
Ástæða þess að gerður var slíkur sáttmáli var að á Íslandi hafði geisað mikill ófriður. Höfðingjadeilur á Sturlungaöld (1220-1262) höfðu leikið menn grátt en ekkert framkvæmdavald var til staðar til að framfylgja lögum. Landið skiptist í sífellt stærri einingar sem mismunandi höfðingjaættir stjórnuðu og var markmið allra að ná sem mestum yfirráðum. Fjöldi hirðmanna Noregskonungs var einnig í landinu og einnig sátu norskir biskupar á Hólum og í Skálholti frá 1238. Norska ríkið átti þess vegna allnokkur ítök hér á landi. Íslendingar þráðu frið og réttaröryggi. Konungi líkaði illa sá ófriður sem hér geisaði og skipaði Gissur Þorvaldsson jarl yfir Íslandi árið 1258 með það að markmiði að koma landinu undir Noreg. Gamli sáttmáli er oft nefndur Gissurarsáttmáli vegna aðkomu Gissurar Þorvaldssonar að honum. Verkefni hans gekk hægt í fyrstu en Hákon gamli Hákonarson Noregskonungur sendi erindreka hingað árið 1262. Sá hét Hallvarður gullskór og átti að reka á eftir Gissuri. Þeirri Íslandsför lyktaði með því að samþykktur var samningur í Lögréttu sem nefndur var máldagabréf en það var ekki fyrr en á 15. öld að hann fékk heitið Gamli sáttmáli. Einungis tólf menn samþykktu samninginn og voru þeir allir fylgismenn Gissurar úr Norðlendinga- og Sunnlendingafjórðungum. Auk þess samþykkti fulltrúi Sunnlendinga milli Þjórsár og Borgarfjarðar máldagann. Þar með var um helmingur landsins kominn undir Noregskonung.

- Hvers vegna féll þjóðveldið? eftir Axel Kristinsson
- Hvaða Danakonungur ákvað að gefa Íslendingum sjálfstæði? eftir Gunnar Karlsson
- Einar Laxness, Íslandssaga a-h, Vaka-Helgafell, Reykjavík 1995.
- Sögufélag.
- Fyrri mynd: Hákon Hákonarson og Magnús lagabætir á Wikimedia Commons
- Seinni mynd: Law speaker á Wikimedia Commons
Þetta svar er eftir Vigni Má Lýðsson nemanda við Menntaskólann í Reykjavík en byggt á drögum að svari eftir Helgu Láru Guðmundsdóttur og Hreiðar Þór Heiðberg nemendur í Háskóla unga fólksins, námskeiðum á vegum HÍ fyrir 12-16 ára ungmenni í júnímánuði 2008.