Skipið sem Ingólfur Arnarson kom á hefur væntanlega haft nafn? Er nafn skipsins þekkt?Ekki er vitað hvort skip til forna báru nöfn yfirleitt en það hafa þá líklega aðallega verið stór herskip og verslunarskip en ólíklegt er að þorri minni skipa hafi fengið nafn. Nafnið á skipi Ingólfs Arnarsonar, ef það hefur borið nafn, er ekki þekkt. Í íslenskum heimildum eru nefnd nokkur nöfn á skipum. Samkvæmt Snorra-Eddu hét skip Baldurs Hringhorni en skip jötna í Ragnarökum Naglfar samkvæmt Völuspá. Í Grímnismálum í Eddukvæðum er nefnt skipið Skíðblaðnir. Í fornsögum og öðrum heimildum miðalda eru til dæmis nefnd skipanöfnin Elliði, meðal annars í Landnámabók, Gammur í Njáls sögu, Stígandi í Vatnsdæla sögu og Trékyllir í Grettis sögu. Vísundur hét skip Þangbrands biskups en heiðnir menn nefndu það Járnmeis eftir viðgerð. Úr konungasögum er þekktast skip Ólafs konungs Tryggvasonar, Ormurinn langi. Sverrir konungur Sigurðarson nefndi skip sitt Maríusúðina.

Ekki er vitað hvort skip til forna báru nöfn yfirleitt en það hafa þá líklega aðallega verið stór herskip og verslunarskip. Myndin er eftir norska málarann Otto Sinding (1842-1909) og á að sýna sjóorustu Ólafs konungs Tryggvasonar, á skipinu Orminum langa, gegn Sveini tjúguskeggi Danakonungi og Ólafi skautkonungi Svíakonungi.
- File:Svolder, by Otto Sinding.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 18.08.2022).