Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
Sólin Sólin Rís 04:10 • sest 22:56 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:27 • Sest 08:55 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 08:25 • Síðdegis: 20:45 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 02:23 • Síðdegis: 14:30 í Reykjavík
LeiðbeiningarTil baka

Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvar voru skip víkinga sem sigldu til Vesturheims smíðuð?

Orri Vésteinsson

Öll spurningin hljóðaði svona:
Við landnám uxu að öllum líkindum ekki viðartegundir hér sem hægt var að nota til að smíða víkingaskip. Endingartími þeirra var frekar stuttur. Kannski 10-20 ár. Eru einhverjar vísbendingar um að víkingaskip hafi verið smíðað í víkingaferðum til Vesturheims?

Engar leifar skipa sem siglt var til austurstrandar Ameríku í kringum aldamótin 1000 eru þekktar og engar samtímaheimildir eru til sem varpa ljósi á skipin eða smíði þeirra. Hverskonar skip þetta voru eða hvar þau voru smíðuð verður því að álykta um út frá öðrum vísbendingum. Þær helstu eru leifar hafskipa frá víkingaöld sem fundist hafa í Noregi og Danmörku, leifar báta sem fundist hafa í kumlum á Íslandi, yngri leifar báta frá norrænu byggðunum á Grænlandi, þekking á skipasmíði á Norðurlöndum á seinni öldum og lýsingar fornrita. Þær síðastnefndu eru ritaðar tveimur til þremur öldum eftir að þessir leiðangrar voru farnir og endurspegla bæði hugmyndir höfundanna um skip víkingaaldar og þekkingu þeirra á úthafssiglingum síns eigin samtíma. Margar af þeim hugmyndum sem fræðimenn hafa gert sér um þessi mál byggja líka á almennri rökleiðslu, til dæmis um hvað sé líklegt miðað við umhverfisaðstæður og stærð áhafna, og á þekkingu sem hefur verið aflað með tilraunasiglingum.

Gríðarlegur fjöldi haffærra skipa var smíðaður á Norðurlöndum á víkingaöld. Getið er um innrásarflota með tugum og jafnvel hundruðum skipa og þó að sum þeirra hafi verið smíðuð sérstaklega fyrir hernað er yfirleitt talið að flest hafi verið farmskip sem gátu flutt bæði fólk og vöru. Víkingar stunduð jafnt hernað og verslun en landaleit í Norðurhöfum var aðeins lítill angi af öllum siglingum norrænna manna á þessu tímabili. Í lok tíundu aldar hafa verið til þúsundir skipa á Norðurlöndum og þar var öflugur skipasmíðaiðnaður með mikilli þekkingu og vel smurðum innviðum sem tryggðu aðgang að nauðsynlegum hráefnum til smíðanna. Nærri tveir þriðju allra þekktra skipshluta frá víkingaöld eru úr eik en sú trjátegund vex ekki í norðanverðri Skandinavíu og því jafnan talið að mest hafi verið smíðað af skipum í suðurhlutanum. Þar var enda mest þéttbýlið og ríkidæmið og auðveldast að halda úti stórfelldum skipasmíðaiðnaði.

Ef horft er á málið út frá því hvar flest haffær skip voru smíðuð þá er því líklegast að skipin sem notuð voru við landkönnun í Vesturheimi hafi upphaflega komið frá sunnanverðri Skandinavíu, þ.m.t. suðvesturströnd Noregs. Því til stuðnings má nefna að höfundar fornrita gera yfirleitt ráð fyrir að skip sem sigldu til Íslands og Grænlands hafi komið frá Noregi, þau hafi annaðhvort beinlínis verið í eigu norskra manna eða að Íslendingar hafi eignast sín hafskip í Noregi. Ef hins vegar spurt er hvort hugsanlegt sé að skipin sem notuð voru til landaleitar á austurströnd Ameríku hafi verið smíðuð á Íslandi eða Grænlandi þá er ekki hægt að útiloka þann möguleika.

Bátsfjöl sem fannst í rústum bæjar frá elleftu öld í Narsaq í Eystribyggð á Grænlandi. Hún er úr lerki sem hefur að öllum líkindum rekið til Grænlands frá Síberíu. Fjölin er í Þjóðminjasafni Grænlands í Nuuk. Mynd: Lísabet Guðmundsdóttir.

Trjáleifar úr bátskumlum á Íslandi og bátshlutar sem fundist hafa við uppgrefti á norrænum bæjarstæðum á Grænlandi sýna að í báðum þessum löndum voru bátar smíðaðir að hluta eða öllu leyti úr rekaviði – og raunar eru allir bátshlutar sem fundist hafa á Grænlandi úr rekaviði. Þá sýna ritheimildir að haffær skip voru smíðuð á Íslandi á ýmsum tímum, bæði miðöldum og síðar, og að til þess var notaður bæði innfluttur viður og rekaviður. Nauðsynleg hráefni og þekking til að smíða skip hafa því verið til staðar á Íslandi og þó að sambærilegar heimildir skorti fyrir Grænland er varla að efa að sama hafi gilt þar. Greinilegt er að svokallað Marklandsfar sem hraktist til Íslands 1347 var talið grænlensk smíð.

Mat á því hvort líklegt sé að heimasmíðuð skip hafi verið notuð til landkönnunar í Vesturheimi veltur að stórum hluta á því hversu stór við teljum slík skip hafi þurft að vera. Eftir því sem þau hafa verið minni þeim mun líklegra er að skipin hafi verið smíðuð á Íslandi eða Grænlandi. Höfundar Eiríks sögu og Grænlendinga sögu gera augljóslega ráð fyrir að notuð hafi verið býsna stór skip sem gátu rúmað fjörutíu manns eða fleiri. Það er athyglisvert að báðir sögurnar leggja áherslu á að skipin sem notuð voru í leiðöngrunum til Veturheims hafi verið eign Íslendinga. Það er aðeins skip Freydísar í Grænlendinga sögu sem óvíst er hvaðan kom, en það átti greinilega að hafa verið minna en skip Helga og Finnboga, Íslendinganna sem hún var í slagtogi með en sveik síðan. Hvernig höfundar þessara þrettándu aldar sagna gátu vitað svona atriði er erfitt að sjá og hafa rök verið færð fyrir því að mun minni skip, teinæringa, eins og gerðir voru út frá Íslandi til fiskveiða um aldir, hafi mátt nota til að ferja landnema frá Íslandi til Grænlands í lok tíundu aldar. Öldum saman héldu Grænlendingar sjálfir uppi siglingum yfir gríðarlegar vegalengdir en milli Eystribyggðar og veiðistöðvanna í Norðursetu eru meira en þúsund kílómetrar. Til þeirra siglinga hefur þurft skip á borð við teinæringa og er yfirleitt gert ráð fyrir að þau hafi verið smíðuð heima á Grænlandi. Skipum sem dugað hafa til slíkra langsiglinga hefur líka mátt halda yfir sundið til Baffinslands – Hellulands – og þaðan áfram suður á bóginn, til Marklands og jafnvel Vínlands.

Það er því engan veginn ómögulegt að til Vesturheimsferðanna hafi verið notuð lítil heimasmíðuð skip frá Íslandi eða Grænlandi og að sumu leyti er það einfaldasta skýringin. Málið veltur á þeim hugmyndum sem við gerum okkur um þessa landkönnun: var hún svo dýrt og flókið fyrirtæki að aðeins fjársterkir aðilar með bestu mögulegu tæki og búnað gátu skipulagt slíkar ferðir – svolítið eins og geimferðir nútímans – eða var hún bara framtak forvitinna bænda á Grænlandi sem notuðu til þess þau tæki og þau úrræði sem þeir bjuggu yfir sjálfir? Rök með báðum möguleikum má finna en þangað til leifar norrænna skipa finnast í Vesturheimi verður þetta óleyst gáta.

Heimildir:
 • Crumlin-Pedersen, Ole ritstj. 1991, Aspects of Maritime Scandinavia AD 200-1200, Roskilde: The Viking Ship Museum.
 • Crumlin-Pedersen, Ole & B. Munch Thye ritstj. 1995, The Ship as Symbol in Prehistoric and Medieval Scandinavia, Copenhagen: Danish National Museum.
 • Guðmundur Finnbogason 1943, ‘Skipasmíðar.’ Iðnsaga Íslands I, Reykjavík: Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík, bls. 318-57.
 • Lísabet Guðmundsdóttir væntanlegt, ‘Driftwood utilisation and procurement in Norse Greenland.’
 • Lúðvík Kristjánsson 1964, ‘Grænlenzki landnemaflotinn og breiðfirzki báturinn.’ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1964, bls. 20-68. [endurpr. í Lúðvík Kristjánsson 1981, Vestræna, Reykjavík: Sögufélag, bls. 92-134]
 • Lúðvík Kristjánsson 1982, Íslenzkir sjávarhættir II, Reykjavík: Menningarsjóður, einkum bls. 85-118.
 • Malmros, Claus 1993, ‘Ship's parts found in the Viking settlements in Greenland: preliminary assessments and wood-diagnoses.’ B.L. Clausen ritstj., Viking Voyages to North America, Roskilde: Viking Ship Museum, bls. 118-22.
 • Mooney, Dawn E. 2016, 'Examining possible driftwood use in Viking Age Icelandic boats.' Norwegian Archaeological Review. DOI: 10.1080/00293652.2016.1211734

Höfundur

Orri Vésteinsson

prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

8.9.2021

Spyrjandi

Ólafur

Tilvísun

Orri Vésteinsson. „Hvar voru skip víkinga sem sigldu til Vesturheims smíðuð?“ Vísindavefurinn, 8. september 2021, sótt 24. júlí 2024, https://visindavefur.is/svar.php?id=82287.

Orri Vésteinsson. (2021, 8. september). Hvar voru skip víkinga sem sigldu til Vesturheims smíðuð? Vísindavefurinn. https://visindavefur.is/svar.php?id=82287

Orri Vésteinsson. „Hvar voru skip víkinga sem sigldu til Vesturheims smíðuð?“ Vísindavefurinn. 8. sep. 2021. Vefsíða. 24. júl. 2024. <https://visindavefur.is/svar.php?id=82287>.

Chicago | APA | MLA

Senda grein til vinar

=

Hvar voru skip víkinga sem sigldu til Vesturheims smíðuð?
Öll spurningin hljóðaði svona:

Við landnám uxu að öllum líkindum ekki viðartegundir hér sem hægt var að nota til að smíða víkingaskip. Endingartími þeirra var frekar stuttur. Kannski 10-20 ár. Eru einhverjar vísbendingar um að víkingaskip hafi verið smíðað í víkingaferðum til Vesturheims?

Engar leifar skipa sem siglt var til austurstrandar Ameríku í kringum aldamótin 1000 eru þekktar og engar samtímaheimildir eru til sem varpa ljósi á skipin eða smíði þeirra. Hverskonar skip þetta voru eða hvar þau voru smíðuð verður því að álykta um út frá öðrum vísbendingum. Þær helstu eru leifar hafskipa frá víkingaöld sem fundist hafa í Noregi og Danmörku, leifar báta sem fundist hafa í kumlum á Íslandi, yngri leifar báta frá norrænu byggðunum á Grænlandi, þekking á skipasmíði á Norðurlöndum á seinni öldum og lýsingar fornrita. Þær síðastnefndu eru ritaðar tveimur til þremur öldum eftir að þessir leiðangrar voru farnir og endurspegla bæði hugmyndir höfundanna um skip víkingaaldar og þekkingu þeirra á úthafssiglingum síns eigin samtíma. Margar af þeim hugmyndum sem fræðimenn hafa gert sér um þessi mál byggja líka á almennri rökleiðslu, til dæmis um hvað sé líklegt miðað við umhverfisaðstæður og stærð áhafna, og á þekkingu sem hefur verið aflað með tilraunasiglingum.

Gríðarlegur fjöldi haffærra skipa var smíðaður á Norðurlöndum á víkingaöld. Getið er um innrásarflota með tugum og jafnvel hundruðum skipa og þó að sum þeirra hafi verið smíðuð sérstaklega fyrir hernað er yfirleitt talið að flest hafi verið farmskip sem gátu flutt bæði fólk og vöru. Víkingar stunduð jafnt hernað og verslun en landaleit í Norðurhöfum var aðeins lítill angi af öllum siglingum norrænna manna á þessu tímabili. Í lok tíundu aldar hafa verið til þúsundir skipa á Norðurlöndum og þar var öflugur skipasmíðaiðnaður með mikilli þekkingu og vel smurðum innviðum sem tryggðu aðgang að nauðsynlegum hráefnum til smíðanna. Nærri tveir þriðju allra þekktra skipshluta frá víkingaöld eru úr eik en sú trjátegund vex ekki í norðanverðri Skandinavíu og því jafnan talið að mest hafi verið smíðað af skipum í suðurhlutanum. Þar var enda mest þéttbýlið og ríkidæmið og auðveldast að halda úti stórfelldum skipasmíðaiðnaði.

Ef horft er á málið út frá því hvar flest haffær skip voru smíðuð þá er því líklegast að skipin sem notuð voru við landkönnun í Vesturheimi hafi upphaflega komið frá sunnanverðri Skandinavíu, þ.m.t. suðvesturströnd Noregs. Því til stuðnings má nefna að höfundar fornrita gera yfirleitt ráð fyrir að skip sem sigldu til Íslands og Grænlands hafi komið frá Noregi, þau hafi annaðhvort beinlínis verið í eigu norskra manna eða að Íslendingar hafi eignast sín hafskip í Noregi. Ef hins vegar spurt er hvort hugsanlegt sé að skipin sem notuð voru til landaleitar á austurströnd Ameríku hafi verið smíðuð á Íslandi eða Grænlandi þá er ekki hægt að útiloka þann möguleika.

Bátsfjöl sem fannst í rústum bæjar frá elleftu öld í Narsaq í Eystribyggð á Grænlandi. Hún er úr lerki sem hefur að öllum líkindum rekið til Grænlands frá Síberíu. Fjölin er í Þjóðminjasafni Grænlands í Nuuk. Mynd: Lísabet Guðmundsdóttir.

Trjáleifar úr bátskumlum á Íslandi og bátshlutar sem fundist hafa við uppgrefti á norrænum bæjarstæðum á Grænlandi sýna að í báðum þessum löndum voru bátar smíðaðir að hluta eða öllu leyti úr rekaviði – og raunar eru allir bátshlutar sem fundist hafa á Grænlandi úr rekaviði. Þá sýna ritheimildir að haffær skip voru smíðuð á Íslandi á ýmsum tímum, bæði miðöldum og síðar, og að til þess var notaður bæði innfluttur viður og rekaviður. Nauðsynleg hráefni og þekking til að smíða skip hafa því verið til staðar á Íslandi og þó að sambærilegar heimildir skorti fyrir Grænland er varla að efa að sama hafi gilt þar. Greinilegt er að svokallað Marklandsfar sem hraktist til Íslands 1347 var talið grænlensk smíð.

Mat á því hvort líklegt sé að heimasmíðuð skip hafi verið notuð til landkönnunar í Vesturheimi veltur að stórum hluta á því hversu stór við teljum slík skip hafi þurft að vera. Eftir því sem þau hafa verið minni þeim mun líklegra er að skipin hafi verið smíðuð á Íslandi eða Grænlandi. Höfundar Eiríks sögu og Grænlendinga sögu gera augljóslega ráð fyrir að notuð hafi verið býsna stór skip sem gátu rúmað fjörutíu manns eða fleiri. Það er athyglisvert að báðir sögurnar leggja áherslu á að skipin sem notuð voru í leiðöngrunum til Veturheims hafi verið eign Íslendinga. Það er aðeins skip Freydísar í Grænlendinga sögu sem óvíst er hvaðan kom, en það átti greinilega að hafa verið minna en skip Helga og Finnboga, Íslendinganna sem hún var í slagtogi með en sveik síðan. Hvernig höfundar þessara þrettándu aldar sagna gátu vitað svona atriði er erfitt að sjá og hafa rök verið færð fyrir því að mun minni skip, teinæringa, eins og gerðir voru út frá Íslandi til fiskveiða um aldir, hafi mátt nota til að ferja landnema frá Íslandi til Grænlands í lok tíundu aldar. Öldum saman héldu Grænlendingar sjálfir uppi siglingum yfir gríðarlegar vegalengdir en milli Eystribyggðar og veiðistöðvanna í Norðursetu eru meira en þúsund kílómetrar. Til þeirra siglinga hefur þurft skip á borð við teinæringa og er yfirleitt gert ráð fyrir að þau hafi verið smíðuð heima á Grænlandi. Skipum sem dugað hafa til slíkra langsiglinga hefur líka mátt halda yfir sundið til Baffinslands – Hellulands – og þaðan áfram suður á bóginn, til Marklands og jafnvel Vínlands.

Það er því engan veginn ómögulegt að til Vesturheimsferðanna hafi verið notuð lítil heimasmíðuð skip frá Íslandi eða Grænlandi og að sumu leyti er það einfaldasta skýringin. Málið veltur á þeim hugmyndum sem við gerum okkur um þessa landkönnun: var hún svo dýrt og flókið fyrirtæki að aðeins fjársterkir aðilar með bestu mögulegu tæki og búnað gátu skipulagt slíkar ferðir – svolítið eins og geimferðir nútímans – eða var hún bara framtak forvitinna bænda á Grænlandi sem notuðu til þess þau tæki og þau úrræði sem þeir bjuggu yfir sjálfir? Rök með báðum möguleikum má finna en þangað til leifar norrænna skipa finnast í Vesturheimi verður þetta óleyst gáta.

Heimildir:
 • Crumlin-Pedersen, Ole ritstj. 1991, Aspects of Maritime Scandinavia AD 200-1200, Roskilde: The Viking Ship Museum.
 • Crumlin-Pedersen, Ole & B. Munch Thye ritstj. 1995, The Ship as Symbol in Prehistoric and Medieval Scandinavia, Copenhagen: Danish National Museum.
 • Guðmundur Finnbogason 1943, ‘Skipasmíðar.’ Iðnsaga Íslands I, Reykjavík: Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík, bls. 318-57.
 • Lísabet Guðmundsdóttir væntanlegt, ‘Driftwood utilisation and procurement in Norse Greenland.’
 • Lúðvík Kristjánsson 1964, ‘Grænlenzki landnemaflotinn og breiðfirzki báturinn.’ Árbók hins íslenzka fornleifafélags 1964, bls. 20-68. [endurpr. í Lúðvík Kristjánsson 1981, Vestræna, Reykjavík: Sögufélag, bls. 92-134]
 • Lúðvík Kristjánsson 1982, Íslenzkir sjávarhættir II, Reykjavík: Menningarsjóður, einkum bls. 85-118.
 • Malmros, Claus 1993, ‘Ship's parts found in the Viking settlements in Greenland: preliminary assessments and wood-diagnoses.’ B.L. Clausen ritstj., Viking Voyages to North America, Roskilde: Viking Ship Museum, bls. 118-22.
 • Mooney, Dawn E. 2016, 'Examining possible driftwood use in Viking Age Icelandic boats.' Norwegian Archaeological Review. DOI: 10.1080/00293652.2016.1211734
...