Sólin Sólin Rís 08:54 • sest 18:29 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 18:18 • Sest 09:37 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:41 • Síðdegis: 19:01 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:33 • Síðdegis: 12:58 í Reykjavík

Hvers konar rit er Sturlunga?

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Þótt höfuðættir landsins hafi flestar hverjar deilt á síðari hluta 12. aldar og fram til 1264 er tímabilið engu að síður kennt við Sturlungaættina sérstaklega og nefnt Sturlungaöld. Ein helsta heimild okkar um þá sögulegu atburði sem áttu sér stað á þessum tíma er Sturlunga saga (einnig nefnd Sturlunga). Sagnaritarinn Sturla Þórðarson (1214-1284) kom að ritun Sturlungu en auk hans ýmsir aðrir höfundar. Sturlunga er því samsteypurit sagna eftir ólíka höfunda og fellur ásamt biskupasögum undir þá bókmenntagrein sem nefnist samtíðarsögur. Í samtíðarsögum segja höfundar frá atburðum úr eigin samtíð og að því leyti eru þær nær því að vera tækar heimildir um menn og málefni en aðrar miðaldabókmenntir.

Sturlunga saga í AM 122 a fol. (Króksfjarðarbók), bl. 13v og 14r. Handritið, sem er tímasett til 1350-1370, er annað tveggja skinnhandrita sem varðveita sögur Sturlungu.

Einstakir hlutar Sturlungu, bæði sögur og þættir, voru skrifaðir á 13. öld og þeim steypt saman um 1300. Yfirleitt er talið að ritstjóri samsteypunnar hafi verið Þórður Narfason (1252-1308) sem var lögmaður á Skarði á Skarðsströnd en Þorsteinn Snorrason (d. 1353), ábóti að Helgafelli, kann þó einnig að hafa átt hlut að máli. Söguefni hinna einstöku þátta er fjölbreytt enda spannar sögutíminn frá 1117-1264 og verkinu lýkur með falli þjóðveldisins. Sturlunga er að því leyti einstök heimild að hún gefur okkur færi á að skilja hvaða átök og atburðir leiddu til þess að völd goðanna dvínuðu og að íslenskir höfðingjar gengust undir vald Noregskonungs.

Í Sturlungu er að finna bæði langar og efnismiklar sögur og styttri þætti. Einstakar sögur eru Guðmundar saga dýra, Hrafns saga Sveinbjarnarsonar, Íslendinga saga Sturlu, Prestssaga Guðmundar Arasonar, Sturlu saga, Svínfellinga saga, Þorgils saga og Hafliða, Þorgils saga skarða og Þórðar saga kakala. Styttri þættir eru Geirmundar þáttur heljarskinns, Haukdæla þáttur og Sturlu þáttur, sem segir frá samskiptum þeirra Sturlu og Magnúsar konungs og sagnaskemmtun Sturlu á skipi Magnúsar. Í samfloti við Sturlungu hafa stundum verið gefnar út Arons saga Hjörleifssonar, Árna saga biskups og Hrafns saga Sveinbjarnarsonar hin sérstaka, auk ýmissa smákafla og brota.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum.

Höfundur

Aðalheiður Guðmundsdóttir

prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda

Útgáfudagur

17.1.2023

Spyrjandi

Elsa Dóra Hreinsdóttir

Tilvísun

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvers konar rit er Sturlunga?“ Vísindavefurinn, 17. janúar 2023. Sótt 24. febrúar 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=49114.

Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2023, 17. janúar). Hvers konar rit er Sturlunga? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=49114

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvers konar rit er Sturlunga?“ Vísindavefurinn. 17. jan. 2023. Vefsíða. 24. feb. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=49114>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar rit er Sturlunga?
Þótt höfuðættir landsins hafi flestar hverjar deilt á síðari hluta 12. aldar og fram til 1264 er tímabilið engu að síður kennt við Sturlungaættina sérstaklega og nefnt Sturlungaöld. Ein helsta heimild okkar um þá sögulegu atburði sem áttu sér stað á þessum tíma er Sturlunga saga (einnig nefnd Sturlunga). Sagnaritarinn Sturla Þórðarson (1214-1284) kom að ritun Sturlungu en auk hans ýmsir aðrir höfundar. Sturlunga er því samsteypurit sagna eftir ólíka höfunda og fellur ásamt biskupasögum undir þá bókmenntagrein sem nefnist samtíðarsögur. Í samtíðarsögum segja höfundar frá atburðum úr eigin samtíð og að því leyti eru þær nær því að vera tækar heimildir um menn og málefni en aðrar miðaldabókmenntir.

Sturlunga saga í AM 122 a fol. (Króksfjarðarbók), bl. 13v og 14r. Handritið, sem er tímasett til 1350-1370, er annað tveggja skinnhandrita sem varðveita sögur Sturlungu.

Einstakir hlutar Sturlungu, bæði sögur og þættir, voru skrifaðir á 13. öld og þeim steypt saman um 1300. Yfirleitt er talið að ritstjóri samsteypunnar hafi verið Þórður Narfason (1252-1308) sem var lögmaður á Skarði á Skarðsströnd en Þorsteinn Snorrason (d. 1353), ábóti að Helgafelli, kann þó einnig að hafa átt hlut að máli. Söguefni hinna einstöku þátta er fjölbreytt enda spannar sögutíminn frá 1117-1264 og verkinu lýkur með falli þjóðveldisins. Sturlunga er að því leyti einstök heimild að hún gefur okkur færi á að skilja hvaða átök og atburðir leiddu til þess að völd goðanna dvínuðu og að íslenskir höfðingjar gengust undir vald Noregskonungs.

Í Sturlungu er að finna bæði langar og efnismiklar sögur og styttri þætti. Einstakar sögur eru Guðmundar saga dýra, Hrafns saga Sveinbjarnarsonar, Íslendinga saga Sturlu, Prestssaga Guðmundar Arasonar, Sturlu saga, Svínfellinga saga, Þorgils saga og Hafliða, Þorgils saga skarða og Þórðar saga kakala. Styttri þættir eru Geirmundar þáttur heljarskinns, Haukdæla þáttur og Sturlu þáttur, sem segir frá samskiptum þeirra Sturlu og Magnúsar konungs og sagnaskemmtun Sturlu á skipi Magnúsar. Í samfloti við Sturlungu hafa stundum verið gefnar út Arons saga Hjörleifssonar, Árna saga biskups og Hrafns saga Sveinbjarnarsonar hin sérstaka, auk ýmissa smákafla og brota.

Mynd:

Þetta svar er fengið úr bókinni Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík 2021. Textinn er lítillega aðlagaður Vísindavefnum....