Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hófst landnám á Íslandi 200 árum fyrr en talið hefur verið?

Orri Vésteinsson

Stutta svarið er nei.

Hér kemur langa svarið:

Í hugum flestra hefst landnám með því að einhver kemur á hinn nýja stað, kastar eign sinni á landið, kemur undir sig fótunum og skilur eftir sig arfleifð í afkomendum, örnefnum og sögum. Fleiri fylgja í kjölfarið og leika sama leikinn þar til landið er orðið fullt og ekki pláss fyrir fleiri. Allar landnámssögur fylgja þessum stefum og gildir þá einu hvort söguhetjan er Ingólfur Arnarson á Íslandi, Abraham og Lot í Jórdandalnum og Kananslandi, eða skipverjarnir á Mayflower í Nýja Englandi.

Slíkar sögur lúta lögmálum frásagnarinnar: það verður að vera aðalpersóna og gerðir hennar verða að hafa sæmilega skýrt upphaf og skilgreinanlegar afleiðingar. Það er erfitt að segja sögu um landnám nema það sé einhver skilgreindur gerandi sem gerir markverða hluti á ákveðnum stað og á ákveðnum tíma. Landnámssögur lúta hins vegar ekki lögmálum raunveruleikans. Raunveruleikinn er iðulega lítið annað en kássa af samhengislausum atburðum og nafnlausu fólki sem hegðar sér alls ekki eins og sögupersónur. Landnám gerist í raun ekki eins og sögur um það bera með sér; það hefur ekki eitt ákveðið upphaf og það er ekki hægt að skilgreina það út frá einstaklingum eða verkum þeirra.

Upphafsmýta Bandaríkjanna segir til dæmis frá því þegar skipverjar á Mayflower stigu á land á Plymouth Rock í Massachusetts árið 1620 en er það upphaf landnáms Evrópumanna á þeim slóðum? Sumir rekja upphafið frekar til þess að Plymouth-félagið fékk konunglega heimild til landnáms þar sem nú er Nýja England árið 1606 og stofnaði skammlífa nýlendu í Popham í Maine árið eftir. Aðrir benda á aðra staði þar sem Evrópumenn voru löngu búnir að koma sér fyrir þegar Mayflower bar að landi, frá Red Bay á Labrador (frá um 1550) til Jamestown í Virginíu (1607), St. Augustine í Flórída (1565) og Santa Fe í Nýju Mexíkó (1598). Fyrir öðrum eru þetta allt afleiðingar af því að Kólumbus fann Ameríku árið 1492 og enn öðrum sýnist að allir þessir atburðir séu aukaatriði í meir en fimmtán þúsund ára sögu mannvistar í Ameríku. Hvenær byrjaði þá landnám í Ameríku?

Málverk Jean Leon Gerome Ferris (1863–1930) af undirritun Mayflower-sáttmálans sem markar upphaf hugmyndarinnar um sérstakt samfélag Evrópmanna á austurströnd Norður-Ameríku.

Margir myndu segja að landnámssögur geymi kjarna málsins. Að það skipti ekki svo miklu máli að einhverjir Baskar voru að veiða hvali við Labrador á 16. öld enda leiddi það hvorki til varanlegrar byggðar þeirra þar né hafði það nein sýnileg áhrif á seinni þróun. Að það séu fremur atburðir eins og koma Mayflower sem lýsa því sem markvert er: koma fólks með þekkta afkomendur sem leiddi til samfelldrar sögu og vaxandi byggðar, og sem þar að auki gerði með sér sáttmála – Mayflower compact – sem markar upphaf hugmyndarinnar um sérstakt samfélag Evrópumanna á austurströnd Norður-Ameríku. Þessu má halda fram en þegar spurt er um upphaf landnáms verður að skilgreina hvað það er sem maður á við: er það þegar landið var uppgötvað, þegar fyrsta tilraunin var gerð til að búa þar eða þegar slík tilraun bar fyrst árangur sem skilaði sér í varanlegri byggð? Eða var það sú varanlega byggð sem hafði mest áhrif á síðari þróun sem skiptir mestu máli að halda á lofti?

Í íslenskri sagnahefð skipar Ingólfur Arnarson sams konar sess og Mayflower í bandarískri. Sagan um hann markar það upphaf sem Íslendingum, frá 12. öld að minnsta kosti, hefur þótt skipta máli. Hún lýsir upphafi samfelldrar byggðar fólks sem átti eitthvað undir sér og átti þekkta afkomendur sem þar að auki voru lykilmenn í þróun laga og réttar á fyrstu áratugum íslensks samfélags. Aðrar sögur eru til, um Naddoð, Garðar og Hrafna-Flóka að ekki sé minnst á Náttfara (sem fær ekki að vera fyrsti landnámsmaðurinn, ekki af því að hann hafi ekki verið það, heldur af því að hann var ekki nógu fínn pappír). Sagnahefð okkar er nógu rík til að fólk getur á grundvelli hennar einnar saman valið sér mismunandi áherslur og haft ólíkar skoðanir á hvað það var sem skipti máli. Í einu af handritum Landnámu, Skarðsárbók, hefur einhver skemmt sér við að setja ártöl á spássíuna hjá sögunum um landkönnuðina. Samkvæmt því kom Naddoður til Íslands árið 770. Af hverju skyldum við ekki taka mark á þessu og nota sem upphafsár landnáms á Íslandi?

Í hugum Íslendinga er landnám Íslands órjúfanlega tengt þessum sögum og flestum finnst erfitt að hugsa um það án tilvísunar til þeirra. Á síðastliðnum áratugum hafa hins vegar verið að koma í ljós æ fleiri fornleifar sem knýja okkur til að hugsa öðruvísi um landnámið. Þær sýna að mikill fjöldi fólks tók sér bólfestu á Íslandi skömmu eftir að mikið gjóskulag, svokallað landnámslag, sem þekur um tvo þriðju hluta landsins, féll um 870. Fyrir lok 9. aldar var komin byggð á smákotum upp til heiða jafnt sem góðbýlum á láglendi og bendir það til þess að landnámið hafi gengið mjög hratt fyrir sig. Það sést einnig af því að í byrjun 10. aldar hafði orðið gerbreyting á gróðurfari landsins: þar sem áður voru samfelldir birkiskógar voru nú grasmóar. Fornleifar sem örugglega eru frá seinni hluta 9. aldar og þeirri 10. eru mjög miklar að vexti og í samanburði við þær eru vísbendingar um eldri mannvist hverfandi. En þær eru þó til og hefur fólki eðlilega orðið starsýnt á þær: gætu þær bent til þess að fólk hafi verið komið til Íslands löngu áður en Ingólfur á að hafa stigið á skipsfjöl?

Ingólfur Arnarson tekur sér búsetu á Íslandi. Málverk eftir Johan Peter Raadsig (1806-1882) frá 1850.

Tvær hliðar eru á þessu máli. Annars vegar snýst það um ákveðna tímasetningaraðferð, kolefnisaldursgreiningu. Sú aðferð hefur þann kost að hún gefur aldur á lífrænum leifum óháð samhengi. Hún er sjálfstæð og þegar henni var fyrst beitt á leifar frá upphafi Íslandsbyggðar virtist hún sýna að landnám gæti hafa hafist allt að 200 árum fyrr en talið hafði verið. Á þeim tíma var ekki búið að tímasetja landnámslagið og þá snerust deilur vísindamanna um tímasetningu landnáms í raun um hversu gamalt landnámslagið væri – það var innan ramma hins mögulega að lagið væri mun eldra og þar með öll byggð sem hægt var að tímasetja út frá því. Árið 1995 var sýnt, með tilvísun í lagskiptingu vegna bráðnunar íss á yfirborði Grænlandsjökuls, að landnámslagið hefði fallið á árunum 869-73. Þar með dró kraft úr þessum deilum því þó að á tveimur stöðum hafi fundist torfveggir undir landnámslaginu þá hafa hvergi fundist nein yfirgefin hús, hvergi neinar grafir, öskuhaugar eða gripir sem sannarlega eru undir þessu lagi og þar með eldri en það.

Á fjölmörgum stöðum eru hins vegar merki um mannvist beint ofan á landnámslaginu sem sýnir að veruleg breyting verður ekki fyrr en eftir að lagið féll. Eftir standa allmargar kolefnisaldursgreiningar sem virðast benda í aðra átt. Margar hafa einfaldlega verið túlkaðar vitlaust: skekkjumörkin eru oft víð og ná iðulega fram yfir 870 þó miðgildið sé mun eldra og þó það sé freistandi að horfa á miðgildið þá er það ekki líklegri aldur á tilteknu sýni en gildin til endanna á líkindadreifingunni. Ýmiss konar vandræði geta verið með tæknileg atriði eins og hlutfall geislavirks kolefnis í umhverfinu og eiginn aldur sýnanna en meginatriðið er að ekkert einasta sýni sem gefur svo háan aldur er sannarlega tekið úr lögum sem eru eldri en landnámslagið. Sýnin eru annaðhvort tekin úr lögum sem eru sannarlega yngri en landnámslagið eða þau eru úr óþekktu samhengi (sem þýðir líka að þá er óvíst hvað þau eru að tímasetja).

Þetta þýðir ekki að fólk hafi ekki verið komið til Íslands fyrir 870 og er það hin hlið málsins. Torfveggirnir tveir sýna raunar ótvírætt að fólk var komið til Íslands áður en landnámslagið féll en þeir skera ekki úr um hvort það hafi verið nokkrum mánuðum fyrr eða áratugum. Undir landnámslaginu hafa fundist frjó sem gætu verið úr korni, kolasalli sem gæti stafað af bruna af mannavöldum og ummerki um að birkiskógarnir hafi verið byrjaðir að minnka áður en lagið féll. Þá eru nokkrir gripir til sem geta hafa verið komnir til landsins fyrir 870. Engar af þessum vísbendingum eru ótvíræðar en þær koma heim og saman við þá hugmynd að fólk hljóti að hafa verið komið til Íslands allnokkru fyrir 870.

Það er ekki einfalt mál eða auðvelt að nema land þar sem enginn býr og það myndi gera það miklu skiljanlegra sem gerðist á árunum eftir 870 ef við gerum ráð fyrir því að fólk hafi þá verið hér á ferli um hríð til að kanna landið, gera tilraunir með búskap og koma upp bústofni. Einkum og sér í lagi verður allt auðveldara ef fólkið sem kom eftir 870 hefur getað keypt eða leigt búfé sem þegar var búið að rækta. Það eru getgátur einar að svo hafi verið en það er ekkert í fornleifaheimildunum sem útilokar að Ísland hafi fundist og það hafi verið kannað áratugum, og jafnvel öldum, áður en stórfellt landnám hófst, né að fólk hafi verið byrjað að prófa sig áfram með búskap nokkrum áratugum fyrr. Það getur ekki hafa verið mjög víða eða í stórum stíl en nógu mikið til að gera eftirleikinn mögulegan.

Kolefnisaldursgreiningarnar sem notaðar hafa verið til að rökstyðja landnám á 7. öld stafa ekki frá slíkri frumbyggð. Þær tengjast allar byggðinni sem reis eftir 870. En það þýðir ekki að fólk hafi ekki getað verið hér á ferli á 7. eða 8. öld. Hvort við teljum þann möguleika mikilvægan eða hvort við teljum að breytingin mikla eftir 870 sé aðalatriðið er spurningin um Kólumbus eða Mayflower.

Heimildir

  • Um kolefnisaldursgreiningar:
    • Árný E. Sveinbjörnsdóttir 2010, ‘14C aldursgreiningar og nákvæm tímasetning fornleifa.‘ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 2010, 5-28.
    • Árný E. Sveinbjörnsdóttir, Jan Heinemeier & Garðar Guðmundsson 2004, ’14C Dating of the Settlement of Iceland.’ Radiocarbon 46/1, 387-94.
    • Gunnar Karlsson 2011, ‘Upphaf mannaferða á Íslandi.’ Skírnir 185, 5-32.
    • Margrét Hermanns-Auðardóttir 1989, Islands tidiga bosättning. Studier med utgångspunkt i merovingertida-vikingatida gårdslämningar i Herjólfsdalur, Vestmannaeyjar, Island, (Studia archaeologica Universitatis Umensis, I), Umeå.
    • Páll Theódórsson 1997, ‘Aldur landnáms og geislakolsgreiningar.’ Skírnir 171, 92-110.
    • Páll Theódórsson 2000, ‘Athugasemd við grein um tímasetningu landnáms.’ Skírnir 175, 408-12.
    • Páll Theódórsson 2010, ‘Hvað hét fyrsti landnámsmaðurinn?’ Skírnir 184, 511-21.
    • Þorsteinn Vilhjálmsson 2010, ‘Hvenær varð landnám manna á Íslandi?’ Skírnir 184, 5-22.

  • Um landnám Íslands almennt:
    • Helgi Skúli Kjartansson 1997, ‘Landnámið eftir landnám.’ Ný Saga 9, 22-34.
    • Orri Vésteinsson 2013, ‘North Atlantic migrations in the Viking Age.’ The Encyclopedia of Global Human Migration, ed. I. Ness, Wiley-Blackwell. DOI: 10.1002/9781444351071.wbeghm396.
    • Orri Vésteinsson, Helgi Þorláksson & Árni Einarsson 2006, Reykjavík 871 ± 2. Landnámssýningin. The Settlement Exhibition, Reykjavík.
    • Orri Vésteinsson & Thomas H. McGovern 2012, ‘The peopling of Iceland.’ Norwegian Archaeological Review 45(2), 206-18.

  • Um landnám Evrópumanna í Norður-Ameríku:
    • Meinig, D.W. 1986, The Shaping of America. A Geographical Perspective on 500 Years of History. Vol. 1. Atlantic America, 1492-1800, New Haven: Yale UP.

Myndir:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Nú hafa farið fram rannsóknir á fornum mannvistarleifum. Haldið hefur verið fram að landnám hafi hafist að minnsta kosti 200 árum fyrr. Hvað segir vísindasamfélagið um þessa kenningu?

Höfundur

Orri Vésteinsson

prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

26.4.2013

Spyrjandi

Magnús Ingólfsson

Tilvísun

Orri Vésteinsson. „Hófst landnám á Íslandi 200 árum fyrr en talið hefur verið?“ Vísindavefurinn, 26. apríl 2013. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=64420.

Orri Vésteinsson. (2013, 26. apríl). Hófst landnám á Íslandi 200 árum fyrr en talið hefur verið? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=64420

Orri Vésteinsson. „Hófst landnám á Íslandi 200 árum fyrr en talið hefur verið?“ Vísindavefurinn. 26. apr. 2013. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=64420>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hófst landnám á Íslandi 200 árum fyrr en talið hefur verið?
Stutta svarið er nei.

Hér kemur langa svarið:

Í hugum flestra hefst landnám með því að einhver kemur á hinn nýja stað, kastar eign sinni á landið, kemur undir sig fótunum og skilur eftir sig arfleifð í afkomendum, örnefnum og sögum. Fleiri fylgja í kjölfarið og leika sama leikinn þar til landið er orðið fullt og ekki pláss fyrir fleiri. Allar landnámssögur fylgja þessum stefum og gildir þá einu hvort söguhetjan er Ingólfur Arnarson á Íslandi, Abraham og Lot í Jórdandalnum og Kananslandi, eða skipverjarnir á Mayflower í Nýja Englandi.

Slíkar sögur lúta lögmálum frásagnarinnar: það verður að vera aðalpersóna og gerðir hennar verða að hafa sæmilega skýrt upphaf og skilgreinanlegar afleiðingar. Það er erfitt að segja sögu um landnám nema það sé einhver skilgreindur gerandi sem gerir markverða hluti á ákveðnum stað og á ákveðnum tíma. Landnámssögur lúta hins vegar ekki lögmálum raunveruleikans. Raunveruleikinn er iðulega lítið annað en kássa af samhengislausum atburðum og nafnlausu fólki sem hegðar sér alls ekki eins og sögupersónur. Landnám gerist í raun ekki eins og sögur um það bera með sér; það hefur ekki eitt ákveðið upphaf og það er ekki hægt að skilgreina það út frá einstaklingum eða verkum þeirra.

Upphafsmýta Bandaríkjanna segir til dæmis frá því þegar skipverjar á Mayflower stigu á land á Plymouth Rock í Massachusetts árið 1620 en er það upphaf landnáms Evrópumanna á þeim slóðum? Sumir rekja upphafið frekar til þess að Plymouth-félagið fékk konunglega heimild til landnáms þar sem nú er Nýja England árið 1606 og stofnaði skammlífa nýlendu í Popham í Maine árið eftir. Aðrir benda á aðra staði þar sem Evrópumenn voru löngu búnir að koma sér fyrir þegar Mayflower bar að landi, frá Red Bay á Labrador (frá um 1550) til Jamestown í Virginíu (1607), St. Augustine í Flórída (1565) og Santa Fe í Nýju Mexíkó (1598). Fyrir öðrum eru þetta allt afleiðingar af því að Kólumbus fann Ameríku árið 1492 og enn öðrum sýnist að allir þessir atburðir séu aukaatriði í meir en fimmtán þúsund ára sögu mannvistar í Ameríku. Hvenær byrjaði þá landnám í Ameríku?

Málverk Jean Leon Gerome Ferris (1863–1930) af undirritun Mayflower-sáttmálans sem markar upphaf hugmyndarinnar um sérstakt samfélag Evrópmanna á austurströnd Norður-Ameríku.

Margir myndu segja að landnámssögur geymi kjarna málsins. Að það skipti ekki svo miklu máli að einhverjir Baskar voru að veiða hvali við Labrador á 16. öld enda leiddi það hvorki til varanlegrar byggðar þeirra þar né hafði það nein sýnileg áhrif á seinni þróun. Að það séu fremur atburðir eins og koma Mayflower sem lýsa því sem markvert er: koma fólks með þekkta afkomendur sem leiddi til samfelldrar sögu og vaxandi byggðar, og sem þar að auki gerði með sér sáttmála – Mayflower compact – sem markar upphaf hugmyndarinnar um sérstakt samfélag Evrópumanna á austurströnd Norður-Ameríku. Þessu má halda fram en þegar spurt er um upphaf landnáms verður að skilgreina hvað það er sem maður á við: er það þegar landið var uppgötvað, þegar fyrsta tilraunin var gerð til að búa þar eða þegar slík tilraun bar fyrst árangur sem skilaði sér í varanlegri byggð? Eða var það sú varanlega byggð sem hafði mest áhrif á síðari þróun sem skiptir mestu máli að halda á lofti?

Í íslenskri sagnahefð skipar Ingólfur Arnarson sams konar sess og Mayflower í bandarískri. Sagan um hann markar það upphaf sem Íslendingum, frá 12. öld að minnsta kosti, hefur þótt skipta máli. Hún lýsir upphafi samfelldrar byggðar fólks sem átti eitthvað undir sér og átti þekkta afkomendur sem þar að auki voru lykilmenn í þróun laga og réttar á fyrstu áratugum íslensks samfélags. Aðrar sögur eru til, um Naddoð, Garðar og Hrafna-Flóka að ekki sé minnst á Náttfara (sem fær ekki að vera fyrsti landnámsmaðurinn, ekki af því að hann hafi ekki verið það, heldur af því að hann var ekki nógu fínn pappír). Sagnahefð okkar er nógu rík til að fólk getur á grundvelli hennar einnar saman valið sér mismunandi áherslur og haft ólíkar skoðanir á hvað það var sem skipti máli. Í einu af handritum Landnámu, Skarðsárbók, hefur einhver skemmt sér við að setja ártöl á spássíuna hjá sögunum um landkönnuðina. Samkvæmt því kom Naddoður til Íslands árið 770. Af hverju skyldum við ekki taka mark á þessu og nota sem upphafsár landnáms á Íslandi?

Í hugum Íslendinga er landnám Íslands órjúfanlega tengt þessum sögum og flestum finnst erfitt að hugsa um það án tilvísunar til þeirra. Á síðastliðnum áratugum hafa hins vegar verið að koma í ljós æ fleiri fornleifar sem knýja okkur til að hugsa öðruvísi um landnámið. Þær sýna að mikill fjöldi fólks tók sér bólfestu á Íslandi skömmu eftir að mikið gjóskulag, svokallað landnámslag, sem þekur um tvo þriðju hluta landsins, féll um 870. Fyrir lok 9. aldar var komin byggð á smákotum upp til heiða jafnt sem góðbýlum á láglendi og bendir það til þess að landnámið hafi gengið mjög hratt fyrir sig. Það sést einnig af því að í byrjun 10. aldar hafði orðið gerbreyting á gróðurfari landsins: þar sem áður voru samfelldir birkiskógar voru nú grasmóar. Fornleifar sem örugglega eru frá seinni hluta 9. aldar og þeirri 10. eru mjög miklar að vexti og í samanburði við þær eru vísbendingar um eldri mannvist hverfandi. En þær eru þó til og hefur fólki eðlilega orðið starsýnt á þær: gætu þær bent til þess að fólk hafi verið komið til Íslands löngu áður en Ingólfur á að hafa stigið á skipsfjöl?

Ingólfur Arnarson tekur sér búsetu á Íslandi. Málverk eftir Johan Peter Raadsig (1806-1882) frá 1850.

Tvær hliðar eru á þessu máli. Annars vegar snýst það um ákveðna tímasetningaraðferð, kolefnisaldursgreiningu. Sú aðferð hefur þann kost að hún gefur aldur á lífrænum leifum óháð samhengi. Hún er sjálfstæð og þegar henni var fyrst beitt á leifar frá upphafi Íslandsbyggðar virtist hún sýna að landnám gæti hafa hafist allt að 200 árum fyrr en talið hafði verið. Á þeim tíma var ekki búið að tímasetja landnámslagið og þá snerust deilur vísindamanna um tímasetningu landnáms í raun um hversu gamalt landnámslagið væri – það var innan ramma hins mögulega að lagið væri mun eldra og þar með öll byggð sem hægt var að tímasetja út frá því. Árið 1995 var sýnt, með tilvísun í lagskiptingu vegna bráðnunar íss á yfirborði Grænlandsjökuls, að landnámslagið hefði fallið á árunum 869-73. Þar með dró kraft úr þessum deilum því þó að á tveimur stöðum hafi fundist torfveggir undir landnámslaginu þá hafa hvergi fundist nein yfirgefin hús, hvergi neinar grafir, öskuhaugar eða gripir sem sannarlega eru undir þessu lagi og þar með eldri en það.

Á fjölmörgum stöðum eru hins vegar merki um mannvist beint ofan á landnámslaginu sem sýnir að veruleg breyting verður ekki fyrr en eftir að lagið féll. Eftir standa allmargar kolefnisaldursgreiningar sem virðast benda í aðra átt. Margar hafa einfaldlega verið túlkaðar vitlaust: skekkjumörkin eru oft víð og ná iðulega fram yfir 870 þó miðgildið sé mun eldra og þó það sé freistandi að horfa á miðgildið þá er það ekki líklegri aldur á tilteknu sýni en gildin til endanna á líkindadreifingunni. Ýmiss konar vandræði geta verið með tæknileg atriði eins og hlutfall geislavirks kolefnis í umhverfinu og eiginn aldur sýnanna en meginatriðið er að ekkert einasta sýni sem gefur svo háan aldur er sannarlega tekið úr lögum sem eru eldri en landnámslagið. Sýnin eru annaðhvort tekin úr lögum sem eru sannarlega yngri en landnámslagið eða þau eru úr óþekktu samhengi (sem þýðir líka að þá er óvíst hvað þau eru að tímasetja).

Þetta þýðir ekki að fólk hafi ekki verið komið til Íslands fyrir 870 og er það hin hlið málsins. Torfveggirnir tveir sýna raunar ótvírætt að fólk var komið til Íslands áður en landnámslagið féll en þeir skera ekki úr um hvort það hafi verið nokkrum mánuðum fyrr eða áratugum. Undir landnámslaginu hafa fundist frjó sem gætu verið úr korni, kolasalli sem gæti stafað af bruna af mannavöldum og ummerki um að birkiskógarnir hafi verið byrjaðir að minnka áður en lagið féll. Þá eru nokkrir gripir til sem geta hafa verið komnir til landsins fyrir 870. Engar af þessum vísbendingum eru ótvíræðar en þær koma heim og saman við þá hugmynd að fólk hljóti að hafa verið komið til Íslands allnokkru fyrir 870.

Það er ekki einfalt mál eða auðvelt að nema land þar sem enginn býr og það myndi gera það miklu skiljanlegra sem gerðist á árunum eftir 870 ef við gerum ráð fyrir því að fólk hafi þá verið hér á ferli um hríð til að kanna landið, gera tilraunir með búskap og koma upp bústofni. Einkum og sér í lagi verður allt auðveldara ef fólkið sem kom eftir 870 hefur getað keypt eða leigt búfé sem þegar var búið að rækta. Það eru getgátur einar að svo hafi verið en það er ekkert í fornleifaheimildunum sem útilokar að Ísland hafi fundist og það hafi verið kannað áratugum, og jafnvel öldum, áður en stórfellt landnám hófst, né að fólk hafi verið byrjað að prófa sig áfram með búskap nokkrum áratugum fyrr. Það getur ekki hafa verið mjög víða eða í stórum stíl en nógu mikið til að gera eftirleikinn mögulegan.

Kolefnisaldursgreiningarnar sem notaðar hafa verið til að rökstyðja landnám á 7. öld stafa ekki frá slíkri frumbyggð. Þær tengjast allar byggðinni sem reis eftir 870. En það þýðir ekki að fólk hafi ekki getað verið hér á ferli á 7. eða 8. öld. Hvort við teljum þann möguleika mikilvægan eða hvort við teljum að breytingin mikla eftir 870 sé aðalatriðið er spurningin um Kólumbus eða Mayflower.

Heimildir

  • Um kolefnisaldursgreiningar:
    • Árný E. Sveinbjörnsdóttir 2010, ‘14C aldursgreiningar og nákvæm tímasetning fornleifa.‘ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 2010, 5-28.
    • Árný E. Sveinbjörnsdóttir, Jan Heinemeier & Garðar Guðmundsson 2004, ’14C Dating of the Settlement of Iceland.’ Radiocarbon 46/1, 387-94.
    • Gunnar Karlsson 2011, ‘Upphaf mannaferða á Íslandi.’ Skírnir 185, 5-32.
    • Margrét Hermanns-Auðardóttir 1989, Islands tidiga bosättning. Studier med utgångspunkt i merovingertida-vikingatida gårdslämningar i Herjólfsdalur, Vestmannaeyjar, Island, (Studia archaeologica Universitatis Umensis, I), Umeå.
    • Páll Theódórsson 1997, ‘Aldur landnáms og geislakolsgreiningar.’ Skírnir 171, 92-110.
    • Páll Theódórsson 2000, ‘Athugasemd við grein um tímasetningu landnáms.’ Skírnir 175, 408-12.
    • Páll Theódórsson 2010, ‘Hvað hét fyrsti landnámsmaðurinn?’ Skírnir 184, 511-21.
    • Þorsteinn Vilhjálmsson 2010, ‘Hvenær varð landnám manna á Íslandi?’ Skírnir 184, 5-22.

  • Um landnám Íslands almennt:
    • Helgi Skúli Kjartansson 1997, ‘Landnámið eftir landnám.’ Ný Saga 9, 22-34.
    • Orri Vésteinsson 2013, ‘North Atlantic migrations in the Viking Age.’ The Encyclopedia of Global Human Migration, ed. I. Ness, Wiley-Blackwell. DOI: 10.1002/9781444351071.wbeghm396.
    • Orri Vésteinsson, Helgi Þorláksson & Árni Einarsson 2006, Reykjavík 871 ± 2. Landnámssýningin. The Settlement Exhibition, Reykjavík.
    • Orri Vésteinsson & Thomas H. McGovern 2012, ‘The peopling of Iceland.’ Norwegian Archaeological Review 45(2), 206-18.

  • Um landnám Evrópumanna í Norður-Ameríku:
    • Meinig, D.W. 1986, The Shaping of America. A Geographical Perspective on 500 Years of History. Vol. 1. Atlantic America, 1492-1800, New Haven: Yale UP.

Myndir:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Nú hafa farið fram rannsóknir á fornum mannvistarleifum. Haldið hefur verið fram að landnám hafi hafist að minnsta kosti 200 árum fyrr. Hvað segir vísindasamfélagið um þessa kenningu?
...