
Hrafnseyri í Arnarfirði, fæðingarstaður Jóns Sigurðssonar.
Þau Ingibjörg bjuggu í Kaupmannahöfn allan sinn búskap og þaðan stjórnaði Jón sjálfstæðisbaráttunni við Dani í hátt í 40 ár. Á þeim tíma hafði enginn Íslendingur samband við jafn fjölmennan hóp landsmanna og má nefna að á söfnum landsins eru til yfir 6.000 sendibréf til Jóns, sem hann varðveitti, frá um 870 bréfriturum.
Lifibrauð sitt hafði Jón af ýmsum vísindastörfum og vinnu við Árnasafn, þar sem hin fornu íslensku handrit voru varðveitt. Fræðistörf hans ein mega heita fullkomið ævistarf, enda kunni hann að skipuleggja vinnu sína.
Jón var forseti Kaupmannahafnardeildar Bókmenntafélagsins og hlaut af því viðurnefnið forseti. Forseti íslenska lýðveldisins var hann aldrei af skiljanlegum ástæðum.
Frá endurreisn Alþingis og til æviloka var Jón potturinn og pannan í öllum störfum Alþingis. Forseti Alþingis var hann alls á 10 þingum, eða lengur en nokkur annar fyrr og síðar. Skoðanir Jóns Sigurðssonar mótuðu mest störf þingsins fyrstu áratugina og má segja að andi hans hafi svifið þar yfir vötnum allt til þessa dags.
Jón sigldi 29 sinnum yfir Íslandsála á misjöfnum farkostum, meðal annars til að stjórna fundum Alþingis. Oftast var Ingibjörg eiginkona hans með í för.
Þekking Jóns Sigurðssonar á sögu og bókmenntum Íslendinga og ást hans á íslensku fólki, máli þess og menningu, auðveldaði honum að verða sá foringi sem hann og varð. Hann var bardagamaður, einarður og ósérhlífinn, fylginn sér og harðsnúinn. En hann barðist hvorki með byssu né sverði heldur var orðsins brandur og söguleg rök helstu vopn hans.
Ný félagsrit voru málgagn Jóns. Í skrifum sínum þar barðist hann fyrir stjórnfrelsi, kjörfrelsi, málfrelsi, verslunarfrelsi og atvinnufrelsi til handa Íslendingum og birti ótal hvatningargreinar til Íslendinga um hvaðeina sem verða mátti landinu til viðreisnar. Hann taldi þó að frelsi án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn.
Jón Sigurðsson taldi að Ísland hefði alla burði til að sjá um sín eigin málefni. Til þess að svo mætti verða og landinu ætti að farnast vel, þyrftu Íslendingar að öðlast fullt löggjafarvald, aðskilinn fjárhag, jafnrétti og innlenda stjórn. Reynslan hefði sýnt að það væri ómögulegt að stjórna Íslandi frá Danmörku. Þetta var í stórum dráttum stefnuskrá Jóns Sigurðssonar og samherja hans í sjálfstæðisbaráttunni við Dani, sem hann birti í ritgerðinni „Hugvekju til Íslendinga“ 1848. Jón setti ekki fram kröfur um algjöran aðskilnað landanna. Stofnun lýðveldis á Íslandi kom ekki til greina fyrr en löngu eftir hans dag. Í sjálfstæðisbaráttunni lagði Jón mikla áherslu á að meginréttindi Íslands byggðust á Gamla sáttmála frá 1262-1264, en samkvæmt honum gekk Ísland í samband við Noreg sem frjálst land með ákveðnum skyldum og réttindum.
Á þjóðfundi 1851 ætluðu Danir að setja Íslendingum nýja stjórnskipun, þar sem lítið tillit var tekið til óska Íslendinga. Fundinum lauk með því að flestir fundarmenn risu úr sætum og sögðu: „Vér mótmælum allir.“ Á þjóðfundinum urðu tímamót á stjórnmálaferli Jóns Sigurðssonar. Eftir fundinn var enginn vafi á því hver væri óumdeildur fyrirliði þjóðarinnar.
Jón Sigurðsson taldi að ætti líf og fjör að færast í Íslendinga, þyrftu þeir að vera fjár síns ráðandi og fá að versla við þá sem þeir vildu sjálfir. Öflug forysta hans hafði úrslitaáhrif á að verslun við Ísland var gefin öllum þjóðum frjáls 1. apríl 1855.
Jón forseti var mjög vinsæll maður heima á Íslandi og má ætla að alls konar erindrekstur og endalaus fyrirgreiðsla fyrir landa hans í höfuðborginni, Kaupmannahöfn, hafi átt mikinn þátt í þeim vinsældum.
Jón Guðmundsson, ritstjóri, var nánasti fylgismaður Jón Sigurðssonar í þjóðmálabaráttunni og sá sem mest mæddi á hér heima. Hann var kallaður „skuggi“ Jóns Sigurðssonar. En fjöldi manna um allt land voru óhvikulir stuðningsmenn hans, bæði leynt og ljóst. Þetta var fólk úr öllum stéttum þjóðfélagsins: bændur, prestar, vinnumenn, vinnukonur, verkamenn, búðarþjónar, embættismenn, húsfreyjur og námsmenn.
Jón var höfðingi í sjón og reynd, glæsilegur gáfumaður sem varð oft að sætta sig við þá reynslu brautryðjandans að falla en halda þó velli. Jón andaðist í Kaupmannahöfn 7. desember 1879 og Ingibjörg níu dögum síðar. Þau eru jarðsett í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík. Þau voru barnlaus, en Sigurður, sonur Margrétar á Steinanesi, ólst upp hjá þeim. Einn samtímamaður Jóns og Ingibjargar sagði um þau: „Allir Íslendingar voru börn þeirra.“ Fræg eru eftirmæli Íslendinga í Kaupmannahöfn um Jón Sigurðsson, letruð á silfursveig á kistu hans: „Óskabarn Íslands, sómi þess, sverð og skjöldur.“
Fæðingardagur Jóns var gerður að þjóðhátíðardegi Íslendinga við lýðveldisstofnunina 1944. Stofnað hafði verið til Hrafnseyrarhátíðar til minningar um Jón 1911. Minjasafn Jóns Sigurðssonar tók til starfa á Hrafnseyri 1980.

Á Hrafnseyrarhátíð 17. júní 1961 mæltist Ásgeiri Ásgeirssyni forseta svo um Jón Sigurðsson: „Það getur enginn gert sér grein fyrir því, hvernig nú væri ástatt um hag þjóðar vorrar, ef hún hefði ekki eignast Jón Sigurðsson, þegar mest lá við. Það verður ekki stungið svo skóflu í jarðveg og sögu íslenskrar viðreisnar að ekki komi niður á æfistörf Jóns Sigurðssonar. Jón Sigurðsson er ímynd Íslendingsins eins og hann getur verið mestur og bestur.“ Frekara lesefni á Vísindavefnum:
- Hver var röksemdafærsla Jóns Sigurðssonar fyrir aukinni sjálfstjórn Íslendinga? eftir Pál Björnsson
- Hvaða þátt átti íslensk tunga í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga? eftir Gunnar Karlsson
- Hvaða Danakonungur ákvað að gefa Íslendingum sjálfstæði? eftir Gunnar Karlsson
- Ágúst Sigurðsson, „Forn í háttum, föst í lund“, Mannlíf og saga fyrir vestan, 10. hefti, ritstj. Hallgrímur Sveinsson, Vestfirska forlagið, Hrafnseyri 2002
- Einar Laxness: Jón Sigurðsson forseti 1811-1879: Yfirlit um ævi og starf í máli og myndum, Sögufélagið, Reykjavík 1979
- Íslenska alfræðiorðabókin, Örn og Örlygur, Reykjavík 1990
- Jón Sigurðsson: Hugvekja til Íslendinga: Úrval úr ræðum og ritum Jóns Sigurðssonar til loka þjóðfundar, ritstj. Sverrir Kristjánsson og Jakob Benediktsson, Mál og menning, Reykjavík 1951
- Jón Sigurðsson: Jón Sigurðsson í ræðu og riti, Vilhjálmur Þ. Gíslason gaf út, Norðri, Reykjavík 1944
- Lúðvík Kristjánsson: Á slóðum Jóns Sigurðssonar, Skuggsjá, Hafnarfirði 1961
- Páll Eggert Ólason: Jón Sigurðsson, 1. - 5. bindi, Hið ízlenska þjóðvinafélag, Reykjavík 1929-1933
Myndir:
- Félix Tungsteno. Hrafnseyri. Myndin er tekin af Flickr.com og birt undir leyfi Creative Commons Attribution-NonCommercial-NoDerivs 2.0 Generic (CC BY-NC-ND 2.0.) (Sótt 8. júní 2021.)
- Hver var Jón Sigurðsson? (Olga Rún Kristjánsdóttir)
- Getið þið sagt mér allt um Jón Sigurðsson og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á hans tíma? (Áslaug Gunnarsdóttir)
- Þegar Jón Sigurðsson var úti í Kaupmannahöfn við nám, kom hann aldrei heim til að hitta Ingibjörgu? (Garðar Sveinbjörnsson)
- Hvað var Jón Sigurðsson lengi forseti og átti hann börn? Ef svo er, hvað voru þau mörg og hvað hétu þau? (Ásta Berglind)