Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 10:57 • sest 15:40 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:11 • Sest 19:24 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:44 • Síðdegis: 21:10 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:24 • Síðdegis: 15:10 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvers vegna féll þjóðveldið?

Axel Kristinsson

Til að svara þessari spurningu þarf fyrst að komast að niðurstöðu um hvað þjóðveldið var. Þetta geta í raun verið tvær mismunandi spurningar eftir því hvað við teljum þjóðveldið hafa verið.

Við getum litið svo á að þjóðveldið hafi verið það samfélagsform sem var við lýði á Íslandi fram til 1262, þegar landsmenn féllust á yfirráð Noregskonungs, án tillits til þess hvernig stjórnarfar þróaðist á þeim tíma.

Einnig er hægt að líta svo á að þjóðveldið hafi verið það stjórnarform sem lýst er í Grágás, lögbók þjóðveldisins, og öðrum ámóta heimildum og einkenndist af goðorðum. Þetta stjórnarform byggði á persónulegum tengslum goðanna við bændur (þingmenn goðanna) sem tilheyrðu goðorði þeirra. Goðorðin höfðu engin landfræðileg mörk og gátu þingmenn tveggja eða fleiri goðorða búið hverjir innan um aðra þótt yfirleitt byggju flestir þingmenn hvers goðorðs nálægt goðanum. Goðorðin líktust bandalögum þar sem goði og þingmenn voru skuldbundnir til að styrkja hverjir aðra; vernda og verja fyrir ágangi annarra. Þingmenn höfðu síðan rétt (að minnsta kosti í orði kveðnu) til að „færa þingfesti sína”, það er flytja sig úr einu goðorði í annað án þess að færa búsetu sína.

Þetta stjórnkerfi var afar veikt og átti erfitt með að taka á stórum vandamálum, setja niður deilur voldugra manna og tryggja friðinn. Það gekk aðeins meðan valdajafnvægi ríkti meðal goðanna. Menn virðast hafa gert sér grein fyrir þessum veikleika kerfisins og því lagt ríka áherslu á að viðhalda jafnvæginu, sem tókst í stórum dráttum fram undir aldamótin 1200. Engu að síður voru komin fram fáein héraðsríki nokkru fyrir þann tíma; þau helstu í Árnesþingi og í Skagafirði. Héraðsríkin urðu oftast til við samruna tveggja eða fleiri goðorða og voru þeim frábrugðin í því að þau höfðu föst landamæri og því gátu menn ekki lengur fært þingfesti sína heldur réðst hún af búsetu. Með þessu varð mikil breyting á sambandi goða og þingmanna sem fór að líkjast fremur sambandi yfirvalds og þegna. Að forminu til voru yfirmenn héraðsríkjanna aðeins goðar, eins og fyrirrennarar þeirra, en vald þeirra var orðið mun meira en áður enda voru þeir yfirleitt kallaðir höfðingjar fremur en goðar.

Um aldamótin 1200 varð mikil hreyfing á Íslandi í myndun nýrra hérðasríkja. Höfðingjavald efldist þá stórum og um 1220 má segja að nánast allt landið hafi skipst á milli 10 eða 12 ríkja. Ef við eigum við hina fornu stjórnskipun með hugtakinu þjóðveldi má segja að það hafi þegar verið liðið undir lok á þessum tíma. Fram til 1262 má segja að Ísland hafi verið lauslegt samband nokkura smáríkja þar sem sameiginleg yfirstjórn var varla til.

Orsakirnar fyrir þessari breytingu eru umdeildar. Sumir hafa talið að stofnun biskupsstólanna í Árnesþingi (í Skálholti) og í Skagafirði (á Hólum) hafi kallað á samþjöppun veraldarvalda til mótvægis við vaxandi vald biskupanna og því hafi héraðsríki fyrst orðið til í Árnesþingi og Skagafirði. Síðan hafi þetta valdið keðjuverkun þar sem grannar hinna nýju héraðshöfðingja hafi þurft að mynda mótvægi gegn völdum þeirra og þannig hafi goðorðin fallið hvert af öðru eins og dómínókubbar kringum landið. Aðrir hafa bent á að náið samband var á milli fyrstu biskupanna í Skálholti og héraðshöfðingjanna í Árnesþingi enda voru þeir allir af sömu ættinni. Einnig hefur verið á það bent að líklega hafi mismunur ríkra og fátækra farið vaxandi frá landnámstímanum og sífellt auðugri menn voru að koma fram. Stjórnkerfi þjóðveldisins var ekki nægilega öflugt til að halda slíkum mönnum í skefjum ef þeir vildu fá sitt fram með valdi og þessar aðstæður kölluðu á öflugra yfirvald en áður.

Fræðimenn hafa ekki orðið á eitt sáttir um orsakir þess að héraðsríkin mynduðust en ef til vill má segja að allar skýringarnar feli í sér að samfélagið varð sífellt flóknara eftir því sem tíminn leið frá landnámi, hvort sem það var með tilkomu kirkjunnar, eflingu auðmanna eða af öðrum orsökum. Goðorðakerfið var of veikburða til að takast á við þessar breyttu aðstæður og því leituðu menn annarra lausna.

Hér má hafa í huga að goðorðakerfið var einstakt í heiminum en höfðingjaveldið sem við tók var aftur á móti lítt frábrugðið því sem hefur einhvern tíma tíðkast í flestum löndum heims.

Í raun er það svo allt önnur spurning hvers vegna Íslendingar gerðust þegnar Noregskonungs árið 1262. Eftir að héraðsríkin voru orðin allsráðandi leið ekki á löngu þar til þau fóru að berjast sín á milli um forræði á landinu öllu. Með héraðsríkjunum var komið fram mun öflugra valdatæki en verið hafði og höfðingjarnir gátu nú safnað stórum herjum til að koma málum sínum fram með illu ef það tókst ekki með góðu. Valdajafnvægi var úr sögunni og nokkuð augljóst að allt stefndi í að landið yrði sameinað undir eitt vald. Þjóðveldið, í hvaða skilningi sem er, var þegar hér var komið sögu dauðadæmt. Spurningin var aðeins hvað tæki við.

Síðari tíma Íslendingum hættir til að líta á þessa atburði í ljósi sjálfstæðisbaráttu 19. og 20. aldar og telja oft að það mikilvægasta í sambandi við konungshyllinguna 1262 hafi verið „missir sjálfstæðis”. Óhætt er að fullyrða að 13. aldar Íslendingar hafa ekki litið svo á. Nútímaþjóðernishyggja, með höfuðáherslu á sjálfsforræði þjóða, er síðari tíma fyrirbæri og var óþekkt á miðöldum. Vandamálið sem blasti við á Íslandi um miðja 13. öld var fyrst og fremst hvernig ætti að koma á friði í landinu og tryggja um leið sæmilegt öryggi fólks. Hin augljósa leið var að koma öllu landinu undir eina stjórn og sennilega hefur mörgum verið ljóst að þróunin stefndi í þá átt.

Það sameiginlega yfirvald sem komst á var hið norska konungsvald en fræðilega er ekkert því til fyrirstöðu að það hefði getað verið eitthvað annað. Sem dæmi má nefna að landið hefði getað orðið sjálfstætt jarlsdæmi í lauslegum tengslum við Noreg. Ýmsir höfðingjar virðast hafa stefnt að slíkri lausn og konungsvaldið sýnist hafa verið að reyna að koma til móts við slík sjónarmið með hinu skammlífa jarlsdæmi Gissurar Þorvaldssonar sem lauk með dauða hans 1268.

Einnig hefði komið til greina að stofna sérstakt konungsríki á Íslandi en vegna náinna sögulegra og menningarlegra tengsla við Noreg er óvíst að það hafi verið talið raunhæft. Noregskonungur var áhrifamikill á Íslandi frá fornu fari og til hans leituðu Íslandingar í miklum mæli að sækja sér upphefð. Hin augljósa lausn á vanda Íslands á 13. öld hlaut því að felast í því að tengjast Noregskonungi með einhverjum hætti enda vann konungur að því leynt og ljóst um þessar mundir að safna undir sig byggðum norrænna manna við norðanvert Atlantshaf.

Höfundur

sagnfræðingur, forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar

Útgáfudagur

17.4.2001

Spyrjandi

Guðni Hilmarsson

Tilvísun

Axel Kristinsson. „Hvers vegna féll þjóðveldið?“ Vísindavefurinn, 17. apríl 2001, sótt 5. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1510.

Axel Kristinsson. (2001, 17. apríl). Hvers vegna féll þjóðveldið? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1510

Axel Kristinsson. „Hvers vegna féll þjóðveldið?“ Vísindavefurinn. 17. apr. 2001. Vefsíða. 5. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1510>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna féll þjóðveldið?
Til að svara þessari spurningu þarf fyrst að komast að niðurstöðu um hvað þjóðveldið var. Þetta geta í raun verið tvær mismunandi spurningar eftir því hvað við teljum þjóðveldið hafa verið.

Við getum litið svo á að þjóðveldið hafi verið það samfélagsform sem var við lýði á Íslandi fram til 1262, þegar landsmenn féllust á yfirráð Noregskonungs, án tillits til þess hvernig stjórnarfar þróaðist á þeim tíma.

Einnig er hægt að líta svo á að þjóðveldið hafi verið það stjórnarform sem lýst er í Grágás, lögbók þjóðveldisins, og öðrum ámóta heimildum og einkenndist af goðorðum. Þetta stjórnarform byggði á persónulegum tengslum goðanna við bændur (þingmenn goðanna) sem tilheyrðu goðorði þeirra. Goðorðin höfðu engin landfræðileg mörk og gátu þingmenn tveggja eða fleiri goðorða búið hverjir innan um aðra þótt yfirleitt byggju flestir þingmenn hvers goðorðs nálægt goðanum. Goðorðin líktust bandalögum þar sem goði og þingmenn voru skuldbundnir til að styrkja hverjir aðra; vernda og verja fyrir ágangi annarra. Þingmenn höfðu síðan rétt (að minnsta kosti í orði kveðnu) til að „færa þingfesti sína”, það er flytja sig úr einu goðorði í annað án þess að færa búsetu sína.

Þetta stjórnkerfi var afar veikt og átti erfitt með að taka á stórum vandamálum, setja niður deilur voldugra manna og tryggja friðinn. Það gekk aðeins meðan valdajafnvægi ríkti meðal goðanna. Menn virðast hafa gert sér grein fyrir þessum veikleika kerfisins og því lagt ríka áherslu á að viðhalda jafnvæginu, sem tókst í stórum dráttum fram undir aldamótin 1200. Engu að síður voru komin fram fáein héraðsríki nokkru fyrir þann tíma; þau helstu í Árnesþingi og í Skagafirði. Héraðsríkin urðu oftast til við samruna tveggja eða fleiri goðorða og voru þeim frábrugðin í því að þau höfðu föst landamæri og því gátu menn ekki lengur fært þingfesti sína heldur réðst hún af búsetu. Með þessu varð mikil breyting á sambandi goða og þingmanna sem fór að líkjast fremur sambandi yfirvalds og þegna. Að forminu til voru yfirmenn héraðsríkjanna aðeins goðar, eins og fyrirrennarar þeirra, en vald þeirra var orðið mun meira en áður enda voru þeir yfirleitt kallaðir höfðingjar fremur en goðar.

Um aldamótin 1200 varð mikil hreyfing á Íslandi í myndun nýrra hérðasríkja. Höfðingjavald efldist þá stórum og um 1220 má segja að nánast allt landið hafi skipst á milli 10 eða 12 ríkja. Ef við eigum við hina fornu stjórnskipun með hugtakinu þjóðveldi má segja að það hafi þegar verið liðið undir lok á þessum tíma. Fram til 1262 má segja að Ísland hafi verið lauslegt samband nokkura smáríkja þar sem sameiginleg yfirstjórn var varla til.

Orsakirnar fyrir þessari breytingu eru umdeildar. Sumir hafa talið að stofnun biskupsstólanna í Árnesþingi (í Skálholti) og í Skagafirði (á Hólum) hafi kallað á samþjöppun veraldarvalda til mótvægis við vaxandi vald biskupanna og því hafi héraðsríki fyrst orðið til í Árnesþingi og Skagafirði. Síðan hafi þetta valdið keðjuverkun þar sem grannar hinna nýju héraðshöfðingja hafi þurft að mynda mótvægi gegn völdum þeirra og þannig hafi goðorðin fallið hvert af öðru eins og dómínókubbar kringum landið. Aðrir hafa bent á að náið samband var á milli fyrstu biskupanna í Skálholti og héraðshöfðingjanna í Árnesþingi enda voru þeir allir af sömu ættinni. Einnig hefur verið á það bent að líklega hafi mismunur ríkra og fátækra farið vaxandi frá landnámstímanum og sífellt auðugri menn voru að koma fram. Stjórnkerfi þjóðveldisins var ekki nægilega öflugt til að halda slíkum mönnum í skefjum ef þeir vildu fá sitt fram með valdi og þessar aðstæður kölluðu á öflugra yfirvald en áður.

Fræðimenn hafa ekki orðið á eitt sáttir um orsakir þess að héraðsríkin mynduðust en ef til vill má segja að allar skýringarnar feli í sér að samfélagið varð sífellt flóknara eftir því sem tíminn leið frá landnámi, hvort sem það var með tilkomu kirkjunnar, eflingu auðmanna eða af öðrum orsökum. Goðorðakerfið var of veikburða til að takast á við þessar breyttu aðstæður og því leituðu menn annarra lausna.

Hér má hafa í huga að goðorðakerfið var einstakt í heiminum en höfðingjaveldið sem við tók var aftur á móti lítt frábrugðið því sem hefur einhvern tíma tíðkast í flestum löndum heims.

Í raun er það svo allt önnur spurning hvers vegna Íslendingar gerðust þegnar Noregskonungs árið 1262. Eftir að héraðsríkin voru orðin allsráðandi leið ekki á löngu þar til þau fóru að berjast sín á milli um forræði á landinu öllu. Með héraðsríkjunum var komið fram mun öflugra valdatæki en verið hafði og höfðingjarnir gátu nú safnað stórum herjum til að koma málum sínum fram með illu ef það tókst ekki með góðu. Valdajafnvægi var úr sögunni og nokkuð augljóst að allt stefndi í að landið yrði sameinað undir eitt vald. Þjóðveldið, í hvaða skilningi sem er, var þegar hér var komið sögu dauðadæmt. Spurningin var aðeins hvað tæki við.

Síðari tíma Íslendingum hættir til að líta á þessa atburði í ljósi sjálfstæðisbaráttu 19. og 20. aldar og telja oft að það mikilvægasta í sambandi við konungshyllinguna 1262 hafi verið „missir sjálfstæðis”. Óhætt er að fullyrða að 13. aldar Íslendingar hafa ekki litið svo á. Nútímaþjóðernishyggja, með höfuðáherslu á sjálfsforræði þjóða, er síðari tíma fyrirbæri og var óþekkt á miðöldum. Vandamálið sem blasti við á Íslandi um miðja 13. öld var fyrst og fremst hvernig ætti að koma á friði í landinu og tryggja um leið sæmilegt öryggi fólks. Hin augljósa leið var að koma öllu landinu undir eina stjórn og sennilega hefur mörgum verið ljóst að þróunin stefndi í þá átt.

Það sameiginlega yfirvald sem komst á var hið norska konungsvald en fræðilega er ekkert því til fyrirstöðu að það hefði getað verið eitthvað annað. Sem dæmi má nefna að landið hefði getað orðið sjálfstætt jarlsdæmi í lauslegum tengslum við Noreg. Ýmsir höfðingjar virðast hafa stefnt að slíkri lausn og konungsvaldið sýnist hafa verið að reyna að koma til móts við slík sjónarmið með hinu skammlífa jarlsdæmi Gissurar Þorvaldssonar sem lauk með dauða hans 1268.

Einnig hefði komið til greina að stofna sérstakt konungsríki á Íslandi en vegna náinna sögulegra og menningarlegra tengsla við Noreg er óvíst að það hafi verið talið raunhæft. Noregskonungur var áhrifamikill á Íslandi frá fornu fari og til hans leituðu Íslandingar í miklum mæli að sækja sér upphefð. Hin augljósa lausn á vanda Íslands á 13. öld hlaut því að felast í því að tengjast Noregskonungi með einhverjum hætti enda vann konungur að því leynt og ljóst um þessar mundir að safna undir sig byggðum norrænna manna við norðanvert Atlantshaf.

...