Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Jón Sigurðsson (1811-1879) hafði engin bein tengsl við frönsku byltinguna sem hófst í París árið 1789. Hins vegar er óhætt að fullyrða að hann hafi verið undir hugmyndafræðilegum áhrifum frá byltingunni og því megi tala um óbein tengsl Jóns við hana. Byltingin markaði óneitanlega djúp spor í sögu Vesturlanda, en þó er rétt að varast að líta á hana sem algerlega einstæðan viðburð. Fáeinum árum fyrr var til að mynda gerð bylting í nýlendum Breta í Vesturheimi sem leiddi til stofnunar Bandaríkjanna 1776. Nákvæmara væri því að segja að Jón Sigurðsson hafi verið undir áhrifum frá þeirri frjálslyndu undiröldu sem tók að rísa undir lok 18. aldar. Á fyrri hluta 19. aldar hélt þessi alda áfram að rísa og náði ákveðnum hæðum í tveimur evrópskum byltingum, 1830 og 1848, þar sem enn frekar var hnykkt á kröfum um að dregið yrði úr forréttindum aðals og konungsstjórna.
Hér má rifja upp kjörorð frönsku byltingarinnar: „Frelsi, jafnrétti, bræðralag.“ Undir þessi orð hefði Jón Sigurðsson getað tekið. Hann var fylgjandi auknu frelsi, einstaklingsfrelsi, lýðfrelsi og þjóðfrelsi, jafnrétti og bræðralagi. Gott er þó að hafa í huga að hugtakið bræðralag vísar með óbeinum hætti til samfélagshátta á 19. öld þar sem karlar voru sérlega valdamiklir. Jón sór sig í ætt við öldina og mælti því í raun aðeins fyrir „karlfrelsi“ og „karlréttindum“ á sviði félags- og stjórnmála.
Það atriði sem hefur líklega átt hvað mestan þátt í að gera Jón að þeirri þjóðhetju sem hann er enn á okkar dögum er barátta hans fyrir aukinni sjálfstjórn eða auknu þjóðfrelsi Íslendinga. Oft er miðað við að slíkar hugmyndir hafi einmitt fyrst komist í hámæli í frönsku byltingunni. Jón var til dæmis eindregið fylgjandi endurreisn Alþingis sem ráðgefandi þings sem fyrst kom saman í Reykjavík árið 1845. Hann leit á þingið sem mikilvægan vettvang fyrir fólk, réttara sagt karlmenn, til að efla með sér sjálfstæða hugsun og vekja þjóðarandann.
Byltingin 1848 barst til Danmerkur, eins og flestra annarra landa álfunnar, og neyddist Danakonungur til að afsala sér einveldi sínu og koma á löggjafarþingi. Þetta sama ár birti Jón Sigurðsson einmitt eina af sínum þekktustu greinum, „Hugvekju til Íslendinga“, í tímariti sínu, Nýjum félagsritum. Aðalstarf Jóns í Kaupmannahöfn, þar sem hann bjó mestan hluta ævi sinnar, fólst í því að sinna útgáfu íslenskra handrita og rannsóknum á þeim. Fortíðin var honum alla tíð mjög hugleikin enda var hann vel menntaður á sviði laga, sagnfræði og handritafræði. Þessi áhugi hans á fortíðinni birtist vel í þeim fjölmörgu pólitísku greinum sem hann ritaði um ævina og í „Hugvekjunni“ beitti hann einmitt sögulegum rökum fyrir því að Íslendingar ættu að fá aukna sjálfsstjórn. Hann benti meðal annars á að með Gamla sáttmála 1262 og einveldishyllingunni 1662 hafi Íslendingar einvörðungu gengið Danakonungi á hönd og því ætti nýstofnað danskt löggjafarþing engan sögulegan rétt til áhrifa á Íslandi. Íslendingum ætti því að fela ákveðna sjálfstjórn undir merki Danakonungs. Hann barðist með öðrum orðum gegn því að Ísland yrði einfaldlega innlimað í Danaveldi, að það yrði eins og hvert annað hérað í konungsveldinu. Jón benti líka á að af hagkvæmnisástæðum væri auðveldara að stjórna Íslandi frá Reykjavík en Kaupmannahöfn.
Rök Jóns Sigurðssonar fyrir aukinni sjálfsstjórn til handa Íslendingum voru þó ekki aðeins söguleg og „praktísk“ því að hugmyndir hans um fjölmörg önnur svið þjóðfélagsins – allt frá skólamálum, hervörnum, verslun og fiskveiðum til frjálsra félagasamtaka, svo fátt eitt sé nefnt – miðuðu allar að því að efla fjárhagslegan grundvöll landsins og rækta sjálfstæða (karlkyns) einstaklinga sem gætu staðið undir sífellt aukinni sjálfstjórn. Skoðanir hans mynduðu með öðrum orðum eina, samfléttaða heild og báru það með sér að Jón var dæmigerður, frjálslyndur maður á meginlandi álfunnar um miðbik 19. aldar.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Páll Björnsson. „Hver var röksemdafærsla Jóns Sigurðssonar fyrir aukinni sjálfstjórn Íslendinga?“ Vísindavefurinn, 9. ágúst 2006, sótt 4. október 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=6113.
Páll Björnsson. (2006, 9. ágúst). Hver var röksemdafærsla Jóns Sigurðssonar fyrir aukinni sjálfstjórn Íslendinga? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=6113
Páll Björnsson. „Hver var röksemdafærsla Jóns Sigurðssonar fyrir aukinni sjálfstjórn Íslendinga?“ Vísindavefurinn. 9. ágú. 2006. Vefsíða. 4. okt. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=6113>.