Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.
Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar
um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að
svara öllum spurningum.
Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að
svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki
nægileg deili á sér.
Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.
Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!
Eiginlega enginn, að minnsta kosti enginn einn. Eini konungurinn sem mér vitanlega tók persónulega ákvörðun um að veita Íslendingum sjálfstæðari stöðu en þeir höfðu haft fram að þeim tíma var Kristján áttundi, sem skipaði svo fyrir árið 1840, þvert ofan í tillögur embættismanna sinna, að Íslendingum yrði gefinn kostur á að endurreisa Alþingi sem ráðgjarfarþing í stað þess að sækja stéttaþing dönsku eyjanna í Hróarskeldu.
Þetta var mikilvæg ákvörðun fyrir þróun pólitísks sjálfstæðis Íslendinga, því það var fyrsta ávörðunin, eftir að lýðræðisþróun hófst í ríki Danakonungs, sem stefndi að því að Ísland fengi sérstöðu í því lýðræðislega stjórnkerfi sem var að byrja að myndast. Fram að því hafði litið út fyrir að lýðræðisstjórnkerfið mundi innlima Ísland meira en einveldisstjórnkerfið hafði nokkurn tímann gert, og á þjóðfundi 1851 var enn reynt að fá fulltrúa Íslendinga til að fallast á innlimun landsins í danska lýðræðisríkið sem var að skapast.
Næsta skref til ríkismyndunar á Íslandi var stigið með stöðulögunum 1871 og stjórnarskránni 1874. Hvortveggja þessi lög voru sett að sjálfdæmi danskra stjórnvalda og miðuðu að því að veita Íslendingum minnstu sjálfstjórn sem vitað var að þeir mundu sætta sig við. Stöðulögin, um stöðu Íslands í danska ríkinu, voru sett eins og hver önnur dönsk lög, af ríkisþingi Dana og með staðfestingu konungs, samkvæmt tillögu ráðherra. Stjórnarskrána, um stjórn þeirra mála sem töldust íslensk sérmál samkvæmt stöðulögunum, setti konungur sem einvaldur yfir Íslandi, samkvæmt tillögu ráðherra síns.
Konungur á þessum tíma var Kristján níundi, og ekkert bendir til að hann hafi haft neinn persónulegan atbeina að málinu. En stjórnarskrárgjöf hans og heimsókn til Íslands 1874 hefur orðið til þess að honum hefur einum Danakonunga verið reist stytta á Íslandi, þar sem hann stendur með stjórnarskrána samanvöðlaða í hendi fyrir framan Stjórnarráðshúsið í Reykjavík.
Þriðja skrefið var heimastjórn og viðurkenning á íslenskri þingræðisreglu, sem gekk í gildi árið 1904. Þetta var bein afleiðing af valdaskiptum í Danmörku árið 1901, þegar Vinstrimenn fengu í fyrsta sinn að mynda ríkisstjórn, og þannig var viðurkennd sú regla að ríkisstjórn ætti að njóta trausts hjá meirihluta þjóðþingsins. Þetta gerðist enn í konungstíð Kristjáns níunda, án þess að vitað sé til að hann hafi haft önnur en formleg afskipti af málinu.
Fjórða skrefið var fullveldi Íslands árið 1918. Þá var Kristján tíundi orðinn konungur. Áður hafði hann heldur dregið úr því að Íslendingar fengju aukið sjálfstæði, en árið 1918 mun hann hafa látið danska stjórnmálamenn nokkurn veginn um forystuna í málinu.
Síðan sögðu Íslendingar Kristjáni tíunda upp árið 1940, eftir að Þjóðverjar hernámu Danmörku. Það var tímabundin ákvörðun í upphafi, meðan konungur væri ófær um að fara með konungsvald á Íslandi, en áður en það ástand endaði voru sambandsslitin gerð endanleg með lýðveldisstofnun 1944. Konungur hafði því ekkert um þau mál að segja, þótt hann reyndi fram á síðustu stundu að koma í veg fyrir stofnun lýðveldis. Áfangana frá 1871-1918 höfðu konungar ákveðið að forminu til en þennan síðasta alls ekki.
Það er þversagnakennt að allir helstu áfangarnir í sjálfstæðisþróun Íslands náðust á stjórnarárum Kristjánanna, þess áttunda, níunda og tíunda, en tveir þeir síðartöldu þóttu bæði íhaldsamir og áhugalitlir um Ísland. Friðrikarnir sem ríktu á milli þeirra, sá sjöundi 1848-63 og sá áttundi 1906-12, þóttu frjálslyndari, og að minnsta kosti sá seinni vinveittur Íslendingum. Hann hneykslaði danska samferðamenn sína í veislu á Kolviðarhóli í Íslandsferð sinni árið 1907 með því að tala um ríkin sín bæði, Danmörku og Ísland, áður en Ísland var viðurkennt sem ríki. En á stjórnarárum Friðrikanna þokaðist ekkert áleiðis um sjálfstæði Íslendinga. Þetta sýnir vel að það voru ekki ákvarðanir konunga sem færðu Íslendingum frelsi.
Frekara lesefni á Vísindavefnum:
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða Danakonungur ákvað að gefa Íslendingum sjálfstæði?“ Vísindavefurinn, 25. september 2001, sótt 14. desember 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=1880.
Gunnar Karlsson (1939-2019). (2001, 25. september). Hvaða Danakonungur ákvað að gefa Íslendingum sjálfstæði? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=1880
Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða Danakonungur ákvað að gefa Íslendingum sjálfstæði?“ Vísindavefurinn. 25. sep. 2001. Vefsíða. 14. des. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=1880>.