Sólin Sólin Rís 03:57 • sest 23:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:34 • Síðdegis: 17:59 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:41 • Síðdegis: 24:19 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 03:57 • sest 23:09 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 00:00 • Sest 00:00 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 05:34 • Síðdegis: 17:59 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 11:41 • Síðdegis: 24:19 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Var Ingólfur Arnarson til í alvörunni?

Helgi Þorláksson

Um 1940 voru dásamlegir tímar í íslenskri miðaldasagnfræði, fræðimenn trúðu flestum Íslendingasögunum eins og nýju neti um menn og málefni 10. aldar en þeirri dýrð lauk um 1950. Því olli líklega einkum að bókfestukenningin svonefnda hafði skotið rótum. Hún nefndist öðru nafni íslenski skólinn og samkvæmt henni voru Íslendingasögur að mestu skáldskapur, og ónothæfar sem heimildir um menn og atburði tímabilsins frá um 870 til um 1050. Gætti aukinnar gagnrýni í allri notkun miðaldaheimilda og er tímaritið Saga, sem hóf göngu um miðja síðustu öld, skýr vitnisburður um slíkar hræringar.

Landnámabók taldist þó halda velli. Stundum er ósamræmi milli gerða hennar og sú gerðin sem helsti sérfræðingur síns tíma um Landnámu, Jón Jóhannesson, taldi standa næst frumtexta segir að Ingólfur hafi verið Björnólfsson. Jón benti á að Björnólfur kunni að hafa haft viðurnefnið örn. Þannig gat Ingólfur verið bæði Arnarson og Björnólfsson.


Stytta Ingólfs Arnarsonar á Arnarhóli. Styttan var afhjúpuð árið 1924 og er afsteypa. Frummyndin var gerð árið 1907.

Um 1970 var hins vegar almennt farið að draga í efa vitnisburð Landnámu og Íslendingabókar um sögu Íslands fyrir 1050. Sjálfstæðisbaráttan var að baki, lýðveldið að verða aldarfjórðungs gamalt og eðlilegt að endurskoða gömul viðhorf. Hið nýja viðhorf var að heimildir eins og Landnáma segðu jafnvel meira um þá sem sögðu frá, létu festa frásagnir á skinn, en hina sem sagt var frá. Hin rétta spurning var þá ekki: Var Ingólfur til? Heldur: Hvaða tilgangur vakti fyrir þeim sem sögðu frá Ingólfi? Efasemdir komu jafnvel fram um Íslendingabók Ara fróða og það sem hann segir um Ingólf. Til greina þótti koma að það hefði verið samkomulagsatriði ráðamanna um 1120 að telja að Ingólfur hefði verið fyrstur og merkastur landnámsmanna, slíkt hefði getað þjónað hagsmunum ráðamanna á tímum Ara.

Örnefni voru líka gengisfelld sem heimildir um 1970, með svonefndri náttúrunafnakenningu. Höfundur hennar er Þórhallur Vilmundarson sem flutti röð rómaðra fyrirlestra árið 1966 og á næstu árum um kenninguna. Hún snýst um að mannanöfn séu lesin út úr örnefnum en ekki öfugt; örnefnin séu ekki endilega tengd mannanöfnum eins og Landnáma og aðrar heimildir gefa í skyn. Þannig er ing- í Ingólfshöfði standur, fyrirbæri í náttúrunni sem rís upp yfir umhverfi sitt. Höfundur benti líka á Inghól sem er efst á Ingólfsfjalli.1

Einfaldast væri að sniðganga Ingólf alveg. Þá er ritheimildum um hann hafnað og ekki fengist við spurninguna um það hvort hann var til. Sú saga gengur að fréttamaður hafi spurt fornleifafræðing einn um Ingólf Arnarson og hann svarað „Ingólfur hvaða?“ Þetta ætti einmitt að vera fyrsta spurning, hvaða Ingólfur er það sem við höfnum, höfnum við eingöngu vitnisburði ritheimilda um hann, ef til vill að vissu marki, eða höfnum við tilvist hans með öllu? Sagan í Landnámu um þá félaga, Ingólf og Hjörleif, ber skýr bókmenntaeinkenni, er vafalítið skáldskapur og miklar líkur til að Hjörleifur hafi ekki verið til, að minnsta kosti ekki í þeirri mynd sem birt er af honum í Landnámu.2

Mér finnst einsýnt að hafna líka persónunni Ingólfi, eins og hann kemur fram í Landnámu. En merkir það að hinn ætlaði frumherji hafi ekki verið til, og verði jafnvel sniðgenginn með öllu? Ari fróði segir að landið hafi verið numið nærri 870 og vísar til þriggja heimildarmanna um þetta. Hann skrifar eins og Ingólfur hafi verið hinn mikli frumherji. Kannski vissi hann þetta ekki fyrir víst en vafalítið er að landnemar í Reykjavík komu snemma út. Fornleifarannsóknir sýna að menn voru á ferð í Reykjavík þegar fyrir 871 ± 2 ár. Hversu löngu fyrr er óljóst. Einhver var fyrstur og miðað við stöðu fornleifarannsókna er líklegt að það hafi verið landneminn í Reykjavík enda þekkjast ekki skýrar vísbendingar um að aðrir landnemar hafi verið fyrr á ferð annars staðar. Í öðru lagi er varla ástæða til að efast um að frumherjinn hafi verið af norskum uppruna og er það eins og Ari telur. Í þriðja lagi er líklegt að hann hafi numið allmikið land, fyrst hann kom snemma. Í fjórða lagi er líklegt að hann hafi getað látið til sín taka og verið áhrifamikill, eins og sagt er, hafi hann komið fyrstur eða manna fyrstur og fékk þetta forskot á aðra.

Það skiptir máli hér að Reykjavík var ekki höfðingjasetur, svo að séð verði, á 12. og 13. öld þegar sagðar voru sögur af Ingólfi, fyrirmynd annarra landnema, enda er Karli þræll látinn undrast í Landnámu að Ingólfur skyldi setjast að á útnesi. Þetta styður þá skoðun að það sé ekki tilbúningur frá 12. öld að frumherjinn hafi átt heima í Reykjavík, getur að minnsta kosti verið mun eldri sögn. Af Íslendingabók verður ráðið að sagnir um mikilvægi Ingólfs voru til áður en Ari samdi bókina.

Þótt efast sé um að tilgangurinn með Íslendingabók hafi verið algjörlega fræðilegur og því trúað að Ari kunni að þegja um sumt verður hann ekki auðveldlega sniðgenginn með öllu um Ingólf.

En þótt þannig sé gerður munur á gildi frásagna um Ingólf og Hjörleif er heldur rýrt það sem eftir stendur um landnemann í Reykjavík. Hann hét kannski Ingólfur, var norskur, kom snemma, var ef til vill fyrstur og hann og afkomendur hans munu líklega hafa orðið nokkuð fyrirferðarmikil á elsta skeiði Íslandssögunnar. Eftir stendur það mat margra fræðimanna, lítt haggað, að ritheimildir séu ekki vænlegar til að færa okkur örugga vitneskju um persónur og atburði eða stjórnmálasögu fyrir 1050. Það má kannski segja að það sé samkomulagsatriði að telja, svo lengi sem annað afsannar það ekki, að hinn fyrsti landnemi hafi sest að í Reykjavík og heitið Ingólfur. Hvorugt vitum við þó fyrir víst, kannski voru einhverjir fyrr á ferð annars staðar og kannski er nafn Ingólfs lesið út úr örnefnum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:


Neðanmálsgreinar:

1 Mér er ekki kunnugt um að höfundur hafi birt neitt á prenti um þetta, stuðst er við eigið minni og annarra. Sjá annars um kenninguna: Þórhallur Vilmundarson, Um sagnfræði (1969), 107-9. Fjölritað sem handrit.

2 Helgi Þorláksson, „Er Hjörleifur að öllu leyti skálduð persóna?“ Orri Vésteinsson, Helgi Þorláksson, Árni Einarsson, Reykjavík 871 ± 2. Landnámssýningin. The Settlement Exhibition. Ritstj. Bryndís Sverrisdóttir, bls. 56-7.

Höfundur

Helgi Þorláksson

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

23.4.2008

Spyrjandi

Guðbrandur Hjörtur Guðbrandsson, f. 1992

Tilvísun

Helgi Þorláksson. „Var Ingólfur Arnarson til í alvörunni?“ Vísindavefurinn, 23. apríl 2008, sótt 20. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=7366.

Helgi Þorláksson. (2008, 23. apríl). Var Ingólfur Arnarson til í alvörunni? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=7366

Helgi Þorláksson. „Var Ingólfur Arnarson til í alvörunni?“ Vísindavefurinn. 23. apr. 2008. Vefsíða. 20. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=7366>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Var Ingólfur Arnarson til í alvörunni?
Um 1940 voru dásamlegir tímar í íslenskri miðaldasagnfræði, fræðimenn trúðu flestum Íslendingasögunum eins og nýju neti um menn og málefni 10. aldar en þeirri dýrð lauk um 1950. Því olli líklega einkum að bókfestukenningin svonefnda hafði skotið rótum. Hún nefndist öðru nafni íslenski skólinn og samkvæmt henni voru Íslendingasögur að mestu skáldskapur, og ónothæfar sem heimildir um menn og atburði tímabilsins frá um 870 til um 1050. Gætti aukinnar gagnrýni í allri notkun miðaldaheimilda og er tímaritið Saga, sem hóf göngu um miðja síðustu öld, skýr vitnisburður um slíkar hræringar.

Landnámabók taldist þó halda velli. Stundum er ósamræmi milli gerða hennar og sú gerðin sem helsti sérfræðingur síns tíma um Landnámu, Jón Jóhannesson, taldi standa næst frumtexta segir að Ingólfur hafi verið Björnólfsson. Jón benti á að Björnólfur kunni að hafa haft viðurnefnið örn. Þannig gat Ingólfur verið bæði Arnarson og Björnólfsson.


Stytta Ingólfs Arnarsonar á Arnarhóli. Styttan var afhjúpuð árið 1924 og er afsteypa. Frummyndin var gerð árið 1907.

Um 1970 var hins vegar almennt farið að draga í efa vitnisburð Landnámu og Íslendingabókar um sögu Íslands fyrir 1050. Sjálfstæðisbaráttan var að baki, lýðveldið að verða aldarfjórðungs gamalt og eðlilegt að endurskoða gömul viðhorf. Hið nýja viðhorf var að heimildir eins og Landnáma segðu jafnvel meira um þá sem sögðu frá, létu festa frásagnir á skinn, en hina sem sagt var frá. Hin rétta spurning var þá ekki: Var Ingólfur til? Heldur: Hvaða tilgangur vakti fyrir þeim sem sögðu frá Ingólfi? Efasemdir komu jafnvel fram um Íslendingabók Ara fróða og það sem hann segir um Ingólf. Til greina þótti koma að það hefði verið samkomulagsatriði ráðamanna um 1120 að telja að Ingólfur hefði verið fyrstur og merkastur landnámsmanna, slíkt hefði getað þjónað hagsmunum ráðamanna á tímum Ara.

Örnefni voru líka gengisfelld sem heimildir um 1970, með svonefndri náttúrunafnakenningu. Höfundur hennar er Þórhallur Vilmundarson sem flutti röð rómaðra fyrirlestra árið 1966 og á næstu árum um kenninguna. Hún snýst um að mannanöfn séu lesin út úr örnefnum en ekki öfugt; örnefnin séu ekki endilega tengd mannanöfnum eins og Landnáma og aðrar heimildir gefa í skyn. Þannig er ing- í Ingólfshöfði standur, fyrirbæri í náttúrunni sem rís upp yfir umhverfi sitt. Höfundur benti líka á Inghól sem er efst á Ingólfsfjalli.1

Einfaldast væri að sniðganga Ingólf alveg. Þá er ritheimildum um hann hafnað og ekki fengist við spurninguna um það hvort hann var til. Sú saga gengur að fréttamaður hafi spurt fornleifafræðing einn um Ingólf Arnarson og hann svarað „Ingólfur hvaða?“ Þetta ætti einmitt að vera fyrsta spurning, hvaða Ingólfur er það sem við höfnum, höfnum við eingöngu vitnisburði ritheimilda um hann, ef til vill að vissu marki, eða höfnum við tilvist hans með öllu? Sagan í Landnámu um þá félaga, Ingólf og Hjörleif, ber skýr bókmenntaeinkenni, er vafalítið skáldskapur og miklar líkur til að Hjörleifur hafi ekki verið til, að minnsta kosti ekki í þeirri mynd sem birt er af honum í Landnámu.2

Mér finnst einsýnt að hafna líka persónunni Ingólfi, eins og hann kemur fram í Landnámu. En merkir það að hinn ætlaði frumherji hafi ekki verið til, og verði jafnvel sniðgenginn með öllu? Ari fróði segir að landið hafi verið numið nærri 870 og vísar til þriggja heimildarmanna um þetta. Hann skrifar eins og Ingólfur hafi verið hinn mikli frumherji. Kannski vissi hann þetta ekki fyrir víst en vafalítið er að landnemar í Reykjavík komu snemma út. Fornleifarannsóknir sýna að menn voru á ferð í Reykjavík þegar fyrir 871 ± 2 ár. Hversu löngu fyrr er óljóst. Einhver var fyrstur og miðað við stöðu fornleifarannsókna er líklegt að það hafi verið landneminn í Reykjavík enda þekkjast ekki skýrar vísbendingar um að aðrir landnemar hafi verið fyrr á ferð annars staðar. Í öðru lagi er varla ástæða til að efast um að frumherjinn hafi verið af norskum uppruna og er það eins og Ari telur. Í þriðja lagi er líklegt að hann hafi numið allmikið land, fyrst hann kom snemma. Í fjórða lagi er líklegt að hann hafi getað látið til sín taka og verið áhrifamikill, eins og sagt er, hafi hann komið fyrstur eða manna fyrstur og fékk þetta forskot á aðra.

Það skiptir máli hér að Reykjavík var ekki höfðingjasetur, svo að séð verði, á 12. og 13. öld þegar sagðar voru sögur af Ingólfi, fyrirmynd annarra landnema, enda er Karli þræll látinn undrast í Landnámu að Ingólfur skyldi setjast að á útnesi. Þetta styður þá skoðun að það sé ekki tilbúningur frá 12. öld að frumherjinn hafi átt heima í Reykjavík, getur að minnsta kosti verið mun eldri sögn. Af Íslendingabók verður ráðið að sagnir um mikilvægi Ingólfs voru til áður en Ari samdi bókina.

Þótt efast sé um að tilgangurinn með Íslendingabók hafi verið algjörlega fræðilegur og því trúað að Ari kunni að þegja um sumt verður hann ekki auðveldlega sniðgenginn með öllu um Ingólf.

En þótt þannig sé gerður munur á gildi frásagna um Ingólf og Hjörleif er heldur rýrt það sem eftir stendur um landnemann í Reykjavík. Hann hét kannski Ingólfur, var norskur, kom snemma, var ef til vill fyrstur og hann og afkomendur hans munu líklega hafa orðið nokkuð fyrirferðarmikil á elsta skeiði Íslandssögunnar. Eftir stendur það mat margra fræðimanna, lítt haggað, að ritheimildir séu ekki vænlegar til að færa okkur örugga vitneskju um persónur og atburði eða stjórnmálasögu fyrir 1050. Það má kannski segja að það sé samkomulagsatriði að telja, svo lengi sem annað afsannar það ekki, að hinn fyrsti landnemi hafi sest að í Reykjavík og heitið Ingólfur. Hvorugt vitum við þó fyrir víst, kannski voru einhverjir fyrr á ferð annars staðar og kannski er nafn Ingólfs lesið út úr örnefnum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:


Neðanmálsgreinar:

1 Mér er ekki kunnugt um að höfundur hafi birt neitt á prenti um þetta, stuðst er við eigið minni og annarra. Sjá annars um kenninguna: Þórhallur Vilmundarson, Um sagnfræði (1969), 107-9. Fjölritað sem handrit.

2 Helgi Þorláksson, „Er Hjörleifur að öllu leyti skálduð persóna?“ Orri Vésteinsson, Helgi Þorláksson, Árni Einarsson, Reykjavík 871 ± 2. Landnámssýningin. The Settlement Exhibition. Ritstj. Bryndís Sverrisdóttir, bls. 56-7....