Sólin Sólin Rís 03:36 • sest 23:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:09 • Sest 23:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 17:27 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:36 • sest 23:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 14:09 • Sest 23:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 11:22 • Síðdegis: 23:39 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 05:07 • Síðdegis: 17:27 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna er hin gamla lögbók Íslendinga kölluð Grágás?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Einnig var spurt:
Hvaðan kemur nafnið Grágás og hvað þýðir það?

Nafnið Grágás er haft um elstu lögbók Íslendinga, þá sem var í gildi á þjóðveldistímanum og nokkur ár fram yfir hann en gekk úr gildi þegar hér var lögtekin bók sem hefur (af óþekktri ástæðu) fengið nafnið Járnsíða. Það gerðist á árunum 1271–73. Engin leið er að ákvarða hvenær Grágás gekk í gildi. Samkvæmt Íslendingabók Ara fróða settu Íslendingar sér fyrst lög nálægt lokum landnámsaldar, um 930, en þau eru aldrei kölluð Grágás, fremur hin heiðnu lög eða Úlfljótslög eftir þeim manni sem er sagður hafa lært lögin af lögspökum manni í Noregi og flutt þau óskrifuð í kollinum til Íslands. Veturinn 1117–18 voru lögin fyrst skrifuð á bók, eða hluti þeirra, enn samkvæmt vitnisburði Ara, en sú bók, sem nú er glötuð, er ekki kölluð Grágás heldur Hafliðaskrá eftir þeim manni sem hýsti lagaskráningarmennina (og hefur vísast verið einn þeirra). Hann var Hafliði Másson höfðingi á Breiðabólstað í Húnavatnsþingi. Sá texti sem við köllum Grágás er varðveittur í tveimur skinnhandritum, Konungsbók og Staðarhólsbók, og er talið að þær hafi verið skrifaðar um miðja 13. öld, þegar þessi lög voru um það bil að ganga úr gildi.

Staðarhólsbók Grágásar og Járnsíða.

Nafnið Grágás stendur hvergi á eða í þessum lagahandritum, enda var það ekki siður miðaldamanna að skrifa titilblöð á handrit sín, og engar heimildir eru um að þjóðveldislögin hafi verið kölluð Grágás á miðöldum. Sem heiti á lögbók er orðið fyrst notað, svo að vitað sé, um lög sem sagt er að Magnús Noregskonungur Ólafsson, Magnús góði, (kon. 1035–47) hafi látið semja fyrir Þrændalög í Noregi. Hún er nefnd bæði í Sverris sögu konungs og í Heimskringlu, þar sem stendur: „Síðan lét Magnús konungur rita lögbók þá er enn er í Þrándheimi og kölluð er Grágás.“ Á Íslandi kemur nafnið fyrst fyrir í reikningsskap Skálholtsstaðar eftir lát Gissurar biskups Einarssonar 1548. Þar er lögbókin Grágás talin meðal bóka biskups, en ekki er vitað hvað stóð í þeirri bók. Elsta varðveitta bókin sem hefur borið nafnið Grágás frá upphafi er pappírshandrit frá því um 1600 (AM 125 a 4to). Þar er samtíningur lagakafla úr lagasafninu sem við köllum Grágás og úr Járnsíðu. Á Grágásarhlutanum er fyrirsögn: „Nokkrar fáar greinir úr þeirri fyrri lögbók, sem sumir kalla Grágás.“ Á 17. öld verður svo smám saman algengara að hin fornu lög Íslendinga séu kölluð Grágás, Gráfugl, Gráfygla eða Gráfuglsbók. Allar heildarútgáfur bókarinnar á prenti á frummálinu hafa haft titilinn Grágás.

Nafnið Grágás á lagasafni þjóðveldisaldar er sýnilega sprottið af misskilningi en alls óvíst er hvernig hann hefur orðið til. Ekki er ljóst heldur hvers vegna Þrændalög Magnúsar góða voru kölluð Grágás; kannski voru þau bara skrifuð í bók sem var af einhverjum ástæðum í óvenjulega grárri hlífðarkápu.

Orðið gás þýðir einfaldlega gæs í fornu norrænu máli Norðmanna og Íslendinga. Það kemur bæði fyrir stakt og í samsetningum: aligás, brandgás, grágás, heimgás. Fleirtalan var gæss. En orðið gás/gæs var líka haft um kynfæri kvenna og um konur sem þóttu lauslátar. Því er talið líklegt að nöfnin Gráfugl, Gráfygla og Gráfuglsbók séu sprottin af tepruskap manna sem vildu ekki taka sér í munn orðið gás. Svo getur á hinn bóginn verið að nafnið Grágás á lögbók Magnúsar góða hafi upphaflega verið klám norskra munka sem reyndu að stytta sér með því stundir við að afrita bókina.

Grágásarhandritin voru gefin út stafrétt af mikilli nákvæmni af Vilhjálmi Finsen lögfræðingi á 19. öld, Konungsbók 1852, Staðarhólsbók 1879 og önnur textabrot ásamt registri 1883. Aðgengilegri útgáfa með íslenskri nútímastafsetningu kom 1992. Þar er Staðarhólsbók lögð til grundvallar en allt umtalsvert efni sem Konungsbók hefur umfram hana er prentað líka.

Heimildir og mynd:

 • Fritzner, Johan: Ordbog over Det gamle norske Sprog. Omarbeidet, forøget og forbedret Udgave I–III. Kristiania, Den norske Forlagsforening, 1886–96.
 • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
 • Gunnar Karlsson: Goðamenning. Staða og áhrif goðorðsmanna í þjóðveldi Íslendinga. Reykjavík, Heimskringla, 2004.
 • Íslenzk fornrit XXVIII. Heimskringla III. Bjarni Aðalbjarnarson gaf út. Reykjavík, Hið íslenzk fornritafélag, 1951.
 • Ólafur Lárusson: „Grágás.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder V (1960), 410–12.
 • Mynd: Handritin heima. (Sótt 18. 9. 2014).

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

22.9.2014

Síðast uppfært

26.11.2020

Spyrjandi

Ólafur Sólimann, Halldóra Halldórsdóttir

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvers vegna er hin gamla lögbók Íslendinga kölluð Grágás?“ Vísindavefurinn, 22. september 2014, sótt 13. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=14915.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2014, 22. september). Hvers vegna er hin gamla lögbók Íslendinga kölluð Grágás? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=14915

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvers vegna er hin gamla lögbók Íslendinga kölluð Grágás?“ Vísindavefurinn. 22. sep. 2014. Vefsíða. 13. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=14915>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna er hin gamla lögbók Íslendinga kölluð Grágás?
Einnig var spurt:

Hvaðan kemur nafnið Grágás og hvað þýðir það?

Nafnið Grágás er haft um elstu lögbók Íslendinga, þá sem var í gildi á þjóðveldistímanum og nokkur ár fram yfir hann en gekk úr gildi þegar hér var lögtekin bók sem hefur (af óþekktri ástæðu) fengið nafnið Járnsíða. Það gerðist á árunum 1271–73. Engin leið er að ákvarða hvenær Grágás gekk í gildi. Samkvæmt Íslendingabók Ara fróða settu Íslendingar sér fyrst lög nálægt lokum landnámsaldar, um 930, en þau eru aldrei kölluð Grágás, fremur hin heiðnu lög eða Úlfljótslög eftir þeim manni sem er sagður hafa lært lögin af lögspökum manni í Noregi og flutt þau óskrifuð í kollinum til Íslands. Veturinn 1117–18 voru lögin fyrst skrifuð á bók, eða hluti þeirra, enn samkvæmt vitnisburði Ara, en sú bók, sem nú er glötuð, er ekki kölluð Grágás heldur Hafliðaskrá eftir þeim manni sem hýsti lagaskráningarmennina (og hefur vísast verið einn þeirra). Hann var Hafliði Másson höfðingi á Breiðabólstað í Húnavatnsþingi. Sá texti sem við köllum Grágás er varðveittur í tveimur skinnhandritum, Konungsbók og Staðarhólsbók, og er talið að þær hafi verið skrifaðar um miðja 13. öld, þegar þessi lög voru um það bil að ganga úr gildi.

Staðarhólsbók Grágásar og Járnsíða.

Nafnið Grágás stendur hvergi á eða í þessum lagahandritum, enda var það ekki siður miðaldamanna að skrifa titilblöð á handrit sín, og engar heimildir eru um að þjóðveldislögin hafi verið kölluð Grágás á miðöldum. Sem heiti á lögbók er orðið fyrst notað, svo að vitað sé, um lög sem sagt er að Magnús Noregskonungur Ólafsson, Magnús góði, (kon. 1035–47) hafi látið semja fyrir Þrændalög í Noregi. Hún er nefnd bæði í Sverris sögu konungs og í Heimskringlu, þar sem stendur: „Síðan lét Magnús konungur rita lögbók þá er enn er í Þrándheimi og kölluð er Grágás.“ Á Íslandi kemur nafnið fyrst fyrir í reikningsskap Skálholtsstaðar eftir lát Gissurar biskups Einarssonar 1548. Þar er lögbókin Grágás talin meðal bóka biskups, en ekki er vitað hvað stóð í þeirri bók. Elsta varðveitta bókin sem hefur borið nafnið Grágás frá upphafi er pappírshandrit frá því um 1600 (AM 125 a 4to). Þar er samtíningur lagakafla úr lagasafninu sem við köllum Grágás og úr Járnsíðu. Á Grágásarhlutanum er fyrirsögn: „Nokkrar fáar greinir úr þeirri fyrri lögbók, sem sumir kalla Grágás.“ Á 17. öld verður svo smám saman algengara að hin fornu lög Íslendinga séu kölluð Grágás, Gráfugl, Gráfygla eða Gráfuglsbók. Allar heildarútgáfur bókarinnar á prenti á frummálinu hafa haft titilinn Grágás.

Nafnið Grágás á lagasafni þjóðveldisaldar er sýnilega sprottið af misskilningi en alls óvíst er hvernig hann hefur orðið til. Ekki er ljóst heldur hvers vegna Þrændalög Magnúsar góða voru kölluð Grágás; kannski voru þau bara skrifuð í bók sem var af einhverjum ástæðum í óvenjulega grárri hlífðarkápu.

Orðið gás þýðir einfaldlega gæs í fornu norrænu máli Norðmanna og Íslendinga. Það kemur bæði fyrir stakt og í samsetningum: aligás, brandgás, grágás, heimgás. Fleirtalan var gæss. En orðið gás/gæs var líka haft um kynfæri kvenna og um konur sem þóttu lauslátar. Því er talið líklegt að nöfnin Gráfugl, Gráfygla og Gráfuglsbók séu sprottin af tepruskap manna sem vildu ekki taka sér í munn orðið gás. Svo getur á hinn bóginn verið að nafnið Grágás á lögbók Magnúsar góða hafi upphaflega verið klám norskra munka sem reyndu að stytta sér með því stundir við að afrita bókina.

Grágásarhandritin voru gefin út stafrétt af mikilli nákvæmni af Vilhjálmi Finsen lögfræðingi á 19. öld, Konungsbók 1852, Staðarhólsbók 1879 og önnur textabrot ásamt registri 1883. Aðgengilegri útgáfa með íslenskri nútímastafsetningu kom 1992. Þar er Staðarhólsbók lögð til grundvallar en allt umtalsvert efni sem Konungsbók hefur umfram hana er prentað líka.

Heimildir og mynd:

 • Fritzner, Johan: Ordbog over Det gamle norske Sprog. Omarbeidet, forøget og forbedret Udgave I–III. Kristiania, Den norske Forlagsforening, 1886–96.
 • Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar Karlsson, Kristján Sveinsson, Mörður Árnason sáu um útgáfuna. Reykjavík, Mál og menning, 1992.
 • Gunnar Karlsson: Goðamenning. Staða og áhrif goðorðsmanna í þjóðveldi Íslendinga. Reykjavík, Heimskringla, 2004.
 • Íslenzk fornrit XXVIII. Heimskringla III. Bjarni Aðalbjarnarson gaf út. Reykjavík, Hið íslenzk fornritafélag, 1951.
 • Ólafur Lárusson: „Grágás.“ Kulturhistorisk leksikon for nordisk middelalder V (1960), 410–12.
 • Mynd: Handritin heima. (Sótt 18. 9. 2014).

...