rétt, að Jónsbókarákvæðin setja skemmtilegan svip á lagasafnið. Sumum kann hins vegar að þykja vafasamt að slík 'lagaverndunarsjónarmið' eigi rétt á sér, það er að varðveita ákvæði í lagasafni Íslands bara svona upp á punt. Það þarf þó ekki að vera að nefndin hafi ákveðið að halda Jónsbókarákvæðum eingöngu til að skreyta lagasafnið því formaður nefndarinnar segir í áðurnefndu viðtali að ákveðið hafi verið að þyrma Jónsbókarákvæðunum, enda væru þau skynsamleg og ágæt lög.

Hér að neðan eru bálkar Jónsbókar tilgreindir. Einhverjir kaflar eða kaflahlutar úr þeim bálkum sem eru feitletraðir, eru enn í lagasafni Íslands.

1 Þingfararbálkur
2 Kristinn réttur og konungserfðir
3 Konungsþegnskylda
4 Mannhelgi
5 Kvennagiftingar
6 Erfðatal
7 Framfærslubálkur
8 Landabrigðabálkur
9 Búnaðarbálkur eða landsleigubálkur
10 Rekabálkur
11 Kaupabálkur
12 Farmannalög
13 Þjófabálkur

Fyrstu þrír bálkar Jónsbókar eru að fullu fallnir úr gildi. Þeir fjölluðu um opinberan rétt eins og til dæmis vitnaleiðslur og málsmeðferð fyrir dómi. Í Mannhelgi er meðal annars fjallað um persónuréttindi eða mannhelgi, það er rétt manna til lífs og lima, friðar og frelsis, mannorðs og heilbrigðis. Í gildi eru hlutar af tveimur köflum Mannhelgis. Annar fjallar um ábyrgð óðra manna og í hinum kaflanum er fjallað um voðaverk. Voði þýðir hætta, háski eða tjón, samanber að fara sér að voða sem þýðir að slasa sig sökum óvarkárni. Voðaverk er því háskalegt óviljaverk, sem hefur leitt til tjóns. Kaflinn er fyrir margra hluta sakir afar merkilegur en hann á rætur að rekja til laga Þjóðveldisins íslenska, það er Grágásar. Í þessum kafla eru einu almennu leiðbeiningarnar, sem til eru í settum íslenskum lögum, um mat á gáleysi. Lítið er í lagasafninu úr Kvennagiftingum Jónsbókar en í þeim bálki er fjallað um fjármál hjóna enda hefur þeim málum verið skipað með heildarlögum. Flestir kaflar Jónsbókar í lagasafninu eru úr Búnaðarbálki (Landsleigubálki) og Rekabálki. Búnaðarbálkur fjallar um ábúð leigujarða og ábyrgð á fénaði og landsins gæðum. Rekabálkur fjallar um hvalreka og rekavið. Kaupabálkur fjallar um skuldheimtu, verðlag og kaupskap. Farmannalög eru um skip og siglingar. Í Þjófabálki er, eins og nafnið ber með sér, fjallað um hvinnsku, en það merkir hnupl eða smáþjófnaður. Fjallað er um meðferð stolinna muna, endurheimtu þeirra, fjallað er um þjófa og reyndar líka um lán. Hlutar af þremur köflum Þjófabálks eru í lagasafninu. Í þessum köflum er meðal annars fjallað um hvernig fara skuli með fundið fé, ábyrgð vörslumanns á geymslufé og ábyrgð þess sem fær muni lánaða.

Sum Jónsbókarákvæðin, sem tilgreind eru í lagasafninu, eiga uppruna sinn í íslenska Þjóðveldinu það er eru komin úr Grágás. Það eru því til lagaákvæði í lagasafni Íslands sem hafa verið í gildi frá upphafi Íslandsbyggðar eða að minnsta kosti frá stofnun allsherjarríkis og Alþingis árið 930.

Jafnvel þó Jónsbókarákvæði séu tilgreind í lagasafninu er allsendis óvíst um gildi þeirra þar til á þau hefur reynt fyrir dómstólum. Dómstólar eiga að dæma eftir lögum og eru bundnir af þeim. Þeir þurfa þó stundum að kveða upp úr um gildi laga. Jafnvel þó lög séu sett af Alþingi, hvort sem það er 1281 eða síðar, þá geta dómstólar ákveðið að lögin séu ekki gild til dæmis vegna þess að þau gangi gegn stjórnarskrá eða að venja eða önnur yngri lög hafi vikið þeim til hliðar. Því eldri sem lögin eru, er meiri hætta á slíku. Enn fremur verður að gera þá kröfu til laga, að þau séu ekki mjög torskilin en sum ákvæði Jónsbókar er æði erfitt að skilja, enda er textinn orðinn ríflega 820 ára gamall. Jafnvel þó einhver hafi sterkar skoðanir á því hvernig eigi að skilja Jónsbókarákvæði og telji að þau eigi vel við í máli sínu er alveg mögulegt að dómstólar muni hafna að beita ákvæðinu ef ljóst þykir að það hafi um aldir verið flestum Íslendingum nær óskiljanlegt. Nokkuð oft hefur verið vísað til Jónsbókarákvæða í Hæstaréttardómum. Venjulega er það í málum sem snerta ágreining um eignarrétt yfir landi eða um rétt til ýmiskonar landnytja, svo sem veiði, beitar og reka. Dæmi eru þó vissulega um að vísað sé til Jónsbókar á öðrum réttarsviðum, til dæmis var í dómi Hæstaréttar nr. 27/1970 frá 25. febrúar 1972 (Hrd.1972:191) lögð skaðabótaábyrgð á mann samkvæmt grunnreglu 8. kapítula Mannhelgis Jónsbókar frá 1281.

Að lokum ber þess að geta að Jónsbókarákvæðin eru ekki elstu lögin í lagasafninu. Það er reyndar nokkuð undarlegt því eðli lögbóka er að með gildistöku slíkra falla úr gildi öll eldri lagaákvæði en það er nú önnur saga að segja frá því. Elstu ákvæðin í lagasafninu eru örfáar greinar úr Kristinrétti Árna biskups Þorlákssonar (1237-1298) frá 1275.

Heimildir:
  • Jónsbók Kong Magnus Hakonssons lovbog for Island vedtaget paa Altinget 1281. Réttarbætr: de for Island givne Retterbøder af 1294, 1305 og 1314 og Réttarbætr, de for Island givne retterbøder af 1294, 1305, 1314. København: S. L. Møllers Bogtrykkeri, 1904.
  • Jónsbók lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004.
  • Lögbók Magnúsar konungs, Lagabætis, handa Íslendingum, eður Jónsbók hin forna: lögtekin á alþingi 1281. Akureyri: Sveinn Skúlason gaf út, 1858.
  • Páll Jónsson Vídalín (lögmaður), Skýringar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1854.
  • Ólafur Lárusson, „Straumhvörf í fjármunaréttinum“, í Lög og Saga, Reykjavík: Hlaðbúð, 1958.
  • Páll Sigurðsson 1944, Svipmyndir úr réttarsögu: þættir um land og sögu í ljósi laga og réttarframkvæmdar. Reykjavík: Skjaldborg, 1992.
  • Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði: grundvöllur laga - réttarheimildir. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2002.

Myndir:
  • Myndirnar eru úr safni höfundar, úr myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar.

Höfundur

Þorsteinn Hjaltason

lögmaður á Akureyri og aðjúnkt við lagadeild Háskólans á Akureyri

Útgáfudagur

27.11.2014

Spyrjandi

Þórður Ingvarsson

Tilvísun

Þorsteinn Hjaltason. „Er Jónsbók enn í gildi í íslenskum lögum?“ Vísindavefurinn, 27. nóvember 2014, sótt 7. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=31477.

Þorsteinn Hjaltason. (2014, 27. nóvember). Er Jónsbók enn í gildi í íslenskum lögum? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=31477

Þorsteinn Hjaltason. „Er Jónsbók enn í gildi í íslenskum lögum?“ Vísindavefurinn. 27. nóv. 2014. Vefsíða. 7. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=31477>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Er Jónsbók enn í gildi í íslenskum lögum?
Stutta svarið við þessari spurningu er: Rúmur tíundi hluti lögbókarinnar frá 1281, sem nefnd hefur verið Jónsbók, er enn í lagasafni Íslands.

Íslendingar gengust Noregskonungi á hönd á árunum 1262-4. Þjóðveldislögin giltu þá í landinu, það er Grágás. Konungur vildi skipta þeim lögum út fyrir eigin lögbók. Hann fékk lögleiddar tvær lögbækur með skömmu millibili. Fyrri lögbókin var nefnd Járnsíða og þótti ekki góð og gilti bara í um 10 ár. Betur tókst til með síðari lögbók konungs, sem lögleidd var á Alþingi árið 1281. Fljótlega var farið að nefna hana Jónsbók eftir aðalhöfundi hennar, Jóni lögmanni Einarssyni. Jónsbók var meginréttarheimild á Íslandi í meira en 400 ár.

Upprunalega lögbókin, sem konungur lagði fyrir Alþingi árið 1281, er ekki lengur til en hún hefur varðveist í mörgum afskriftum. Reyndar er engin íslensk miðaldabók til í eins mörgum handritum og Jónsbók. Til eru 224 heil eða heilleg handrit af Jónsbók og 62 handritabrot. Elsta handritið er frá því fyrir 1300 (AM 134 4to) en fallegasta handritið er frá 1363 og er nefnt Skarðsbók (AM 350 fol.). Myndprentuð eftirgerð af Skarðsbók var gerð í tilefni 700 ára afmælis Jónsbókar árið 1981. Mjög vel tókst til. Bókin er gullfalleg og sýnir vel hversu mikill kjörgripur frummyndin er. Jónsbók var fyrsta bókin sem prentuð var á Íslandi, sem ekki var Guðsorðabók. Það var gert árið 1578 í Hólaprentsmiðju. Jónsbók hefur verið prentuð nokkrum sinnum síðan það er 1578, 1580, 1591 (Núpufellsbók, ekki er vitað hvenær hún var prentuð en talið er að það hafi verið einhvern tímann á bilinu 1582 til 1620), 1707, 1709, 1763 (dönsk þýðing Egils Þórhallssonar (1734-1789)), 1858 (Akureyrarútgáfan), 1885 (Gustav Storm í bókinni Norges gamle love), 1904 (fræðileg útgáfa), 1934 (ljósprentuð 1578 útgáfan), 1981 (Skarðsbók myndprentuð) og 2004 (fræðileg útgáfa).

Blaðsíða úr Jónsbók í myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar frá 1981.

Í bréfi Magnúsar konungs, sem fylgdi Jónsbók, segir að bókinni sé skipt í 10 bálka. Hverjum bálki er svo skipt í marga kafla. Mjög snemma eða strax í Skarðsbók (1363) fór að bera á ýmiskonar ruglingi í bálka- og kaflaskiptingunni, sem ýmist erfðist í næstu útgáfur eða var leiðrétt og þá mismunandi eftir útgáfum eða skrifað var upp eftir öðrum handritum en Skarðsbók. Í það minnsta riðlaðist skipan bókarinnar og er því ekki að öllu leyti samræmi á milli Jónsbókarútgáfna hvað þetta varðar. Ekki er þó um stórvægilegan mun að ræða. Sem dæmi má nefna að Jónsbók frá 2004 er skipt í 13 bálka og 260 kafla en í Jónsbókarútgáfunni frá 1904 eru bálkarnir 10 og kaflarnir 251.

Eftir að einveldið komst á árið 1662 hvarf fljótlega síðasti snefill af löggjafarvaldi Alþingis til konungs. Enn meiri þáttaskil urðu þegar Kristján konungur fimmti setti lögbók fyrir Danmörku árið 1683 og fyrir Noreg árið 1687. Þessar lögbækur nefnast Dönsku og Norsku lög og var hvorugri ætlað að gilda á Íslandi. Á átjándu öld setti konungur nokkrar óljósar tilskipanir um gildi Norsku laga á Íslandi. Oft og tíðum var ekki kveðið nákvæmar að orði en það, að ákvæðin og heilu bálkarnir ættu að gilda eins og átt gæti við á Íslandi. Kastað var höndum til þessa verks vegna þess að lögbók átti fljótlega að taka gildi á Íslandi. Meinið var, að það gerðist aldrei. Stafaði af þessu hinn mesti glundroði og má segja að á 18. öldinni hafi næsta fáir kunnað skil á því, hvað væru í rauninni gildandi lög í landinu. Það leiddi til þess að dómar voru oft og tíðum byggðir á dönskum og norskum lögum, sem hvorki höfðu verið sett fyrir Ísland né birt hér. Hafði strax upp úr 1700 fjarað svo mjög undan Jónsbók, að Árni Magnússon (1663-1730) snupraði Björn Þorleifsson (1663-1710) Hólabiskup fyrir að láta prenta hana árið 1707. Árni segir í bréfi til biskups, að hann hefði ráðið frá því að bókin yrði prentuð og segir að margt í bókinni sé undarlegt og stór hluti hennar sé liðinn undir lok. Árni vildi samt fá eintak handa sjálfum sér og þá frekar tvö en eitt úr því að biskup var hvort sem er búinn að prenta bókina. Magnús Stephensen (1762-1833), dómstjóri Landsyfirréttar, lyfti grettistaki við að leysa úr réttaróvissunni. Þegar hann lést árið 1833 var réttaróvissunni að miklu leyti eytt.

Í Jónsbók frá 1858, það er Akureyrarútgáfunni, gera þeir Jörgen Pétur Havstein (1812-1875) amtmaður í Norður- og austuramtinu og Eggert Briem (1811-1894) sýslumaður í Eyjafjarðarsýslu grein fyrir hvað úr Jónsbók sé gildandi réttur í landinu. Niðurstaða þeirra var sú að eftirgreindir bálkar væru að mestu úr gildi fallnir: Þingfararbálkur, Kristinn réttur með konungs erfðum, Konungsþegnskylda, Mannhelgi, Þjófabálkur Kvennagiftingar með erfðatali og arftökum og Framfærslubálkur. Hins vegar væru þessir þættir að mestu í gildi: Landsleigubálkur, Rekabálkur, Landabrigðabálkur, Kaupabálkur og Farmannabálkur.

Upphaf Kaupabálks Jónsbókar í myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar.

Hvernig er þessu háttað núna nær 160 árum síðar, er Jónsbók enn í gildi? Við skulum glugga í lagasafn Íslands fyrir árið 2014 og athuga hvort þar sé að finna einhverjar slitrur úr Jónsbók.

Núna eru lög birt í Stjórnartíðindum og er þægilegt að skoða þau á vef Alþingis. Lagasafn Alþingis á vefnum er uppfært 2-3 á ári. Við skulum leita að Jónsbók í lagasafninu á Alþingisvefnum með því að slá inn '1281' í reitinn 'frá árinu' á ofangreindri leitarsíðu. Þá fáum við upp 4 skjöl merkt Jónsbók. Þetta er það af Jónsbók sem enn er í lagasafni Íslands árið 2014. Við skulum smella á skjölin og færa textann allan inn í ritvinnsluforrit, sem telur fyrir okkur orðin í skjalinu. Þau reynast vera 7.744 að tölu. Í Jónsbókarútgáfunni frá 1904 eru 64.000 orð. Samkvæmt þessari rannsókn okkar eru því 12,10% af Jónsbók enn tilgreind í lagasafninu. Það er líka hægt að mæla magnið og hlutfallið með því að telja fjölda tákna (stafa) án bila. Táknin (stafirnir) eru 30.262 í Jónsbókartexta lagasafnsins en tákn án bila eru 278.491 í Jónsbókarútgáfunni frá 2004. Samkvæmt þessari mælingu er 10,8% af texta Jónsbókar enn í lagasafninu.

Árið 1945 voru hlutar af 56 köflum Jónsbókar í lagasafninu. Árið 1983 voru kaflarnir 47 og hefur þeim ekki fækkað síðan þá. Lagasafnið var tölvuskráð árið 1984 og í tilefni af því var ákveðið að hreinsa til í því. Árið 1985 var kosin 9 manna nefnd til að vera til ráðuneytis um framkvæmd þingsályktunar um grisjunina. Markmið nefndarinnar var lagahreinsun en einnig átti að hafa í huga lagaverndun, samanber viðtal við formann nefndarinnar í Morgunblaðinu 4. nóvember 1989 (bls. 36) og neðangreind ummæli í nefndaráliti um þingsályktunartillöguna:

Þótt ljóst sé að þar sé að finna ákvæði sem að skaðlausu má fella niður eru þau ekki mikil að vöxtum, né heldur til neins trafala, en setja sum hver skemmtilegan svip á safnið. Jónsbókarákvæðin frá 1281 munu vera alveg einstök í lagasafni nú á dögum og minna á langa sögu Alþingis sem löggjafarstofnunar.

Það er rétt, að Jónsbókarákvæðin setja skemmtilegan svip á lagasafnið. Sumum kann hins vegar að þykja vafasamt að slík 'lagaverndunarsjónarmið' eigi rétt á sér, það er að varðveita ákvæði í lagasafni Íslands bara svona upp á punt. Það þarf þó ekki að vera að nefndin hafi ákveðið að halda Jónsbókarákvæðum eingöngu til að skreyta lagasafnið því formaður nefndarinnar segir í áðurnefndu viðtali að ákveðið hafi verið að þyrma Jónsbókarákvæðunum, enda væru þau skynsamleg og ágæt lög.

Hér að neðan eru bálkar Jónsbókar tilgreindir. Einhverjir kaflar eða kaflahlutar úr þeim bálkum sem eru feitletraðir, eru enn í lagasafni Íslands.

1 Þingfararbálkur
2 Kristinn réttur og konungserfðir
3 Konungsþegnskylda
4 Mannhelgi
5 Kvennagiftingar
6 Erfðatal
7 Framfærslubálkur
8 Landabrigðabálkur
9 Búnaðarbálkur eða landsleigubálkur
10 Rekabálkur
11 Kaupabálkur
12 Farmannalög
13 Þjófabálkur

Fyrstu þrír bálkar Jónsbókar eru að fullu fallnir úr gildi. Þeir fjölluðu um opinberan rétt eins og til dæmis vitnaleiðslur og málsmeðferð fyrir dómi. Í Mannhelgi er meðal annars fjallað um persónuréttindi eða mannhelgi, það er rétt manna til lífs og lima, friðar og frelsis, mannorðs og heilbrigðis. Í gildi eru hlutar af tveimur köflum Mannhelgis. Annar fjallar um ábyrgð óðra manna og í hinum kaflanum er fjallað um voðaverk. Voði þýðir hætta, háski eða tjón, samanber að fara sér að voða sem þýðir að slasa sig sökum óvarkárni. Voðaverk er því háskalegt óviljaverk, sem hefur leitt til tjóns. Kaflinn er fyrir margra hluta sakir afar merkilegur en hann á rætur að rekja til laga Þjóðveldisins íslenska, það er Grágásar. Í þessum kafla eru einu almennu leiðbeiningarnar, sem til eru í settum íslenskum lögum, um mat á gáleysi. Lítið er í lagasafninu úr Kvennagiftingum Jónsbókar en í þeim bálki er fjallað um fjármál hjóna enda hefur þeim málum verið skipað með heildarlögum. Flestir kaflar Jónsbókar í lagasafninu eru úr Búnaðarbálki (Landsleigubálki) og Rekabálki. Búnaðarbálkur fjallar um ábúð leigujarða og ábyrgð á fénaði og landsins gæðum. Rekabálkur fjallar um hvalreka og rekavið. Kaupabálkur fjallar um skuldheimtu, verðlag og kaupskap. Farmannalög eru um skip og siglingar. Í Þjófabálki er, eins og nafnið ber með sér, fjallað um hvinnsku, en það merkir hnupl eða smáþjófnaður. Fjallað er um meðferð stolinna muna, endurheimtu þeirra, fjallað er um þjófa og reyndar líka um lán. Hlutar af þremur köflum Þjófabálks eru í lagasafninu. Í þessum köflum er meðal annars fjallað um hvernig fara skuli með fundið fé, ábyrgð vörslumanns á geymslufé og ábyrgð þess sem fær muni lánaða.

Sum Jónsbókarákvæðin, sem tilgreind eru í lagasafninu, eiga uppruna sinn í íslenska Þjóðveldinu það er eru komin úr Grágás. Það eru því til lagaákvæði í lagasafni Íslands sem hafa verið í gildi frá upphafi Íslandsbyggðar eða að minnsta kosti frá stofnun allsherjarríkis og Alþingis árið 930.

Jafnvel þó Jónsbókarákvæði séu tilgreind í lagasafninu er allsendis óvíst um gildi þeirra þar til á þau hefur reynt fyrir dómstólum. Dómstólar eiga að dæma eftir lögum og eru bundnir af þeim. Þeir þurfa þó stundum að kveða upp úr um gildi laga. Jafnvel þó lög séu sett af Alþingi, hvort sem það er 1281 eða síðar, þá geta dómstólar ákveðið að lögin séu ekki gild til dæmis vegna þess að þau gangi gegn stjórnarskrá eða að venja eða önnur yngri lög hafi vikið þeim til hliðar. Því eldri sem lögin eru, er meiri hætta á slíku. Enn fremur verður að gera þá kröfu til laga, að þau séu ekki mjög torskilin en sum ákvæði Jónsbókar er æði erfitt að skilja, enda er textinn orðinn ríflega 820 ára gamall. Jafnvel þó einhver hafi sterkar skoðanir á því hvernig eigi að skilja Jónsbókarákvæði og telji að þau eigi vel við í máli sínu er alveg mögulegt að dómstólar muni hafna að beita ákvæðinu ef ljóst þykir að það hafi um aldir verið flestum Íslendingum nær óskiljanlegt. Nokkuð oft hefur verið vísað til Jónsbókarákvæða í Hæstaréttardómum. Venjulega er það í málum sem snerta ágreining um eignarrétt yfir landi eða um rétt til ýmiskonar landnytja, svo sem veiði, beitar og reka. Dæmi eru þó vissulega um að vísað sé til Jónsbókar á öðrum réttarsviðum, til dæmis var í dómi Hæstaréttar nr. 27/1970 frá 25. febrúar 1972 (Hrd.1972:191) lögð skaðabótaábyrgð á mann samkvæmt grunnreglu 8. kapítula Mannhelgis Jónsbókar frá 1281.

Að lokum ber þess að geta að Jónsbókarákvæðin eru ekki elstu lögin í lagasafninu. Það er reyndar nokkuð undarlegt því eðli lögbóka er að með gildistöku slíkra falla úr gildi öll eldri lagaákvæði en það er nú önnur saga að segja frá því. Elstu ákvæðin í lagasafninu eru örfáar greinar úr Kristinrétti Árna biskups Þorlákssonar (1237-1298) frá 1275.

Heimildir:
  • Jónsbók Kong Magnus Hakonssons lovbog for Island vedtaget paa Altinget 1281. Réttarbætr: de for Island givne Retterbøder af 1294, 1305 og 1314 og Réttarbætr, de for Island givne retterbøder af 1294, 1305, 1314. København: S. L. Møllers Bogtrykkeri, 1904.
  • Jónsbók lögbók Íslendinga hver samþykkt var á alþingi árið 1281 og endurnýjuð um miðja 14. öld en fyrst prentuð árið 1578. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2004.
  • Lögbók Magnúsar konungs, Lagabætis, handa Íslendingum, eður Jónsbók hin forna: lögtekin á alþingi 1281. Akureyri: Sveinn Skúlason gaf út, 1858.
  • Páll Jónsson Vídalín (lögmaður), Skýringar yfir fornyrði lögbókar þeirrar, er Jónsbók kallast. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1854.
  • Ólafur Lárusson, „Straumhvörf í fjármunaréttinum“, í Lög og Saga, Reykjavík: Hlaðbúð, 1958.
  • Páll Sigurðsson 1944, Svipmyndir úr réttarsögu: þættir um land og sögu í ljósi laga og réttarframkvæmdar. Reykjavík: Skjaldborg, 1992.
  • Sigurður Líndal, Um lög og lögfræði: grundvöllur laga - réttarheimildir. Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 2002.

Myndir:
  • Myndirnar eru úr safni höfundar, úr myndprentaðri útgáfu Skarðsbókar.

...